14.11.1955
Efri deild: 17. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í C-deild Alþingistíðinda. (1685)

97. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Frv. þetta er að vísu ekki langt, en ég geri þó ráð fyrir, að það verði ef til vill frekar deiluefni en það frv. um skemmtanaskattinn, sem var hér til umr. næst á undan.

Svo er mál með vexti, að í lögum hefur verið heimild til undanþágu frá skemmtanaskatti um skemmtanir til styrktar málefnum, er miða að almenningsheill. Þetta er mjög óákveðið orðalag, og hefur verið töluvert á reiki, hverjum ætti að veita undanþáguna. Svo hafa einstakir umsækjendur, sem ekki hafa fengið undanþágu hjá stjórnarvöldum, látið málið koma fyrir dómstóla og þeir talið félög eiga rétt á undanþágu um skemmtanir, sem rn. hafði ekki talið ástæðu til að veita undanþágu. Þetta gerir enn þá meiri glundroða í framkvæmdinni en áður var og hefur haft þau áhrif, að ákaflega erfitt er að segja um, hverjir eiga rétt á undanþágu, vegna þess að svo virðist sem rn. hafi ekki aðeins heimild, heldur beina skyldu til þess að veita undanþágur, og ef það er skyldugt að veita undanþágu öllum þeim, sem efna til skemmtana, er miða að almenningsheill, þá er í raun og veru í mörgum tilfellum botninn dottinn úr skemmtanaskattslögunum, vegna þess að þá þurfa menn ekki annað en að hafa einhvern góðan tilgang að yfirvarpi, láta síðan mikinn kostnað lenda á skemmtuninni, kostnað, sem rennur að verulegu leyti til þeirra, sem fyrir skemmtuninni standa, en verða svo skattfrjálsir að lokum með skemmtunina, af því að sá hreini ágóði, sem kallaður er, er látinn renna til einhverrar þarflegrar stofnunar. En þá geta hinir og þessir aðilar verið búnir að taka bróðurpartinn af þeim raunverulega ágóða í sinn hluta fyrir ýmiss konar ómak.

Það er greinilegt, að þessi framkvæmd, sem orðin er, dugir ekki, og það var til þess að koma í veg fyrir slíka misnotkun, sem þetta frv. var samið. Það er aðallega tollstjórinn í Reykjavík, sem er þessum málum allra manna kunnugastur, og fulltrúi í menntmrn., sem það hafa undirbúið.

Nú er annars vegar vissum skemmtunum í þessu frv. veitt skilorðslaus heimild til undanþágu, og þar að auki er ráðh. veitt heimild til að veita undanþágu, sem er þá ekki skylda, sem á honum hvílir, heldur komið undir mati hans, þannig að aðilar geti ekki borið synjun á notkun þeirrar heimildar undir dómstólana, svo sem verið hefur.

Það hefur verið reynt að fylgja sem mest þeirri framkvæmd, að svo miklu leyti sem rn. taldi hana vera heppilega, sem á er komin, en mér er þó ljóst, að í þessu eru ákaflega mörg vafaatriði. Það er viðbúið, að sumir aðilar telji nærri sér höggvið og telji, að rétt sé, að þeir hljóti undanþágu, þótt hún sé ekki ráðgerð þeim til handa í þessu frv. En þá er líka á það að líta, að þeim mun rýmri sem undanþágurnar verða, þeim mun minna fé er hægt að verja til þjóðleikhússins, til félagsheimila úti um land og til annarrar þarflegrar starfsemi, sem á að njóta góðs af skemmtanaskattinum. Hér er því um verulegt vandamál að ræða, og mér er ljóst, að viðbúið er, að sumum finnist, að öðruvísi hefði átt að kveða á um þetta en gert er í frv. Þar er þó farið eftir tillögum þeirra manna, sem mesta hafa æfingu um úrlausn þessara efna, og treysti ég því, að hv. þingnefnd, sem fær málið til athugunar, íhugi það í samráði við þessa aðila, ef veruleg vafaatriði koma upp.

Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta, en legg til, að frv. fari til 2. umr. og þá til hv. fjhn. eins og fyrra frv. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. segir, að það sé öðruvísi, og það er að vísu rétt, en þarna er fyrst og fremst um fjárhagsmálefni að ræða, hvað menn vilja hafa yfir miklum fjármunum að ráða til þeirra þarflegu hluta, sem skemmtanaskatturinn á að renna til, svo að ég held, að bezt sé, að fjhn., sem er vön að leysa úr miklum fjárhagsþrautum, fái málið til meðferðar.