19.01.1956
Efri deild: 43. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (1707)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég sá ekki ástæðu til þess í þeirri ræðu, sem ég flutti hér, að minnast á annað í þessu máli en það, sem athugun þeirrar n., sem ég starfa í og óskar eftir, að málinu verði frestað, gaf tilefni til. En hv. 1. þm. N-M. (PZ) hefur minnzt á önnur atriði, og það gefur tilefni til þess að minna á það, hvernig félagsskapur við sjávarsíðuna viðkomandi útveginum og viðkomandi landbúnaðinum hins vegar hefur vaxið upp, og það gefur tilefni til þess að minna á sögu þessa máls, að það var ætlazt til þess, að þessi starfsemi yxi upp með sama hætti með aðstoð frá ríkinu, en ósamkomulag hefur valdið því, að það hefur ekki verið hægt.

Það er ekki hægt að neita því, að það er a.m.k. atriði, sem er athugandi í þessu máli, hvort ákveða á það með lögum, að stofnun einnar stéttar taki við þeim verkefnum, sem eru unnin af rannsóknaráði ríkisins fyrir allar stéttir í þjóðfélaginu og þjóðfélagið í heild, að ekki sé meira sagt, því að það er alveg þýðingarlaust að vera að halda uppi rökræðum um mál, ef það er ekki viðurkennt. sem kemur fram í 2. gr. frv. og 11. gr., sem ég vil leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa hér upp:

„Iðnaðarmálastofnuninni er rétt að hafa samstarf við atvinnudeild háskólans og aðrar opinberar rannsóknarstofnanir um þær tilraunir og rannsóknir, sem hún telur nauðsynlegt að framkvæma, og skulu rannsóknarstofnanir þessar veita henni þá aðstoð, sem þeim er unnt, enda komi fullt gjald fyrir.“

Þetta er náttúrlega alveg tvímælalaust, enda hefur meiri hl. n., sem vill helzt ekki breyta frv. í neinu, orðið að viðurkenna það með brtt., sem hann vitanlega getur ekki tekið til baka, því að ef frv. væri samþ. eins og það liggur fyrir, þá er farið með þessa stofnun inn á það almenna verkefni fyrir þjóðfélagið í heild, sem hvorki Fiskifélaginu, Búnaðarfélaginu, iðnaðardeild né fiskimáladeild hefur sérstaklega verið ætlað að vinna, heldur rannsóknaráði, sem vinnur af hálfu ríkisstj. og ríkisins.

Þá má minna á, hvernig þetta hefur vaxið upp, og þessar ástæður, sem ég færi fram, eru ekki alveg út í bláinn. Fiskifélagið vinnur að rannsóknum, alveg eins og hv. 1. þm. N-M. minntist á, sem fiskideildin vinnur að í atvinnudeildinni, og það verður að segja það eins og er, að hjá Búnaðarfélaginu eru störf, sem unnin eru jafnframt í búnaðardeildinni. Þess vegna er það, að n. er þeirrar skoðunar, að það sé eðlilegt að samræma þessi störf í heild, ekki til þess að rýra starfsemi Iðnaðarmálastofnunarinnar, heldur einmitt til þess að samræma hana störfum annarra stofnana, og á þann hátt álitum við, að starf þessarar atvinnustofnunar verði bezt eflt.

Þó að ég teldi upp nokkra liði, þar sem um svipað eða sama verkefni er að ræða og hjá atvinnudeild háskólans eða rannsóknaráði, þá er nóg eftir af verkefnum fyrir því, þar sem liðirnir, þar sem talin eru upp verkefnin, eru hvorki meira né minna en 14 í 1. og 2. gr.

Ég þarf ekki að svara því mörgu, sem hv. þm. Barð. (GíslJ) sagði. Hann ræddi um þetta mál af meiri stillingu en hæstv. ráðh. og allt öðruvísi. svo að það er frekar hægt að eiga orðastað við hann. Hann sagði, að ég hefði sagt, að það hefði verið álitamál, hvort efla ætti atvinnudeildina eða setja upp sérstaka stofnun, og sagði, að það sæist af því, að ég vildi leggja niður Iðnaðarmálastofnunina, en svo rakti hann það, að um þetta hefði verið rætt á undanförnum árum, mikið rætt aftur og fram, og niðurstaðan orðið sú, að Iðnaðarmálastofnunin hefði verið stofnuð sem sérstök stofnun. Ég sagði: Það var talið álitamál. Ég sagði ekki: Það er álitamál.

En það var á þessum eina stað, sem hann annaðhvort hefur ekki skilið rétt eða færir orð mín úr lagi. Ég minntist á það í iðnn., að það væri vafasamt, hvort ég flytti rökst. dagskrá, af því að ég þekki orðið þessi vinnubrögð. Ef það er flutt dagskrá við eitthvert mál og á að fresta því, þó að það sé ekki nema til að fá betri afgreiðslu á málinu, þá er risið hér upp, einkanlega á þeim dögum, þegar lítið er um að tala í þessari blessaðri stofnun, sem við lifum í, og verið að blása sig út af alls engu, eins og það sé eitthvert stórt mál á ferðinni, sem sé verið að ráða eiginlega fram úr öllum vanda með, og þess vegna var ég í vafa um það, hvort ég ætti að flytja dagskrána, og sagði það meira að segja, að ég væri í vafa um, hvort ég ætti að flytja dagskrána að svo stöddu. En ég hvatti ekki til þess í n., sem ég starfa í, að málinu væri frestað. Þetta kom upp úr umræðum um þessar stofnanir, þar sem hver er inni á annars sviði og vantar tæki til alls á einum stað og öðrum, vegna þess að þetta er ekki samræmt. Og meira að segja aðrar þjóðir, sem eru miklu ríkari en við, hafa ekki talið sig hafa efni á öðru en að samræma störf þeirra manna, sem vinna að tilraunum og rannsóknum.

Þess vegna flutti ég þetta mál og sá þó alveg fyrir fram, hvernig það yrði túlkað, en ég taldi mér skylt að gera það af hálfu n. En hvaða þýðingu það hefur eiginlega að eiga orðastað við mann eins og hæstv. ráðh., sýnir sig bezt á því, að hann segir, að maður, sem hann hafi talað við úr atvinnumálanefndinni, sem bréfið er frá, kannist ekki við að hafa beðið um, að málinu væri frestað. Það sýnir bezt, að það er alveg þýðingarlaust að eiga orðastað við svona fólk, því að bréfið liggur hér fyrir, og stendur þar m.a., að nefndin „samþykkti .... að beina þeim tilmælum til iðnaðarmálanefndar efri deildar Alþ., að afgreiðslu laga um Iðnaðarmálastofnun Íslands verði frestað, þangað til n. hefur skilað áliti.“ Og þáttur minn í samningu bréfsins, — því að hæstv. ráðh. var að gefa í skyn, að ég væri að falsa álit n., og málflutningur var yfirleitt af þessari tegund, — hann er þannig, að þegar ég sit í iðnn. Ed., bið ég um bréfið, eins og það hafði verið samþ. á fundinum, frá ritara n., Jóhanni Jakobssyni, fulltrúa Sjálfstfl. og formanni iðnaðardeildar í atvinnudeild háskólans. Hann semur bréfið og sendir það hingað, eftir því sem hann áleit að hefði verið samþ. á nefndarfundinum, óg ég sýndi hv. þm. Barð. bréfið, áður en ég skrifaði undir það, þegar það kom frá fulltrúa Sjálfstfl., eins og hann gekk frá því, og ég hef ekki komizt að annarri niðurstöðu í kynnum af þessum manni en að hann sé sérstaklega hæfur maður. Svo rís ráðh. hér upp og gefur í skyn, að ég hafi eiginlega falsað álit n. um frest í málinu. Það er til nokkurs að eiga orðastað við fólk af þessari tegund.

En svona var allur málflutningurinn. Hann var á sömu bókina lærður. Hann sagði, að ég hefði sagt, að við hefðum ekki efni á að hafa margar stofnanir, þetta þýddi það, að ég vildi leggja stofnunina niður. Ég sagði, að við hefðum ekki efni á að hafa margar stofnanir til að vinna sömu verk og þess vegna þyrfti að koma á verkaskiptingu á milli þessara stofnana, sem væri eðlileg.

„Minni hl. vill, að Iðnaðarmálastofnun Íslands starfi ekki.“ Hvernig á að eiga orðastað við ráðh., sem svona talar, eða við þm., sem svona talar? Til hvers er að segja það, sem margsinnis hefur komið fram hér í nál. og kemur fram í minni ræðu, að við álítum, að það sé ekki aðeins rétt, heldur nauðsynlegt að efla þessa stofnun, en það þurfti að koma í veg fyrir, að tvær eða fleiri stofnanir starfi á sama sviði, vegna þess að við höfum ekki efni á því, þegar það er svo lagt út þannig, að við viljum alls ekki, að þessi stofnun starfi, við viljum bara leggja hana niður?

Ég sagði, að það væri ekki stórmál, hvort þessu máli væri frestað eða ekki. Ráðh. segir, að þetta sé nú alveg nauðsynlegt; þetta er nú aðalmálið til þess að bjarga landinu núna, og formaður Framsfl. er vondur maður, hann er að eyðileggja þetta. En rökfræðin er á sömu bókina lærð, því að svo segir hann, að þessi stofnun hafi fram á þennan dag unnið slíkt stórvirki, að slíkt eigi sér naumast stað um aðrar stofnanir í þessu landi. Hún er bara búin að vinna þessi stórvirki öll saman, þrátt fyrir það að hún hafi ekki haft lögin. T.d. er nauðsynlegt að koma upp bókasafni, segir hv. þm. Barð., en svo segir hæstv. ráðh.: Núna klukkan 3 átti ég að fara upp eftir og opna myndarlegt bókasafn, sem þessi stofnun er búin að koma upp. — Ef það var verið að opna bókasafnið, hvers vegna sagði hann ekki heldur, að hann yrði að láta það biða að opna bókasafnið, þangað til það væri búið að samþ. þessi lög? Þetta er alveg furðanleg röksemdafærsla.

Hann minnti á, að ég hefði verið andvígur iðnlöggjöfinni, eins og hún er núna. Það er ég og er ekki í neinum vafa um, að henni verður breytt eitthvað í svipað horf og ég hef margsinnis reynt að koma fram, en ekki komið fram hér á Alþ., og því er ekki beint gegn iðnaðarmönnum. Það eru fleiri þeirrar skoðunar en ég, að þess sé þörf, án þess að ég nefni þá menn hér, og ég veit, að þeir menn eru einnig í hópi sjálfstæðismanna og þm. Sjálfstfl. hér á Alþ., þó að ráðh. reyni með þessum orðum að koma því inn, og það er málfærslan í þessu máli, vegna þess að ég f.h. nefndarinnar bið um frestun, það sé fjandskapur við iðnaðinn, og var mikið, að hann nefndi ekki Iðnaðarbankann líka.

Ef ég vildi fara að leggja út um hug manna til stofnana, þá gæti ég náttúrlega farið að leggja út af því, sem hæstv. ráðh. sagði um atvinnudeild háskólans eða rannsóknaráðíð og sömuleiðis. hv. þm. Barð., en hv. þm. sagði, að þessar stofnanir hefði skort allt annað en fé til að vinna sín verk. Það mætti náttúrlega leggja sæmilega út af þessu, ef ég hefði hug á því að reyna að búa til einhvern ásetning gagnvart þessari stofnun af hálfu hv. þm., eins og gert er að tilefnislausu út af því, sem ég hef sagt um frestun þessa máls.

Ég þurfti náttúrlega ekki að spyrja hæstv. ráðh. um það, sem hann sagði, að hann skyldi hugga mig með því, að þó að frv. yrði samþ., þá væri hægt að koma með frv. næsta haust. Það er mikil speki það. Meira að segja upplýsti hann það fyrir okkur hérna, þessa lögfræðinga, sem erum í deildinni, að það væri ekkert því til fyrirstöðu að breyta lögum. Það var löng ræða um, að það væri ekkert því til fyrirstöðu að breyta lögum. En sleppum því.

Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál. Ég bjóst að vísu við þessum málflutningi, sem hér hefur komið fram, af hálfu hæstv. ráðh. Þess hefur a.m.k. miklu síður og raunar ekki gætt af hálfu frsm. meiri hl. Þetta, sem ég flyt hér, ósk um, að málinu sé frestað, er flutt af hálfu fulltrúa fjögurra flokka, sem vinna í þeirri n., sem ég starfa í, og ég er alveg viss um, að þeir fulltrúar, sem starfa í þessari n., atvinnumálanefnd ríkisins, hafa a.m.k. eins mikinn áhuga á tilraunum og rannsóknum og að þær fari vel úr hendi og hæstv. ráðherra. Það er þess vegna ákaflega erfitt, ég held, að það ætti ekki að vera að leggja í það, þó að ég og þeir óski vegna vinnubragða eftir, að málinu sé frestað, að reyna að koma því inn hjá nokkrum manni, að það sé fyrir fjandskap við tilraunir og rannsóknir; sem ég óska eftir, að þessu yrði frestað, því að hann hittir þá sína eigin menn, sem hafa sannarlega áhuga fyrir þessum málum. Hann sagði, að það væri ekkert að vita, hvað kæmi frá þeirri n. Ég skal nú ekkert fullyrða um það. Hann sagði, að það væri alveg ósýnt, hvernig hún starfaði, o.s.frv. Ekki lét hann nú beint liggja orð að því, að hún starfaði neitt illa; ég skal ekki gera honum upp nein orð í því sambandi. En á það hefur verið minnzt, að þessi n. mundi ekki starfa með allt of miklum hraða, og það gefur mér tilefni til þess, elnmitt fyrst minnzt er á störf n., að taka það fram, að þessi n. var skipuð s.l. vor og sá, sem átti að kalla n. saman, sjálfstæðismaður, gat ekki komið því í verk, að form. yrði kosinn í n., fyrr en eftir 2 mánuði. Ég segi þetta ekki til þess að deila á hann fyrir það, heldur er mér ljóst, að hann gat ekki náð saman fundi í n. af þeirri einföldu ástæðu, að menn voru fjarverandi úr bænum og sumir erlendis. Eftir að ég var kosinn form. í n., held ég, að það hafi aldrei verið þannig, að það hafi verið helmingur af nm. í bænum og lengi tveir af nm. erlendis. Undireins og ég kom hingað heim erlendis frá s.l. haust, voru kallaðir saman fundir í n. og hefur ekki fallið niður nema einn þriðjudagsfundur síðan. Höfum við haldið fund í hverri einustu viku, þannig að ég hef ekki nennt að vera að leiðrétta þetta, en það er rétt, að það komi hér fram, að með þeim hætti mun n. halda áfram að starfa, því að það hefur verið ákveðið, til þess að ekki verði töf á störfum n., að þeir, sem í n. starfa, geti skipað í staðinn fyrir sig varamenn, þannig að ekki þurfi að koma til þess, að það sé ekki hægt að ná saman fundum, eins og vill verða, þegar menn, sem hafa miklum störfum að gegna og þurfa að taka sín sumarfri enn fremur, starfa í ýmsum nefndum.

Ég geri varla ráð fyrir því, að ég þurfi svo frekar að ræða um þetta mál, nema alveg sérstakt tilefni gefist til, en að dagskránni felldri mun ég vitanlega fyrst og fremst samþ. breytinguna við 11. gr., sem ég hef minnzt á tvisvar sinnum áður, því að það er náttúrlega það lægsta lágmark, að þeirri gr. verði breytt, og er náttúrlega til verulegra bóta.