07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í C-deild Alþingistíðinda. (1610)

90. mál, óskilgetin börn

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil mjög taka undir mál þeirra hv. þm. Borgf. (PO) og 1. þm. Árn. (JörB) og mál 3. landsk. þm. (HV), sem allir hafa talað hér í þessu máli.

Ég vil hins vegar benda á það, að þegar er fram komin till. á þskj. 346 til breytinga á frv. um almannatryggingalögin, sem hér er til meðferðar í þessari hv. d., og ef sú till., sem er 3. till. á því þskj., yrði samþykkt, þá tel ég, að það frv., sem hér er til umr., yrði óþarft. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að lesa yfir þá till., sem við fimm þm. höfum lagt þar fram, en hún er á þá leið, að inn í almannatryggingalögin komi ný grein, svo hljóðandi:

„Mæður, sem fá úrskurð yfirvalds um barnalífeyri með óskilgetnum börnum sínum, geta snúið sér til Tryggingastofnunarinnar með úrskurðinn og fengið lífeyrinn greiddan þar allt til þess, er barn nær 16 ára aldri, og hefur það engin áhrif á greiðslu barnalífeyrisins, hvort móðirin gengur í hjónaband á þessu tímabili eða ekki. Sama regla skal gilda, eftir því sem við getur átt, um greiðslu barnalífeyris, er fráskildar konur fá úrskurðaðan með börnum sínum.

Þegar Tryggingastofnunin greiðir barnalífeyri samkvæmt 1. málsgr. þessarar gr., á hún endurkröfurétt á hendur barnsföður.

Nú deyr barnsfaðir óskilgetins barns, áður en barnið hefur náð 16 ára aldri, og greiðir þá Tryggingastofnunin barnalífeyri engu að síður, en getur þá jafnframt gert kröfu í dánarbú hins látna manns samkvæmt reglum 25. gr. l. nr. 46 27. júní 1921.“

Það, sem í þessari till. felst, er það, að Tryggingastofnuninni verði falið að greiða út allan barnalífeyri samkvæmt úrskurði, en um leið öðlist Tryggingastofnunin að sjálfsögðu endurkröfurétt á hendur barnsföður.

Þeim, sem hér hafa rætt um þessi mál, ber öllum saman um það, og ég er þeim öllum sammála um það, að sá, sem á að greiða, er barnsfaðirinn. Hitt greinir menn nokkuð á um, með hverjum hætti á að inna greiðsluna af hendi til barnsmæðra, þ.e.a.s. sjá fyrir því, að framfæri barnsins sé tryggt á hverjum tíma. Í almannatryggingalagafrv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir því, að barnsmóðir eigi að innheimta þetta sjálf hjá sinni sveit, en gefur henni þó hliðarmöguleika, ef það skyldi ganga treglega, til þess að innheimta þetta hjá fógeta eða að fá aðstoð fógeta við innheimtuna.

Sú regla, sem í gildi er um þetta, er sú, að Tryggingastofnun ríkisins annast þessa greiðslu, og síðan tekur við endurkröfuréttur hennar, sem er allflókinn, þannig að hún getur að lokum rakið málið, þar til hún hefur upp á dvalarsveit barnsföðurins, og fengið þar greiddan barnalífeyrinn, annaðhvort sem framfærslu föðurins frá sveitinni eða með því að hans sveit endurkrefji hann.

Nú er það svo, að vandkvæði geta verið á að ná þessum lífeyrisgreiðslum frá barnsfeðrunum. Því ber ekki að neita, að allmikið af barnsfeðrum í þessu landi virðast vera dálítið „umhlaupandi manneskjur“ og ekki alltaf gott að festa reiður á því, hvar þeir raunverulega eru sveitfastir, enda liggur það fyrir, eins og lýst hefur verið í þessum umr., að hjá Tryggingastofnun ríkisins hefur safnazt fyrir alimikil skuld á barnalífeyrisgreiðslum. Þó verður að segja, að líkur eru til þess, að slík skuldasöfnun yrði langtum meiri, ef einhverjir óvoldugri aðilar en Tryggingastofnunin ættu að hafa á hendi innheimtuna, eins og t.d. mæðurnar sjálfar eða einstök sveitarfélög.

Spurningin hér er þess vegna um það, á hverjum þær greiðslur eiga að lenda, sem ekki er mögulegt að innheimta vegna einhvers konar óreiðu barnsföðurins. Þar koma þrír aðilar til greina, þ.e. framfærslusveit barnsföður, Tryggingastofnun ríkisins og ríkissjóður sjálfur.

Við getum aðeins lítillega gert þetta dæmi upp við okkur, hver þessara aðila er eðlilegasti aðilinn til þess að bera fjárhagslegan þunga af framfærslu barna.

Hv. heilbr.- og félmn. þessarar d. heldur sig fast við það, að hinn eini verðugi aðili til þess að bera þessa fjárhagsbyrði séu sveitarfélög landsins. Ég er nefndinni hér ósammála og tel, að af þeim þrem aðilum, sem hér hafa verið nefndir, séu sveitarfélögin sízt heppilegur aðili til þess að taka á sig þessa byrði, og hníga mörg rök að því.

Í fyrsta lagi eiga þau mörg hver, eins og lýst hefur verið, mjög í vök að verjast fjárhagslega og eru yfirleitt verr stödd fjárhagslega en hvort heldur sem væri Tryggingastofnun ríkisins eða ríkissjóður sjálfur. Þá ber þess einnig að gæta, að þótt eitthvert barn alist þannig upp, að t.d. Akranessbær hafi skyldu til þess samkvæmt gildandi lögum að borga uppeldi þess, hvar sem barnið elst upp, ef barnsfaðir telst eiga sveitfesti á Akranesi, þá eru í rauninni harla litlar líkur til þess, að þegar þetta barn er orðið fulltíða maður og skattborgari í þjóðfélaginu, muni það endilega greiða því sveitarfélagi, sem uppeldi þess kostaði, skatta og skyldur. Það eru langtum meiri líkur til þess, að það greiði einhverju allt öðru sveitarfélagl. En eitt er víst, að svo framarlega sem barnið verður gjaldþegn, þá verður það gjaldþegn ríkisins, og það verður gjaldskylt til Tryggingastofnunar ríkisins. Þess vegna er hvor aðilinn sem væri, Tryggingastofnun ríkisins eða ríkissjóður, langtum verðugri til þess að greiða uppeldi barnsins.

Í öðru lagi eru skýr dæmi fyrir hendi um feður óskilgetinna barna, sem eru þess háttar menn, að ekki er auðvelt að ná til þeirra. Ég á þar við erlenda barnsfeður. Ríkið telur það sína skyldu að greiða meðlög þau, sem þeir annars ættu að greiða, ef ekki næst til þeirra, og hví skyldi ekki sama reglan gilda um innlenda barnsfeður, ef ekki reynist unnt að ná til þeirra um innheimtu á þeirra skyldu? Ég sé ekki annað en það hljóti öll sanngirni að mæla með því, að um slíka feður gildi í báðum tilfellum svipuð regla.

Áð öðru leyti um gjaldgetu sveitarfélaganna get ég ekki látið hjá líða að benda einnig á það, að á fjárlögum, sem þetta hv. Alþingi er nýbúið að samþykkja, er gert ráð fyrir greiðslu úr ríkissjóði til aðstoðar við innheimtu barnsmeðlaga hjá stærsta og ríkasta sveitarfélagi þessa lands, þ.e.a.s. Reykjavikurbæ, þar sem er framlagið til Kvíabryggjuheimilisins, að upphæð 630 þús. kr., eða sem svarar barnalífeyri með 150 börnum. Nú er Reykjavík ekki nema eitthvað nálægt því þriðjungur þjóðarinnar að fólksfjölda til. Ekkert væri þess vegna eðlilegra en að ríkið greiddi upp í vanheimtur á barnsmeðlögum annarra sveitarfélaga tvöfalda þá upphæð, þ.e.a.s. greiddi barnalífeyri með 300 börnum utan Reykjavíkur. Mér er nú ekki kunnugt um það, hversu mikil vanhöld eru árlega á innheimtu barnalífeyris með óskilgetnum börnum hjá Tryggingastofnun ríkisins, en ég dreg í efa, að það sé mikið yfir 300, sem þar fellur í vangreiðslur árlega að því er tekur til byggðarlaga utan Reykjavíkur, og væri þess vegna ekki nema til samræmis, þó að ríkið tæki að sér þessar greiðslur fyrir aðra staði en Reykjavík, en léti ríkisstyrkinn til Kvíabryggju koma á móti sem svarar 150 barnsmeðlögum fyrir Reykvíkinga.

Þá er enn eitt, sem ég tel ótvírætt mæla með því, að Tryggingastofnun ríkisins annist þessa innheimtu, en það er það, að nú fyrir nokkru hefur verið komið upp spjaldskrá yfir alla Íslendinga og hún einmitt staðsett í Reykjavík. Það er að vísu rétt, að þessi spjaldskrá er ekki að öllu fullkomin enn sem komið er, en það munu flestir ætla, að hún verði býsna ábyggilegt plagg, um það er lýkur, og er þess vegna ekkert eitt bæjarfélag á Íslandi, sem á eins greiðan aðgang að því að kanna það, hvar menn eru raunverulega niður komnir, eins og þær stofnanir, sem eru í Reykjavík. Teldi ég þess vegna sjálfsagt, að Tryggingastofnun ríkisins annaðist innheimtu og útborgun þess barnalífeyris, sem hér um ræðir, og nyti aðstoðar hagstofunnar, sem hefur með höndum spjaldskrá yfir alla Íslendinga, til þess að hafa uppi á barnsfeðrum þeim, sem greiða eiga. Og ég skal sérstaklega benda á það líka, að í því frv., sem hér liggur fyrir um almannatryggingarnar, er gert ráð fyrir því, að umboðsmenn almannatrygginganna verði á hverjum stað bæjarfógetar eða sýslumenn í viðkomandi héruðum, en eins og allir vita, eru embætti þeirra í rauninni ein allsherjar rukkunarstofnun á vegum ríkisins fyrir það hérað. Þess vegna væru þar hægust heimatökin fyrir Tryggingastofnun ríkisins að fela sínum umboðsmönnum, væntanlega fógetum og sýslumönnum, að innheimta þetta hjá viðkomandi barnsfeðrum, þegar búið væri að fletta því upp í spjaldskrá yfir alla Íslendinga, hvar viðkomandi barnsfeður væru niður komnir.

Í þriðja lagi tel ég, að Tryggingastofnun ríkisins hafi aðstöðu til þess að hafa áhrif á löggjafarvaldið í miklu ríkara mæli en nokkurt einstakt sveitar- eða bæjarfélag getur haft. Komi fram einhver sérstök vandkvæði á innheimtunni, þá efast ég ekki um það, að þegar Tryggingastofnun ríkisins kvartar undan því, að lög um þessi efni séu í einhverju ófullkomin, þá mun verða vel á það hlustað hjá Alþingi, að slíkum lögum verði breytt og þeim hagrætt eftir því, sem þarfir krefja, til þess að innheimtan geti orðið sem fullkomnust.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir þeim till., að Tryggingastofnun ríkisins annist bæði útborgun barnalífeyris samkvæmt úrskurði yfirvalds og einnig innheimtu hjá viðkomandi barnsfeðrum, og vænti þess, að sú till., sem ég hef nefnt um þetta efni og fyrir liggur á þskj. 346, nái samþykki Alþingis og að sveitarfélögin verði í eitt skipti fyrir öll dregin út úr þeim hráskinnsleik, sem hingað til og í auknum mæli nú stendur til að hafa um innheimtu og útborgun á þessum barnalífeyri, sem hér um ræðir. Verði sú till. samþ., tel ég, að það frv., sem hér liggur fyrir, sé algerlega óþarft.