14.02.1956
Neðri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í C-deild Alþingistíðinda. (1633)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Það er ekki ástæða til þess að vera að deila við þennan hv. þm., sem var hér að tala áðan. Ókunnugir menn gætu haldið, að hann væri eitthvað gallaður á skapsmununum, en við, sem erum með honum hér daglega, erum farnir að venjast þessu, og jafnvel getur hann ekki setið á sér að koma hér upp í ræðustólinn til þess að mótmæla jafnsjálfsögðu máli og þessu, sem ég hér var að ræða um áðan.

Það er leiðinlegt, að ég skyldi vera of bjartsýnn, þegar ég sagði, að þetta væri þó sennilega eitt af þeim fáu málum, sem við gætum sameinazt um. En það var of mikil bjartsýni. Hv. 2. þm. Reykv. þurfti að koma hér upp, mótmæla þessu, kasta skít úr klaufunum um alveg óskyld mál, talaði um það, að nú væri svo illa komið fyrir ríkissjóði, að hann gæti ekki annað en efnt til happdrættis til þess að koma sjúkrahúsunum áfram. En það er hreinn misskilningur hjá þessum hv. þm., ef hann heldur það, að þetta fé eigi að fara í ríkissjóð. Þetta fé er alveg óskylt ríkissjóði, það á að stofna sérstakan sjóð. Ég hef ekki gert ráðstafanir til þess að afnema þau lög, sem gilda um það, að ríkissjóður styrki sjúkrahúsabyggingar að sínum hluta, annars vegar að 2/5 og hins vegar að 3/5 hlutum, eftir því hvort húsin eru í kaupstöðum eða í sveitum. Þau lög verða í gildi áfram. En þetta frv. er flutt til þess að stofna sérstakan sjóð, til þess að við höfum rýmri hendur fjár en áður hefur verið. Og það er ekki fyrst nú, sem við höfum orðið varir við það hér á Alþingi, að við höfum ekki fullar hendur fjár, hvorki þegar um það er að ræða að verja peningum til byggingar sjúkrahúsa né annarra þarflegra hluta. Ríkissjóður á ekki að sleppa við sitt framlag, þótt þetta frv. nái fram að ganga.

Varðandi þá spurningu, sem hv. 2. þm. Reykv. var með hér áðan um það, hvort sjúkrahúsin hafi orðið svo á eftir núna og afskipt, þá veit hv. þm. það, ef hann les fjárlögin, sem við nýlega höfum samþ., að það hefur aldrei verið varið meira á fjárl. til sjúkrahúsa en einmitt nú. En eigi að síður þykir ástæða til að fá fé til þessara mála, meira en er á fjárlögum. Við erum með miklar framkvæmdir í heilbrigðismálunum. Við erum að byggja við landsspítalann stærra en gamli spítalinn var. Við erum með sjúkrahúsabyggingar víðs vegar um landið. Og þegar þessum sjúkrahúsabyggingum er lokið, þannig að við teljum, að við höfum nægilega mikið af sjúkrahúsum, þá þarf mikið til þess að standa undir rekstrinum. Það þarf að eignast hin fullkomnustu tæki víða, og það þarf að kosta menn til sérfræðináms og svo ótalmargt, ef við viljum hafa okkar heilsugæzlu og heilbrigðismál í góðu lagi. Við viljum ekki sætta okkur við það, sem við höfum orðið að búa við áður. Við viljum koma málunum í fullkomnasta horf, ekki aðeins eins og það er bezt hjá nágrannaþjóðunum, heldur ætlum við að standa þeim framar.

Þetta frv. á að gera okkur fært að komast lengra en við höfum áður farið. Þetta frv. getur orðið til þess að skapa fjármagn, sem við höfum yfir að ráða til heilbrigðismálanna og er ekki tekið af fólkinu nauðugu, heldur fjármagn, sem það lætur viljugt af hendi, bæði vegna þess, að það hefur einhverja von um vinning, og ekki sízt vegna þess, að það er um leið að styrkja gott málefni. En tilgangur frv. hefur farið algerlega fyrir ofan garð og neðan hjá þessum hv. þm., sem talaði hér áðan og talaði af þessum gamla vana að tala í hverju máli, hvort sem hann hefur verið búinn að setja sig inn í það eða ekki, hvort sem það er gott mál eða vont mál. Og oft er það, þegar þessi maður talar um mál án þess að hafa gefið sér tíma til þess að athuga tilgang þess eða innihald, að þá verður ræðan eins og sú, sem hann flutti hér áðan. Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um það.