05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (1658)

85. mál, mannanöfn

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa grg. fyrir minni hugsun viðvíkjandi mínum brtt. Ég lít þannig á, að það sé ekki rétt að fara að gefa mönnum undir fótinn með það að taka upp ættarnöfn eða beint leyfi til þess að taka þau upp, eins og er í frv. Ég tel, að allir Íslendingar eigi að hafa þá virðingu fyrir foreldrum sínum, að þeir vilji kannast við þau og séu ekki að reyna að fela sitt rétta faðerni með því að taka upp gervinöfn, og það opinbera eigi ekki heldur að hjálpa þeim til þess. Þess vegna eru brtt. mínar fólgnar í því að fella úr frv. þær gr., sem lúta að því að leyfa mönnum að taka upp ættarnöfn. Eina undantekningu vil ég þó láta vera mögulega, og það er viðvíkjandi mönnum, sem af erlendu bergi eru brotnir og hafa ættarnafn frá fæðingu og fá hér íslenzk ríkisborgararéttindi. Ég vil lofa þeim að halda sínum nöfnum eða hafa ættarnöfn, þó þannig, að þeim sé þá breytt þannig, að þau falli rétt og slétt inn í íslenzkt mál, og þar vil ég láta dómsmrn. koma til eða rn. og mannanafnanefndina um að úrskurða, hvernig þeim skuli breytt. Að öðru leyti vil ég ekki hafa ættarnöfn með okkar þjóð.

Ég vil segja það viðvíkjandi þeim mótbárum, sem ég hef heyrt gagnvart þessu, að það séu svo og svo margir menn hérna kannske innan þingsins, sem beri ættarnöfn óleyfilega, og að ríkisstj. hafi flaskað á því að veita mönnum embætti á fölsku nafni, óleyfilegu fölsku nafni, og það oftar en einu sinni, — viðvíkjandi því vil ég segja það, að þótt einhver hafi einhvern tíma verið þjófur eða gert eitthvað rangt og brotið einhver lög, þá er ekki þar með sagt, að það eigi að afnema lögin. Þvert á móti vil ég a.m.k., þegar slíkt kemur fyrir, vænta þess, að þeir embættismenn, sem þar eigi hlut að máli og áttu að sjá um, að l. gömlu um mannanöfnin væri hlýtt, bæti ráð sitt og þeir nýju menn, sem upp vaxa og taka við og eiga að sjá um, að þessum l. verði hlýtt, líði það ekki, að tekin séu upp þegjandi og hljóðalaust ættarnöfn af Pétri eða Páli, svo að menn kalli sig eitthvað, sem enginn kannast við né þekkir.

Enn fremur finnst mér vanta inn í l. ákvæði um það, að þegar menn breyti um nafn löglega, sé manntalsskrifstofan látin fá vitneskju um það. Það kann að liggja í hlutarins eðli, að stjórnarráðið eigi að gera það, og mundi kannske gera það annað slagið. A.m.k. er það svo nú með bæjarnöfn, þegar tekin eru upp ný bæjarnöfn eða breytt um bæjarnöfn, að það kemur auglýsing frá stjórnarráðinu, venjulega með nokkurra ára millibili, um þau nýju nöfn, sem upp hafa verið tekin, og oft ekki fyrr en ári og árum eftir að nafnið er orðið viðurkennt af örnefnanefndinni, sem um það sér, og búið að vera í munni manna langan tíma. Alveg eins gæti farið með mannanöfnin. Það gæti meira að segja farið svo, að maður missti atkvæðisrétt, af því að hann væri ekki kominn inn í manntalsskrána með réttu nafni eða að það yrði dregið svo að tilkynna það, og þess vegna vil ég fá inn í lögin ákvæði um það, að þegar ný nöfn komi, hver sem þau eru, nafnbreytingar verða, þá sé það tilkynnt.

Út á þetta ganga mínar brtt., og ég held, að það sé auðskilið. Það kann vel að vera, — þær voru gerðar í flýti, — að það þurfi að breyta einhverju fleiru í l. til samræmis við það, en það er þá hægast að gera það við 3. umr.