15.12.1955
Neðri deild: 35. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Síðdegis í dag mælti ég fyrir brtt. okkar hv. 9. landsk. þm. á þskj. 207. Veigamestu brtt. þar voru till. um launahækkun til póstafgreiðslumanna og bréfbera og um breytingu á tilhögun launagreiðslu til gagnfræðaskólakennara. Enn fremur mælti ég þá fyrir brtt. mínum á þskj. 208, en þar má segja, að veigamestar séu till. um launahækkun til tollvarða og ríkislögregluþjóna, auk þess sem ég flutti þar tillögu um, að laun opinberra starfsmanna yfirleitt skyldu breytast sjálfkrafa eftir nánar tilteknum reglum.

Eftir eftirmiðdagsfundinn var gert alllangt hlé á fundum þessarar hv. deildar. Það hlé var notað til þess, að stjórnarflokkarnir, sem auðvitað ráða úrslitum mála hér í hv. deild, ef þeir halda saman, notuðu tímann til þess að bera saman ráð sín um þessar brtt. Frsm. fjhn. hefur nú gert grein fyrir niðurstöðum þeirra athugana. Það hefur nokkuð verið gengið til móts við till. um að bæta kjör póstafgreiðslumanna. Ég gleymdi að geta þess áðan, að meðal þeirra till., sem ég flyt á þskj. 208, er till. um nokkra launabót fyrir menntaskólakennara. Enn fremur hefur meiri hl. n. gert svolitla leiðréttingu á launakjörum menntaskólakennara. Ég tel báðar þessar brtt. nokkurt spor í rétta átt, en því miður ekki svo stórt, að viðunandi verði talið eða nægjanlegt, til þess að við flm., þar sem við erum tveir, eða ég telji mig geta tekið till. mínar um sama efni aftur, og munum við því halda fast við, að þær komi til atkvæða. Hins vegar harma ég mjög, að fulltrúar stjórnarflokkanna í fjhn. skuli ekki hafa treyst sér til að sinna hinum öðrum till., sem við tveir eða ég hef flutt. Alveg sérstaklega vildi ég þar harma, að þeir skuli ekki hafa talið sér fært að gera neina leiðréttingu á þeirri till., sem fram var borin varðandi laun gagnfræðaskólakennara, en ákvæðin, ef samþykkt verða um laun þeirra, eru svo ranglát, að algerlega ósæmandi er að ganga þannig frá þeim eins og gert er ráð fyrir. Till. fjhn. um það efni er raunar ekkert annað en endurtekning á gildandi ákvæðum í fræðslulögum, og virðist vera harla einkennilegt, að ástæða sé til þess að taka ákvæði í gildandi fræðslulögum upp í launalög og telja það launabætur til gagnfræðaskólakennara. Ranglætið, sem verður ríkjandi í launamálum þessarar stéttar, er fólgið í því, að kennararnir njóta alls ekki launa í raun og veru samkvæmt þeim flokki, sem þeir eru settir í. Þeir fá lægri laun en kennarar við barnaskóla vegna þess eins, að gagnfræðaskólar eru í reglugerð taldir 8 mánaða skólar, þó að sannleikurinn sé sá, að raunverulegur kennslutími gagnfræðaskólakennara sé í hæsta lagi 2 vikum skemmri en barnakennara og annarra framhaldsskólakennara en gagnfræðaskólakennara. Þó eru þær sérkröfur gerðar til gagnfræðaskólakennara, að þeir skuli hafa stundað háskólanám í allt að 2 ár í þeim fræðum, sem þeir kenna, og mjög margir þeirra hafa fullgilt háskólapróf. Engu að síður skulu laun þeirra í framkvæmd vera lægri en laun barnakennara, rökstutt með því einu, að það stendur á pappír í reglugerð, að skólarnir séu 8 mánaða skólar, þótt raunverulegur kennslutími sé í hæsta lagi 2 vikum styttri en annarra skóla. Þetta er afgreiðsla, sem er hv. d. ekki sæmandi. Ég harma það enn, að meiri hl. fjhn. skuli ekki hafa talið sér fært að breyta hér nokkru um. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til og tel raunar þýðingarlítið að færa frekari rök en ég gerði í dag fyrir öðrum brtt., sem við hv. 9. landsk. þm. og ég höfum flutt, og mun því ekki gera það.

En að síðustu vildi ég segja varðandi það, að hv. frsm. fjhn. tók aftur fyrir nefndarinnar hönd till., sem flutt var í dag, um að hækka einn dýralækni, eina dýralækninn við tilraunastöðina að Keldum, úr VI. flokki upp í V. flokk, að á tilraunastöðinni er starfandi annar sérfræðingur, efnafræðingur, sem ávallt hefur verið í sama flokki og vinnur algerlega hliðstæð störf og hefur sams konar undirbúningsmenntun og dýralæknirinn. Ástæðan til þess, að n. hefur tekið till. um dýralækninn aftur, er sú, að hún hefur ekki treyst sér til þess að gera till. um hækkun á launum efnafræðingsins, en viljað hafa þá tvo í sama flokki, sem er eðlilegt. En þess vegna hef ég leyft mér að flytja brtt., skriflega, sem forseti hefur þegar lýst, um, að báðir þessir starfsmenn, bæði dýralæknirinn og efnafræðingurinn, skuli flytjast úr VI. flokki upp í V. fl. Mér skilst rök hv. meiri hl. fjhn. fyrir því að taka till. um hækkun dýralæknisins aftur, þ. e. a. s. fyrir því að vilja ekki hafa báða starfsmennina, dýralækninn og efnafræðinginn, í V. flokki, vera þau, að með því sé raskað hlutfalli við starfsmenn í atvinnudeild háskólans, en þar eru deildarstjórar í V. flokki, en sérfræðingar í VI. fl. Sannleikurinn um þessa starfsmenn á tilraunastöðinni á Keldum, dýralækninn og efnafræðinginn, er sá, að þeir eru ekki sambærilegir sérfræðingum í atvinnudeild, heldur einmitt deildarstjórum í atvinnudeild. Um þá gildir báða, að þeir hafa þurft að stunda sérnám til viðbótar við sitt embættispróf, sitt kandídatspróf, til þess að geta tekið að sér þau sérstöku rannsóknarstörf, sem þeir stunda í tilraunastöðinni á Keldum. Sérfræðingar í atvinnudeild, sem nú eru í VI. flokki, vinna allir þess konar störf, að þeim er kleift að ganga til starfans þegar frá prófborði. Störf dýralæknisins og efnafræðingsins á Keldum eru þannig, að enginn kandídat frá prófborði getur gengið beint til þeirra, enda er í skipunarbréfi a. m. k. annars starfsmannsins beinlínis kveðið á um, að hann skuli hafa ákveðið sérnám til viðbótar sínu almenna háskólaprófi. Þetta gerir þessa starfsmenn ekki sambærilega hinum almenna sérfræðingi í atvinnudeildinni, heldur einmitt deildarstjórunum. Munurinn er sá einn, að deildarstjórar atvinnudeildarinnar bera nokkra ábyrgð sökum mannaforráða, en þessir hafa sérstakar skyldur vegna sérmenntunar, sem meira að segja er kveðið á um í erindisbréfi a. m. k. annars þeirra. Þetta eru rökin fyrir því, að ég hef leyft mér að flytja till. um, að þeir báðir skuli vera í V. flokki.