07.02.1956
Neðri deild: 64. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í C-deild Alþingistíðinda. (1729)

116. mál, Iðnaðarmálastofnun Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hafði búizt við, að hæstv. iðnmrh. mundi máske gefa okkur nokkrar upplýsingar út frá þeim umr., sem hér hafa farið fram, af því að svo furðulega vill nú til, að hæstv. ráðh. er hér staddur í d. og sýnir d. þá virðingu, sem aðrir ráðh. yfirleitt ekki sýna henni lengur, að vera viðstaddir, þegar verið er að ræða þau mál, sem þá snerta, og á hann þakkir skilið fyrir það. Ég hafði hins vegar búizt við, að hann mundi nú í sambandi við þær fyrirspurnir og þær umr., sem hér hafa farið fram, gefa okkur nokkru ýtarlegri upplýsingar um sína afstöðu og hæstv. ríkisstj. í sambandi við þessa stofnun.

Eins og hæstv. ráðh. hefur tekið eftir, hefur verið deilt mjög skarplega á ýmislegt í fari þessarar stofnunar. Hv. 3. landsk. þm. (HV), sem sjálfur er forseti Alþýðusambands Íslands, gaf hér í sinni ræðu nokkra lýsingu á, hve furðulegar aðfarir þeir, sem stjórna Iðnaðarmálastofnuninni, hefðu haft í frammi í sambandi við vissar sendiferðir manna erlendis. Og hér áðan var hv. þm. Borgf. (PO) að koma fram með athugasemdir, sem víssulega eru mjög þýðingarmiklar, og gott fyrir okkur að fá að vita, hver sé hugmynd ríkisstj. í slíku sambandi, hvort hér er um yfirsjónir að ræða hvað snertir þetta atriði viðvíkjandi fiskiðnaðinum, hvort hann eigi að vera þarna eða ekki, hvort það sé þarna um breytta stefnu að ræða eða hvað það er, sem þarna kemur til.

Ég hafði áður nokkuð komið inn á út frá sjónarmiði og tilmælum atvinnumálanefndar ríkisins, hve óeðlilegt það væri að samþykkja þetta frv., eins og það liggur nú fyrir, meðan ekki er búið að ganga frá till. atvinnumálanefndarinnar um, hvernig starfsemi þessara stofnana og rannsóknir þeirra yrðu samræmdar í framtíðinni. Og það sýnir enn betur fram á, hver nauðsyn er í slíku efni, þar sem hv. þm.

Borgf. var að benda á áðan, að ef það væri meining hæstv. ríkisstj., að þetta frv. gengi í gegn eins og það væri, þá mundi hér verða meiri tvíverknaður en á nokkru öðru sviði viðvíkjandi fiskiðnaðinum og árekstrar í sambandi við það, þannig að það virðist svo sem nægilegt tilefni hefði verið til þess að segja nokkuð um skoðun annaðhvort ríkisstj. í heild eða ríkisstj. í pörtum á þessu máli — eða þá hæstv. iðnmrh. persónulega. Sama snertir skoðunina á samsetningu stjórnar þessarar stofnunar, sem líka er búið að ræða hér allmikið um og búið að lýsa yfir að ýmsir aðilar hér muni alls ekki sætta sig við.

En það er annað, sem ég held að væri líka rétt að athugað væri betur, þegar þetta mál færi til nefndar. Þetta mál og þessi stofnun virðist að öllu leyti hugsuð út frá því, sem hefur tíðkazt um slíkar stofnanir erlendis, og hún mun sjálf vera sett upp í samráði við erlenda stofnun. Aðaltilgangur hennar, eins og hann er markaður í 1. gr. laganna, virðist fyrst og fremst eiga að vera sá að stuðla að stöðlun eða „standardiseringu“ og öðrum slíkum nýtízku fyrirbrigðum iðnaðarins hér á Íslandi.

Ég held, að það væri ákaflega heppilegt, þegar við ræðum fyrirkomulag iðnaðar hér í framtíðinni á Íslandi, að við gerum okkur grein fyrir áhrifum iðnaðarins og stóriðjunnar á fleiri sviðum en bara þeim hreint tæknilegu. Það er auðséð, að aðalmeiningin með þessari stofnun er sú, að hægt sé að auka afköst sem allra mest, hægt sé að steypa sem flest í sama mótið, gera afköstin þannig meiri og hagnýta yfirleitt tæknina þannig til hins ýtrasta. Nú vita það allir, sem fylgzt hafa með þróun iðnaðar og ekki sízt stóriðju erlendis, hverjir slæmir fylgifiskar sigla þar í kjölfarið, þar sem stóriðja ryður sér til rúms. Og við vitum, að ef við ætlum að fara að gangast fyrir nokkrum iðnaði hér í stærri stíl, þá þurfum við frá upphafi að reyna að gera ráðstafanir til þess að lenda ekki í samsvarandi vandræðum og erlendar stóriðjuþjóðir hafa lent í. Við vitum, að við eigum hér mikla orku til þess að geta notað við þann iðnað, þessa stóriðju, sem við vildum hér koma upp, en það er ýmislegt annað, sem er um leið í húfi. Þegar iðnaður fer að skapast í stórum stíl hjá einni þjóð, er venjulega það, sem sérkennilegast hefur verið við það gamla handverk, það, sem hefur sett að einhverju leyti þjóðlegt mót sitt á handverkið varðandi iðnaðinn á þessum frumstigum, allt saman í hættu. Og ég held það sé nauðsynlegt fyrir okkur að athuga það, þegar við erum að ræða um, hvernig iðnaðarmálastofnun, sem elgi að verulegu leyti að stjórna þróun og ráða svo að segja stíl iðnaðar og stóriðnaðar, sem upp komi, eigi að vera úr garði gerð, að við tökum víss tillit í þessu sambandi. Erlendis hefur það orðið svo, að iðnaðurinn og sérstaklega stóriðnaðurinn hefur orðið til þess að steypa svo að segja allt í sama mótið, gera störf mannanna og framleiðslu þeirra, afurðirnar, sem þeir skapa, vörurnar, sem þeir framleiða, miklu fábreytilegri, ljótari, leiðinlegri og setja þannig á lífið í heild allt annan svip en var.

Menn vita, hvað það hefur þýtt venjulega, þegar stóriðjuvörurnar ryðja sér til rúms og eyðileggja það gamla handverk, sem fyrir er, allt saman á grundvelli þess, að þær eru framleiddar í stærri stíl, þær eru framleiddar með fábreyttara móti og þess vegna ódýrari en það handverk, sem fyrir er. Þetta hefur leitt til þess að gera á vissan hátt iðnað nútímans og þær vörur, sem hann framleiðir, miklu fátæklegri frá svo að segja listrænu og frá eiginlega neytendanna sjónarmiði heldur en margt af gamla handverkinu var. Og þetta er á vissan hátt óþarfi. Svo framarlega sem menn leggja sig eftir því, þá er hægt að gera þann nýtízku iðnað að mörgu leyti og hans afurðir fjölbreytilegri og fegurri en gert er, svo framarlega sem ekki er öllu fórnað fyrir „standardiseringuna“, fyrir það að steypa allt í sama móti. Þetta er fyrirbrigði, sem allir, sem hafa skipt sér af nútíma iðnaði og hafa hugsað um þetta, hafa tekið eftir og hafa reynt að ráða bót á. Og ég held, að eitt af því, sem þyrfti að reyna að athuga alveg sérstaklega, þegar verið væri að hugsa um slíkar stofnanir eins og hér er að ræða um, sé að koma í veg fyrir svona þróun hér heima frá upphafi, að láta ekki þann iðnað, sem rís upp á Íslandi, verða þannig, að það sé ómögulegt að aðgreina, hvort sá iðnaður sé raunverulega innlendur eða útlendur, — stundum er það kannske hægt, því miður, á því, að gæðin séu verri hjá þeim innlenda, en við skulum segja, að það tækist að laga það, þá hitt, að það hverfur svo að segja allur þjóðlegur svipur af vörunni, þegar farið er að framleiða hana innanlands með þeim nýtízku iðnaðaraðferðum, og þetta er slæmt. Þetta er hlutur, sem þarf að koma í veg fyrir, og það er eitt af því, sem okkur veitti ekki af að fara að hugsa um á þeim sviðum, þar sem þetta á við. Þetta á náttúrlega ekki við á sumum sviðum, og sum framleiðsla, sem iðnaðurinn hefur með að gera, er þess eðlis, að slíkt kemst ekki að, sá kemíski iðnaður t.d., en aftur á móti við ýmislegt, sem snertir vefnað, og við ýmislegt annað fleira kemur þetta fyllilega til greina.

Svo er annað atriði, sem líka er nauðsynlegt að taka tillit til og ekki er minnzt á í sambandi við markmið þessarar iðnaðarmálastofnunar, sem hér er talað um. Það eru áhrif iðnaðarins á manninn sjálfan, svo að segja áhrifin á mannssálina, ef maður vill orða það hátíðlegar. Áhrif iðnaðarins og sérstaklega stóriðnaðarins í fjölda landa hafa orðið þau að þroska þar verkaskiptinguna þannig útí æsar, að það verk, sem hver maður vinnur í sambandi við iðnaðinn, er svo að segja sama verkið ár eftir ár, sama tilbreytingarlausa verkið, að skrúfa einn skrúfnagla eða að berja á einn nagla eða eitthvað annað slíkt, tilhneigingin hefur verið sú að gera manninn sjálfan að eins og litlum hluta af vélinni. Þetta er eitt af því skaðlegasta, sem fylgt hefur nútímaiðnaðinum úti í heimi, og það er engum efa bundið, að þær þjóðir, sem efla hjá sér stóriðjuna án þess að taka tillit til þessa hættulega fyrirbrigðis, eru að rýra ekki aðeins manngildi, heldur líka hugvit og gáfur þeirrar þjóðar, sem svona er meðhöndluð. Það verður lækkað bókstaflega vitsmunastigið, sem slík þjóð stendur á, ef vaxandi hluti af mönnunum, sem vinna, er gerður næstum því eins og að sálarlausum verkfærum, sem standa við eina vél, gera þar eitt ákveðið handtak og þar með búíð. Og það er nauðsynlegt, þegar menn hugsa út í að koma upp iðnaði, jafnvel sjá fram á það, að okkar þjóð eigi að verða að einhverju leyti stóriðjuþjóð, að við höfum opið auga fyrir þessari hættu frá upphafi. Hvað er það, sem hefur gert okkar þjóð á vissan hátt — ég held, að það sé enginn þjóðrembingur, þó að maður segi það — eina af gáfuðustu þjóðum veraldarinnar? Það, sem hefur gert hana það, er hennar glíma við viðfangsefnin, við erfiða náttúru og við viðfangsefnin, þannig að hver einstakur maður verður að þroska sína hæfileika í þessari viðureign, og þetta hefur leitt til þess, að fjöldinn allur með okkar þjóð hefur þroskazt í þessari viðureign, þroskazt á vinnunni og þeirri viðureign, sem hún var við náttúruna, hvort sem það var í landbúnaðinum, sjávarútveginum eða annars staðar.

Ef það ættu fyrir okkur að liggja eitthvað svipuð örlög og t.d. hafa komið yfir ensku þjóðina á síðustu öld í þessum efnum, — sem ég vona nú, að við forðum okkur frá, — þá mundi það þýða að rýra alveg stórkostlega allt það bezta í þjóðareinkennum íslenzku þjóðarinnar sem heildar. Og ég held, að þegar við tölum um iðnað og þróun hans á Íslandi, þá þurfum við frá upphafi að sjá þessar hættur fyrir. Það getur enginn maður hugsað um t.d. þróun stóriðjunnar i Bretlandi á síðustu hálfri annarri öld án þess að verða þess með hryllingi var, hvað þróun stóriðju getur þýtt fyrir eina þjóð í því að rýra beztu þjóðareinkenni hennar, þó að sú sama stóriðja verði um leið til að gera þjóðarheildina og þó fyrst og fremst yfirstéttina með þjóðinni ríkari, miklu ríkari.

Við þurfum þess vegna frá upphafi að sjá þessa hættu og reyna að afstýra henni. Við þurfum að gera okkur það ljóst, að þegar við ætlum að skapa iðnað hér hjá okkur, þá verðum við að haga honum þannig frá upphafi, að við siglum ekki bara í kjölfar þeirra þjóða, sem hafa farið illa með sitt fólk, gert það svo að segja að þrælum vélanna í staðinn fyrir að drottnurum þeirra.

Ég vil minna þá, sem lesa mikið okkar íslenzku skáld, á lýsingu Stephans G. t.d. í Drottinsorðinu á því, hvað stóriðja þýði, ef hún er látin hömlulaust ryðjast inn, og mér sýnist, að öll hugsunin, sem búi á bak við í 1. gr., markmiðinu, sem þarna er miðað við, sé út frá því að gera manninn svo að segja undirorpinn tækninni, láta hann beygja sig fyrir henni, láta hann laga sig að henni, láta hann verða einn hluta af henni, að gera manninn að verkfæri. Ýmsar erlendar þjóðir, og við verðum ekki sízt varir við það t.d. hjá Bandaríkjamönnum, þeim þeirra, sem ganga alveg upp í þeirra miklu tækni, líta næstum því með fyrirlitningu á það, að við skulum hafa t.d. mikið af bókaútgáfu og bókabúðum hér á Íslandi og eru hissa á, hvað við séum eiginlega að gera með slíkt. Ég held, að hugsunarhátturinn, sem liggur á bak við, markmiðið, sem hérna er sett fyrir svona iðnaðarmálastofnun, sé allt of mikið miðað við það að gera okkur undirorpna þessari tækni, í staðinn fyrir að við ættum að hugsa um það, um leið og við komum tækninni á hjá okkur, að hún er aðeins tæki til þess að þjóna ákveðnum markmiðum, og því aðeins verðum við meiri og betri menn, þegar við höfum alla þessa tækni, að við látum hana ekki ná tökum á okkur, heldur náum sjálfir tökum á henni, að það verði ekki fólkið á valdi véla sinna, eins og Stephan G. komst að orði, sem kemur út úr þessu öllu saman.

Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess við þá n., sem fær þetta mál til athugunar, að hún hugsi ofur lítið um þessa hlið málsins líka. Það veitir ekki af að hafa hugsun um það í tíma. Það er venjulega ekki aftur tekið, sem iðnaður eða stóriðja kann að eyðileggja hjá einni þjóð, því að það er fyrst og fremst hugarfarsleg eða sálarleg mein, sem hún getur þannig unnið.

Ég vildi aðeins minna á þetta, áður en 1. umr. um þetta mál væri lokíð, því að ég kann ekki við það, að við bara sniðum okkar löggjöf eftir fyrirmælum erlendra stofnana, þótt góðar kunni að vera á sínu sviði, heldur reynum líka að læra eitthvað af þeim göllum, sem þróun iðnaðarins hefur leitt af sér og hinir beztu Íslendingar höfðu glöggt auga fyrir, þegar þeir komu til Vesturheims og kynntust þar fyrst stóriðjunni.

Að öðru leyti hefur ekki neitt verið hrakið af því, sem ég hef gagnrýnt almennt við þetta frv. hvað snertir þá ringulreið, sem það mundi auka á í sambandi við okkar þjóðarbúskap, í sambandi við það, sem ég hef gagnrýnt um þau pólitísku sjónarmið við skipun þeirrar stjórnar, sem ættu að gefa Sjálfstfl. hreinan meiri hluta þar, eða annað slíkt. Það er að vísu mjög slæmt, ef ekki er hægt að fá meira að segja þá hæstv. ráðh., sem láta svo lítið að vera viðstaddir hér í þinginu, þegar verið er að ræða þeirra mál, til þess að láta í ljós skoðanir þeirra á því, sem þm. koma fram með. Það hefði verið ákaflega heppilegt að geta þannig rætt þetta frv. meira við 1. umr. þess, við þá almennu umr., ekki sízt af því, að þeir þm. úr flestöllum flokkum þingsins, sem hér hafa talað, hafa allir haft meira eða minna og margir mjög mikið út á það að setja.

Ég vil svo að öðru leyti aðeins minna á það bréf, sem prentað var á þskj. 253, frá atvinnumálanefnd ríkisins, og þá rökstuddu dagskrá, sem flutt var í Ed. um þetta mál, til athugunar, þegar kæmi að því að afgr. þetta mál endanlega, en mun eftir þær ábendingar, sem ég nú hef gefið í viðbót við það, sem ég áður hef flutt, láta mínu máli lokið nú, a.m.k. ef ekki gefst tilefni til að ræða frekar um það, sem hér hefur verið fundið að þessu frv. og sannarlega er orðið margt og mikið.