07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1603)

90. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Móðir óskilgetins barns á rétt til þess, að barnsfaðir greiði henni meðlag, en verði dráttur á greiðslu meðlags af hálfu barnsföður, hefur móðirin haft rétt til þess samkv. tryggingal. að snúa sér til Tryggingastofnunar ríkisins eða umboðsmanns hennar og fá þar meðlagið greitt. Tryggingastofnunin á síðan endurkröfurétt á hendur barnsföður eða í annan stað á hendur framfærslusveit hans.

Í frv. til laga um almannatryggingar, sem þessi hv. d. hefur nú til meðferðar, er gert ráð fyrir að gera þá breytingu á, að Tryggingastofnunin hafi ekki milligöngu um greiðslu meðlaga til barnsmæðra, eftir að frv. hefur öðlazt lagagildi. En í stað þess er lagt til með þessu frv. um breyt. á l. um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna, að réttur barnsmóður verði tryggður á þann hátt, að hún geti snúið sér til dvalarsveitar og fengið þar meðlagið greitt. En verði dráttur á greiðslu meðlags til barnsmóður af hálfu dvalarsveitar, getur barnsmóðir snúið sér til yfirvalds, sem á þá að sjá um, að hún fái meðlagið greitt.

Þetta frv. er því eins konar fylgifiskur frv. um almannatryggingar, sem hér hefur verið rætt að undanförnu, og mælir heilbr.- og félmn. með því, að þetta frv. verði samþ., en vegna þess, að það vakir fyrir n., að réttur barnsmæðra til þess að innheimta meðlög verði tryggður þrátt fyrir þessa breytingu eigi síður en verið hefur, leggur heilbr.- og félmn. til, að gerð verði orðalagsbreyting á síðustu málsgr. 2. gr. frv. á þann hátt, að í stað þess, sem í frvgr. stendur, að yfirvald, sem barnsmóðir hefur snúið sér til, skuli veita henni nauðsynlega fyrirgreiðslu, svo að dráttur verði ekki á meðlagsgreiðslunni, þá leggur heilbr: og félmn. til, að þetta verði orðað á þann veg, að yfirvaldið skuli sjá um, að móðirin fái meðlagið greitt.