14.02.1956
Neðri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í C-deild Alþingistíðinda. (1634)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Bergur Sigurbjörnsson:

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hæstv. ríkisstj. ber hér fram og hæstv. viðskmrh. hefur nú talað um með dálitlum sárindum, er vafalaust borið fram til þess að styðja gott málefni, ekki skal ég efast um það. Það gefur þó ofur litla mynd af því fjármálasiðferði, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur dyggilega stuðlað að og unnið að hér í okkar þjóðfélagi á undanförnum árum. Þó að þetta sé lítið frv., þá ber það þó ljóst vitni um það fjárhættuspil og það fjárglæfraspil, sem hér hefur verið rekið og hér hefur sífellt orðið umfangsmeira í okkar þjóðfélagi. Við könnumst allir við það, að á undanförnum árum hefur það færzt meir og meir í aukana, að gripið hefur verið til þess að stofna happdrætti til þess að koma einu og öðru þörfu og stundum miður þörfu í framkvæmd. Það hefur verið slegið á strengi fjárhættuspilamennskunnar, fjárglæfranna, ævintýramennskunnar með þjóðinni, og þessi fjárglæframennska og spilamennska hefur færzt út í atvinnuvegi þjóðarinnar einnig. Það er óþarft að rekja það í löngu máli, en mér finnst rétt og ástæða til að vekja athygli á þessu hér í sambandi við þetta litla frv. Með því að leggja hér fram þetta frv. ætlar ríkisstj. að afla tekna til að efla líkamlega heilbrigði þjóðarinnar. Um það efast ég ekki. En hitt er jafnljóst, að um leið stuðlar þetta frv. að andlegri óheilbrigði þjóðarinnar. Það stuðlar að því að æsa upp spilafíknina og fjárglæframennskuna með almenningi, og ég skal játa það hreinskilnislega, að ég efast um, hvort meira gagn vinnst með þessu frv. eða ógagn í þessum efnum. Ég efast um það, hvort það tekst með þeim peningum, sem út úr þessu „lotteríi“ fást, að vinna líkamlegu heilsufari borgaranna meira gagn en það ógagn verður, sem þeim er andlega unnið með þeirri spilamennsku, sem hér á að ýta undir. Það er ekki í fyrsta skipti, sem ríkissjóður fer inn á þá braut að afla tekna til hluta, sem hann á að standa undir, með fjárglæfraspilamennsku eða happdrætti. Hér á árunum var stofnað annað happdrætti, þar sem var aflað 30 millj. kr. í ríkissjóð á örfáum mánuðum með því að selja happdrættisskuldabréf. Og þetta er þá annað í röðinni. Happdrætti háskólans er nokkuð svipaðs eðlis. Þar er um að ræða framkvæmdir, sem ríkið hefði að öllu eðlilegu átt að hafa með höndum, en hefur velt yfir á spilabrautina. Og ég sé það fyrir mér, að ef svona verður haldið áfram, eitt happdrætti tekur við af öðru, þá verður þess ekki langt að bíða, að við verðum svipað á vegi staddir og ríkið Monaco, sem við könnumst við og ekki hefur neinar aðrar tekjur en af fjárhættuspili. Og ég hálffurða mig á því, þegar ég sé vilja hæstv. ríkisstj. eins og hann kemur fram í þessu frv., að hæstv. ríkisstj. skuli ekki fyrir nokkru hafa farið inn á þessa braut almennt með ríkistekjurnar, að taka þær í spilavíti eins og Monte Carlo og koma sér hjá þeirri óánægju, sem allir vita að hefur komið fram hjá almenningi vegna hinna auknu skattaálagna, sem nú hafa verið samþykktar og á undanförnum árum hafa verið síþyngdar. Ég furða mig á því, að ríkisstj. með það hugarfar, sem hefur lýst sér í öllum eða flestum verkum hennar, skuli ekki í alvöru hafa lagt til hliðar allar venjulegar tekjuöflunarleiðir heilbrigðs þjóðfélags og tekið upp spilavítið.

Þetta frv., sem hér um ræðir, ber þess ljóst vitni, að þessi hugsun er núverandi ríkisstj. ekki fjarri skapi. Hér er nefnilega farið inn á sjálfa „rúllettuna“, talnahappdrættið, sem er höfuðuppistaðan í spilabönkunum í Monte Carlo. Það er ekkert minna, sem okkur er ætlað að samþykkja hér, það á að veðja á tölurnar eins og þar er gert. Það er þetta, sem hæstv. viðskmrh. lýsti hér yfir í upphafi ræðu sinnar, að hann væri sannfærður um, að allir þm. væru sammála. Ég vil fyrir mitt leyti, þó að ég játi það, að hér sé hin hliðin ágæt, þ.e.a.s. efling sjúkrahúsa og líkamlegrar heilbrigði þjóðarinnar, og þó að þar sé þörf mikilla fjármuna, þá skal ég samt sem áður játa það, að ég hef viðbjóð á þeirri tekjuöflunarleið, sem hér er lagt til að farið verði inn á.