19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í C-deild Alþingistíðinda. (1704)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka meiri hl. n. fyrir afgreiðsluna á þessu frv. og sömuleiðis það, að meiri hl. hefur tekið aftur fyrri brtt. sína á þskj. 244.

Ræða frsm. meiri hl. gefur ekki tilefni til þess, að ég ræði þetta mál neitt að ráði, og ræða frsm. minni hl. gefur naumast heldur stórt tilefni til að setja hér upp langa ræðu.

Hv. minni hl. segir á þskj. 253: „Minni hluti nefndarinnar er mjög hlynntur því, að Iðnaðarmálastofnun Íslands verði efld.“ Ég trúði þessu, þangað til ég heyrði ræðu hv. frsm., því að eftir að ég hef hlustað á þá ræðu, getur það ekki farið saman, að hann vilji efla Iðnaðarmálastofnun Íslands og játast undir það eða meina það, sem hann hér hefur sagt og túlkað, því að hann hefur haldið því fram í sinni ræðu, að við hefðum ekki efni á því að hafa margar stofnanir, sem væru á líku sviði. Frá hans sjónarmiði virðist Iðnaðarmálastofnun Íslands hafa það höfuðverkefni að vinna þau verk, sem rannsóknaráði ríkisins er ætlað og atvinnudeild háskólans. Það var ekki hægt að heyra annað á ræðu hv. frsm. en að Iðnaðarmálastofnunin væri með öllu óþörf, þar sem allir, sem á hann hlýddu, gátu ekki skilið hann öðruvísi en svo, að rannsóknaráð ríkisins og atvinnudeild háskólans gætu innt þau verk af höndum, sem Íðnaðarmálastofnuninni er ætlað að vinna. Þess vegna er það alveg öfugmæli hér á þskj. 253, að minni hl. vilji efla Iðnaðarmálastofnun Íslands.

Eftir því sem fram kom í ræðu hv. frsm. minni hl., vill hann, að Iðnaðarmálastofnun Íslands starfi ekki, til þess að rannsóknaráð ríkisins, sem nú hefur ekki nóg fjármagn, hafi meira fé til umráða til þess að vinna það, sem því er ætlað að gera. En það eru ekki allir, sem betur fer, á sama máli og hv. frsm. minni hl. Og satt að segja öfunda ég hv. minni hl. ekki af þessari skoðun. Það er þegar komið í ljós, að Iðnaðarmálastofnun Íslands hefur unnið mjög þarft og mikilvægt starf í þjóðfélaginu. Hún á sér ekki langa sögu, en hún hefur verið brautryðjandi.

Hún hefur unnið mjög þarft og þýðingarmikið starf, og það eru ekki aðeins iðnaðarmenn í þessu landi, sem tengja miklar vonir við þessa stofnun, ég fullyrði, að það er meiri hluti landsmanna, allra þeirra, sem tækifæri hafa haft til að kynna sér og fylgjast með starfsemi stofnunarinnar.

Það er rétt, að það er starfandi atvinnumálanefnd ríkisins, þar sem eru 7 menn. Ég átti tal við einn af þessum nefndarmönnum í gær, og hann kannaðist ekki við það að hafa léð því atkv. og óska eftír, að frv. væri frestað. Hann kannaðist ekki við annað en að það hefði verið rætt um 2. gr. frv., sem helzt kemur að einhverju leyti inn á það verksvið, sem frsm. minni hl. var að ræða um áðan, þ.e. rannsóknaráð ríkisins. Þó er það eftir því, hvernig gr. er túlkuð. Ég vil segja það, að ég er til viðræðu um að breyta þessari gr., og hv. minni hl. hefði verið sæmra að koma með brtt. við þessa gr. heldur en að leggja til, að frv. væri vísað frá, ef honum væri annt um, að Iðnaðarmálastofnunin væri efld og lifði. En það er vegna þess, að hann meinar það, sem hv. frsm. minni hl. sagði hér áðan, að Iðnaðarmálastofnunin sé raunverulega ekki þörf. Þeir koma ekki með brtt. við eina gr. frv. til lagfæringar eða breytingar, heldur að vísa málinu frá í von um, að það geti dagað uppi, ekki aðeins á þessu þingi, heldur og framvegis.

Hv. frsm. sagði hér áðan, að það væri ekki stórmál, hvort þetta mál yrði að lögum eða hvort því yrði frestað. Ég hygg þó, að það sé frá hans sjónarmiði nokkuð stórt mál, að því verði frestað, ef hann meinar það, sem hann sagði hér áðan. En þeir, sem vænta góðs af Iðnaðarmálastofnuninni og hafa gert sér grein fyrir því, að hún hefur þýðingarmiklum störfum að gegna í þjóðfélaginu, telja það vera stórmál, að lög fáist um stofnunina, að stefnan verði skýrt mörkuð og að stofnunin fái grundvöll, sem hún getur staðið á og starfað á, en svifi ekki í lausu lofti, eins og þær stofnanir margar, sem ekki hafa lög. Það er rétt, að að óbreyttum aðstæðum getur Iðnaðarmálastofnunin starfað eftir þeirri reglugerð, sem gefin var út á s.l. sumri, en það er hægara að veikja þessa stofnun, að trufla starfsemi hennar, ef hún starfar aðeins eftir reglum, sem ráðh. hefur gefið út, reglum, sem ekki styðjast við nein lög, heldur en ef hún hefur við lög að styðjast. Og þetta veit ég að öllum er ljóst. Við munum það, að á síðasta þingi var hér mikið rætt um iðnskólalöggjöfina. Iðnskólar höfðu starfað hér í landi án laga lengi, en eigi að siður gerðu allir sér grein fyrir því, hvað menntun iðnaðarmanna hefur mikilvæga þýðingu, og allir gerðu sér grein fyrir því, að það var þýðingarmikið að fá lög um iðnskólana.

Ég öfunda ekki hv. þm. Str. af því að hafa á s.l. ári viljað koma iðnskólalöggjöfinni í það horf, sem hann þá barðist fyrir, eða helzt að fresta því, að nokkur löggjöf um iðnskóla væri sett, og svo aftur nú ári seinna að setja fótinn fyrir það, að lög um Iðnaðarmálastofnun Íslands, sem þegar hefur getið sér ágætt orð, verði sett. Ég held, að iðnaðarmenn og margir atvinnurekendur verði dálítið undrandi, þegar þessi tónn kemur upp ár eftir ár hjá formanni annars stærsta þingflokksins á Íslandi. Það er dálítið einkennilegur skilningur á atvinnulífi landsmanna, sem kemur fram hjá þessum hv. þm., bæði í fyrra og svo aftur núna.

Hv. þm. var að tala hér um nokkra liði 1. gr. Það er nú 1. liður, þar er talað um, að stofnunin eigi að fylgjast með tæknilegum nýjungum og veita þeim, er iðnað stunda og við vörusölu fást, leiðbeiningar, er miði að auknum afköstum, verknýtingu og vöruvöndun. Ég hef ekki orðið var við það, að rannsóknaráð ríkisins eða atvinnudeild háskólans hafi verið ákaflega afkastamikil á þessu sviði, og vil ég þó ekki kasta neinni rýrð á þessar stofnanir eða þá menn, sem fyrir þeim standa. En það verður bara að viðurkenna það sem staðreynd, að eftir að Iðnaðarmálastofnunin tók til starfa, hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir á þessu sviði með því að kynna mönnum nýjungar, fá hingað til lands erlenda sérfræðinga til þess að halda fyrirlestra og kynna mönnum ýmislegt, sem að þessu lýtur, og það er nýjung, að það hafi verið gert í jafnstórum stíl og s.l. ár og ætlað er að halda áfram á þessu ári. Það er nokkuð, sem við Íslendingar getum áreiðanlega lært af, og þó að það væri ekkert annað en þetta, sem Iðnaðarmálastofnunin hefði starfað, þá væri það vissulega nóg til þess, að hún hefur unnið til að fá að eflast.

Þá talaði hv. þm. um 5. lið, sem er um að koma á fót og sjá um rekstur á tæknilegu bókasafni. Það vill nú svo til, að núna kl. 3 átti ég að mæta í Iðnaðarmálastofnuninni, — get það nú líklega ekki, vegna þess að umræðurnar eru, — vegna þess að þar átti að opna tæknilegt bókasafn, sem stofnunin hefur eignazt. Þetta bókasafn er allstórt, og það er sannarlega gleðilegur vottur um þróun stofnunar þessarar á stuttu árabili, að hún hefur eignazt stórt tæknilegt bókasafn. Iðnaðarmálastofnunin starfar í nýja iðnskólahúsinu og hefur tekið þar húsnæði á leigu með það fyrir augum að hafa þar stórt tæknilegt bókasafn og lestrarsal, þannig að það er ekki um húsnæðisskort þar að ræða elns og stendur. Þeir, sem vilja og hafa hæfileika til að notfæra sér bókasafnið, geta komið þangað og setzt niður við lestur. Þetta sýnir áhuga og dugnað þeirra, sem hafa stjórnað stofnuninni. að hafa þegar ráðizt í að koma þessu bókasafni upp.

Þá var talað um 8. lið, að stuðla að því, að hérlendir menn, sem starfa í þágu íslenzks iðnaðar, komist til framhaldsnáms erlendis í vísindalegum, verkfræðilegum og verklegum greinum og að erlendir kunnáttumenn á þessum sviðum heimsæki Ísland. Þetta er nú að mestu leyti það, sem ég minntist á hér áðan í sambandi við 1. lið, og það hygg ég, að öllum hv. þdm. sé kunnugt, að árangurinn af þessum heimsóknum erlendra sérfræðinga hefur verið mjög mikill þegar í stað og á vitanlega eftir að verða miklu meiri, þegar tíminn og reynslan koma til sögunnar. Iðnaðarmálastofnunin hefur einnig beitt sér fyrir því, að íslenzkir menn ferðuðust erlendis og færu beinlínis á námskeið og til lengra náms erlendis í hinum ýmsu fræðum. Því hefur vitanlega atvinnudeild háskólans átt einhvern þátt í líka, en Iðnaðarmálastofnunin hefur gert þetta í stærri stíl en áður hefur hér þekkzt, og miðar það allt í rétta átt.

Hv. frsm. minni hl. talaði um það hér áðan, að það væri beinlínis hættulegt, að fleiri stofnanir færu inn á þetta verksvið, sem rannsóknaráð ríkisins og atvinnudeild háskólans hefðu með höndum, vegna þess að við hefðum ekki fjármagn til þess. Þó var ekki hægt að skilja annað á ræðu hans en að þetta væri höfuðverkefni Iðnaðarmálastofnunarinnar. Þegar hann fullyrðir, að það sé hættulegt, að það séu fleiri stofnanir, sem starfi að þessum málum, þá er það sama sem að segja, að hann vilji ekki, að Iðnaðarmálastofnunin starfi eða sé til.

Þetta er hans skoðun. Hins vegar vil ég benda á, að það eru sízt rannsóknarstörf, sem Iðnaðarmálastofnuninni er ætlað að gera, og þarf ekki annað en að lesa 1. gr. frv., eina 12 liði, sem þar eru taldir upp, til þess að sannfæra sig um, að það eru sízt rannsóknir, sem Iðnaðarmálastofnuninni er ætlað að vinna.

Ég sagði áðan: Ég vil ekki kasta neinni rýrð á rannsóknaráð ríkisins eða atvinnudeild háskólans. Ég veit, að þessar stofnanir báðar hafa unnið ýmislegt að gagni. Ég veit líka, að þeim hefur verið þröngur stakkur skorinn með fjármagn oft og tíðum. En hitt veit ég einnig, að það getur verið hollt fyrir þessar stofnanir, að það sé annar aðili, sem fylgist með, sem geri sér grein fyrir því, hvað er að gerast og að hvaða marki þetta þjóðfélag á að keppa í atvinnumálum, og að það sé gert allt, sem unnt er, til þess að fylgjast með því, hvaða atvinnugreinar það eru, sem okkur ber fyrst að efla, og hvaða atvinnugreinar það eru, sem okkur er fært að ráðast í. Og ég segi: Það er ekkert nema gott um það að segja, að atvinnumálanefnd ríkisins er til, ef hún vill starfa og ef hún starfaði. En það er ekki nóg, að hún sé til og að hún starfi eftir einhverri þáltill., sem samþykkt hefur verið hér í þinginu. Ef það á að vera árangur af hennar starfi, þá verður að koma eitthvað jákvætt frá henni, sem hægt er að byggja á. Þessi nefnd hefur ekki enn starfað það mikið, að hægt sé að segja um það, hvað frá henni kemur. Ég vona, að það verði eitthvað gott, að það verði eitthvað að gagni. En áður en við höfum nokkuð séð frá henni að gagni, getum við ekki kastað öllum áhyggjum eða vonum á hana.

Hv. form. þeirrar nefndar sagði við mig um daginn, að það stæði til að flytja frv. á næsta hausti, sem væri svo yfirgripsmikið, að það næði ekki aðeins út yfir þetta, heldur og margt fleira, þannig að með því frv. ætti að samræma atvinnulífið og verkaskiptingu á milli hinna ýmsu stofnana. Sjáum til. Kannske kemur það í frv. En það er a.m.k. eftir að sjá, í hvaða formi það verður, lesa það yfir, gera sér grein fyrir því, hvort það er nú það bezta eða það rétta, og ég get huggað hv. frsm. minni hl. með því, að þó að frv. verði að lögum á þessu þingi, þá hefur hann og hans nefnd jafnmikla möguleika til þess að koma með frv., frv. til breytinga, ekki aðeins á þessum lögum, sem við erum núna að samþykkja, heldur öðrum lögum til samræmingar á hinum ýmsu stofnunum í þjóðfélaginu. Komi þeir fram með slíkt frv., sem meiri hl. Alþingis vill hlíta og telur vera til stórbóta, þá er ekkert til fyrirstöðu að breyta lögum, sem hafa verið sett á þessu þingi. En ég vil ekkert eiga á hættu með þetta, vegna þess að við höfum enn enga reynslu af þessari atvinnumálanefnd. Við höfum ekkert annað til þess að styðjast við en að það sé einhver von um, að hún komi með frv., sem gæti verið vit í; hún gæti líka komið með frv., sem væri ekkert vit í, og það kemur ekki til mála, að hv. Alþingi sé að fresta lagasetningu á góðu máli af því, að það gæti skeð, að atvinnumálanefnd ríkisins kæmi með gott frv., sem gæti komið í staðinn fyrir þetta.

Eins og hv. frsm. meiri hl. sagði hér áðan, hefur þetta frv. verið undirbúið vel og betur en flest mál, sem flutt hafa verið hér í þinginu, með því að til samningar á þessu frv. hafa starfað tvær mþn. Frv. er raunar miklu eldra. Það hefur verið rætt um þessi mál lengi hér í hv. Alþingi, en ekki fengizt samkomulag um lagasetningu, og nú er frv. komið það áleiðis, að hv. meiri hl. iðnn. í þessari hv. deild leggur til, að það verði samþykkt sem sagt alveg óbreytt, og ég er honum þakkiátur fyrir það og vona, að þessi hv. deild fallist á till. meiri hlutans. Önnur brtt. meiri hl. á þskj. 244 er þannig vaxin, að ég hef ekkert við hana að athuga, og mér finnst eðlilegt, að hún verði felld inn í 11. gr. frv.

Ég get svo látið máli mínu lokið. En ég endurtek, að ég vænti þess, að þetta frv. verði að lögum á þessu þingi óg að hv. meiri hl. þessarar deildar hv. Alþingis hafi þegar gert sér grein fyrir því, að Iðnaðarmálastofnunin er það þýðingarmikil stofnun í landinu, hefur þegar unnið það mörg og mikilvæg störf, að hún á það ekki skilið að vera í lausu lofti, eins og hv. minni hl. vill láta hana vera með því að neita um, að hún geti starfað eftir lögum. — Ég ætla að láta máli mínu lokið að þessu sinni.