29.11.1955
Efri deild: 24. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (1656)

85. mál, mannanöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Menntmn. d. hefur haft þetta frv. til meðferðar nú um tíma. Vildi hún ekki flaustra málinu af og hefur því ekki skilað áliti fyrr en nú fyrir skömmu.

Þetta er að áliti n. mjög merkilegt mál og til bóta frá því, sem verið hefur. Eins og grg. frv. ber með sér og hæstv. menntmrh. skýrði frá við 1. umr. málsins hér, er frv. samið af nefnd, sem menntmrh. skipaði til þess, og áttu sæti í henni þeir Alexander Jóhannesson prófessor. Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómari, Þorsteinn Þorsteinsson fyrrverandi hagstofustjóri og Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, og var Þórður Eyjólfsson formaður nefndarinnar. Allir þessir menn eru kunnir og viðurkenndir hæfir menn hver á sínu sviði og fræðimenn einmitt í þeim fræðum, sem í þessu efni koma sérstaklega til greina, sem er lögfræði að einu leytinu og svo íslenzk tunga. Frv. fylgir ýtarleg grg., sem samin er af þessari n., auk þess skýrði hæstv. menntmrh. frv. allýtarlega, þegar hann flutti framsöguræðu sína hér, og má að mestu leyti vísa til þessa tvenns, grg., sem hv. þm. geta lesið, og ræðu ráðh., sem þm. hér í þessari d. hafa hlustað á.

Eins og gefur að skilja, fjallar þetta frv. einkum um tvö atriði, reglur um það, hvernig börnum verði gefið nafn, þ.e.a.s. eiginnafn, og aftur að öðru leyti um ættarnöfn. En reglur eru settar um það og ráðstafanir gerðar til þess samkv. frv., að nöfn séu valin í samræmi við íslenzka tungu. Enn fremur má það til nýmæla telja í frv., að skylt er að gefa barni nafn innan ákveðins frests, sem ekki hefur verið nú lengi, og eru dæmi til þess, að börnum hefur ekki verið gefið nafn fyrr en um leið og þau hafa verið fermd. Enn fremur verður það að teljast til nýmæla, að prestum á að gefa vitneskju um það með töluverðum fyrirvara, hvaða nafn barnið á að hljóta, til þess að gefa honum ráðrúm til að gera tillögur um annað nafn, ef honum þykir það fara í bága við íslenzka tungu eða vera óheppilegt eða hneykslanlegt.

Þá eru ákvæði hér um ættarnöfn, sem samkv. frv. á að vera leyfilegt innan vissra takmarka að taka upp. Um þetta atriði hefur orðið ágreiningur í þeirri n., sem undirbjó frv. Meiri hluti þeirra manna, sem undirbjuggu frv., vill innan vissra takmarka leyfa það, að ættarnöfn séu tekin upp, og hefur menntmn. fallizt á þá skoðun algerlega, eins og sjá má á nál. hennar á þskj. 139. Það má að vísu játa, að viðkunnanlegast væri, að allir Íslendingar héldu hinum góða og gamla sið að kenna sig til föður síns, en hins vegar er ekki hægt að ganga fram hjá því, að þetta er ekki gert. Með l. frá 1925 var bannað að taka upp ný ættarnöfn, þó að leyft væri, að gömul ættarnöfn héldust. En bæði var það vitað áður og er einnig upplýst í grg. þessa frv., að það hefur fjöldi ættarnafna verið tekinn upp síðan í algerðu heimildarleysi, og stjórnarvöld landsins, hver sem þau hafa verið á þeim 30 árum, sem liðin eru, hafa ekki skorizt í leikinn um þetta. Meira að segja stjórnarvöldin hafa viðurkennt þessi nýju nöfn með því, að þau hafa verið tekin upp í skýrslur, undirskrift manna, sem bera þau, eru tekin gild undir hvers konar skjöl, og jafnvel ríkisstj. veitir fólki, opinber störf og embætti með þessum nöfnum.

Það virðist því vera svo, eins og með svo margt annað, sem almenningi finnst vera það einkamál, að hið opinbera eigi ekki að hafa veruleg afskipti um það, að það hefur ekki verið hægt að framfylgja þessum lögum. Meira að segja menn hafa verið í stjórn landsins síðan þau voru sett, sem hafa verið andstæðingar ættarnafna, en samt ekki gert neinar ráðstafanir til þess, að l. væri hlýtt.

Menntmn. d. hefur fallizt á það sjónarmið að viðurkenna þessa staðreynd og leyfa, að ættarnöfn séu tekin upp, en með eftirliti, þannig að þau brjóti ekki í bága við lögmál íslenzkrar tungu, og væntir þess, ef svo verður gert, að menn geti unað því eftirliti, sem fyrirskipað er samkv. frv., og leyfi sér ekki að taka upp alls konar ónefni sem ættarnöfn á móti lögum og rétti, m.ö.o., að það sé betra að slá hér af og framfylgja svo lögunum en að slá ekki af og láta hvern gera eins og honum þóknast eftir sem áður. Það mætti auðvitað hugsa sér þá leið að gera nú nýjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að menn tækju upp ættarnöfn, beita einhvers konar þvingunum og refsingum ef til vill, en n. er ákaflega hrædd um, að það færi eins og fyrr, að menn gæfust upp á því og ættarnafnasiðurinn mundi eitthvað halda áfram eftir sem áður. Þess vegna finnst henni réttara að fallast á frv. að þessu leyti.

Þó að menntmn. fallist að mestu leyti á frv., vill hún þó leggja til að gera á því tvær breyt., og er nú ekki nema önnur þeirra veruleg efnisbreyting. Í 7. gr. frv. segir:

„Hver maður, sem ekki hefur löglegt ættarnafn, skal kenna sig til föður síns, þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum komi nafn föður í eignarfalli, að viðbættu orðinu son, ef karlmaður er, en dóttir, ef kvenmaður er.“

Nú vitum við það allir, að útlendar konur, sem giftast Íslendingum, kenna sig til föður mannsins yfirleitt, ef hann hefur ekki ættarnafn. Þetta er látið óátalið og hefur alltaf verið látið óátalið, og ég er sannfærður um, að það verður látið óátalið. Og hví þá ekki að leyfa það beint í lögum? Hitt er svo aftur óþarfi, að gera slík heiti að ættarnöfnum, þannig að börn hjóna og barnabörn, sem hlut eiga að máli, megi taka upp nafnið sem ættarnafn. Þess vegna leggur n. til, að við 7. gr. bætist:

Útlend kona, sem gift er Íslendingi, er ekki hefur ættarnafn, má þó kenna sig til föður eiginmannsins á sama hátt og hann. Ekki tekur þetta þó til barna þeirra. — Ætti reyndar að standa í staðinn fyrir „barna“: niðja þeirra.

Ég er sannfærður um það fyrir mitt leyti, að það er ekki hægt að þvinga konu, sem svona stendur á um, til þess að kalla sig dóttur föður síns.

Hin brtt., sem n. leggur til að gerð sé við frv., er um það, að dómsmrn. skuli setja reglugerð um nánari ákvæði um framkvæmd þessara laga. N. litur svo á, að þó að frv. sé ýtarlegt og ætti ekki mjög að orka tvímælis, þá sé þó réttara og öruggara að kveða nánar á um ýmis atriði með reglugerð.