05.12.1955
Efri deild: 25. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í C-deild Alþingistíðinda. (1661)

85. mál, mannanöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Það segir sig sjálft, að n. hefur ekki tekið þær brtt., sem fluttar eru á þskj. 142 og 143, til sérstakrar athugunar, sökum þess að þær hafa ekki legið fyrir eða ég hef ekki séð þær t.d. fyrr en nú á þessum fundi. Það kann að vera, að þeim hafi verið útbýtt fyrr og það farið fram hjá mér. Hins vegar tók n. það mál, sem till. fjalla um aðallega, til athugunar, sem sé það, hvort leyfa skyldi ættarnöfn innan vissra takmarka ellegar ekki, og n. tók alveg ákveðna afstöðu til þess atriðis, eins og ég gerði grein fyrir, þegar málið var hér fyrst til 2. umr., og féllst þar á frv. í þessu efni og álit meiri hl. þeirrar n., sem undirbjó frv.

Hitt er svo annað mál, að það kann að vera ástæða til að athuga sérstaklega, jafnvel þó að frv. yrði í höfuðatriðum samþ., hvort ekki ætti að setja inn í það einhver svipuð ákvæði og hv. þm. Barð. (GíslJ) leggur til í b-lið 4. till. sinnar, að stjórnarvöldin megi ekki taka gilda undirskrift manna með ólöglegu nafni, hvort sem ættarnöfn eru leyfð eða ekki. Þó er ég hræddur um, að eins og sú till. liggur fyrir, gætu orðið vafningar úr því töluvert miklir. Við skulum segja, maður kemur með ávísun í banka og ávísunin hljóðar á eiginnafn hans og ættarnafn. Hvernig á bankinn að vita það um að öðru leyti óþekktan mann, hvort ættarnafnið er löglegt eða ólöglegt, en undirskrift eða framsal mannsins þarf á ávísunina, til þess að hann geti fengið hana greidda? Ég er hræddur um, að þetta yrði dálítið vafningasamt. Hitt er svo aftur rétt, að það er einmitt það, sem þarf, hvort sem ættarnöfnin eru leyfð eða ekki, að stjórnarvöldin geri það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að rétt nöfn séu sett á opinberar skýrslur.

Hv. 1. þm. N-M., sem flytur till, á þskj. 143, sem eru svipaðs efnis og till. hv. þm. Barð., sem sé um að banna ættarnöfn, vildi álíta, að embættismenn mundu bæta ráð sitt og gera það hér eftir, sem þeir hafa ekki gert hingað til, án þess að lagaákvæði kæmu um það. Ég verð að játa, að ég hef takmarkaða trú á þessu. Dómsmrh. er æðsti vörður laga og réttar í landinu. Á honum hvílir að gera ráðstafanir til, að lögum landsins sé hlýtt. Nú veit ég það, að síðan lögin frá 1925, sem bönnuðu ættarnöfn, voru sett, hafa verið menn í dómsmálaráðherraembætti, sem yfirleitt hafa verið skörungar og röggsamir embættismenn. Og sjálfur dómsmrh. hefur nú í þessari d., bæði við 1. umr. og nú áðan, lýst því, hvernig framkvæmd þessara laga hefur gengið. Hefur hann verið lengi dómsmrh. og er yfirleitt á móti ættarnöfnum, svo að ekki er það vegna þess. að hann vilji stuðla að því, að ættarnöfn séu tekin. Ég veit t.d. um Hermann Jónasson, hv. þm. Str., sem var átta ár dómsmrh., að hann er líka á móti ættarnöfnum, og ég hugsa, að hann greiði hreint og beint atkv. með þessum brtt., en ekki veit ég til þess, að hann gerði neitt til þess að hafa hendur í hári þeirra manna, sem tóku upp ættarnöfn ólöglega, og svo er um aðra dómsmálaráðherra, sem setið hafa undanfarið.

En það er vitanlega ekki furða, þó að hv. þm. Barð. leggi áherzlu á að fá ættarnöfnin bönnuð, þar sem hann telur svo mikið í húfi, að jafnvel frelsi þjóðarinnar og tungumál hennar sé í veði, ef ættarnöfn eru leyfð. Það mun nú hafa verið síður hjá mjög mörgum þjóðum, fyrst og fremst Norðurlandaþjóðunum, og ég hygg miklu fleiri þjóðum, að menn hafa kennt sig til föður. Nú er þetta horfið og ættarnöfn komin í staðinn. Þessar þjóðir halda frelsi sínu og tungu alveg eins fyrir því, og ef vér lítum nú á endurreisn íslenzkrar tungu t.d. og hverjir hafa þar mest að unnið, þá kemur það undarlega í ljós, að sumir af þeim mönnum hafa borið ættarnöfn. Mér dettur í hug maður eins og Jón Thoroddsen, sem fyrstur skrifaði, eins og við vitum, skáldsögur á nútímaíslenzku, skáld eins og Steingrímur Thorsteinsson, Einar Kvaran, og svo mun nú hv. þm. Barð. kannast við mann, sem hét Guðmundur Kamban og lagði ekki svo lítið til íslenzkra bókmennta. Þá hefur og nú alveg nýskeð íslenzkt skáld fengið sérstaka viðurkenningu úti í löndum fyrir það að hafa endurvakið íslenzka frásagnarlist, en hann heitir Halldór Kiljan Laxness. Og ef litið er til frelsisbaráttunnar sérstaklega, þá er sama að segja. Þar hafa unnið menn, sem hafa ættarnöfn, þó að aðrir, sem hafa kennt sig til síns föður, hafi þar einnig mikið að unnið. Ég minni aðeins á Skúla Thoroddsen, Sigurð Eggerz, og fleiri mætti nefna, að ógleymdum Ólafi Thors, sem ég tel víst að hv. þm. Barð. telji hafa átt nokkurn þátt í því að minnsta kosti, að Ísland varð lýðveldi og sagði að fullu skilið við þá þjóð, sem áður hafði drottnað yfir henni. Ég held því, að það sé ekki mikil hætta á, að tunga þjóðarinnar og frelsi hennar glatist, þó að það sé leyft innan vissra takmarka að taka upp ættarnöfn, eins og hæstv. ráðh. sagði. Ég held, að þetta sé mjög að falla úr tízku, virðist mér. Ég gæti vel hugsað, að það yrði ekki mikið um það, að minnsta kosti held ég, að það sé miklu árangursríkara að hefja áróður fyrir því, að menn haldi hinum gamla, góða sið að kenna sig til föður síns, heldur en að banna það með lögum.

Hv. þm. Barð. sagði, að frv. að því er snertir ættarnöfnin og till. nefndarinnar, sem undirbjó frv., stönguðust við upphafið eða við ákvæði 2. gr. frv. Ég get nú ekki beinlínis séð, að þetta sé rétt, vegna þess að það er tekið fram um ættarnöfnin, að þau eiga að lúta lögum íslenzkrar tungu. Ef það sýnir sig svo, eins og hv. þm. Barð. hélt fram, að ættarnöfn gætu ekki í eðli sínu verið íslenzk, og ef það verður dómur hæfustu manna í þeirri grein, verða ekki ættarnöfn upp tekin.

Það er upplýst, að bannið við ættarnöfnum hefur ekki verið haldið, menn hafa tekið upp ættarnöfn. Hv. þm. Barð. og hv. 1. þm. N-M. og ef til vill fleirum finnst þetta, að beygja sig fyrir slíku, vera að kippa fótum undan framkvæmdavaldinu, og nefndi hv. þm. Barð. fleiri l., sem ekki væru haldin og engum dytti þó í hug eða fáum að afnema. En það fer eftir eðli málsins. Það eru vitanlega öll l. brotin og það dugir ekki að afnema öll lög þó að þau séu brotin. En þau l., sem beinlínis snerta almenningsheill, verður að reyna að framkvæma til lengstra laga, og almenningur er í raun og veru með því, að þau lög séu framkvæmd. En svo eru önnur lög, sem fólki finnst fjalla um svo mikið einkamál manna, að ríkisvaldinu komi það mjög lítið við, og þau eru brotin og almenningur telur rétt að brjóta þau, og það er óneitanlegt, að þetta er ærið mikið einkamál, hvernig foreldrar gefa börnum sínum nafn og hvort maðurinn óskar eftir að bera ættarnafn eða ekki.

Ég get ekki líkt þessu frv. neitt við skattalög að þessu leyti, það væri nær að líkja því við bannlög og þess konar afskiptasemi af einkalífi manna.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar. Það hefur verið stungið upp á því, að n. athugaði þessar till. Eins og ég sagði, hefur hún þegar tekið afstöðu um höfuðatriði till. En aftur á móti getur vel komið til mála að athuga b-lið 4. till. hv. þm. Barð. nánar. Þetta mætti auðvitað gera með því móti, ef hv. þm. taka till. sínar aftur nú við þessa umr. og n. athugaði þetta mál þá á milli umr. Tel ég, að það mundi vera hentugast. Á hinn bóginn hefur hæstv. forseti, sem jafnframt er hv. þm. Barð., á valdi sínu að fresta þessari umr., og skal ég fyrir n. hönd ekkert hafa á móti því, að umr. verði frestað, og þó að ég sé ekki formaður n., hef ég haft samráð við hann um það og get lofað því, að n. mun taka þetta til athugunar, hvor leiðin sem farin verður, hvort heldur tillögurnar eru teknar aftur eða umr. nú frestað.