08.12.1955
Efri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í C-deild Alþingistíðinda. (1664)

85. mál, mannanöfn

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Síðan mál þetta var hér síðast til umræðu, hefur menntmn. haldið fund um það, og árangurinn af þeim fundi eru brtt., sem n. flytur á þskj. 168.

Um fyrri brtt. er ekki neitt að segja, því að þar er aðeins um orðabreytingu að ræða við brtt., sem n. hafði áður flutt á þskj. 139, þar sem stendur: „Ekki tekur þetta þó til barna þeirra“ — þar vill n. setja í staðinn fyrir „barna“: niðja, til þess að taka af öll tvímæli um það, að þótt útlend kona kenni sig til föðurnafns eiginmannsins, þá séu það ekki einasta börn hjónanna, sem ekki mega gera föðurnafnið að ættarnafni, heldur og niðjar í fleiri liði, m.ö.o., að konan megi bera þetta nafn, en ekki aðrir, ekki niðjar hennar taka það upp sem ættarnafn.

Áður en ég vík að síðari brtt. n., vil ég geta um það, að n. tók brtt. þær, sem fyrir liggja á þskj. 142 og 143, til nýrrar athugunar. N. er sömu skoðunar og ég hef áður lýst um meginatriði þessa máls, sem þessar till. fjalla um, sem er það að óheimila upptöku nýrra ættarnafna. N. lítur á það eins og áður, að rétt sé að leyfa upptöku nýrra ættarnafna innan þeirra takmarka, sem frv. setur um það, sem eru töluvert þröng, og er þetta ekki hvað sízt með tilliti til þess, að þeir menn, sem hafa tekið upp ættarnöfn ólöglega síðan 1925, geti fengið þau lögfest, sumir þeirra búnir að ganga undir slíkum nöfnum um áratugi.

N. leggur því til, að flestar og í raun og veru allar þessar brtt. séu felldar, en þó játar hún það, að hugsun sú, sem liggur til grundvallar fyrir b-lið 4. till. hv. þm. Barð., er í sjálfu sér rétt, þó að þar sé of langt gengið að áliti n. En hugsunin er sú í þessari brtt., að það eigi ekki einasta að gera kröfur til einstaklinganna um nöfn þeirra, heldur líka stjórnarvaldanna að sjá um það, að nöfnin séu rétt skráð á opinber gögn. Þó eru ákvæði í þessari brtt., sem n. telur að ekki geti komið til mála, t.d. síðari mgr. brtt., sem hljóðar svo: „Undirskrift íslenzks ríkisborgara er ógild undir hvers konar gerninga, nema nafn hans sé löglega tekið.“ Ég er ákaflega hræddur um, að þetta gæti rekizt heldur hastarlega á atvík lífsins. Það er ekki á færi manna út í frá nú orðið að vita það, hvort maður, sem gengur undir ákveðnu ættarnafni og hefur kannske gert það lengi, hefur fengið það nafn löglega eða ekki, en samkvæmt till. væri það svo, að t.d. undirskrift hans undir skuldabréf væri ógild, ef hann skrifaði það nafn, sem hann hefur gengið undir, m.ö.o., að skuld hans væri þá bara strikuð út. Ég sé ekki, að slíkt nái nokkurri átt og stríðir vitanlega algerlega í bága við réttarhugmynd, að þegar maður tekur á sig fjárhagslegar skuldbindingar t.d. og sá, sem kröfuna eignast, veit, hver maðurinn er, en veit að vísu ekki, hvort hann hefur fengið nafnið á allan hátt löglega eða ekki, að hann missti sinn rétt fyrir það. Ég hygg, að þessi till. hreint og beint komi í bága við stjórnarskrána, því að þetta gæti í mörgum tilfellum þýtt það, að menn töpuðu réttmætri eign sinni án nokkurra skaðabóta.

Ekki telur n. heldur, að það sé rétt að telja upp svo nákvæmlega, hvaða gögn það eru, sem skrifa beri nöfnin rétt á. Ég tek t.d. vegabréf til útlanda. Það er nú einu sinni svo, að menn eru neyddir til að fylgja nokkuð síðum þess lands, sem þeir dvelja í eða koma til, og það er óhjákvæmilegt t.d. um konur, sem ferðast með mönnum sínum til útlanda, að vegabréf þeirra beri það með sér, að þær eru giftar þessum manni, og má koma því þannig fyrir, að það komi ekki á nokkurn hátt í bága við íslenzka tungu, þótt það sé þýtt á útlend mál, sem slík vegabréf eru ævinlega á, kona þessa manns, kona Jóns Jónssonar, sem mundi t.d. á Norðurlandamálum vera frú Jón Jónsson. Þetta er óhjákvæmilegt. Í staðinn fyrir það að telja upp vegabréf, skírteini, kjörskrár, manntal o.s.frv. þykir n. nægilegt að ákveða, að það skuli skrifa nöfn manna rétt og lögleg á opinber gögn, ber því fram brtt. við 20. gr. frv., en 20. gr. hljóðar svo:

„Menn skulu rita nafn sitt, eiginnafn og föðurnafn eða ættarnafn, með sama hætti alla ævi, nema lögleg nafnbreyting eigi sér stað.“

Leggur n. til, að aftan við gr. bætist: Með sama hætti skal rita nöfn manna á opinber gögn. — Með þessari brtt. telur n., að hún hafi tekið það mikið tillit sem skynsamlegt er til brtt. hv. þm. Barð. undir 4. lið b. Hv. þm. N-M. (PZ) beindi nokkrum atriðum til n. Eitt var það, hvort ekki væri rétt að fella niður nafnanefndina. Samkv. stefnu menntmn. í þessu máli um að leyfa ættarnöfn og upptöku þeirra hlýtur hún að vera á móti því að fella niður þessa nefnd, því að hún er nauðsynleg til þess að líta eftir því, að ekki séu tekin upp ónefni.

Þá ræddi hann um það, að nauðsynlegt væri að gera það að skyldu að tilkynna nafnabreytingar strax í manntali og opinberlega. N. getur verið þessu út af fyrir sig sammála, en telur, að þessu sé eðlilegra að fullnægja með reglugerðarákvæðum, því að það er auðvitað ómögulegt að taka í lögum út yfir öll tilfelli, sem fyrir geta komið, og vísar því um þetta atriði til síðari brtt. sinnar á þskj. 139 um það, að dómsmrn. skuli setja reglugerð, er kveði nánar á um framkvæmd laga þessara, og sömuleiðis má vísa til þeirrar till. að því er snertir brtt. n. um viðbót við 20. gr.: Með sama hætti skal rita nöfn manna á opinber gögn, — að n. telur, að nánari ákvæði um það megi og eigi frekar að vera í reglugerð en lögum, vegna þess að lögin verða hvort sem er aldrei tæmandi um þessi efni.

Ég skal ekki fara að ræða nú almennt um ættarnöfnin, að hve miklu leyti þau eigi rétt á sér og að hve miklu leyti ekki. Ég skal játa það, að það meiðir mín eyru að heyra sum ættarnöfn og ekki hvað sízt sum þeirra ættarnafna, sem allir eru sammála um að leyfa áfram, bæði andstæðingar ættarnafna og líka þeir, sem vilja leyfa að þau séu tekin upp. Mín máltilfinning er sú, að mér finnst langóviðfelldnust ættarnöfn, sem enda á „sen“, sem minnir á þá dönsku tíma, og sem betur fer virðast menn algerlega hættir að taka upp slík ættarnöfn. Slíkt ættarnafn hefur víst ekki verið tekið upp síðustu hundruð árin, en það eru ættir, sem ganga undir slíkum nöfnum, Thorarensen, Thoroddsen, Thorsteinsen o.s.frv., og það dettur engum í hug að gera till. um að skylda það fólk, sem gengur undir slíkum nöfnum, að leggja þau niður. Aftur eru önnur ættarnöfn, sem ekkert meiða mín eyru, hvað sem um aðra er, nafn eins og t.d. Kvaran, sem við vitum að einn fornmaður hefur borið og er nefnt í íslenzkum sögum. Það er talað um, að það sé kynlaust; það eru til kynlaus orð í íslenzkri tungu fyrir, svo að ég sé ekki, að það muni eyðileggja tunguna, þó að einstaka nafn sé líka kynlaust.