20.03.1956
Efri deild: 88. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í C-deild Alþingistíðinda. (1735)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. 1. gr. þess frv., sem ég hef leyft mér að bera hér fram, hljóðar þannig:

„Tilgangur þessara laga er að stuðla að jafnvægi í byggð landsins með rannsóknarstörfum, áætlunargerð og fjárhagslegum stuðningi til framkvæmda og eflingar atvinnulífi í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa, í því skyni að auka skilyrði til fólksfjölgunar eða draga úr fólksfækkun í þeim landshlutum.“

Hér er í fáum orðum lýst greinilega tilgangi þessa frv., en frv. fylgir mjög ýtarleg grg., og ég tel þess vegna, að ég geti látið mér nægja að fylgja því úr hlaði með örfáum orðum, og þá ekki sízt vegna þess, að hæstv. forseti þessarar d., hv. þm. Barð. (GíslJ), er annar af höfundum þessa frv., en hinn höfundurinn er hv. þm. N-Þ. (GíslG).

Forsaga málsins er í fáum dráttum þessi: Á Alþ. var árið 1953 borin fram í Sþ. till. til þál. um undirbúning heildaráætlunar i þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi i byggð landsins. Flm. þeirrar till. voru hv. alþm. Sigurður Bjarnason, Gísli Jónsson, Gísli Guðmundsson, Magnús Jónsson, Eiríkur Þorsteinsson, Halldór Ásgrímsson og Jón Sigurðsson. Till. var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja nú þegar undirbúning að heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Að slíkum undirbúningi loknum skal ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi tillögur sínar um nauðsynlegar framkvæmdir. Skulu þær stefna að því að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins og tryggja sem mest framleiðsluafköst þjóðarinnar. Fiskifélag Íslands, Búnaðarfélag Íslands og Landssamband iðnaðarmanna skuli vera ríkisstjórninni til aðstoðar við starf þetta.“

Alþingi samþykkti þessa till. óbreytta þann 4. febr. 1953. Ríkisstj. ákvað síðan að fela alþm. Gísla Jónssyni og Gísla Guðmundssyni að vinna að undirbúningi þessa máls, og þann 29. júní 1954 ritaði atvmrn. þeim bréf, þar sem þeim var falið að vinna að undirbúningnum og semja heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum, samkvæmt því, sem lagt var til í þingsályktuninni.

Í lok Alþ. 1954–55 bar allshn. Sþ. fram till. um ráðstafanir til atvinnuaukningar, og var þessi þáltill. samþ. á Alþ. 11. maí 1955. Var sú till. í raun og veru brtt. við till., sem þeir Sigurður Bjarnason, Gísli Jónsson og Kjartan J. Jóhannsson höfðu borið fram um ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum. Þessi till. allshn. var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á því fyrir næsta þing, hverjar ráðstafanir séu tiltækilegar til þess að bæta úr atvinnuerfiðleikum þeirra landshluta, sem harðast hafa orðið úti vegna vaxandi rányrkju fiskimiðanna eða skorts á atvinnutækjum.“

Þar sem þessi síðari þáltill. fjallaði um hliðstæð málefni og þáltill. frá 4. febr. 1953, fól atvmrn. alþm. Gísla Jónssyni og Gísla Guðmundssyni að vinna að rannsókn þeirri, sem um ræðir í þáltill. frá 11. maí 1955, jafnframt því sem þeir ynnu að þeim störfum. sem þeim var falið með bréfi atvmrn. 29. júní 1954.

Hér var við margháttuð og erfið vandamál að etja, sem brýna nauðsyn bar til að kryfja til mergjar og finna skynsamlegar leiðir til úrbóta. Hinir stórfelldu fólksflutningar á undanförnum árum, fyrst og fremst úr sveitum til sjávarsíðu og frá kauptúnum og minni kaupstöðum til Reykjavíkur og bæjanna við sunnanverðan Faxaflóa, hafa verið meiri en þjóðfélaginu er hollt. Þeir hafa skapað örðugleika í þeim héruðum, sem fólkið fluttist úr, og einnig í þeim bæjum, sem það fluttist til, og þá sérstaklega vegna húsnæðisskorts.

Árangurinn af starfi alþm. Gísla Jónssonar og Gísla Guðmundssonar er það frv. til l. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, sem hér er lagt fram. Eins og grg. ber með sér, hefur hér verið unnið mikið og ágætt starf til þess að skýra þau viðfangsefni, sem við er að fást.

Frv. er í tveimur köflum. Fyrri kaflinn gerir ráð fyrir, að Alþ. kjósi að loknum alþingiskosningum hverju sinni fimm manna jafnvægisnefnd. N. á að safna gögnum um ástand og atvinnuhorfur í hinum einstöku byggðarlögum og gera skýrslur um allt það, er máli skiptir fyrir framkvæmdir til jafnvægis. Á grundvelli þessara gagna verða síðan gerðar áætlanir um framkvæmdir í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir. Í síðari kafla frv. er ákveðið, að stofna skuli sjóð, sem nefnist jafnvægissjóður, og er hlutverk hans að veita fjárhagslegan stuðning til eflingar atvinnulífi í samræmi við þann tilgang l. að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Stofnfé jafnvægissjóðs á að verða í fyrsta lagi 5 millj. kr. framlag samkvæmt XLV. tölul. 22. gr. fjárl. þessa árs; í öðru lagi fé það, sem ríkissjóður hefur lánað til þess að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu samkvæmt 20. gr. og 22. gr. fjárlaga; í þriðja lagi inneignir ríkissjóðs hjá lántakendum ríkisábyrgðarlána vegna afborgana og vaxta, sem ríkissjóður hefur greitt af þessum lánum síðustu 10 árin fyrir gildistöku þessara laga. Þessar kröfur verða afhentar sjóðnum til fullrar eignar. Hins vegar er engin vissa fyrir því að sjálfsögðu, hvers virði þær kunna að reynast.

Frv. gerir ráð fyrir, að tekjur jafnvægissjóðs verði þessar: Í fyrsta lagi vaxtatekjur, í öðru lagi 5 millj. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði, í þriðja lagi skuldir, sem ríkissjóður eignast samkvæmt 2. og 3. tölul. 9. gr. l. eftir gildistöku þeirra og ég áðan greindi frá.

Stjórn jafnvægissjóðs veitir lán til hvers konar framkvæmda, sem að dómi sjóðsstjórnarinnar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Gert er ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn annist afgreiðslustörf og reikningshald sjóðsins.

Til þess að tryggja sem bezt efnahag sjóðsins er svo fyrir mælt, að ekki megi veita eftirgjöf á skuld, nema samþykki Alþ. komi til, og er þá jafnframt svo til ætlazt, að ríkissjóður bæti sjóðnum að hálfu þá upphæð, sem gefin hefur verið eftir, innan árs frá því að eftirgjöfin var veitt.

Ég álít, að hér sé um mjög merkilegt mál að ræða. Til þess ber brýna nauðsyn, að haldið sé uppi starfi og framleiðslu hvarvetna á landinu, þar sem lífsskilyrði eru góð. Þess vegna er eðlilegt, að hið opinbera hlutist til um stuðning við þau byggðarlög, sem skortir atvinnutæki til þess að tryggja íbúum sínum lífvænlega afkomu og atvinnuöryggi.

Ég þykist nú mega vænta þess, að þetta frv. sæti ekki andstöðu neins þingflokks og eiginlega tæplega nokkurs þm., og ég teldi mikils um vert, ef hægt væri að greiða svo götu þess, að það næði samþykki hæstv. Alþ., áður en þingi yrði lokið, enda þótt allir voni, að mjög bráðlega dragi að þinglokum.

Í von um þetta, í von um þá skjótu afgreiðslu, sem frv. verðskuldar, leyfi ég mér svo að óska eftir því, að að þessari umr. lokinni verði því vísað til hv. fjhn.