07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í C-deild Alþingistíðinda. (1607)

90. mál, óskilgetin börn

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Ég skal ekki halda uppi löngum umr. um þetta atriði nú við þessa umr. málsins, en ég vil aðeins, að það komi skýrt fram, að hér er ekki stefnt að því, að dvalarsveit móður eigi endanlega að bera þá byrði, sem af meðlagsgreiðslunni leiðir, ef barnsfaðir bregzt þeirri skyldu að greiða meðlagið. Dvalarsveit á ótvíræðan rétt á hendur framfærslusveit föður um endurgreiðslu á þessu fé, og hér er því aðeins um það að ræða, hvort greiðsluskyldan eigi að hvíla á framfærslusveit föður eða Tryggingastofnun ríkisins. Fari svo, að þessi fjárhæð innheimtist ekki af barnsföður og að hún lendi sem skuld annaðhvort á framfærslusveit föður eða Tryggingastofnun ríkisins, þá er um það tvennt að ræða, hvor þessara opinberu aðila, sveitarfélagið eða Tryggingastofnunin, á að taka þessa greiðslu að sér.

Nú er það ekki í samræmi við anda og tilgang Tryggingastofnunarinnar að fara að annast framfærslu í landinu, heldur að annast tryggingastarfsemi, veita fyrirgreiðslu þeim þegnum þjóðfélagsins, sem þurfa aðstoð, t.d. munaðarlausum börnum og gamalmennum, en ekki beinlínis að taka að sér það hlutverk, sem barnsfeðrum, oft fullvinnandi mönnum, ber að rækja samkv. framfærslulögunum. Þetta sjónarmið hefur m.a. vakað fyrir hv. heilbr.- og félmn., þegar hún tók sína afstöðu til þessa frumvarps.