22.03.1956
Efri deild: 90. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í C-deild Alþingistíðinda. (1738)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Vegna þess að hæstv. forsrh. óskaði sérstaklega eftir því, að frv. þessu yrði hraðað, og með því að hæstv. forseti d. lagði mikla áherzlu á hið sama, bæði hér í d. og í fjhn., gekk ég inn á það í fjhn. að tefja ekki málið þar og skrifaði undir nál. og mælti með samþykkt frv., en áskildi mér rétt til þess að bera fram brtt., og svo gerðu aðrir nm.

Ég taldi mig geta mælt með því, að frv. yrði samþ., af því að ég var samþykkur stefnu þess, en hins vegar hafði ég ekki athugað það nægilega í einstökum atriðum og hafði því fyrirvara um þau. Nú hef ég lesið frv. og athugað, þótt eigi hafi mér gefizt tími til þess að gera það svo rækilega sem ég tel þurfa um svo óvenjulegt og stórt mál, en við þennan fljótlega yfirlestur hef ég rekið mig á ýmislegt, sem ég tel að rétt sé að breyta í frv., og efast varla um það, að þeir, sem frv. hafa samið, geti fallizt á a.m.k. sumt af því, sem ég tel að betur mætti fara.

Í 2. gr. frv. segir:

„Nefndin velur sér formann og ritara. Nefndinni er heimilt að ráða hagfróðan mann í þjónustu sína svo og fleiri starfsmenn, ef ríkisstj.. samþykkir.“

Hér er talað um, að nefndinni sé heimilt að ráða sér aðstoð og heimilt að ráða sér hagfróðan mann, einn hagfróðan mann. Verkefni n. er svo stórt og nær yfir svo margþætta starfsemi, að ég hygg, að til þess geti þurft að taka að fá aðstoð fleiri en eins hagfróðs manns, enda finnst mér liggja ljóst fyrir, að n. sjálf hefur litið svo á, því að í skýringu í athugasemdum þeim, sem fylgja frv. um einstakar greinar, segir einmitt nefndin: „Nefndinni er nauðsynlegt að ráða í þjónustu sína hagfróðan mann, einn eða fleiri.“ En í frv. er aðeins gert ráð fyrir heimild til að ráða einn slíkan mann. Þetta held ég að ætti að leiðrétta, og þetta efast ég varla um að nefnd sú, er samdi frv., telji réttmæta athugasemd, sem hún geti fallizt á.

Í 5. gr. er talið upp, hvað jafnvægisnefnd skuli útvega af skýrslum til að byggja störf sín á. Þetta er geysilega margt. Það er í 23 liðum, og gæti manni fundizt, að hér væri í l. farið inn á það svið, sem telja mætti á sviði reglugerðar, er stæði á bak við lögin. Og úr því að farið er að telja upp svona marga liði í lögunum sjálfum, sakna ég hér í upptalningunni atriða, sem ég tel fullt svo rétt að fram komi í lögunum eins og sumt það, sem þar er fram tekið, og einstök atriði finnast mér vafasöm í upptalningunni. 2. liður upptalningarinnar hljóðar svo, en hann er um, hvaða skýrslur skuli fá um afkomu einstaklinga í hreppum, sýslum og kaupstöðum: „Nefndin á að útvega skýrslur um nettótekjur einstaklinga í hreppum, sýslum og kaupstöðum.“ Nú sé ég ekki, að sérstök ástæða sé til þess að taka fram, að það skuli vera nettótekjur, sem lagðar verði til grundvallar við það starf, sem n. framkvæmir. Mér virðist miklu eðlilegra að segja, að afla skuli skýrslna um tekjur einstaklinga. Ef meta á afkomu í einhverju byggðarlagi, sýna ekki nettótekjurnar sérstaklega þá afkomu. Það skiptir vitanlega mestu máli, hvað kostar að afla teknanna, svo að brúttótekjur ættu líka að athugast, og enn fremur skiptir máli, hvað margt fólk hjá framteljandanum þarf til þess eða hvað fjölskyldan er stór, sem aflar teknanna, svo að til greina eiga líka að koma athuganir á skattskyldum tekjum. Ég skil varla i, að menn geti ekki yfirleitt fallizt á það, að hér eigi að vera um öflun skýrslna um tekjur einstaklinga að ræða.

Í 3. liðnum segir í niðurlagi um skýrslusöfnunina: „Skal vera sérstök skýrsla um laus lán (til stutts tíma) og önnur lán (til langs tíma).“ Ekki sé ég, hvaða þýðingu þetta hefur, og ekkert er fram tekið um það, hvað er „stuttur tími“ og hvað er „langur tími“ í þessu sambandi.

Þá vil ég minnast á 6. liðinn. Samkvæmt honum á að afla skýrslna um skiptingu persónulegra styrkja úr ríkissjóði eða frá ríkisstofnunum eftir sýslum og kaupstöðum. Ekki veit ég nú gerla, hvað átt er við með persónulegum styrkjum, en ég sé ekki, að það skipti eiginlega nokkru verulegu máli í sambandi við afkomu eins byggðarlags, hvort það eru meiri eða minni persónulegir styrkir úr ríkissjóði eða frá ríkisstofnunum, sem fólkið þar fær, t.d. skiptir það ekki máli í sambandi við jafnvægið, hvort einhver í byggðarlaginu fær framlag af 18. gr., eða ég get ekki séð það. Ég held þess vegna, að það mætti gjarnan fella þennan lið niður og fækka þannig upptalningunni.

Fleira finnst mér hér en það, sem ég hef nefnt, nokkuð óákveðið. 17. liðurinn er þannig: „Um framleiðslutæki til sjávarútvegs og iðnaðar í kauptúnum og kaupstöðum, eftir því sem nánar verður ákveðið.“ En nánar ákveðið af hverjum?

Fleiri liðir eru með slíkum viðtengingarliðum, en 22. liðurinn þó á nokkuð sérstakan hátt. Þar stendur: „Um verðmæti og ástand eyðijarða og ónotaðra mannvirkja í hverri sýslu, hreppi og kaupstað, utan nánar tiltekinna þéttbýlissvæða.“ — „Utan nánar tiltekinna þéttbýlissvæða.“ Með þessu er mjög litið ákveðið í l. og ekki sagt, hverjir tiltaka nánar þau svæði, sem ekki þurfa rannsóknarinnar við og ekki skipta máli, þegar um jafnvægið er að ræða.

Það, sem ég tel þá sérstaklega vanta hér í upptalninguna, miðað við það, hvað margt er talið upp, er það, að ekki er gert ráð fyrir því, að safnað sé skýrslum um afrakstur, t.d. aflaskýrslum. Það er gert einmitt ráð fyrir að safna skýrslum um úthöldin eða skipastólinn, en hitt skiptir ekki minna máli, að þessi skipastóll hafi skilyrði til að ganga á þau mið, sem ekki eru veiðileysur. Óg þegar meta á, hvort á að hjálpa einhverju byggðarlagi, sem virðist eiga erfitt uppdráttar, þá finnst mér mjög koma til greina, hvort byggðarlagið hefur í raun og veru þá aðstöðu að geta til frambúðar rekið atvinnu, sem ber sig vel. Aflaskýrslur eru einna þýðingarmestu skýrslurnar í sambandi við það að kynnast skilyrðum byggðarlaga við sjóinn.

Sama má segja um það, að það er ekki nóg að vita fjölda búpenings, ef ekki er vitað um, hvaða afrakstur hann gefur, hvort hann hefur í raun og veru fullkomin afurða- og vænleikaskilyrði á þeim slóðum. Og ekki er heldur nóg að vita, hvað dagsláttur eru margar, sem ræktaðar eru; hitt skiptir ekki minna máli að vita. hvað fæst af þeim dagsláttum í meðalári.

Ég tel, að þetta, sem ég hef nú nefnt, mætti vera í reglugerð, en nú er ekki gengið út frá reglugerð, og þess vegna nefni ég þetta, tel, að það megi ekki vanta til samræmis í greinina.

Þá vil ég minnast á 9. gr., þar sem talað er um stofnfé jafnvægissjóðs, og sérstaklega vil ég þó minnast á síðustu mgr., en hún er svo hljóðandi:

„Kröfur ríkissjóðs vegna lána og greiðslu vanskilaskulda samkvæmt þessari grein skulu afhentar jafnvægissjóði til eignar, um leið og hann tekur til starfa. Stjórn sjóðsins (jafnvægisnefnd) er heimilt að semja við skuldunauta um greiðsluskilmála, og má þá, ef ástæða þykir til, sbr. 1. gr., taka tillit til greiðslugetu þeirra.“

Ég tel, að jafnvægisnefnd sé í þessari mgr. og í fleiri gr., sem á eftir fara, gefið of mikið einræðisvald. Ég tel, að þótt hún hafi frumkvæði um þessi atriði, sé rétt að takmarka vald hennar við það, að hún þurfi samþykki ríkisstjórnar til þess að framkvæma þetta, sem hér er um rætt, að semja við skuldunauta um greiðsluskilmála, þegar um fé það er að ræða, sem hún hefur fengið til umráða, og einnig ákvarðanir, sem koma fram í seinni greinum, sem ég kem að síðar.

Um 10. gr. vildi ég sérstaklega segja það, að þar er gert ráð fyrir í 2. tölulið, að tekjur jafnvægissjóðs árlega séu árlegt framlag úr ríkissjóði 5 millj. kr.

Nú er stefnt að því að gera þetta frv. að lögum, eða síðasta gr. þess bendir til, að það vaki fyrir þeim, sem frv. hafa samið og lagt fram, en búið er að afgreiða fjárlög, og þetta væri að fara inn á svið fjárl., að ákveða það, að úr ríkissjóði skuli koma á þessu ári 5 millj. kr. Ég tel, að hér þurfi að koma viðliður um það, að í fyrsta sinn komi til þessarar greiðslu úr ríkissjóði árið 1957, þ.e. á næsta fjárlagaári. Ég tel, að það eigi ekki við að fara að samþykkja útgjöld úr ríkissjóði utan fjárlaga á þennan hátt.

Í upphafi 11. gr. segir: „Úr jafnvægissjóði má veita lán til hvers konar framkvæmda. sem að dómi sjóðsstjórnarinnar eru til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum.“ Svo er enn fremur sagt í niðurlaginu um tryggingu fyrir þessum lánum, að um vexti og afborgunarskilmála fari eftir ákvörðun jafnvægisnefndarinnar hverju sinni. Mér þykir þetta of mikið vald, sem hugsað er að gefa jafnvægisnefnd, og ég tel, að hér eigi að skjóta inn í, að úr jafnvægissjóði megi veita með samþykki ríkisstj. lán o.s.frv., og skilmálar láns eigi líka að fá samþykki ríkisstjórnar.

Í 13. gr. kemur þetta sama fyrir. Þar er sagt: „Eigi má veita eftirgjöf á skuld, sem er eign jafnvægissjóðs, nema samþykki Alþingis komi til.“ Þar er það að vísu bundið með samþykki Alþingis, en ég tel eðlilegt, að ríkisstj. sé- með í ráðum og þess vegna komi þarna inn, að heimilt sé að gera þetta með samþykki ríkisstjórnar og Alþingis. Hér er líka um það að ræða, að lán þau, sem gefa á eftir, eiga að bætast upp að hálfu með sérstöku framlagi ríkissjóðs. Þetta er vitanlega tryggingarákvæði, til þess að sjóðurinn tapi ekki að fullu þeim lánum, sem oft þurfa

vitanlega við þessa starfsemi að vera áhættusöm lán, og ég skal ekki lasta þetta. Það er lagt til af umhyggju fyrir sjóðnum. En ég tel rétt, að þannig sé um hnúta búið, að stjórn ríkisins hafi þar hönd í bagga og hennar samþykki þurfi til.

Enn er þetta sama atriði í 14. gr. Þar stendur: „Nú er langvarandi atvinnuleysi í kaupstað, og er þá heimilt að veita úr jafnvægissjóði fjárhagslega aðstoð til fjölskyldna, sem sækja um slíka aðstoð, til þess að flytjast búferlum í annað sveitarfélag, þar sem þær hafa möguleika til að sjá sér farborða til frambúðar að dómi jafnvægisnefndar, enda sé það álit nefndarinnar og hlutaðeigandi sveitarstjórna, að búferlaflutningurinn stuðli að jafnvægi í byggð landsins.“

Án þess að fara nánar út í efni þessarar greinar, held ég, að sjálfsagt sé, að til þess að veita fé til slíkra fólksflutninga þurfi samþykki ríkisstjórnarinnar.

Svo er að lokum síðasta greinin, 15. gr. Hún er á þessa leið: „Lög þessi öðlast þegar gildi, og skal jafnvægisnefnd kosin í fyrsta sinn á Alþingi því, er samþykkir lögin.“ Annars er gert ráð fyrir því, að jafnvægisnefnd sé kosin eftir að alþingiskosningar hafa farið fram. Nú skilst mér, að alþingiskosningar séu nærri dyrum og sennilega nær dyrum en þeir hafa gert ráð fyrir, sem sömdu frv. á þeim tíma, sem það var samið, og því tel ég, að þótt lögin öðlist gildi á þessu þingi, sé ekki nauðsynlegt að gera það frávik, sem í greininni er gert ráð fyrir, að kjósa jafnvægisnefndina fyrr en að afstöðnum alþingiskosningum.

Þá finnst mér, að inn í frv. vanti helzt nýja grein, þar sem tekið væri fram um endurskoðun reikninga sjóðsins og að þeir skuli birtir í Stjórnartíðindum. Um þetta er ekkert talað í frv., en af því að þar er á margt minnzt, sem er ekki stórvægilegt á móti þessu, tel ég, að þetta megi ekki vanta. Starfsemi sjóðsins á að fara fram í Framkvæmdabankanum. Nú getur verið spurning, hvort endurskoðendur Framkvæmdabankans eigi að endurskoða reikninga sjóðsins, það væri nokkuð eðlilegt. Enn fremur gæti komið til mála, að endurskoðendur ríkisreikninga önnuðust þá endurskoðun. En þetta tel ég nauðsynlegt að taka fram og fullkomlega viðeigandi.

Hér er um svo þýðingarmikið mál að ræða, sem starfsemi sjóðsins er fyrir almenning í landinu, að nauðsynlegt er, að hann fylgist með því, og víst munu sveitarstjórnir telja sér skylt að gera það, og þá þurfa þær að eiga aðgang að reikningum sjóðsins, og mér finnst sjálfsagt að gera ráð fyrir því, að þeir verði birtir árlega í Stjórnartíðindum eins og er um marga aðra reikninga opinberra stofnana.

Ég þykist nú hafa bent á æði margt, sem rétt er að athuga, áður en frv. er afgreitt hér, og fleira mun einnig orka tvímælis. N., sem fjallaði um undirbúning frv., vann að því í nálega tvö ár, svo að það er ekkert furðulegt, þó að þingmenn þurfi nokkurn tíma til þess að vega og meta það, sem til er lagt í frv. Ég er ekki með því á nokkurn hátt að gera lítið úr því verki, sem n. hefur unnið. Það er frumstætt verk á nýju sviði, og fyrirmyndir eru ekki fyrir hendi um slíka löggjöf sem þessa eins og margar aðrar. Mér finnst n. hafa lagt fram allmerkilegt frv., þó að ég telji, að rétt sé að gera á því nokkrar breytingar. Og ég vil fyrir mitt leyti leyfa mér að óska þess, að hæstv. forseti fresti þessari umr. og gefi mér og öðrum hv. þm. ráðrúm til þess að semja brtt. við frv., sem komið gætu fram við þessa umr.