06.01.1956
Neðri deild: 39. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í C-deild Alþingistíðinda. (1676)

85. mál, mannanöfn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er feginn þeim umræðum, sem hér hafa orðið, vegna þess að þær sýna, að a.m.k. hefur flutningur þessa frv. vakið menn til umhugsunar og vonandi framkvæmda í þessu máli. En þannig vill til, að í gildi hafa verið um 30 ára bil lagafyrirmæli, sem aldrei hafa verið framkvæmd, og er merkilegt, að svo skeleggir og eindregnir forustumenn og áhugamenn um þessi efni eins og hv. 1. þm. Árn. hafa setið á Alþ. allan þann tíma og aldrei að fundið því aðgerðarleysi stjórnarvaldanna, sem átt hefur sér stað. Er mér mikil gleði, að ég skuli þó hafa getað með þessum hætti vakið hans áhuga. Það er ekki fyrr en hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) bar hér í fyrra eða hittiðfyrra fram á Alþ. fyrirspurn um það, hvernig væri háttað framkvæmd þessara laga, að nokkurn tíma hjá nokkrum þm. hafi lýst sér áhugi fyrir framkvæmd l. frá 1925. Hv. 8. þm. Reykv. er sá eini, sem virðist hafa haft einhverja hugsun á því, að þessi lög væru í gildi, og þegar ég skýrði frá því, hvernig framkvæmdin hefði verið, þá minnist ég þó ekki, að hann bæri fram neina aðfinningu gegn því allsherjar framkvæmdaleysi, sem verið hafi, og enn þá síður, að aðrir þm. vöknuðu .þar við og hreyfðu athugasemdum.

Ég fyrir mitt leyti er ákaflega andstæður þeirri löggjöf, sem reynslan sýnir að er óframkvæmanleg, og það er auðvitað mesti misskilningur, að það tjái í því sambandi að vitna í það, að skattalög séu brotin og annað þess háttar. Við vitum, að það er enginn borgari, sem ekki viðurkennir nauðsyn skattalaga. Hitt vitum við, að það er mjög sterkt almenningsálit, sem telur, að löggjöf eins og þessi eigi ekki rétt á sér, og einmitt þess vegna hefur engin ríkisstj., svo margbreyttar sem þær hafa verið á þessu 30 ára bili, leitazt við að framkvæma þessi lög. Þau hafa verið gersamlega dauður bókstafur, Alþingi, ríkisstjórn og löggjafarvaldinu til skammar. Þar við bætist, að lögin eru ákaflega vafasöm að efni að því leyti, að menn greinir á um, hvað í þeim felst, auk þess sem þau gera mjög upp á milli manna, þannig að sum ættarnöfn eiga að vera alveg bönnuð, önnur eiga að vera bönnuð um sinn, eiga að vera bönnuð eftir tiltekinn tíma og þó mismunandi í hverju einstöku tilfelli, en þriðji hópurinn og sum af þeim leiðustu og óþörfustu að gerð eiga að lifa um aldur og ævi. Slíka löggjöf tel ég ekki til fyrirmyndar. Og ég vil algerlega neita því, að þetta frv., sem ég viðurkenni að er að öðru leyti mjög mikið áhorfsmál, þess aðalatriði varðandi ættarnöfnin, ýti undir ættarnöfn frá því, sem verið hefur. Það er þvert á móti tilgangur minn með flutningi frv. að reyna að koma í veg fyrir, að ný ættarnöfn verði tekin, og tryggja, að þau, sem tekin verði, séu í betra samræmi við lögmál íslenzkrar tungu en þau ættarnöfn hafa verið, sem bæði hafa tíðkazt hér frá fornu fari og tekin hafa verið upp ólöglega síðustu árin.

Mér er engin launung á því, að mín skoðun sjálfs er sú, að langbezt væri, að ættarnöfnum væri með öllu útrýmt úr íslenzkri tungu, þó að ég verði hins vegar að játa, að á því eru vissir annmarkar. Svo margir mætir Íslendingar og framúrskarandi menn í okkar þjóðernisbaráttu fyrr og síðar hafa borið ættarnöfn, að við getum ekki lengur sagt, að ættarnafn sem slíkt hljóti endilega að bera merki um óþjóðrækni. og að því leyti eru ættarnöfnin runnin inn í íslenzka sögu og orðin þáttur í henni. Engu að síður tel ég, að það væri Íslendingum til heiðurs og stolts, ef við gætum á ný eingöngu tekið upp okkar gamla nafnasið, og ég skal verða því eindregið fylgjandi og öruggur talsmaður þess, ef hægt er að fá meiri hluta á Alþ. til slíkra framkvæmda. En þá vil ég, að við horfumst í augu við verkefnið, segjum ekki, að börn okkar eða barnabörn eigi að gera það, eins og hv. 1. landsk. þm., sem telur að það sé ágætt, að góðir menn nú á dögum beri ættarnöfn, en það eigi bara að hindra blessuð börnin og barnabörnin í að gera það. Nei, ég segi: Við skulum þá hafa kjark til þess að banna öll ættarnöfn öllum Íslendingum t.d. frá upphafi næsta árs. Ef menn vilja sameinast um slíka framkvæmd og þá segja, eins og kom fram í efri deild: Á kjörskrám, í öllum opinberum stöðum skulu allir menn nefnast eftir hinum forna íslenzka nafnasið, ekkert víxilblað eða skuldbinding skal tekið gilt, nema þessi aðferð sé höfð, — og séu enn fremur hæfilegar sektir lagðar við, til þess að hægt sé að framfylgja l., þá skal ég vera með í slíkri lagasetningu. Og hvort sem ég verð í ríkisstj. til að fylgja þar eftir eða ekki, skal ekki standa á mínum stuðningi. En ég er í þessu máli eins og öðrum algerlega á móti því að látast, að þykjast ætla að gera eitthvað, sem maður ætlar ekki að gera, að þykjast vera á móti ættarnöfnum, en segja bara: Ja, það eru blessuð börnin,sem eiga ekki að bera það, en ég ætla sjálfur að bera það. — Ég held, að engum slíkum aðferðum sé sæmilegt eða hæfilegt að beita. Ef maður vill láta gott af sér leiða, er öruggasta leiðin sú að sýna með eigin fordæmi, að maður trúi á eigin kenningar. Þá er fyrir þá góðu herra, sem nú eru á móti ættarnöfnum, en hafa orðið fyrir þeirri ógæfu að hljóta þau og geta þess vegna ekki kennt sjálfum sér um, að sýna það að kasta ættarnöfnunum, skapa þar með almenningsálitið gegn þessum ósið, sem ég tel fyllilega að sé ósiður.

Ég tel, ef þetta frv. er rétt skilið, en ekki rangtúlkað, eins og hér hefur verið gert, að þá mundi það geta átt þátt í því að skapa aðhald í þessum efnum og meiri takmarkanir á ættarnafnaupptöku en verið hefur fram til þessa. Og það er einungis vegna þess, að ég var sannfærður um það, að frv. mundi verka í þá átt, sem ég tók að mér flutning þess, eftir að þeir menn skiluðu því í mínar hendur, sem höfðu verið fengnir til þess að semja frv. og reyna að finna lausn í því.

Ég álít sem sagt, að þarna sé um tvær aðferðir að ræða, annars vegar þá, sem er í frv., að reyna að veita þessum síð andstöðu, en að svo miklu leyti sem menn treysta sér ekki til þess að kveða hann niður, að reyna þá að fella hann í þá rás, sem geri minnstan skaða. Ef menn telja, að þetta sé of linlega að farið, þá á að horfast í augu við að koma á breytingu, sem aldrei verður, nema hún sé gerð í eitt skipti fyrir öll. Það er alveg víst, að ef svo ágætir menn sem nú eru uppi á Íslandi og bera ættarnöfn, eins og sumir þm. í þessari hv. d., halda áfram með sínu fordæmi kannske 30, 40 til 50 ár enn þá að bera þessi nöfn og hamra þau inn í hugsun þjóðarinnar, þá verður miklu örðugra að fá siðinn afnuminn en ef við reynum að skapa öldu í dag og segja: Nú ætlum við að breyta hér til, og við skulum gera það svo rækilega að skipta um frá næsta ári og láta alla menn kenna sig að gömlum og góðum íslenzkum sið. — Ef hv. d. vill leggja lið að slíku, þá skal ég verða því eindregið fylgjandi.

Að öðru leyti vil ég benda á, að þótt við tölum nú um þetta atriði sem kannske eitt aðalatriði frv., þá eru, eins og lítillega hefur komið fram, ýmis önnur efni, sem frv. fjallar um. Og ég tel, að jafnvel þótt menn vildu breyta þessu meginatriði í þá átt, sem hv. 1. landsk. talaði um, ég heyrði nú ekki nema part af því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði, — að menn ættu að fella breytingar sínar inn í frv., vegna þess að fyrir utan þetta atriði eru í frv. ýmis þörf nýmæli, þannig að annaðhvort ætti að fella breytingarnar inn í þetta frv. eða þá taka þær upp í sérstöku frv., þannig að það gæti orðið að gagni. Kemur það alveg í einn stað niður, hvort það er í þessu frv. eða öðru. Aðalatriðið er, að það af frv., sem menn eru sammála um að horfi til góðs, nái fram að ganga að efni til. Hér er ekki um neitt metnaðarmál eins eða neins að ræða, enn síður nokkurt stjórnmál í venjulegum skilningi eða pólitískt atriði, þannig að hægt ætti að vera að reyna að finna á þessu mjög vandasama máli einhverja þá lausn, sem meiri hlutanum féll í geð, en jafnframt — og á það legg ég megináherzlu — sé framkvæmanleg.