06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í C-deild Alþingistíðinda. (1673)

85. mál, mannanöfn

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Enda þótt nokkuð sé síðan þessu frv. var útbýtt hér á Alþ., er ég ekki við því búinn að gera því þau skil, sem verðugt væri.

Hæstv. menntmrh. mun hafa látið þess getið í fyrra, þegar rætt var um ættarnöfn og skyldu útlendinga til þess að taka upp íslenzk nöfn, ef þeir vildu öðlast íslenzkan ríkisborgararétt, að það hefði verið léleg framkvæmd á l. um mannanöfn, eftir fyrirmælum þeirra hefði ekki verið farið og þau margfaldlega brotin og hér í landi væru mörg ólögleg ættarnöfn.

Ég efast ekkert um það, sem hæstv. ráðh. hafði þá á orði og hefur vikið að, nú þegar þetta frv. er lagt hér fram, að það er sjálfsagt nokkuð til í því, að síðan þessi lög voru sett, 1925, lög um mannanöfn, hafi verið tekin upp ólögleg ættarnöfn, og mönnum hefur verið látið haldast það uppi að nota þessi ættarnöfn óátalið, eftir því sem ég veit bezt, af þeim, sem eiga að annast framkvæmd þessara laga og hafa aðgæzlu með framkvæmd þeirra. Þó að þetta hafi gengið svona til, finnst mér, að það sæti furðu, að sakir þess að löggjöfin er brotin, þá eigi sama sem að afnema hana. Það er a.m.k. í þessu falli, eins og breytt er til um þetta mál, sama sem afnám hinna eldri laga um það, að menn megi ekki taka upp ættarnöfn. Eftir þessu frv., sem hér liggur fyrir, á það að vera heimilt eftir settum reglum að fengnu áliti þar til kvaddra manna, mannanafnanefndarinnar, sem skipa á, og þess á svo að gæta, að farið verði eftir fyrirmælum þessara laga um ættarnöfn og mannanöfn. Þetta er nú góðra gjalda vert og sjálfsagt ósköp dýrðlegt að mega hugsa til þess, að nú skuli verða farið í þessum efnum að lögum. En má ég spyrja: Hver er kominn til að segja það, að menn vilji ekki brjóta þessa löggjöf? Mundi ekki þurfa að hafa eitthvert eftirlit með henni, svo að hún yrði ekki brotin, og ef hún væri nú brotin, mundi þá ekki þurfa að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að kippa slíku í lag, en er þá eitthvað auðveldara að fullnægja þessu lagaboði en hinu eldra um það, að eftir l. sé farið? Það þykir mér einkennilegt, ef svo er, og aldrei fyrr hef ég heyrt talað um það hér á Alþ. að afnema lög sakir þess, að lög eru brotin. Því miður mun það vera svo, að t.d. bifreiðalög eru brotin, sú löggjöf, sem er í alla staði nauðsynleg og varðar miklu að haldin sé. Aldrei hef ég heyrt talað um það, að af því að þessi löggjöf sé brotin, væri rétt að afnema hana. Þvert á móti hefur það komið til orða, sem líka er í alla staði eðlilegt, að það eigi að herða og skerpa þessa löggjöf, svo að þeir, sem verða brotlegir við hana, verði enn eftirminnilegar en áður á það minntir, að eftir þessari löggjöf eigi þeir að fara og hegða sér, og er það í alla staði eðlilegt sakir þeirrar miklu þýðingar, sem þessi löggjöf hefur gagnvart umferð manna á vegum úti.

Nú býst ég við, að mér verði svarað því til, að þetta sé nú allt annað, því að menn eigi líf sitt í hættu, ef eftir þessari löggjöf verður ekki farið. Ég skal játa það. En er það víst, ef lengra er litið og betur er skoðað, að þjóðin eigi öllu minna undir því, að hún sé á verði um sína tungu? Og hinn forni nafnasíður okkar Íslendinga er eitthvert sterkasta atriðið í verndun málsins, að við höldum uppi okkar gamla nafnasið. Þess mættum við líka vera minnugir, ekki sízt þeir hv. þm., sem flestir tóku þátt í því, þegar Ísland endurheimti frelsi sitt, að það var fyrst og fremst sakir þess, að þjóðin hafði varðveitt sína menningu og sína tungu. Ef þjóðin hefði verið búin að tapa máli sínu að miklu eða öllu leyti, mundum við aldrei hafa endurheimt frelsi okkar. Eitthvert það sterkasta og sérkennilegasta einkenni þjóðarinnar, að við værum sérstök þjóð, var einmitt okkar bókmenntir og að við héldum okkar tungu. Sama kynslóðin sem að því hefur staðið að endurheimta frelsið, nærri því sama þingið, nærri því sömu þingmennirnir sem tóku þátt í því að endurheimta frelsi þjóðarinnar, það væri hörmulegt, ef það ætti svo að liggja fyrir þeim að útbúa löggjöf, sem gæti jafnvel vel orðið fyrsta sporið til þess að brjála okkar tungu og að við að lokum töpuðum henni. Það væri ömurlegt hlutskipti.

Hæstv. ráðh. vitnaði til þess undirbúnings, sem þetta mál hefur fengið, að sérstök nefnd hefði verið skipuð til þess að annast undirbúning þess. Því miður finnst mér, að sjónarmið þeirra mætu manna, sem hafa útbúið þetta mál, hafi verið allt annað en æskilegt, að einum nefndarmanninum undanskildum. Og þó að allir þeir menn, sem við þetta verk fengust, séu mætir menn, — það skal ég vissulega bera, — þá vill það þó svo til, að sá maðurinn í þessum hópi, sem hefur langsamlega mesta þekkingu á, hverja þýðingu það hefur um verndun tungu, og hefur mesta þekkingu á bókmenntum, er algerlega á móti þessu máli og vill, að við höldum uppi okkar forna nafnasið, og færir það til, sem vonlegt var, að með því móti verði tungunni bezt borgið, að við höldum þessari venju. — Það koma fram í áliti þessara manna einnig þau sögulegu rök, sem þeir minnast á, að fram á síðustu aldir helzt málið óspjallað af ættarnöfnum, en byrjunin var, að útlendir menn, er hingað komu og dvöldust hér um skeið, héldu sínum ættarnöfnum, og það var fyrsta sporið til þess, að nokkrir Íslendingar fóru að taka upp ættarnöfn, og er réttilega á það bent, að meðferð þeirra í íslenzku er þannig, að þau eru notuð sem beygingarlaus orð. Það er einnig vitnað til annarra þjóða, nágrannaþjóða vorra, Norðurlandaþjóðanna, um hvaða nafnasiður gilti hjá þeim og hvenær þær breyttu til, og það er einnig á það bent, að eftir að þær breyttu til um sinn nafnasið, leið ekki á löngu þar til hann var algildur orðinn hjá þeim, upptaka ættarnafna, og mál þessara þjóða meira og minna brjáluð. Og ein af frumrótunum til þeirra breytinga og þeirra málspjalla, sem þetta varð hjá öðrum þjóðum, var einmitt nafnasiðurinn.

Hæstv. ráðh. drap aðeins á þetta eina atriði, sem mér skildist að vekti fyrir honum, að af því að lögin hefðu verið brotin, væri þetta tilraun til þess, að sú löggjöf, sem með þessu móti væri sett, yrði haldin. Vel má vera, að hæstv. menntmrh., sem nú er, ætli sér að vera vel á verði um framkvæmd þessarar löggjafar og sjá til þess, að ekki verði óþjóðleg ættarnöfn tekin upp, eftir því sem hann kann að líta á og mannanafnanefndin kann að leggja til. Ég vil ekki efast um þetta. En finnur ekki hæstv. ráðh., hver vandi honum er fenginn á hendur að annast slíka framkvæmd, og er það alveg víst, að mannanafnanefndin, sem sett verður, verði þá vel á verði um að gæta þess, að það komi ekki upp óþjóðleg nöfn? Og úr því að byrjað er með ættarnafnafarganið, hvar verður látið staðar numið, mundi það ekki fara eins og hjá öðrum þjóðum, sem tekið hafa upp þennan nafnasið, að þar eru engin takmörk fyrir? Mér er sagt, að í þýzkri tungu muni vera um 6 millj. manna, sem hafa ættarnafnið Müller. Allir þekkja til í Danmörku, hvað eru margir Larsenar, Sörensenar, Petersenar og þess konar nöfn. Um ættfræðina úr því þarf ekki að tala, hvernig það fer úr höndum með ættfræðina. á Íslandi, eftir að búið væri að taka upp svona nafnasíð. Það væri búið að gera það svo torvelt, að það yrði lítið upp úr ættfræði leggjandi, eftir að þessi nafnavenja væri tekin upp og hún yrði almenn.

Mig furðar á, að hv. Ed. skyldi afgreiða þetta mál á þann veg, sem hún gerir. Það er rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það má heita, að Ed. hafi afgreitt málið eins og það var lagt fyrir hana. En það gekk þó ekki alveg óbreytt í gegn, og það er svona ofur lítil bending um, hvert haldið muni verða, ef þetta yrði að lögum og ætti að fara að framkvæma þau. Í fyrstu brtt. þeirrar n., sem var samþ. með minni hluta atkvæða vafalaust í d., — það reyndar veit ég nú ekki alveg með víssu, en ég veit með víssu, að þetta mál var afgreitt með minni hluta dm. sem betur fór til hv. Nd., - en breytingin hljóðar um það, að ef útlend kona giftist Íslendingi, sem hefur ekki ættarnafn, þá má hún kenna sig við föður eiginmannsins á sama hátt og hann. Þetta er nú fyrsta sporið, þá eru konurnar orðnar son, en ekki dóttir. Það bendir til, hvernig bragðið muni verða á þessu og hver blærinn muni verða á þessu máli, þegar til framkvæmdanna kemur, ég tala nú ekki um, þegar lengra frá líður.

Ef litið er svo á efni málsins að öðru leyti, þá sýnist mér sem um framkvæmd þessarar löggjafar verði margs að gæta og það muni vel geta borið til, að þó nokkuð mörg atriði löggjafarinnar verði brotin, það þurfi að vera talsvert vel á verði um það. Og mikið má það vera góð trú, ef menn halda fyrir fram, að það verði auðveldara að gæta þessarar löggjafar en þeirrar, er nú gildir, þar sem þetta er enn margbrotnara og flóknara en þó þar sem algert bann er við upptöku nýrra ættarnafna eftir núverandi löggjöf. Hitt get ég viðurkennt, að löggjöfina eins og hún er skortir nokkuð á það að vera eins úr garði gerð og þyrfti að vera; það skal ég játa. En mér finnst, að það hefði verið á allan hátt betra og réttara að fullkomna löggjöfina, sem við höfum nú um nöfn og ættarnöfn, heldur en að afnema hana og setja þetta í staðinn.

Ég ætlaði mér ekki í þetta sinn, vegna þess að ég var ekki sérstaklega við því búinn, að tala langt mál um þetta, en ýmis atriði í grg. fyrir þessu frv., sem nm. hafa látið fylgja því, eru sterkustu röksemdirnar með því, að þetta mál á alls ekki að verða afgreitt í þeim búningi, sem það er í, og er talandi vottur þess, að það ber að forðast að innleiða nýjan nafnasíð í okkar landi. Við eigum heldur að umbæta það, sem áfátt er um nafnavenju okkar, þar sem við höfum farið út af réttu spori og þeirri einu réttu leið, sem við áttum að halda í heiðri, það er verndun okkar tungu, og halda uppi okkar forna nafnasið. Það hefðum við heldur átt að gera, að endurbæta og lagfæra það, en að hverfa frá margra alda gamalli venju, eins gamalli venju og þjóðin er gömul, og taka upp nafnavenjur, sem geta orðið háski fyrir okkar menningu og tungu.

Komi þetta mál aftur frá hv. menntmn. og verði till. hennar eitthvað í þeim búningi, sem þetta frv. bendir til, þá vildi ég gjarnan geta tekið þátt í því frekar að ræða um þessi atriði, en ég þykist reyndar vera þess fullviss, að þessi hv. d. afgreiðir ekki þetta mál í þessum búningi, sem það er, hún kippir því í lag, þannig að sú forna venja, sem við höfum haft í heiðri að mestu leyti fram að þessu, verði látin gilda.

Nokkrum sinnum hefur borið við á undanförnum árum, þegar tíðrætt hefur verið um erlenda menn, sem hafa óskað eftir íslenzkum ríkisborgararétti, að það hefur verið gert að skilyrði, að þeir tækju upp íslenzk nöfn. Þessi hv. d. hefur verið á verði um, að slíkt væri gert, og sem betur fer hefur verið þó nokkur meiri hl. deildarinnar, sem hefur jafnan staðið á verði um það og verið með því. Það kemur þess vegna ekki til mála, að nú hverfi hún frá þeirri stefnu, sem gilt hefur í þessum efnum, og stuðli að gerbyltingu í þessum efnum meðal þjóðarinnar. Og það má gjarnan segja hér um leið, að þeir menn, sem voru talsmenn fyrir því, að þeir fullorðnu ríkisborgarar, þeir erlendu ríkisborgarar, sem sóttu um íslenzkan ríkisborgararétt, héldu ættarnöfnum sínum, vildu leyfa þeim að halda sínum fyrri ættarnöfnum, þó að erlend væru, aðeins þá stund, sem þeir lifðu, en að niðjar þeirra og eftirkomendur yrðu að öllu leyti að uppfylla okkar nafnaskyldur. Og það er allt annað atriði, sem vakti fyrir þeim mönnum, sem vildu leyfa útlendingunum að halda sínum ættarnöfnum, þ.e.a.s. fullorðnum mönnum, meðan þeir lifðu, heldur en þetta, því að hér er náttúrlega gengið alveg inn á nýja braut og á ekkert skylt við þessi atriði í raun og veru, sem hefur áður verið talað um hér í þessari hv. d. viðvíkjandi útlendingunum, sem sóttu um íslenzkan ríkisborgararétt. Það þótti sem sé fullmikill strangleikur gagnvart þeim að heimta af þeim, að þeir skiptu algerlega um nafn og tækju upp íslenzk heiti, en samt sem áður var meiri hluti d. og þó nokkuð mikill meiri hluti, sem var þessu fylgjandi. Ég er þess vegna alveg öruggur um það, að þessi hv. d. lætur ekki fara frá sér frv., sem heimilar nú, að tekinn sé upp gersamlega nýr nafnasiður og farið verði að taka upp ættarnöfn. Og þó að tilgangurinn sé í byrjuninni góður, að það verði engin orðskrípi, býst ég við því, að áður en varir fari þar að kenna margra grasa og þá verði nokkuð erfitt um framkvæmd slíkrar löggjafar og miklu erfiðara en að framkvæma nafnalögin, sem nú gilda.