08.12.1955
Efri deild: 27. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (1665)

85. mál, mannanöfn

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. menntmn. fyrir að hafa tekið til athugunar þær brtt., sem fyrir liggja, en get hins vegar ekki verið jafnþakklátur fyrir afgreiðslu málsins frá hendi n., því að það er upplýst, að n. sjái sér ekki fært að breyta verulega afstöðu sinni til málsins í heild, og harma ég mjög, að það skuli vera niðurstaða nm.

Áður en ég fer frekar út í þessar till., vildi ég fara nokkrum orðum um það, sem kom fram hjá hæstv. dómsmrh., er málið var rætt hér síðast. Hann viðurkennir þar, að hann sé sjálfur þeirrar skoðunar, að ættarnöfn ætti að afnema. Þrátt fyrir það ber hann sem dómsmrh. fram frv. um það að ganga miklu lengra inn á þá braut að viðhalda ættarnöfnum en nú er samkv. lögum, og það er eingöngu vegna þess, að hann telur, að það séu svo miklir erfiðleikar á framkvæmdinni. Og raunverulega hafa engin rök komið fram í málinu frá neinum af þeim mönnum, sem hafa mælt með frv., fyrir því að halda við ættarnöfnum, önnur en það, að það sé svo miklum erfiðleikum bundið að framkvæma löggjöfina. Ég hef hins vegar fært hér full rök fyrir því, að það er engum erfiðleikum bundið að framkvæma löggjöfina. Þess vegna undrar mig mjög, að hv. n. skuli ekki hafa getað fallizt á að breyta löggjöfinni á þann hátt, sem lagt er til á þskj. 142, til að tryggja að fullu framkvæmd löggjafarinnar, sem er höfuðástæðan fyrir því, að þeir vilja ekki halda l. óbreyttum né bæta lögin eins og þau eru nú, og engin önnur frambærileg ástæða hefur komið fram.

Hæstv. ráðh. sagði, að Alþ. hefði aldrei gert neina ályktun um að reyna að koma í veg fyrir ný ættarnöfn. Það sannar ekki, að það sé ekki rétt, sem einn nm. í mþn. heldur fram, próf. Alexander Jóhannesson, að ættarnöfnin eins og þau eru tekin upp nú í fullu óleyfi og gegn gildandi lögum, séu tungunni til tjóns. Það sannar aðeins hitt, að hér er um sljóleika að ræða af þingsins hálfu fyrir málinu, og það er allt annars eðlis. Og þó er sljóleiki þingsins fyrir þessu máli ekki meiri en svo, að á hverju einu einasta ári, þegar hefur verið rætt um það, hvort þeir útlendingar, sem eiga að fá ríkisborgararétt, skuli leggja niður ættarnöfn sín eða ekki, hefur jafnan verið meiri hluti í þinginu fyrir því, að þeim skyldi ekki leyft að halda sínum nöfnum, ef þeir ætluðu að gerast íslenzkir ríkisborgarar. Ef hins vegar þetta frv verður nú samþ., verður bundinn endir á þá deilu, því að þá er þeim að sjálfsögðu leyfilegt að taka nöfnin upp eða halda þeim á þann hátt, sem hér er gert ráð fyrir.

Ég sé því ekki, að af hálfu dómsmrh. né nokkurra annarra þeirra manna, sem hafa talað með frv. hér, hafi verið færð fram nokkur rök, sem geti stutt það, að þetta mál eigi að ná fram að ganga.

Hv. frsm. sagði hér á fyrra stigi málsins, að hann væri raunverulega fylgjandi sumu af því, sem kemur fram í brtt. mínum á þskj. 142, eins og hann hefur einnig nú lýst í sinni ræðu hér. Hins vegar er árangurinn ekki meiri en svo, að það er mjög vafasamt, að það sé nokkurs virði að samþykkja þá brtt., sem n. leggur til á þskj. 168, undir tölul. 2. Hitt er ljóst, að sú till. nær ekki því sama og ég vil ná í mínum tillögum.

Hv. þm. spurði í sambandi við þetta, hvernig banki ætti að vita, hvort ættarnafn væri ólöglegt eða löglegt. Ja, ég vil spyrja á móti: Hvernig á banki að vita, hvort eiginnafn er löglegt eða ólöglegt? Hvernig á banki yfirleitt að vita um, hvort nafn manns er löglegt eða ólöglegt? (Gripið fram í: Hann þekkir manninn.) Það er ekki það, sem það byggist á, það byggist á því, að viðkomandi maður sýni vottorð um, hvað er hans löglega nafn. Það byggist ekki á öðru. Og það er hverjum manni auðvelt að krefjast þeirra gagna. Ég veit ekki betur en að þess sé krafizt, þegar börn eiga að fermast, að færð sé sönnun fyrir því, að þau beri rétt nöfn. Svo og þegar fólk giftist, þá er þess líka krafizt. Í mörgum öðrum tilfellum er þess krafizt alveg ófrávíkjanlega. Og þegar bankinn hefur krafizt þess í fyrsta skipti og lært að þekkja þann mann undir því nafni, er honum sannarlega innan handar að vita um það, hvort hann hefur breytt um ættarnafn eða hvort hann ber löglegt nafn á eftir eða ekki, alveg eins og honum er innan handar að vita um það, hvort hann ber löglegt skírnarnafn, svo að þessi rök hv. frsm. eru gersamlega einskis virði í þessu máli. (Gripið fram í: Menn gleyma skírnarvottorðinu.) Það er alltaf hægt að fá þau frá kirkjubókunum. Ég veit t.d., að hv. frsm. muni ekki undir neinum kringumstæðum lána út á veð, nema fyrir liggi veðbókarvottorð. Hversu er þá meira erfiði fyrir hann að kaupa ekki víxil af manni nema fá fulla sönnun fyrir því, hvað er hans rétta nafn. Sannleikurinn er, að það er ekkert auðveldara en að halda fullri reglu á þessum málum. Og rök þau, sem hann færði nú fram í ræðu sinni, að þetta stríði beint á móti ákvæðum stjórnarskrárinnar, eru veigalítil. Er ég steinhissa á, að nokkur láti sér koma slíkt til hugar, að það stríði beint á móti ákvæðum stjskr., að undirskrift sé því aðeins gild, að hún sé rétt. Hér er þess aðeins krafizt, því að það er sannarlega alveg eins hægt að falsa eiginnafn undir skjöl og það er hægt að falsa ættarnafn undir þau.

Það er enginn vafi á því, að ef till. mín um þetta atriði væri samþ., þá mundi hver einn einasti aðili, sem lætur undirskrifa slík skjöl, fyrst og fremst gæta þess, að maðurinn beri rétt nafn, hvort heldur það væri eiginnafn eða ættarnafn, að það væri rétt ritað og hann hefði heimild til þess að rita það þannig, alveg eins og menn verða að hafa full sönnunargögn í hendinni, ef þeir eiga að rita nafn fyrir annan mann og ef þeir eiga að hafa prókúru fyrir fyrirtæki eða eitthvað því um líkt. Það er engum vandkvæðum bundið að tryggja slíkt, að það sé ekki farið þar með annað en það, sem rétt er í málinu.

Hv. frsm. sagði einnig hér, að það hefði verið siður hjá öðrum þjóðum að kenna þegna sína við feður, en þeir hafi horfið frá því og haldi þó bæði tungu sinni og frelsi, eins og kunnugt er. Það er alveg rétt. Þú skal ég benda á, að í Noregi er nú komið svo, þó að þeir haldi frelsi, að sú þjóð á enga tungu, og það er líklega engin stærri sorg til í landinu en að geta ekki sameinazt um eitt tungumál í landinu. Ég geri ekki ráð fyrir því, að meiri hl. hv. n. æski eftir því, að slíkt ástand skapist hér á Íslandi. Og ég er alveg viss um, að ef slíkt ástand væri hér á Íslandi í dag, væri það mjög mikill þröskuldur fyrir því að halda sjálfstæði landsins í framtíðinni, eins og það er alveg vitanlegt, að það var eitt af höfuðskilyrðunum til þess að öðlast sjálfstæði landsins að hreinsa tunguna, eins og ég benti á hér í minni fyrri ræðu. Norðmönnum þykir svo sem ekki nein ánægja að því að vera komnir á það stig nú að geta ekki lesið sitt upphaflega mál, það er síður en svo, þó að þeir haldi sínu sjálfstæði.

Þá benti hv. frsm. einnig á það, að ýmsar af beztu frelsishetjum þjóðarinnar hafa borið og bera enn ættarnöfn, og taldi þar upp ýmsa þá menn, sem hafa staðið í baráttunni fyrir að endurheimta frelsið, en samt sem áður hefðu sumir tekið ættarnöfn og sumir bæru ættarnöfn. Þetta er alveg rétt. En hefðu þessir menn verið nokkuð lélegri baráttumenn í frelsisbaráttunni, þó að þeir hefðu verið nefndir nöfnum samkvæmt íslenzkri tungu? Ég hygg ekki. Og að það hefur ekki valdið neinu tjóni í baráttunni, er fyrir það, að þessir menn hafa þá haft því meiri yfirburði yfir aðra menn, svo að það sannar ekkert um, að það eigi nú að leyfa að taka upp ættarnöfn, nema síður sé.

Þá sagði hv. frsm. einnig, að þau lög, sem snerta almannaheill, megi ekki afnema, þó að þau séu brotin. En svo eru önnur lög, sem snerta persónur manna, og þessi lög heyra undir þann flokk, sagði hv. frsm. Það er náttúrlega ekki að furða, þó að hv. frsm. berjist fyrir því, að þetta frv. verði samþ., ef hann er þeirrar skoðunar, að þetta frv., ef að lögum verður, heyri undir þann flokk. En það gerir það bara ekki. Hér er ekki um persónulegt mál að ræða. Hér er um mál að ræða, sem snertir alla þjóðina. Hér er um það að ræða, hvort á að halda hreinni tungunni eða hvort það á að blanda hana með alls konar orðskrípum, og það snertir sannarlega miklu meira en hvern einstakan mann, það snertir alla þjóðina. Og eins og ég gat um um daginn í minni fyrri ræðu, þá snertir það meira en foreldra þess barns, sem skírt var Laxfossminni. Það snertir alla þjóðina, hvort slíkt nafnskrípi á að festast í íslenzku máli.

Hann benti einnig á, að þetta væri hliðstætt bannlögunum og þess vegna hefðu bannlögin verið afnumin, af því að þau hefðu ekki fengið samúð þjóðarinnar. Þetta er algerlega rangt. — Ég vona, að hæstv. forseti leyfi mér að ræða ósköp lítið um þetta mál, annars skal ég hætta, ef hann gerir aths. við það, en úr því að byrjað var á því að blanda því saman, vil ég benda hv. frsm. á, að það voru allt önnur rök, sem lágu fyrir því, að þau lög voru afnumin. Það var fyrst og fremst kúgun frá öðru landi, sem við gátum ekki selt afurðir okkar til nema leyfa ákveðið magn af vínanda frá því landi inn í land okkar. Þetta var ein ástæðan. Það var í öðru lagi reynslan af því, að ekki var hægt að útiloka vínanda úr landinu, þó að bannlögin væru, og það var í þriðja lagi og kannske langveigamest, að það var stórkostlegur tekjumissir fyrir ríkissjóð að banna vínsölu hér. Ef engin af þessum orsökum hefði verið fyrir hendi. þá er alveg áreiðanlegt, að bannlögin hefðu aldrei verið afnumin á Íslandi, vegna þess að þau voru ekki neitt persónulegt atriði fyrir þjóðina, heldur snertu alla þjóðina og gera enn í dag. Jafnvel þó að vitað sé, að ríkissjóður mundi tapa stórkostlega beinlínis á að afnema þau lög, þá er ekkert séð um það í dag, hvort þau yrðu ekki einmitt afnumin, ef hægt væri að tryggja í framkvæmdinni að þurrka landið af víni. En það er það, sem aldrei hefur tekizt, og það eru margir menn, sem réttilega hafa þá skoðun, að það takist ekki eingöngu með lagafyrirmælum. Þær samþykktir, sem gerðar eru í sambandi við héraðsbönnin, sanna alveg tvímælalaust, að þetta er rétt skoðun á málinu. Þeir menn hafa litið svo á, að það sé ekki um persónulegt atriði að ræða í þeim lögum, eins og það er ekki heldur um persónulegt atriði að ræða viðvíkjandi þessum lögum.

Hv. frsm. sagði hér, að till. mín undir b-lið 4. töluliðar mundi reka sig hastarlega á atvik lífsins, því að það væri ekki á færi almennings að vita, hvaða maður bæri rétt nafn eða ekki. Ég vísa til þess, sem ég hef sagt áður um þetta atriði, að það er ekkert hægara en að hafa fulla tryggingu fyrir því hjá hverjum þeim, sem vill afla sér upplýsinga um það mál.

Þá sagði hv. frsm. einnig í sambandi við 2. mgr. í sama tölulið, undir b-lið, að það væri ekki rétt að telja upp þau gögn, þar sem undirskrift væri ógild, eins og gert var í tillögunni, heldur væri rétt að fara þá leið, sem farin er með brtt. á þskj. 168, að aftan við gr. bætist: „Með sama hætti skal rita nöfn manna á opinber gögn.“ Og alveg sérstaklega benti hv. þm. á, að óheppilegt væri, að í þessari upptalningu væru vegabréf. Nú vil ég spyrja: Er ekki vegabréf opinbert gagn? Fellur ekki einmitt hér vegabréf undir þetta ákvæði, ef samþykkt verður, að með sama hætti skuli rita nöfn manna á opinber gögn? Ber þá ekki einnig að rita þau réttilega á vegabréf? Er þá hægt að rita á vegabréf konu minnar frú Jónsson í staðinn fyrir Hlín Þorsteinsdóttir, eða á konu hv. frsm. frú Stefánsson í staðinn fyrir hennar föðurnafn? Ég held einmitt, að ef þessi till. verður samþ., sé stefnt að því sama og gert er í minni till., nema hvað orðalag í minni till. er miklu skýrara. Og þegar gengið er inn á það yfirleitt, sem vakir fyrir mér sem flm. með þessari till., þá sé ég ekki, hvers vegna á ekki að samþykkja till. eins og hún liggur fyrir. Hitt er svo hrein fjarstæða, að þetta megi ekki gera, vegna þess að við þurfum að vera að beygja okkur fyrir siðum annarra þjóða, þó að við ferðumst meðal þeirra. Hvaða útlendingi dettur í hug að fara að kalla sig íslenzku nafni, þó að hann komi hingað til Íslands? Mundu Kínverjar t.d. taka hér upp íslenzk nöfn eða rita sig með íslenzku nafni að íslenzkum sið inn í bækur hér, á meðan þeir dveljast hér, eða hafa Danir nokkurn tíma gert það? Ég hef aldrei þekkt slíkt. Ég hef aldrei nokkurn tíma þekkt, að nokkur þjóð fari að breyta sérstaklega sínu nafni, þó að hún standi við nokkra klukkutíma í öðru landi, nema Íslendingar. Ég held, að það sé engum erfiðleikum bundið í sambandi við vist á hótelum með konur sínar að halda íslenzkum sið. Ég hef aldrei orðið var við, að það væri neinum erfiðleikum bundið að koma viðkomandi aðilum í skilning um, að það sé engin hjákona, sem maður er með, þó að hún sé ekki skráð frú þetta eða frú hitt. Ég veit ekki, hvað aðrir menn hafa orðið varir við, þegar þeir hafa verið að ferðast, en ég hef ekki orðið var við slíkt, og það kann að vera þess vegna, að ég sæki það miklu fastar en aðrir, að hér sé haldið hinum íslenzka hætti í þessum atriðum.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar. Það verður gert út um það efnislega hér við atkvgr., hvort meiri hl. þessarar hv. d. vill fallast á að halda við ættarnöfnum í ríkari mæli en nú er gert, eins og farið er fram á í frv., eða hvort hann vill stöðva það.

Ég skal svo að síðustu aðeins benda á, að það er alveg rangt, sem hv. frsm. sagði áðan, að það lægju engar till. fyrir um að afnema hin gömlu ættarnöfn, því að í minni till., 4. tölulið undir a, er lagt til að sé sett inn ný grein, sem yrði 10. gr. og hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir íslenzkir ríkisborgarar, sem tekið hafa ólögleg ættarnöfn, skulu hafa lagt þau niður fyrir árslok 1956 og kennt sig við föður samkv. fyrirmælum 7.-9. gr. þessara laga.“ Það er m.ö.o., að allir Thoroddsenar, allir Thorsteinsenar og allir „senar“ í landinu og aðrir, sem hafa ólögleg ættarnöfn og eru fæddir eftir 23. sept. 1925, eiga að vera búnir að skipta um þessi nöfn og skrá sig að íslenzkum hætti fyrir árslok 1956. Og svo segir hv. frsm., að það séu engar till. um þetta atriði. Ja, ég verð að segja, að hv. þm. hefur alls ekki lesið þessa till., ef hann heldur því fram, að það hafi ekki komið fram till. um að leggja þessi nöfn niður. — Hitt er svo annað atriði, að það eru ekki till. um að taka þessi nöfn af þeim mönnum, sem löglega hafa þau í dag, en þeir eru ekki svo margir í landinu og hverfa skjótt, ef till. mínar eru samþ.

Ég skal svo ekki að öðru leyti ræða þetta mál, en ég hef talað um það tvísvar, og mun þá ekki heldur taka til máls aftur í þriðja sinn.