14.02.1956
Neðri deild: 70. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (1638)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð af því tilefni, að það var beint til mín alveg ákveðnum fyrirspurnum, og ég vil þá verða við því að svara þeim. Annars undrast ég það, þegar hv. ræðumenn eru að tala um fjárhættuspil í sambandi við þetta frv., það eigi að fara að taka upp aðferðir fjárhættuspilaranna til þess að afla tekna. Hvað er þetta með happdrætti Háskóla Íslands, happdrætti fyrir dvalarheimili aldraðra sjómanna, S.Í.B.S.? Hafa ekki margir verið stoltir af því að hafa komið upp háskólanum með þessari aðferð, sem notuð hefur verið? Eru ekki landsmenn stoltir af Reykjalundi og starfsemi S.Í.B.S.? A.m.k. þegar útlendingar eru að koma og þegar verið er að sýna útlendingum starfsemina. Og eru menn ekki stoltir yfir því að vera að byggja veglegt hús sem dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn? En fjárins til þessara framkvæmda er aflað með svipuðu móti og ætlazt er til að notuð verði til fjáröflunar fyrir sjúkrahúsasjóð.

Það sjá nú allir, hvað mikið grín er í þessu, þegar hv. stjórnarandstæðingar eru að koma hér upp og belgja sig á móti þessu frv. á þeim forsendum, að þetta geti spillt síðferði þjóðarinnar og að þetta sé hættulegt frá því sjónarmiði. Ég geri ráð fyrir því, að a.m.k. einhverjir af þessum þm., sem talað hafa á móti frv., hafi verið með því að stofnsetja þau happdrætti, sem ég áðan nefndi. Ég a.m.k. hef haldið, að þessir menn væru stuðningsmenn S.Í.B.S. Ég hef haldið, að þessir menn hafi viljað stuðla að því að byggja dvalarheimili aldraðra sjómanna, og ég hef haldið, að þessir menn væru stuðningsmenn Háskóla Íslands, og ég hef haldið, að þessir menn væru stuðningsmenn heilbrigðismálanna í landinu og vildu leggja sitt til, að það mætti takast að afla nægilegra fjármuna til þess, að heilbrigðismálin gætu verið í góðu lagi í þessu landi. Og ég er alveg sannfærður um, að í hjarta sínu vilja þessir menn þetta, þótt þeir af einhverjum ástæðum telji hagkvæmt að rísa gegn þessu frv. með sérstöku offorsi.

Það er eðlilegt, að menn geti greint á um það, hvernig orðalag eigi að vera í frv. Það er allt annað en að greina á um tilganginn. Það getur verið eðlilegt, að hv. 3. landsk. þm. vilji fá það upplýst, hvernig stjórn sjóðsins á að vera skipuð og hvert valdsvið hennar á að vera. Það er alveg eðlilegt, að slík spurning komi fram, og hún getur víssulega komið frá manni, sem er því fylgjandi að afla fjárins á þann hátt, sem hér er lagt til.

Ég get upplýst, að ég hef hugsað mér, að þetta væri þriggja manna stjórn, að læknadeild Háskóla Íslands tilnefndi einn mann, að Læknafélag Íslands tilnefndi annan og að landlæknir væri þriðji maðurinn og hann væri formaður sjóðsstjórnarinnar. Þetta er nú það, sem ég hef hugsað mér, og ég hefði satt að segja ekkert á móti því, þótt 5. gr. væri breytt á þann veg, að það væri ákveðið þar, hvernig stjórnin skyldi skipuð. Ég tel ekki, að það spillti neitt frv.

Um það, hvort sjóðsstjórnin hefði samstarf eða samvinnu við fjvn., liggur í hlutarins eðli, að fjvn. og stjórn þessa sjóðs ættu að geta haft það mikið samstarf, að fjvn. víssi um það, hvaða sjúkrahús eða heilbrigðisstofnanir fá úthlutað úr þessum sjóði og hve mikið þau fá úr þessum sjóði á hverjum tíma, til þess að fjvn. gæti þá haft hliðsjón af því, þegar hún er að gera till. um fjárveitingar til vissra stofnana. Ég ætlast ekki til, að þannig menn veljist í stjórn sjóðsins eða þannig menn verði í fjvn., að þeir geti ekki talað saman hvað þetta snertir.

Hv. 3. landsk. sagði hér áðan, að hann væri á móti slíkum sjóðsstofnunum. Mér skildist, að hann væri t.d. á móti því, að raforkusjóður hafi verið stofnaður á sínum tíma, hann væri á móti því, að hafnarbótasjóður var stofnaður, hann væri á móti því, að brúasjóður var stofnaður. En ósköp er þetta nú mikil skammsýni hjá hv. þm. Hv. þm. (HV) er því fylgjandi, að það verði haldið áfram rafvæðingu landsins, og ég held, að ég hafi heyrt hann segja, að það væri ánægjulegt, hve mikið væri búið að gera í landinu í rafmagnsmálunum. En þessi hv. þm. veit ekki, að raforkusjóðurinn hefur verið undirstaðan að raforkuframkvæmdunum í byggðum landsins á undanförnum árum. Ef hann hefði ekki verið stofnaður 1942 með sérstöku framlagi og síðan lagt í hann árlega, þá hefði enginn möguleiki verið til að vinna þessar framkvæmdir, sem búið er að gera. Ég segi það sama með hafnarbótasjóð. Vegna þess að sérstakt fé var ætlað í þennan sjóð, hefur drjúgur skildingur verið veittur til hafnarmála, sem annars hefði ekki fengizt. Og ég vil einnig segja eitthvað svipað um brúasjóðinn, að ef hann hefði ekki verið stofnaður á sínum tíma og alveg sérstakt fé til hans ætlað, væri eftir að byggja ýmsar þær stórbrýr, sem nú er búið að smíða. Það er þess vegna undarlegt, þegar einn hv. þm., sem á að vera kunnugur okkar atvinnulífi og okkar þörfum fyrir hinar mörgu framkvæmdir, skuli vera á móti því, að stofnaðir séu framfara- og framkvæmdasjóðir. Ég held, að hann hefði átt að segja heldur: Ég er á móti því, að ekkert sé gert í þessa átt og að við séum þess vegna alltaf févana og getum ekkert gert. — Það er það, sem allir þm. ættu að vera á móti, en ekki það, að stofnaði~r séu sjóðir og skapað fjármagn, sem er undirstaða framkvæmdanna. Ég held, að það væri tímabært fyrir hv. þm. að endurskoða afstöðu sína í þessu efni. Við skulum gera okkur ljóst, að það er ekki unnt að ráðast í dýrar framkvæmdir nema hafa til þess fjármagn.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði hér áðan m.a., að það gæti verið góður tilgangur með þessu frv. út af fyrir sig og það yrði nú að lögum, en svo yrði bara alveg horfið frá því að fullnægja tilganginum, það mætti alveg eins reikna með því, að peningarnir, sem fengjust í Sjúkrahúsasjóðinn, væru notaðir til einhvers alls annars en til heilbrigðismála. Ég er nú satt að segja dálítið undrandi, að þessi hv. þm. skuli koma með svona fullyrðingar, því að hvað segir þetta frv.? Það segir beinlínis, að stofna skuli sjóð, sem nefnist Sjúkrahúsasjóður, og það segir skýrt og skorinort, hver tilgangur sjóðsins er. Það er alls ekki heimilt að nota fé sjóðsins til annarra hluta en heilbrigðismála. Það getur engin ríkisstj. gert, og það gæti engin sjóðsstjórn gert, þegar lögin eru svo ótvíræð sem hér um ræðir. (BergS: En ef þeim verður nú breytt?) Já, hv. þm. segir: Þeim verður breytt seinna. — En þá er ástæða fyrir hv. 2. þm. Reykv. og aðra að andmæla, ef á að fara að breyta lögunum í þá átt að útiloka, að fé sjóðsins sé notað í þessum tilgangi, eða breyta þeim á þann hátt að gera mögulegt, að það verði notað í öðrum tilgangi en ætlazt er til. En eins og frv. er útbúið, er ekki mögulegt að nota fjármuni sjóðsins til annars en heilbrigðismála, og ég held, að hv. 3. landsk. (HV) hafi alveg skilið frv. rétt að þessu leyti.

En þetta frv. fer í nefnd og þetta er 1. umr. Ég átti að mæta á fundi kl. 3, og það er nú beðið eftir mér. Ef umr. verður haldið áfram, verð ég að biðja hæstv. forseta um að fresta henni, af því að ég verð að fara af fundi núna. Ef hins vegar þeir hv. þm., sem eiga ótalað í þessu máli, vilja fresta því þangað til við 2. umr., gæti þessari umr. verið lokið og þeir talað við 2. umr. En það er á þeirra valdi að ákveða það. (Gripið fram í.) En því miður, ég get ekki hlustað á það núna. (Gripið fram í.) Við verðum þá, ef hv. þm. vill endilega tala núna, að bíða til næsta fundar, vegna þess að ég verð því miður að ganga af fundi.