20.01.1956
Efri deild: 44. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (1711)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, því að að mínu áliti liggur það nú alveg ljóst fyrir eftir þessa ræðu hv. frsm. meiri hl., hvað verið er að fara með þeim ákvæðum þessa frv., sem ég hef bent á að væri varhugavert að setja í lög. Hann hélt því fram fyrst í ræðu sinni, að það væri ekki nein hætta á því, að með þessu frv., ef að l. verður, yrði farið inn á verksvið atvinnudeildar háskólans, því að það væri ekki ætlunin, að þessi stofnun hefði með höndum neinar rannsóknir, heldur væri hún til leiðbeiningar og eftirlits. En síðan snerist næstum öll ræða hv. þm. upp í ádeilur á atvinnudeild háskólans. Þrír fjórðu af ræðu hans voru ádeilur á fjarverandi menn og það meira að segja ádeilur, sem eru gersamlega óviðeigandi, því að margir af þeim mönnum, sem þar starfa, eru mjög mætir menn og starfa með ágætum.

Það er þess vegna alveg bersýnilegt, hvert þessu frv. og þeim ákvæðum, sem eru hér í 1. tölul. 2. gr. og 11. gr., er stefnt, af því að hv. þm. sagði það beinlínis í lok ræðu sinnar. Hann sagði: Vegna þess að atvinnudeildin hefur unnið svona, er þörf á þessum ákvæðum og þau eiga að standa. — M.ö.o.: Það á að setja lög um þessa stofnun, sem vissulega er þörf stofnun og hefur miklu hlutverki að gegna samkvæmt þeim ákvæðum, sem greinir í 1. gr. þessa frv., en mér dettur ekki í hug, að þm. veiti því ekki athygli og hugsi sig ekki um tvísvar, áður en þeir setja hér í lög ákvæði eins og þau, sem eru í 2. gr. þessa frv. og 11. gr. frv:, þar sem á að skipa þessa stofnun yfir atvinnudeildina og til eftirlits með henni.

Ég held, að það fari bezt á því, ef þessar stofnanir eiga að starfa vel og til gagns fyrir þetta þjóðfélag, að verkaskipting þeirra sé greinileg og séu ekki sett lagaákvæði eins og þau, sem eru hér í 2. og 11. gr.

Ég skal svo ekki ræða frekar um þetta mál. vegna þess, eins og ég sagði í upphafi þessarafáu orða, að eftir þá ræðu, sem hv. frsm. meiri hl. hefur flutt núna, liggur alveg í augum uppi, hvert frv. er stefnt.