16.02.1956
Neðri deild: 71. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (1641)

152. mál, sjúkrahúsasjóður og talnahappdrætti

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hæstv. heilbrmrh. lagði þetta frv. fyrir í fyrradag og lét þá í ljós óskir um það, að þetta mál yrði samþ. einróma, og gat ekki ímyndað sér, að það gæti valdið neinum ágreiningi. Hins vegar varð hann þess fljótt var, að þm. höfðu ýmislegt við málið að athuga, bæði að efni og formi.

Ég hélt því fram við þá umr., að það væri mjög óeðlilegt, að Alþingi samþykkti nú svona tekjuöflunarfrv., sem kannske skipti milljónum, eftir að búið væri að ganga að fullu frá afgreiðslu fjárl. og þar með að úthluta fyrir árið 1956 fé til sjúkrahúsa, eftir því sem möguleikar hefðu verið taldir til, alveg sérstaklega eftir ákvörðunarvaldi hv. stjórnarflokka. Ég benti á, að framleiðslusjóðurinn hefði þó komið á betur viðeigandi tíma, þar sem hann var þó afgreiddur í sambandi við fjárl. Þetta kemur eftir dúk og disk, eftir að búið er að setja eina n. þingsins, fjvn., til þess að skipta fé milli hafna, vega, sjúkrahúsa o.s.frv., o.s.frv., og svo kemur ráðh., sem sjúkrahúsmálin heyra undir, og segir: Nú ætla ég að fá nokkurra millj. kr. fúlgu í sérsjóð, sem á að heyra að öllu leyti undir heilbrmrh. — Hann á að fá núna heimild til þess að setja happdrættinu stjórn og ákveða þeirri stjórn valdssvið, hann á að fá leyfi til að úthluta styrkjum, til að reisa ný sjúkrahús og á annan hátt til heilbrigðismálanna eftir eigin geðþótta, aðeins þegar hann hefur fengið að sjá till. frá stjórn Sjúkrahúsasjóðs og landlækni. Það á ekki að fara eftir þeim till., fremur en honum þóknast, heldur að fengnum till. á hann, heilbrmrh., að úthluta þessu fé. Ég benti á það, að með þessu móti væri úthlutun á fjárveitingum til einstakra heilbrigðismálastofnana og sjúkrahúsa alveg gerð að skrípaleik, ráðh. hefði svo milljónasjóð á eftir til þess að mismuna þessu öllu saman eftir eigin geðþótta, og þetta er óviðurkvæmilegt, enda fór svo, að þegar hæstv. ráðh. hafði með nokkru steigurlæti kastað hnjóðsyrðum sitt á hvað til þm., sem höfðu leyft sér að gera aths. við frv., þá hljóp hann á dyr, hafði ekki tíma til að vera hér lengur við umr., og höfðu menn þó kvatt sér hljóðs til þess að svara honum, til þess að svara einmitt óviðurkvæmilegu steigurlæti hans í málflutningi. Hann var svo staðinn að því rétt nokkrum mínútum á eftir að vera hér niðri í húsinu. Og nú þegar málið er tekið á dagskrá aftur og hann hafði óskað eftir, að því væri frestað, til þess að hann gæti verið viðstaddur, er ráðherrastóllinn auður. Ég skil ekki, hvers konar frammistaða þetta er. Karlmennsku lýsir það a.m.k. ekki.

Hæstv. ráðh. hafði ekki rök fram að færa, þegar hann var að svara mér og öðrum þm. í gær. Hann sló því föstu, að úr því að við værum á móti þessu frv. í einhverjum efnum, eins og t.d. að við létum í ljós andúð okkar á tekjuöflunaraðferðinni, létum í ljós andúð á því, að frv. kæmi fram, eftir að fullgengið er frá afgreiðslu fjárl., létum í ljós andúð okkar á því, að ráðh. skyldi í raun og veru hafa einkaumráð yfir þessum sérsjóði, sem ef til vill réði yfir milljónum króna, þá værum við á móti öllum slíkum sjóðsstofnunum. Og svo er hann á bak og burt, þegar við eigum þess kost að svara honum. Hann mistúlkaði okkar mál á þann hátt að fullyrða, að ef við værum á móti þessum sérsjóði hans væntanlega, þá hlytum við líka að vera á móti hafnarbótasjóði, brúasjóði, raforkusjóði, framleiðslusjóði o.s.frv. En þetta eru sérsjóðir, sem búið er að koma á fót og er ætlað auðvitað að vinna sérstæð og gagnleg hlutverk, eins og þessum sjóði, en við höfum það að athuga — ég a.m.k. við suma þessara sjóða, að þeir gera fjárúthlutun til ákveðinna málefnaflokka að skrípaleik. Höfum við ekki rekið okkur á það ár eftir ár í fjvn., að við vitum ekki gerla, hvaða fé hefur verið veitt úr hafnarbótasjóði, samt höfum við verið að stritast við að skipta niður á hafnirnar allt niður í 5 og 10 þús. kr. meira að segja til einstakra hafna af fé ríkissjóðs. Svo höfum við ekki vitað, hvað hinar einstöku hafnir hafa fengið úr hafnarbótasjóði af náð og miskunn hæstv. sjútvmrh. Stundum hefur komið í ljós. að þarna hafa verið veitt hundruð þúsund króna til einstakra hafna eftir hans geðþótta, og öll úthlutunin til hafnarmálanna hefur þannig orðið og er búin að vera í nokkur ár hreinn skrípaleikur vegna þessa sérsjóðs, sem sjútvmrh. ræður þarna yfir. Núna t.d. er skemmst að minnast tveggja dæma um Sandgerðishöfn og Ísafjarðarhöfn. Það upplýsist nokkrum dögum eftir að fjvn. er búin að ganga frá sínum till. og búið er að ganga frá fjárlfrv., að þá hafa þessar hafnir fengið 100 þús. kr. minna hvor um sig en þær áttu að fá, ef upplýsingar hefðu þá legið fyrir nokkrum dögum fyrr um það, hvaða fé hefði verið veitt úr hafnarbótasjóði og með hvaða hætti. Það var þá búið að gera breytingar á því, að áður veittur styrkur til þessara hafna úr hafnarbótasjóði var ekki lengur styrkur, heldur búið að breyta því í lán og hafnirnar áttu að bera þetta sem lán og endurgreiða það og bera af því vexti, en hefðu átt, ef þessi vitneskja hefði legið fyrir, að fá hærri fjárframlög á fjárl. en þær fengu. Þessir sérsjóðir ráðherranna eru orðnir hreinasta forsmán, og Alþingi, sem á að hafa fjárveitingarvaldið, á að spyrna við fótum a.m.k., að þarna verði búið öðruvísi um hnútana. Það verður að heimta það, að viðkomandi ráðh. láti fjvn., áður en hún tekur til starfa, fá fulla vitneskju um, hvernig fé er veitt úr þessum sérsjóðum. En þegar þeir hafa lög til að styðjast við, eins og t.d. heilbrmrh. kemur til með að hafa, ef þetta verður samþ., þá þurfa þeir engan að að spyrja. Það stendur í hverri gr., að ráðh. á að ráða þessu, hann á að tilnefna menn til þess og hann á að heyra á þeirra till., en hann getur að fengnum till. farið sínu fram. Þetta verða þess vegna upplagðar kosningamútur og hefur verið notað og er og verður notað þannig af ráðandi ráðherrum, sem vilja nota það þannig. Það er þetta, sem gerir að verkum, að viðkomandi ráðh. vill ekki einu sinni vera viðstaddur, þegar málið er rætt við hann.

Eitt af því, sem hæstv. ráðh. sló fram í ræðu sinni í gær, var það: Eruð þið þá á móti happdrætti háskólans, eruð þið á móti happdrætti S.Í.B.S., eruð þið á móti happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna? Nei, við erum með þessum málum. En er ekki nokkur munur á ríkissjóði og þessum stofnunum? Ríkissjóður á að fara sínar löglegu og löghelgu leiðir til að afla fjár til sinna framkvæmda. Þarna er verið að hjálpa berklasjúklingum til að koma upp starfs- og menningarstofnun fyrir sig, það er verið að hjálpa gömlum sjómönnum til að eignast sameiginlegt heimíli, og það hefur verið fallizt á slíka fjáröflun til þeirra. En ríkissjóður ætlar ekki að láta sér nægja allar sínar leiðir til skattpíningar þegnunum, heldur líka fara inn á þessa braut og eyðileggja þannig möguleikana til þeirrar hjálpar, sem þessum aðilum hefur verið veitt. Það er einmitt af því, að ég er mjög með því, að gamlir sjómenn og berklasjúklingar fái þá aðstoð óskerta, sem þeir hafa fengið, að ég er á móti því, að ríkissjóður fari inn á þessa leið líka.

Ég hef það, sem nú skal greina, í stuttu máli á móti þessu frv. Ég er á móti því, að ráðh. hafi einn um það að segja að skipa happdrætti sem þessu stjórn og marka þeirri stjórn valdssvið. Ég er í öðru lagi á móti því, að ráðh. skipi einn stjórn þessa milljónasjóðs og ráði einn valdssviði þeirrar stjórnar. Ég er enn fremur á móti því, að hann aðeins eftir að hann hefur heyrt till. þessarar stjórnar ráði síðan styrkveitingum til einstakra sjúkrahúsa. Ég vil, að það verði a.m.k. fullt samráð haft við fjvn. Alþingis, og Alþingi á í gegnum hana að hafa fjárveitingarvaldið. Í þriðja lagi er ég á móti því, að svona frv. komi fram og sé sett, eftir að gengið hefur verið frá afgreiðslu fjárlaga. Í fjórða lagi vil ég lýsa því yfir, að mér er mjög ógeðfelld þessi fjáröflunaraðferð og þykir hún einmitt ganga inn á áður veittan rétt til aðila, sem eru mjög vel að því komnir að fá rétt til þess að reka happdrætti í ákveðnu markmiði.

Af þessum ástæðum öllum tel ég, að frv. eins og það er sé þannig, að því ætti að víkja frá afgreiðslu á þessu þingi, en undir öllum kringumstæðum tel ég nauðsynlegt, að n. sú, sem fær það til meðferðar, sem sennilega verður heilbr.- og félmn., geri á því verulegar breytingar. Ég tel algerlega ótækt, að svona milljónasjóðir séu undir einkavaldssviði sérstakra ráðherra. Það er raunar komið svo, að hér var rætt um það í dag, að það lægi við, að hæstv. fjmrh. hefði einkabanka, sem væri Framkvæmdabankinn. Það er vitað, að hæstv. sjútvmrh. hefur hafnarbótasjóðinn sem sinn kjördæmabanka, og hér á heilbrmrh. að fá Sjúkrahúsasjóðinn sem sinn kjördæmabanka, og þá þykir mér meira en bakkafullur lækurinn.