22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í C-deild Alþingistíðinda. (1737)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Á fyrri helmingi þessarar aldar hefur orðið meiri bylting í atvinnuháttum og lífskjörum Íslendinga en á nokkurri annarri öld, frá því er landið byggðist. Á þessu tímabili hefur tæknin fremur en nokkuð annað sett merki sitt á þjóðlífið, bæði til lands og sjávar. Hin byltingarkennda tækniþróun hefur breytt höfuðborg landsins úr 5000 manna fátæku þorpi í 60 þús. manna borg með nýtízku byggingum, hitaveitu, rafmagni, iðjuverum, hafnarmannvirkjum, glæsilegum skólum, skemmtistöðum leiks og lista og margvíslegum menningartækjum, svo sem listasöfnum, útvarpi, síma, leikhúsum og kvikmyndahúsum. Upp hafa risið sjúkrahús og heilsuverndarstöðvar, lagðir vegir, götur og flugvellir, vatns- og skólpæðar og sitthvað annað, sem fjölbýlið útheimtir. Umhverfis höfuðborgina rísa upp í vaxandi mæli þorp, bæði til sjávar og sveita, með svipuðum lífsþægindum og höfuðborgin sjálf og hafa á margan hátt stuðning af því margbrotna athafnalífi, sem daglega iðar í sjálfri höfuðborginni, og yzt á Reykjanesskaga, á gróðurlausu brunahrauni, rís upp önnur borg með sérstöku sniði, sérstökum þjóðháttum og sérstakri menningu í krafti gulls- og gróðavona, mögnuð sterkum erlendum áhrifum og ógnar á margan hátt því jafnvægi, sem íslenzkum atvinnuháttum er lífsnauðsynlegt. Samfara þessu vaxa einstaka þorp og bæir annars staðar á landinu, einkum þar sem hráefni til framleiðslunnar eru auðfundin, og með því að eftirspurn eftir vinnuafli er miklu meiri á þessum stöðum en viðkoman, lífskjörin betri en i fámenninu, glaumurinn og gleðin meiri, sogast fólkið til þessara staða frá hinum dreifðu byggðum, dregst þaðan að fjölbýlinu eins og segullinn að stálinu.

Það er ljóst. að slík bylting í lífi þjóðar eins og hér hefur átt sér stað skapar margvíslegan vanda, sem mæta verður með fullkomnum skilningi og fullkominni festu. Það er að sjálfsögðu þýðingarlaust að ætla sér að spyrna á móti broddunum eða stöðva með berum höndum þunga straumelfunnar, sem fellur af fjöllum til sjávar samkvæmt órjúfanlegu lögmáli náttúrunnar, en tæknin hefur þó vísað veginn til þess að fjötra slík öfl og benda þeim í rétta átt, þjóðunum til gagns og blessunar.

Það verður tæplega um það deilt, að héruðin umhverfis höfuðborg landsins mundu geta brauðfætt alla þjóðina, þótt hún flyttist þangað, sem nú er helzt útlit fyrir að verði, ef ekkert er að gert til þess að stöðva þann þunga straum, sem þangað liggur. En hitt er þá og jafnljóst, að þetta mundi ekki einasta skapa mikinn vanda, bæði fyrir þá staði, sem fólkið flykkist til, sem hina, er fólkið flyttist frá, heldur mundi og skapast við það allt annar og lakari þjóðfélagskjarni en ef fólkið væri dreift um allar byggðir landsins, svo sem verið hefur frá landnámstíð, og einmitt það lóð ætti að verða þyngra á vogarskálunum en flest annað, er meta skal, hvort rétt sé að stefna að því að halda öllum landshlutum í byggð, eftir því sem mögulegt er, eða færa fólkið saman í þéttbýli, svo sem nú er stuðlað að á margan hátt.

Ekkert er einni þjóð eins skaðlegt og múgsefjun. Er óþarft að fletta mörgum blöðum veraldarsögunnar til þess að sannfærast um, hvaða böl hún hefur leitt yfir þjóðirnar, einnig þær, sem talið er að standi á háu menningarstigi. En múgsefjunin hefur engin þroskaskilyrði þar, sem einstaklingurinn er í beinni snertingu við náttúruna og þreytir fangbrögð við erfiðleika vinds og veðra, svo sem jafnan hefur verið hlutskipti Íslendinga. Við slík uppeldisskilyrði er það hin sjálfstæða hugsun, sem þroskar og skapar manninn og mótar, og sá harði og holli skóli lífsins hefur skapað þann kjarna, sem þessari þjóð hefur jafnan verið ómissandi til þess að geta lifað hér menningarlífi í þessu harðbýla, en fagra landi. Og það er vegna þessara sanninda, að Alþingi er sammála um, að gera skuli sérstakar ráðstafanir til þess að stuðla að því, að jafnvægi haldist í byggðum landsins, og að spyrna fótum við óeðlilegum fólksstraumi til þéttbýlisins frá hinum afskekktu byggðum.

Frv. því á þskj. 496, sem hér er til 2. umr., ef að lögum verður, og þeim framkvæmdum, sem gerðar verða samkvæmt fyrirmælum þeirra laga, er ætlað að verða varnarveggur gegn flóttanum frá strjálbýlinu, viðspyrna gegn flóttanum frá manndómsátökunum við erfiðleikana til auðveldari afkomu, meiri glaums og gleði og glæstra vona um fljóttekinn gróða og margvísleg lífsþægindi, sem oft verða vonbrigði ein. Því er ætlað að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, og tilgangur þess er markaður skýrum dráttum í 1. gr. frv.

Frv. þessu, sem samið er af tveim þm., er til voru kjörnir af ríkisstj. til þess að undirbúa heildaráætlun í þeim tilgangi að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins, fylgir ýtarleg grg. og fylgiskjöl, sem sýna, hvaða starf hefur verið innt af hendi í sambandi við þennan undirbúning, áður en frv. er samið, og að ákvæði frv. eru í órjúfanlegu sambandi við þau verk, sem þar voru unnin. Ég mun því ekki hér fara langt út i þau atriði, sem upplýst eru í grg. og fskj., enda voru þessi atriði ýtarlega skýrð hér af hæstv. forsrh. við 1. umr. um frv.

Mér þykir hins vegar rétt að fara hér nokkrum orðum um einstök atriði, er mér hefur virzt af samtölum við einstaka hv. þm., eftir að frv. var útbýtt, að valdið hafi nokkrum misskilningi eða sætt nokkurri gagnrýni. Í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að frv. í heild og sérhverja grein þess verður að vega og meta með tilliti til þess, hvort unnt sé að ná þeim tilgangi, sem ákveðið er í 1. gr. frv., og hvort það reynist hægara og öruggara að öðrum leiðum. Allar breytingar, sem kunna að verða gerðar á frv., verður fyrst og fremst að miða við þetta, en 1. gr. frv. er sett í fyllsta samræmi við samþykkt Alþingis og þá stefnu, sem mörkuð var með þáltill. þeim, sem samþykktar voru um þetta efni. Gagnrýni sú, sem ég hef hér minnzt á, snertir einkum ákvæði 4. og 5. gr. frv. og ákvæði 9. gr.

Mér hefur verið bent á, að með ákvæðum 4. og 5. gr. frv. væri jafnvægisnefndin að seilast inn á verksvið annarra stofnana, svo sem hagstofunnar, Búnaðarfélags Íslands og Fiskifélags Íslands, með því að safna efni til skýrslugerða og gera skýrslur um þau atriði, sem þar eru fram tekin. Út af þessu vil ég taka fram eftirfarandi: Það er frumskilyrði til að geta haft heildaryfirlit yfir allt það, er snertir jafnvægi í byggð landsins, og þær áætlanir, sem gera þarf á hverjum tíma til atvinnubóta á hverjum stað, að fyrir liggi allar þær upplýsingar, sem um er getið í frv. Án þess væri þetta verk óvinnandi fálm. Vísa ég hér sérstaklega til athugasemda um 5. gr. í grg. frv. Þær margvíslegu upplýsingar, sem þegar liggja fyrir, hafa verið fengnar með aðstoð þeirra stofnana, sem þessi verk vinna og vinna þau áfram, þótt þetta frv. verði að lögum óbreytt. Hér er því á engan hátt hugsað til þess að ganga inn á verksvið þeirra, heldur að hafa við þær fulla samvinnu og njóta að fullu aðstoðar þeirra, svo sem verið hefur í sambandi við undirbúning málsins. Finn ég ástæðu til þess að taka það hér fram, að þessar stofnanir allar létu í té þær upplýsingar, sem um var beðið, með fyllstu samúð við málefnið, og kom aldrei fram í umræðum við þær, að á því væri nokkur hængur. Ég tel því víst, að uggur sá, sem gripið hefur einstaka menn, að hér sé verið að ganga inn á svið þessara stofnana, sé alveg ástæðulaus. Læt ég því nægja að segja þetta um það atriði.

Ákvæði 9. gr. er aftur á móti miklu þýðingarmeira mál. Það þykir orka mjög tvímælis, hvort rétt sé að afhenda sjóðnum þær kröfur, sem ríkissjóður á nú á hendur ýmsum aðilum vegna framlaga undanfarinna ára til atvinnubóta á ýmsum sviðum á landinu og vegna lána, sem kunna að vera i vanskilum.

Ég vil einnig hér vísa til athugasemdanna í grg. við 9. gr. frv. Því ber ekki að neita, að þótt hér hafi aldrei verið um að ræða annað en lán til þessara aðila, þá líta margir svo á, að lán þessi eigi aldrei að endurgreiða. Þessi skoðun er að mínu áliti bæði röng og skaðleg, og er ég alveg viss um, að ef frá upphafi hefði átt að úthluta þessu fé hér á Alþ. sem gjöf eða sem styrk, þá hefði þar ekki verið farið eftir þeim reglum, sem gilt hafa um úthlutun á lánunum. Það má að sjálfsögðu deila um það, hversu mikils virði þessar kröfur kunna að vera, og samkvæmt ákvæðum frv. hefur Alþ. það jafnan í hendi sér að afskrifa þær eftir föstum reglum. En að afskrifa þær nú skilyrðislaust tel ég að komi ekki til mála, og þá er sú leið, sem hér er farin, sjálfsögð.

Með þessu skipulagi fá þessi mál allt annan og betri blæ. Það hefur því miður þróazt sú skoðun hjá allt of mörgum, að sjálfsagt sé að nota sér alla möguleika til þess að klófesta fé ríkissjóðs undir einhverju yfirskini og síðar að greiða það ekki aftur, og þó að flest af því, sem veitt hefur verið hér, hafi verið nauðsynlegt og rétt, þá hefur og annað flotið með, sem ekki var jafnsjálfsagt og aldrei hefði verið lagt fram sem beinn styrkur, ef Alþ. hefði átt að skipta fénu.

Með því að láta sjóðinn fá þessar kröfur skapast nýtt viðhorf, því að fénu verður þá áframhaldandi varið til uppbyggingar í hinum afskekktu byggðum landsins. Menn eru því raunverulega að vinna að heill sinna eigin sveita með því að endurgreiða upphæðina, ef til þess eru möguleikar, en það er á valdi sjóðsstjórnarinnar að meta það á hverjum tíma. Ég held, að hér sé um svo mikilvægt atriði að ræða, að ef þetta ákvæði yrði fellt úr frv., tel ég, að hinum fjárhagslega grundvelli sjóðsins sé raskað svo, að ekki verði við unað. Skal ég ekki ræða þetta efnislega frekar, nema tilefni gefist til.

Eins og hæstv. forsrh. tók fram hér við 1. umr., þá er þess mikil þörf, að þetta merka mál nái fram að ganga og að frv. verði gert að lögum á þessu þingl. Undir þetta hefur hæstv. fjhn. þessarar d. tekið með því að afgreiða málið til 2. umr., svo sem fram kemur i nál. á þskj. 514. Einn nm., Haraldur Guðmundsson, var ekki viðstaddur þegar málið var afgr. í n., og gerir hann því væntanlega grein fyrir afstöðu sinni hér við þessa umr. Aðrir nm. hafa óbundnar hendur um að bera fram brtt. eða fylgja öðrum, sem fram kunna að koma.

Í 10. gr. frv. er prentvilla, röng tilvísun, sem löguð verður í skjalaparti, og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að leiðrétta það.

Að svo mæltu vildi ég mega vænta þess, að hv. d. samþykkti frv. óbreytt.