07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í C-deild Alþingistíðinda. (1597)

87. mál, laun ráðherra o. fl.

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Þetta frv. um laun ráðherra o.fl. er nokkurs konar viðauki við frv., sem ég lýsti áðan, en sú n., sem ég þá gat um og undirbjó launalagafrumvarpið, samdi sérstakt frv. um laun ráðherra. Eftir síðustu launalögum voru laun ráðherra ákveðin í launalögunum sjálfum. Fyrr voru sérstök lög um laun ráðherra. Nú hefur n. lagt til, að laun ráðherra verði ákveðin með sérstökum lögum, eins og var á tímabili. Nefndin bendir á, að ráðherrar séu eigi fastir starfsmenn með sama hætti og aðrir þeir, sem launalög taka til; enn fremur, að í sambandi við kjör þeirra þurfi að taka til athugunar fleiri atriði en sjálf launin. Taldi hún því eðlilegast að gera um þetta sérstakt frumvarp.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir sem stjfrv. eins og hitt, er algerlega samhljóða frv. nefndarinnar eins og hún skilaði því til ríkisstjórnarinnar, og eru meginatriðin í því þessi:

Það er gert ráð fyrir, að árslaun ráðherra verði 65 þús. kr. að viðbættri verðlagsuppbót. Ákvæði er um, að maður, sem gegnt hefur ráðherraembætti samfleytt í tvö ár eða lengur, skuli eiga rétt á biðlaunum í sex mánuði, þegar hann lætur af ráðherrastörfum, og nemi biðlaunin 70% af ráðherralaunum eins og þau eru á biðlaunatímanum. Í nágrannalöndum okkar eru í sérstökum lögum ákvæði um biðlaun ráðherra, og hafa þeir víða biðlaun miklu lengur en sem þessu nemur.

Frv. gerir svo loks ráð fyrir, að manni, sem á starfsævi sinni hefur gegnt ráðherraembætti lengur en tíu ár samtals, skuli tryggður réttur til eftirlauna, þegar hann hefur náð 65 ára aldri, og skulu eftirlaunin nema 50% af meðallaunum ráðherra næstu tíu ár á undan því ári, er hann öðlast eftirlaunaréttinn. En til frádráttar þessu skal koma lífeyrir, sem hlutaðeigandi kann að eiga rétt á úr sérstökum lífeyrissjóðum. Einnig er í frv. ákvæði um eftirlaun til ekkna þeirra manna, sem uppfylla það skilyrði að hafa verið ráðherrar lengur en tíu ár samtals.

Þetta munu vera meginatriðin í þessu frv., sem hér er um að ræða. Það mun fylgja launalagafrumvarpinu, og ég geri tillögu um, að það fari til sömu nefndar og að það verði höfð sömu vinnubrögð um það, hvort sem Alþingi fellst á þessa skipan eða ekki. Sé svo ekki, þá munu verða sett inn í sjálft launalagafrv. þau laun, sem vilji Alþingis er fyrir að ráðherrar hafi, ef Alþ. telur rétt, að það sé í sömu lögum og ekki sett sérákvæði um það.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.