05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 220 í C-deild Alþingistíðinda. (1659)

85. mál, mannanöfn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að hafa valið jafnágæta menn sem hann hér hefur gert til þess að undirbúa þetta mál. Svo og þakka ég þeim mönnum fyrir það verk, sem þeir hafa lagt í undirbúning frv., og segi ég það alveg eins fyrir því, þó að ég sé ekki sammála öllum atriðum, sem koma fram í málinu. Hér er tvímælalaust um svo merkilegt mál að ræða, að það ber að þakka þá viðleitni, sem hæstv. ráðh. og nm. hafa gert til þess að komast að sem beztri niðurstöðu.

Hér er um mál að ræða, sem á margan hátt hefur áhrif á ekki einungis tunguna, heldur og á frelsisbaráttu þjóðarinnar, og hefur miklu meiri áhrif á það, en margur gerir sér ljóst, hvort vér verðum færir um að vernda tungu landsins um ókomnar aldir og þar með sjálfstæði þess eða hvort einmitt þetta kann smátt og smátt, áður en vér vitum af, að blandast erlendum áhrifum, unz vér þekkjum ekki lengur uppruna málsins og gleymum því, að tungan er fyrsta og sterkasta vigið gegn hvers konar árásum á sjálfstæði lands og þjóðar.

Þessi sannindi voru sjálfstæðishetjum þjóðarinnar jafnan kunn, og því er það, að þeir, sem tóku að sér það hlutverk að endurheimta sjálfstæðið á sínum tíma, byrjuðu á því að hreinsa tunguna, að útrýma úr málinu sem mestu af erlendum orðum og einkum orðum úr því tungumáli, sem talað var af þeirri þjóð, sem sat yfir rétti Íslendinga um aldir. Og án þess að þetta hefði verið gert, er ljóst, að þjóðin hefði aldrei fengið frelsi sitt.

Engin mótstaða gegn sívaxandi niðurlægingu þjóðarinnar og sívaxandi ágengni á rétt hennar var eins áhrifarík og neitun klerka og kennimanna með allan þorra alþýðunnar að baki sér um að flytja guðsorð í dómkirkju landsins á erlendu máli og skipa þannig tungu vors eigin lands á hinn óæðri bekk, eins og réttindum þess hafði verið skipað um aldir.

Ég hygg, að það verði erfitt að finna nokkurt eitt einstakt atriði, sem hefur verið jafnmikill þröskuldur fyrir því að ganga á rétt þjóðarinnar og einmitt þetta, þegar litið er í gegnum söguna. Á þeim tíma þótti það ákaflega fínt að bera ættarnafn, kalla sig „sen“, hvort sem var um karl eða konu að ræða, og láta nafnið bera sem óþjóðlegastan blæ bæði í ræðu og riti. Þá fylgdist hér oftast að þetta þrennt: útlend nöfn, ístran og yfirlætið. Og þá var það ekkert af þessu, sem bjargaði þessari þjóð frá því að verða undir í hinni hörðu baráttu fyrir frelsi sínu og menningu, heldur allt annað.

Þeir ágætu fræðimenn, sem hafa samið þetta frv., marka skýrt og alveg ákveðið stefnu sína í þessu máli í upphafi 2. kafla grg., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við samningu frv. þessa hefur n. gert sér far um að haga efni þess þannig, að mannanöfn nái þeim höfuðtilgangi sínum að vera nægilega glögg og áreiðanleg auðkenning þjóðfélagsþegnanna, svo að komizt verði hjá þeim ruglingi og réttaróvíssu í samskiptum einstaklinga, sem óreglulegar nafnbreytingar og ófullkomin nafnalöggjöf hefur í för með sér.

Í öðru lagi eiga ákvæði frv. að miða að því, að nöfn íslenzkra manna séu í samræmi við íslenzka tungu og þannig valin, að hvorki verði að þeim málspjöll né þau verði þeim, sem bera þau, til ama eða óþæginda.“

Hér er mörkuð alveg skýr stefna í upphafi, eins og sjá má af því, sem ég hef hér lesið. En þessi stefna er þó enn skýrar mörkuð í 1. mgr. 2. gr. frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eiginnafn skal vera íslenzkt og rétt að lögum íslenzkrar tungu.“

Hér eru meitlaðir í örstuttri setningu svo skýrir drættir, að eigi verður um villzt, hvað við er átt. Hér er af frábærri snilld þjappað saman svo að segja öllu því efni, sem segja þarf úr meginefni frv., og flest af því, sem fylgir í eftirfarandi greinum um eignarnöfnin, hefði alveg eins mátt setja í reglugerð, svo örugglega ristir þessi eina setning línurnar, sem hvergi verða brotnar, nema gengið sé beint á móti lagaboði. En svo skeður það því miður, að fylking þessara ágætu manna rofnar og það svo. að í síðari hluta frv. brjóta þeir bókstaflega niður það, sem þeir hafa byggt upp í fyrri hluta þess. Minnir þetta óhugnanlega á hersveit, sem sótt hefur fram, byggt upp sterk varnarkerfi, en verður svo síðar að hopa og sprengja upp á flóttanum eigin verk og allt, sem hún hefur gert. Flóttans gætir strax í upphafi hjá einum nefndarmanna, herra Þorsteini Þorsteinssyni fyrrverandi hagstofustjóra, eins og sést á bls. 8. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Einn nm., Þorsteinn Þorsteinsson, lætur þess getið í sambandi við ákvæði 2. gr. frv., að enda þótt hann álíti það rétta stefnu, að eiginnöfn séu þannig löguð, að þau fari sem bezt í íslenzku máli, þá telur hann samt of langt gengið í upphafi greinarinnar, þar sem segir: „Eiginnafn skal vera íslenzkt og rétt að lögum íslenzkrar tungu“ — því að með því sé gengið of nærri frelsi manna til þess að velja börnum sínum nöfn.“

Hann vill hér strax víkja frá þeim rétti að leyfa mönnum að velja börnum sínum þau nöfn ein, sem eru ófrávíkjanlega íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Öðruvísi verða þessi ummæli ekki skilin. Hann lítur beinlínis þannig á, að hér eigi í fyrsta sæti að setja tilfinningar og vilja einstakra manna og tunguna í annað sæti. Hann segir hér einnig, að einkum sé það bagalegt, ef maður hefur tekið tryggð við nafn manns, er honum hefur verið kær, en nafnið fullnægir ekki þessum skilyrðum. Hér vill hann láta meira ráða tryggðina við nafnið en rétt tungunnar í þessu máli. En það er vitanlegt, að tryggð er hægt að taka við nafn, þó að það sé alveg gagnstætt íslenzkri tungu. Ég skal m.a. benda á, að mér er kunnugt um, að eitt barn var skírt „Laxfossminni“. Ég geri ráð fyrir, að það verði erfitt að sanna, að það uppfylli þá kröfu, sem gerð er hér í 1. mgr. 2. gr., en það er enginn vafi á því, að minningarnar, sem bundnar eru við undirkomu telpurnar og svo kannske við uppeldi hennar, geta verið þannig, að móðirin og jafnvel faðirinn einnig vilji ekki undir neinum kringumstæðum láta þetta nafn fara úr ættinni. Ég lít svo á, að slíkar tilfinningar eigi að víkja fyrir rétti tungunnar. (Dómsmrh.: Var þetta kvenmannsnafn?) Laxfossminni, já, það var kvennmannsnafn, það var telpunafn. Ég geri ráð fyrir því út af fyrir sig, að eftir að þessi lög verða samþ., ef þau verða samþ. hér á Alþ., þá muni ekki fást leyfi til að skíra slíku nafni. Það er svo annað mál, að það mætti þá kannske taka það fyrir utan lög og rétt, eins og gert er um ættarnöfn, og skal ég koma að því síðar.

Annars fallast meðnefndarmenn Þorsteins ekki á þetta. Þeir líta beinlínis svo á, að hér eigi réttur tilfinninganna að víkja fyrir rétti tungunnar. Og þetta er fullkomlega rétt ályktun, því að það verður aldrei hægt að færa fyrir því rök, að tilfinningarnar eigi að ráða hér meiru um en tungan, þó að það sé reynt að gera það af einum nefndarmanni. Hann vill orða þessa grein þannig: „Miða skal að því, að eiginnöfn séu með íslenzkum svip og særi ekki málsmekk almennings“. Þegar þessi setning er borin saman við þá setningu, sem samkomulag hefur orðið um að setja í 2. gr., þá sést, hver reginmunur er hér á afstöðu þessara manna. Og ég fagna því, að meiri hluti n. hefur þó fallizt á að marka þá stefnu, sem mörkuð er í 2. gr. og ég hef lýst, í stað þess að marka hana svo loðið sem tillaga Þorsteins Þorsteinssonar ber með sér, þótt hins vegar hafi því miður verið vikið frá henni síðar.

Þegar kemur að ættarnöfnum, verður flóttinn frá hinni yfirlýstu stefnu nefndarmanna enn augljósari. Vilja þrír af nefndarmönnunum, að leyft sé að taka upp ættarnöfn með tilteknum skilyrðum, og vill einn þeirra þó ganga mun lengra inn á þá braut en hinir tveir. Hins vegar vill fjórði nefndarmaðurinn ekki, að þetta sé leyft, og færir fram sterk rök fyrir máli sínu, og þó vill hann hopa nokkuð til samkomulags, því miður. Það er engan veginn nein tilviljun, að það er prófessor í málum, sem hefur þá sérstöðu að vilja ekki leyfa að taka upp aftur ættarnöfn. Honum er eðlilega ljós hættan fyrir tungu landsins vegna sérþekkingar sinnar á málinu, og því ber að taka meira tillit til hans í þessu máli en til allra hinna þriggja, að mínu áliti, hversu prýðilegir menn sem hinir þrír eru, hver á sínu sviði. En fyrir þessu sýnist hv. menntmrn. loka augum sínum, því miður. Þessi afstaða meiri hluta n. stangast algerlega á við þá yfirlýsingu, sem n. hefur gefið í upphafi í athugasemdunum, því að með því að leggja til að leyfa að taka upp á ný ættarnöfn er horfið frá þeim höfuðtilgangi frv. að gera auðkenningu þjóðfélagsþegns nægilega glögga og þó einkum frá því, að nafn íslenzkra manna verði í samræmi við íslenzka tungu, því að það er útilokað að sameina þetta tvennt, að halda ættarnöfnunum, eins og lagt er til í frv., og að ættarnöfn, eins og segir í 11. gr., skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Það fer ekki saman, eins og raunverulega prófessor Alexander Jóhannesson hefur réttilega bent á í sínu séráliti, þar sem hann segir m.a., að ættarnöfnin séu aldrei beygð samkvæmt íslenzku máli, og vitað af reynslunni, að þar fer hann með rétt mál, því að ættarnöfnin, hversu vel sem þau verða valin, verða aldrei í samræmi við íslenzka tungu, meðal annars vegna þess, að þau eru aldrei, hvorki í eintölu né fleirtölu, beygð í samræmi við lögmál tungunnar.

Rök meiri hlutans fyrir þessu undanhaldi eru sem hér segir:

1) Að reynslan hafi markað afstöðu þeirra. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Reynsla sú, sem hefur fengizt af ákvæðum um ættarnöfn í núgildandi lögum, hefur öðru fremur markað afstöðu okkar til nýrrar lagasetningar á þessu sviði.“

Þetta er eitt, sem orsakar það, að þeir hopa frá sinni eigin yfirlýsingu.

2) Að lögin eru dauður bókstafur. Þeir segja einnig hér: „Eins og gerð var grein fyrir hér að framan, hefur bann við notkun ættarnafna í l. nr. 54/1925 að miklu leyti verið dauður bókstafur og engan veginn náð tilgangi sínum.“

3) Ólögleg ættarnöfn eru notuð í 30 ár. „Í þá þrjá áratugi, sem lögin hafa verið í gildi, hefur notkun ættarnafna, sem eiga ekki stoð í lögunum, verið látin viðgangast átölulaust af hálfu allra þeirra ríkisstjórna, sem á þeim tíma hafa setið að völdum. Tekur þetta bæði til hinna fjölmörgu nýju ættarnafna, sem menn hafa tekið sér á þessum áratugum án stoðar í lögum, og einnig til óheimillar notkunar á ættarnöfnum þeim, sem upp voru tekin með stjórnarráðsleyfi á árunum 1915–1925.“

4) Almenningsálitið er þessu ekki mótfallið. Þetta er ein ástæðan, og út af því segja þeir hér: „Ekki verður séð, að almenningsálitið hafi verið sérstaklega andstætt þessu afskiptaleysi stjórnvalda.“

5) Stjórnarflokkarnir hafa ekki krafizt framkvæmda. Mér finnst þessi ástæða dálítið einkennileg, en ég kem að því síðar. Hér er sagt: „Flokkar þeir, sem að ríkisstjórnunum hafa staðið, virðast ekki hafa krafizt þess af þeim, að þeir framfylgdu l. að þessu leyti, og opinberrar gagnrýni frá andstæðingunum hefur ekki gætt. Þeir menn, sem nú bera ættarnöfn án stoðar í lögum, munu skipta þúsundum.“

6) Erfitt er að framkvæma lögin og afnema ólögleg nöfn með málshöfðun. Ég skal nokkuð koma að því seinna, enda sést það í mínum till., að ég tel, að það sé enginn vandi að koma hér á ákveðinni reglu, og tel, að það sé engin þörf á að höfða mál á þessa menn til þess að laga þetta atriði, eins og ég skal koma að síðar, er ég ræði um þá tillögu í sambandi við framkvæmdirnar.

7) Óheppilegt er að hafa í gildi lög að formi til. Þetta er síðasta atriðið. Eru þetta rök, sem eru skiljanleg frá sjónarmiði lögfræðinga og dómara, en ekki er hægt að beita gegn þessu máli, og mundi það gersamlega kippa fótum undan framkvæmdavaldinu, ef nota ætti sér þetta almennt í löggjafarmálum. Ef afnema ætti öll lög, sem banna eitt eða annað í þjóðfélaginu, bara af því að þau lög eru dauður bókstafur eða þau eru brotin almennt, kæmist þjóðin í mikinn vanda. Skal ég m.a. benda hér strax á skattalögin. Ég hef sjálfur barizt fyrir því, að þau væru afnumin, ekki af þeirri ástæðu, að þau væru brotin. (Gripið fram í.) Nei, lögin um tekju- og eignarskatt. Ég hef barizt fyrir því, að þau væru afnumin, ekki vegna þess, að þau hafi verið svo mikið brotin, þó að ég hafi fært það sem eina ástæðu fyrir því, heldur vegna þess, að ég tel þau hættuleg fyrir þjóðfélagið efnahagslega. En það hafa ekki verið talin nægileg rök til þess að afnema þau lög, að þau eru brotin svo að segja af hverjum einasta þegni þjóðfélagsins. (Gripið fram í.) Þetta væri gott fordæmi, en það hefur ekki verið fallizt á það af þinginu, og munu þó þau lög hafa verið brotin miklu meir en lögin um ættarnöfnin, og er þar enginn samanburður á. En fyrir þá einu sök er ekki hægt að krefjast þess, að lögin séu afnumin. Sama er að segja um lögin um bifreiðaeftirlit, hversu mikið eru þau ekki brotin daglega? Hver vill láta afnema þau fyrir það? Það verður að metast á hverjum tíma, hvort brotin sjálf yrðu þyngri á vogarskálunum eða nauðsynin til að halda l. uppi, og ég fyrir mína parta álít, að hér sé svo mikið í húfi, að það sé miklu þyngra á vogarskálunum að halda við þeim lögum, sem hafa verið sett um nafntöku á Íslandi, þó að þau hafi verið brotin, heldur en að spilla tungunni með ættarnöfnum, enda engum erfiðleikum bundið að láta framfylgja lögunum. Þremenningarnir viðurkenna þó, að það sé góður og æskilegur síður að taka ekki upp ættarnöfn. Og þetta sama viðurkenndi hv. frsm. menntmn., því að hann tók það sérstaklega fram, en hann eins og þeir svignar fyrir því, að l. séu brotin. Vænti ég, að þegar hann athugar mína till. í sambandi við framkvæmdirnar, þá fallist hann og n. á að breyta afstöðu sinni og gefa a.m.k. nokkurn frest til þess að sýna, hvort þær till. geti ekki komið betra skipulagi á málin en nú er. N. segir, að um þetta eigi menn að hafa frjálsan ákvörðunarrétt. Hvar eru takmörkin fyrir því, hvar menn eiga að hafa frjálsan ákvörðunarrétt eða löggjöfin á að grípa inn i? Ég fullyrði, að löggjafinn grípur inn í mörgum sviðum, þar sem minni ástæða er til þess að grípa inn í en hér er gert. Ef menn viðurkenna það, sem n. sjálf hefur viðurkennt í upphafi, að nöfn skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu, þá á að samþykkja till. mínar. Sé það hins vegar ekki viðurkennt og það sé sama, hvernig fer um málið, horfir málið allt öðruvísi við, og þá samþykkja þeir menn frv. óbreytt, því að þeir líta þá svo á, að tungunni sé engin hætta búin af frv., þótt að lögum verði, og þó álíta þeir, að nauðsynlegt sé að hafa sterkt eftirlit með framkvæmd l., og komast því í mótsögn við sjálfa sig. Þeir komast algerlega í mótsögn í seinni hluta frv. við það, sem þeir hafa byggt upp í fyrri hlutanum, og ummæli þeirra í síðari hluta 2. kafla í aths. stangast alveg á við fyrri hlutann, og má það raunverulega merkilegt heita um jafnágæta menn og hér hafa unnið að.

Einn úr meiri hlutanum, Þorsteinn Þorsteinsson, vill þó ganga hér miklu lengra, svo sem hann og vildi í sambandi við eiginnöfnin. Hans sérstaka álit er sem hér segir, með leyfi hæstv. forseta: „Sérstaða mín varðandi ættarnöfn gagnvart meðnefndarmönnum mínum, Jónatan Hallvarðssyni og Þórði Eyjólfssyni, er aðallega í því fólgin, að ég er persónulega hlynntari ættarnöfnum heldur en þeir, því að ég tel þau mjög mikilvæg til þess að auðkenna menn umfram það, sem unnt er með eiginnöfnum einum og kenningu til föður.“ Hann segir hér enn fremur: „Þar með er fengin miklu fullkomnari auðkenning á þjóðfélagsþegnunum en unnt er að fá með kenningu til föður aðeins.“ Þetta er alveg misskilningur. Þegar komnir eru margir Sigurðar Briem, margir Ólafar Thors, margir Kjarval, bæði með sömu fornöfnum og sama eftirnafni, hvað er það skýrari greining á þjóðfélagsþegnum en þegar notuð er sú regla, sem nú er, að ég nú ekki tali um, þegar farið er að taka inn nöfn kvenna og gerbreyta þeim, þannig að enginn veit, hverrar ættar þær eru. Allt það, sem Þorsteinn Þorsteinsson færir fram hér í sinni rökfærslu, fær ekki staðizt undir neinum kringumstæðum. Þjóðfélagsþegninn er tvímælalaust miklu betur auðkenndur með því kerfi, sem almennt er notað hér á Íslandi, og er miklu betur auðkenndur sem Íslendingur en nokkurrar annarrar þjóðar þegn, ef haldið er því kerfl. sem við höfum haft hingað til, og að taka upp ættarnöfn og leyfa þau á þann hátt, sem hér er lagt til, er til þess að rugla þetta, en ekki til þess að gera það auðveldara.

Þorsteinn Þorsteinsson lítur svo á, að yfirleitt sé tungan í engri hættu, þó að allt verði hér fullt af útlendum ættarnöfnum. Og það er einmitt þetta, sem á að gera út um hér í Alþingi. Aðeins þeir menn, sem fylgja frv. eins og það er, eru á þeirri skoðun, að það sé engin hætta á því. Ég er hins vegar á allt annarri skoðun. Ég fylgi hins vegar alveg skoðun próf. Alexanders Jóhannessonar, að það sé mjög mikil hætta á því, ef þetta sé leyft, að tungunni sé mjög hætt, enda hefur það og verið skoðun meiri hl. Alþingis, þegar rætt hefur verið um nafnbreytingu á þeim mönnum, sem hér hafa fengið íslenzkan ríkisborgararétt. Um þetta hefur staðið mjög mikil deila á hverju einasta ári, og meiri hl. Alþingis hefur ávallt komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri sjálfsagt að setja þetta skilyrði vegna tungunnar og það sé sú minnsta fórn, sem þessir menn geta fært til þess að öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, að verða að taka upp annað nafn. Það má því merkilegt heita, ef Alþ. nú gengur frá þessu frv. óbreyttu eins og það liggur hér fyrir. Er alveg óþarfi fyrir mig að eyða miklum tíma í að skýra þetta frekar, svo augljóst sem það er, að tungunni er einmitt hætta búin, ef ekki er spyrnt hér við fótum, eins og viðurkennt er reyndar af öllum nefndarmönnum, að undanteknum þá helzt Þorsteini Þorsteinssyni.

Afstaða próf. Alexanders Jóhannessonar til þessara mála er allt önnur, eins og sést á hans séráliti. Hann segir hér, með leyfi hæstv. forseta: „Ég hef unnið með meðnefndarmönnum mínum að samningu þessa frv. Eins og frv. ber með sér, er gert ráð fyrir, að Íslendingar geti tekið sér ættarnöfn, en þess krafizt (11. gr.), að þau skuli vera íslenzk og rétt að lögum íslenzkrar tungu. Þó að tekið sé fram í lögum frá 1925, að ættarnöfn megi enginn taka sér eftir þann tíma hefur ættarnöfnum fjölgað mjög á síðustu 30 árum, og má áætla, að nú séu um 1100 ættarnöfn í landinu, og hefur engin tilraun verið gerð til að beita refsiákvæðum áðurnefndra laga gegn þeim, er tekið hafa sér ættarnöfn, síðan þau lög voru samin.“ Hann segir hér enn fremur: „Meginþorri allra íslenzkra ættarnafna sýnir, að þau eru engan veginn rétt að lögum íslenzkrar tungu.“ Og ég geri ráð fyrir, að það verði erfitt að hrekja þessa fullyrðingu prófessorsins. „Flest íslenzk ættarnöfn eru málspjöll,“ segir hann, „og munu þau, er tímar líða, valda skemmdum á tungu vorri, t.d. á þann hátt, að tvö föll verða notuð í stað fjögurra, eins og þróunin hefur orðið í öðrum germönskum málum. Má sjá þess dæmi daglega, í hverju íslenzku blaði og heyra í ríkisútvarpinu, að ættarnöfn eru beygingarlaus.“ — Þetta eru hans rök, og þau hafa ekki verið hrakin hér eða af öðrum meðnefndarmönnum. Svo segir hann enn fremur: „Þau munu slæva tilfinningu vandaðs máls og flýta fyrir margs konar mállýtum. Tign íslenzkrar tungu er m.a. fólgin í því, að hvert íslenzkt orð er gagnsætt á þann hátt, að menn skilja, hvernig merking orðs var hugsuð, og er því meira en hljómur einn, sem menn nema við endurtekna notkun. Oss Íslendingum ber því að halda vörð um geymd hins dýrasta arfs, er vér höfum fengið frá forfeðrum vorum.“ Þetta er skoðun próf. Alexanders Jóhannessonar á málinu, og það er enginn vafi á því, að ef frv. er samþ. eins og það liggur fyrir hér, verður ekki haldinn eins sterkur vörður um hinn dýra arf, sem prófessorinn minnist á í grg.

Ég skal láta þetta nægja almennt um frv., en ætla mér að fara hér nokkrum orðum um brtt. mínar. Ég hef lagt til á þskj. 142, í l. brtt., við 6. gr., að 2. mgr. falli niður, en þar stendur: „Ef barn er ættleitt, eftir að því var nafn gefið, má í ættleiðingarbréfi gefa því nýtt eiginnafn í stað hins fyrra eða til viðbótar nafni, sem það hefur áður hlotið.“ Ég sé enga frambærilega ástæðu til þess að hafa þetta í lögunum. Ég sé ekki neina þörf á því, að barn þurfi að missa nafn sitt og taka annað nafn, þó að það sé ættleitt, enda eru engin frambærileg rök færð fyrir því.

Ég hef lagt til í 2. till., að 9. gr. falli niður, en hún hljóðar svo: „Þegar kjörbarn er ættleitt af hjónum eða karlmanni eingöngu, má ákveða í ættleiðingarbréfi, að það sé kennt til kjörföður með sama hætti og í 7. gr. segir. — Ef barn er ættleitt af konu eingöngu, má ákveða í ættleiðingarbréfi, að það kenni sig til föður hennar.“ Ég sé heldur enga ástæðu til þess að leyfa slíkt, þó að ættleiðing fari fram.

Ef ákveðnir foreldrar vilja ekki ættleiða barn, nema það breyti um nafn, þá fylgir ekki mikill hugur máli í sambandi við ættleiðinguna.

Ég skal ekki dvelja lengur við þessar tvær brtt.

3. brtt. mín er við 10. gr., er verði 9. gr. og orðist svo: Lögleg ættarnöfn, sem íslenzkir ríkisborgarar bera nú, mega haldast. — Ég tel, að það sé rétt, að hin löglegu ættarnöfn megi haldast, en lögleg ættarnöfn eru ekki önnur en þau, sem hafa verið tekin upp fyrir 23. sept. 1925. Öll ættarnöfn, sem tekin eru eftir þann tíma, eru ólögleg í landinu, og þau eiga þess vegna ekki að leyfast, og það er sú minnsta krafa, sem Alþ. getur gert, að þau nöfn, séu látin niður falla, sem hafa verið og eru enn í dag ólögleg. Þess vegna hef ég einnig lagt til, að bætt yrði við greinina: „Eftir að lög þessi öðlast gildi, er óheimilt að taka upp nýtt ættarnafn hér á landi.“ Þegar atkvgr. fer fram um þessa brtt., er raunverulega úr því skorið, hvort þessi hv. d. vill fallast á, að hér sé haldið áfram ættarnöfnum eða ekki.

4. brtt. er, að í stað 10.–16. gr. komi 2 nýjar greinar, er verði 10. og 11. gr. og orðist svo:

a) Þeir íslenzkir ríkisborgarar, sem tekið hafa ólögleg ættarnöfn, skulu hafa lagt þau niður fyrir árslok 1956 og kennt sig við föður samkvæmt fyrirmælum 7.–9. gr. þessara laga. — Það er eðlilegt, að þessi krafa sé gerð ef Alþ. ætlast til þess, að ekki séu tekin upp ættarnöfn. Sé hins vegar ætlazt til þess, að þau séu tekin upp, eiga þeir að uppfylla þau lagaákvæði, sem sett verða, en fallist hv. Alþ. á það að taka ekki upp ættarnöfn, þá á að krefjast þess, að ættarnöfn séu lögð niður, og það er enginn vandi að koma því í framkvæmd og það án málshöfðunar, ef till. mín undir b-lið verður samþ., en hún er sem hér segir:

b) Eigi má rita ólöglegt nafn íslenzks ríkisborgara á vegabréf, skírteini, kjörskrá, manntal eða nein önnur opinber gögn, og undirskrift íslenzks ríkisborgara er ógild undir hvers konar gerninga, nema nafn hans sé löglega tekið. Þetta eru nægileg viðurlög, og þarf þá ekki að fyrirskipa neina málshöfðun. Hver heldur áfram að kenna sig ólöglegu nafni, ef hann fær það ekki ritað á þau skírteini, sem hann þarf að nota í lífinu? Enginn. Ef maður ætlar að ferðast til útlanda, fær hann ekki vegabréf nema með sínu rétta nafni. Og sama gildir um áritun á víxla í bönkum og ávísanir, að þær skulu því aðeins gildar, að nöfnin séu skráð rétt. Nafn aðila kemst ekki á kjörskrá, ekki á manntal, nema það sé löglega skráð. Og hvers vegna á þetta ekki að gilda um ættarnöfn alveg eins og skírnarnöfn? Ef ég í dag í staðinn fyrir að skrifa nafnið Gísli Jónsson skrifaði mig Magnús Pétursson, mundu áreiðanlega bankarnir, þar sem mitt rétta nafn stæði á víxlum eða öðrum gerningum, neita að taka við endurnýjun slíkra skjala, nema þau væru undirrituð með löglegu nafni mínu. Hér er frá mínu sjónarmiði einföld og örugg aðferð til þess að tryggja það, að menn taki ekki upp röng nöfn, hvorki sem eiginnafn né sem ættarnafn, og sé þetta ekki tekið upp, er engin trygging fyrir því, að menn taki ekki upp í þúsundatali ólögleg ættarnöfn, þó að þessi lög verði samþykkt, og einnig ólögleg eiginnöfn, því að það er vitað, að þótt prestar skíri börn ákveðnum nöfnum, hafa þau sum tekið allt önnur nöfn, bæði í daglegu tali og jafnvel í undirskrift, og kalla sig allt annað en þau eru löglega skírð, en það mundi fyrirbyggja það, ef slík ákvæði sem þessi yrðu sett inn í lögin. Og mér finnst nú, að hvort sem frv. yrði samþ. með þeim kafla um ættarnöfnin og þeim takmörkunum, sem þar eru sett, eða ekki, þá ættu þessi viðurlög að vera lögtekin, það ætti a.m.k. að setja hömlur á, að farið yrði lengra en lögin takmarka á þessu sviði.

5. brtt. mín er við 17. gr., sem verður 12. gr., þ.e., að 4. mgr. falli niður. Það er til samræmingar á því, ef búið er að samþykkja, að ekki megi taka upp ættarnöfn, og þarf ekki skýringar við. — 18. gr., sem verður 13. gr., falli einnig niður. Það er til samræmingar, þarf ekki heldur frekari skýringa við. — 19. gr. falli einnig niður. Það er einnig til samræmingar; ef ekki er leyft að taka upp ættarnöfn yfirleitt, er gr. óþörf. Í 24. gr., sem verður 18. gr., falli 2. mgr. niður, sem er einnig til samræmingar, ef ekki er leyft að taka upp ættarnöfn.

Ég vil svo enda þessi orð mín með því að benda á, að þótt þetta frv. verði samþ. óbreytt, opnar það möguleika fyrir því, að menn haldi áfram að kalla sig ólöglegum og óleyfilegum nöfnum, og bætir ekkert úr ástandinu frekar en nú er, og raunverulega væri þá miklu eðlilegra frá mínu sjónarmiði að hafa sérstaka nefnd, eins og hér er ætlazt til, til þess að leiðbeina mönnum um nöfn og ekkert annað, sem gæti að sjálfsögðu haft nokkur áhrif, en mundi þó engan veginn hafa eins djúp áhrif og löggjöf, sem sett yrði með þeim takmörkunum, sem ég hef hér bent á.

Mér þætti ekkert óeðlilegt, að hv. menntmn. óskaði eftir að fresta þessari umr. og athugaði till. eftir þær umr., sem hér hafa farið fram, til þess að sjá, hvort hún geti ekki fallizt á eitthvað af þeim brtt., sem hér eru gerðar, nema því aðeins að hún hafi, síðan hún gaf út nál., haldið fundi um till. og komizt að þeirri niðurstöðu, að þar skuli engu að hennar áliti breytt. Ég vil aðeins skjóta þessu fram til hv. formanns nefndarinnar.