07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1604)

90. mál, óskilgetin börn

Pétur Ottesen:

Ég vildi aðeins segja nokkur orð í sambandi við þær breytingar, sem felast í 2. gr. þessa frv. og eru þess eðlis að færa skylduna til innheimtu á barnsmeðlögum, þ.e.a.s. meðlögum óskilgetinna barna, frá Tryggingastofnun ríkisins yfir á dvalarsveit barnsmóður.

Mér kemur það satt að segja mjög einkennilega fyrir sjónir, að slík till. sem þessi skuli vera borin fram á grundvelli tryggingalöggjafarinnar. Það er alkunna, að það eru á því oft miklir erfiðleikar að geta innheimt slík barnsmeðlög með óskilgetnum börnum, af því að ekki er ávallt á vísan að róa með barnsfeðurna, sem ferðast víðs vegar um, dveljast tíma og tíma á þessum og þessum staðnum, og það eru ýmis dæmi þess til, að slíkir menn eiga ekkert lögheimili. Þess vegna hefur reynslan sýnt, að það er fyrst og fremst ákaflega fyrirhafnarsamt verk að ná í slík barnsmeðlög, auk þess sem það getur alveg borið út af um það, að þau innheimtist.

Þá ætla ég, að það hljóti allir að viðurkenna, að í þeim tilfellum, þegar svo stendur á, hafi þó Tryggingastofnunin breiðara bak til þess að standa undir því að inna slík gjöld af hendi en dvalarsveit barnsmóður. Það er náttúrlega svo í mörgum tilfellum að sjálfsögðu, að dvalarsveitin mundi geta innt þetta af hendi, en allmörg hreppsfélög eru þó vitanlega svo á vegi stödd, að það yrði miklum erfiðleikum háð að standa undir þessum útgjöldum, greiða þau af hendi eins og vera ber og biða svo tímunum saman eftir því, að þetta fé verði innheimt og e.t.v. að það fáist aldrei endurgreitt.

Þess vegna virðist mér, að það, sem hér er stefnt að með þessu, sé algerlega í ósamræmi við anda og tilgang tryggingalöggjafarinnar, að fara þannig að eins og hér er gert. Það er að sjálfsögðu rétt og ber að tryggja barnsmóðurinni það, að hún fái meðlagið, og búa svo um hnútana í því efni, að út af því geti ekki borið. En þannig var ástatt um skeið hér í þessum málum, að þegar t.d. barnsmæður, sem áttu óskilgetin börn, giftust aftur, bar Tryggingastofnuninni ekki skylda til þess að innheimta þetta gjald. Innheimtuskyldan hvíldi á barnsmóðurinni einni saman, og ef hún gat ekki innheimt gjaldið eða meðlagið, sem fyrir kom, fékk hún það ekki greitt, og markmið tryggingalaganna náðist þannig ekki í þessu tilfelli.

Þess vegna þarf, eins og hér er gert, að sjálfsögðu að tryggja til fullnustu, að barnsmóðir fái þó alltaf meðlagið greitt, en það, sem er blátt áfram rangt í þessu, er að færa innheimtuskylduna eða þessa skyldu gagnvart barnsmóðurinni af hinu breiða baki trygginganna, sem alltaf eiga milljónasjóði, ef ekki tugmilljónasjóði til þess að gripa til í þessum tilfellum, máske yfir á bláfátæk sveitarfélög, sem ekki hafa neina getu til þess að bæta þessu ofan á önnur útgjöld hjá sér.

Hér er þess vegna alveg rangt að farið. Ég vil nú skjóta því til þeirrar n., sem mál þetta hefur til meðferðar, hvort hún vildi ekki taka þetta atriði til athugunar að nýju, og ef það ekki verður, mót von minni, munum við hv. 1. þm. Árn. (JörB) bera fram brtt. við þetta frv. um þetta atriði, annaðhvort við þessa umr., ef tóm gefst til þess og málið verður ekki afgr. nú á þessum fundi, eða þá við 3. umr. málsins.