23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (1744)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, var 2. umr. um þetta mál frestað í gær samkvæmt ósk eins hv. nm. fjhn., hv. þm. S-Þ. (KK), sem benti á ýmis atriði í frv., er hann taldi að mættu betur fara. Eftir að umr. hafði verið frestað, var boðaður fundur í hv. fjhn., og. tók hún þá málið á ný til rækilegrar athugunar, enda hafði ekki gefizt tími til þess á fyrsta fundi n. að ræða málið mjög ýtarlega, og voru þá m.a. tekin til athugunar öll þau atriði, er hv. þm. S-Þ. benti á í ræðu sinni, og með því að fullt samkomulag er í n. um breytingar á frv., sumpart í sambandi við þær ábendingar, sem komu fram frá hv. þm. S-Þ., sé ég ekki ástæðu til þess að fara neitt nánar út í hans ræðu sérstaklega og skal því aðeins snúa mér að því að lýsa hér þeim breyt., sem fjhn. hefur orðið sammála um og bornar eru fram á þskj. 541.

Fyrsta brtt. er við 2. gr. frv., að í stað orðanna „að ráða hagfróðan mann í þjónustu sína svo og fleiri starfsmenn, ef ríkisstj. samþykkir“ í 3. málsgr. komi: að ráða menn í þjónustu sína, eftir því sem nauðsyn krefur og ríkisstj. samþykkir. — Sé ég ekki ástæðu til að ræða þessa brtt. nánar, því að þetta er nánast breyting á orðalagi, án þess að það sé raunverulega nokkur efnisbreyting, og getur ekki orðið neinn ágreiningur um þá brtt.

2. brtt. er við 5. gr. frv., en eins og kunnugt er, ákveður 5. gr. í frv. á þskj. 496, hvaða verkefni það séu, er ætlazt er til að jafnvægisnefndin safni upplýsingum um og láti gera skýrslur um, og er það í 23 atriðum. Ég vil í sambandi við þetta benda á, að í 23. lið stendur: „Um önnur atriði, er jafnvægisnefnd þykir máli skipta í sambandi við jafnvægi í byggð landsins.“ En þegar n. fór að athuga þetta nánar, gat hún fallizt á þá aths., sem hv. þm. S-Þ. gerði í sambandi við þessa grein, að það væri varla þess að vænta, að hægt væri að telja upp í frv. alveg tæmandi þau atriði, sem kynnu að falla undir þetta verkefni n., og því væri réttara að hafa þetta óbundnara í sjálfum l. og taka þetta í einni stuttri grein sem heild og taka þá upp í meginatriðum 23. liðinn í 5. gr., en sleppa annarri upptalningu, sem þá að sjálfsögðu félli undir heildarákvæðið. Og þess vegna hefur n. orðið sammála um, að greinin orðist þannig: „Jafnvægisnefnd safnar efni til skýrslugerðar og lætur árlega gera skýrslur um þau atriði, sem þykja máli skipta i sambandi við verksvið hennar.“ Nær þetta ákvæði þá að sjálfsögðu yfir alla þá liði, sem eru felldir í burtu úr 5. gr., þar sem það verður miklu víðtækara en sú upptalning, sem þar er. Þetta er ekki heldur nein efnisbreyting, og ætti ekki að verða neinn ágreiningur um það atriði.

Í 6. gr. í frv. stendur, að opinberar stofnanir skuli, ef jafnvægisnefnd óskar þess, hver á sínu sviði láta henni í té aðstoð og upplýsingar, sem henni eru nauðsynlegar til skýrslugerðar samkv. 5. gr. og áætlanagerðar samkv. 7. gr., og er þá hugsað, að þessar stofnanir láti í té sömu aðstoð eða hliðstæða aðstoð og þær hafa látið í té við undirbúning frv., og þurfi því ekki að taka það frekar fram í frv.

Þá er 3. brtt. við 8. gr., að aftan við gr. bætist ný málsgrein., er orðist svo: „Endurskoðendur Framkvæmdabankans annast endurskoðun reikninga jafnvægissjóðs. Skulu reikningarnir birtir árlega í Stjórnartíðindum.“ N féllst á, að þessi ábending frá hv. þm. S-Þ. væri eðlileg og rétt, og var sammála um, að þetta skyldi tekið upp í frv.

4. brtt. er við 9. gr., að 2. tölul. orðist svo: „Fé það, sem ríkissjóður við gildistöku laga þessara á útistandandi af lánum, er veitt hafa verið samkv. 20. og 23. gr. fjárl. til þess að bæta úr atvinnuörðugleikunum í landinu“, — þ.e.a.s., það verði stofnfé sjóðsins. Í þessu er sáralítil breyt. frá því, sem er í frv. Þar er talað um fé það, sem ríkissjóður hefur lánað til þess að bæta úr atvinnuörðugleikunum í landinu, enda hafi lánin ekki verið gefin eftir fyrir gildistöku þessara laga, og er raunverulega ekki mikið um annað hér að ræða en tilfærslu á orðum, en efnisbreyting engin.

Í b-lið þessarar sömu brtt. er, að í staðinn fyrir „gildistöku laga þessara“ í 3. tölul. komi: fyrir árslok 1953. — Hér er um allverulega efnisbreytingu að ræða. En n. hafði fengið upplýsingar um, að m.a. mundu heyra undir þessi lán ríkissjóðs ýmis lán, sem hann lánar til hinna einstöku hreppa og sveitarfélaga i landinu og eru aðeins skyndilán, en eru endurgreidd á einu til tveimur árum og oft með skuldajöfnuði, og það væri óeðlilegt að láta þetta fé falla til jafnvægissjóðs. Þess vegna þótti rétt að breyta þessu, að í staðinn fyrir að miða við gildistöku l., verði miðað við árslok 1953, því að öll slík lán, sem hafi verið lánuð eftir þann tíma, kunni ekki að vera komin inn nú, en munu kannske koma inn á næstu árum eða næstu mánuðum. en hins vegar með þau lán, sem þannig hafi verið lánuð fyrir árslok 1953, hafi orðið einhver tregða á endurgreiðslu og þess vegna sé eðlilegra að marka línuna við þau áramót, og hefur einnig orðið fullt samkomulag um þetta atriði.

Við 10. gr. frv. eru einnig gerðar tvær breytingar. Það er 5. brtt., a- og b-liðir. Það er fyrst, að aftan við 2. tölul. komi: í fyrsta skipti árið 1957 — þ.e. hið árlega framlag úr ríkissjóði, 5 millj. kr. Það hefur aldrei verið hugsað, að lögð yrði fram sem tekjur úr ríkissjóði á þessu ári önnur eða meiri upphæð en ákveðin er í 9. gr. frv. Það eru þær 5 millj. kr., sem ákveðnar eru á fjárl. í ár. Og þetta ákvæði er sett inn í frv. vegna þess, að þegar frv. var samið, var engin eða lítil von um, að frv. næði fram að ganga á þessu þingi, þ.e.a.s. yrði að lögum á þessu ári, og þá var eðlilegt, að þetta stæði svo, eins og það stendur i frv. Nú standa ákaflega miklar vonir til þess, að frv. verði að lögum á þessu þingi, og þá er rétt, að það sé tekið fram, að framlag úr ríkissjóði, 5 millj. kr., sé þá í fyrsta sinn 1957, en ekki ætlazt til þess, að það sé tekið á árinu 1956, enda búið að afgreiða fjárlög og búið að ákveða þar 5 millj. kr., sem látnar eru sem stofnfé til sjóðsins. Í þessu er því raunverulega engin efnisbreyting frá því, sem var í frv., heldur aðeins frekar til skýringar.

Þá er brtt. í b-lið, þ.e., að aftan við 1. málsl. 3. tölul. bætist: þó ekki fyrr en 2 árum eftir að skuldin var gjaldkræf eða ríkissjóður innleysti ábyrgðina, enda komi samþykki Alþingis til. Það þótti einnig rétt að ákveða beint í l., að þessar skuldir yrðu ekki afhentar sjóðnum fyrr en eftir ákveðinn tíma, þ.e.a.s. eftir, að sýnt þótti, að einhver tregða væri á innheimtu beint inn í ríkissjóð. Er hér ekki um verulega efnisbreytingu að ræða, heldur nánari skýringu á málinu. Hins vegar er hér allmikil efnisbreyting, þar sem sett er, að enda komi samþykki Alþingis til. Þykir ekki óeðlilegt, að ef um stórar fjárhæðir er að ræða, sem ríkissjóður á beint að afhenda jafnvægissjóði, þó að í þessu formi sé, liggi fyrir um það skýrsla frá fjmrh. hverju sinni og Alþ. taki svo ákvarðanir um það, hvort það vill láta þá fjárhæð af hendi eða ekki. Þetta kann að rýra að einhverju leyti tekjur sjóðsins, en hins vegar er það ekki óeðlilegt, að Alþ. hafi um það ákvörðun á hverjum tíma. Um það hefur orðið fullt samkomulag.

Þá er sjötta breytingin, þ.e. við 13. gr., að síðari málsl. falli niður. Hér er raunverulega um mjög mikla efnisbreytingu að ræða. Þar segir, í síðasta málsl., að sé um eftirgjöf að ræða, bæti ríkissjóður jafnvægissjóði eftirgjöfina að hálfu innan árs frá því, að eftirgjöf var veitt. Fjhn. leit svo á, að það væri hvorki viturlegt né rétt að binda svo hendur Alþingis um óákveðinn tíma, kannske langt fram í framtíðina, enda mundi þá þessari grein frv. verða breytt hvort sem væri, ef Alþ. á einhverjum tíma liti svo á, að ekki væri rétt að greiða slíka upphæð út af ríkissjóðnum, svo að það hefði þá kannske ekki eins mikla þýðingu og búizt væri við, og varð því samkomulag um, að þessi grein yrði felld niður. Það má taka það upp að sjálfsögðu á hverju því þingi, sem þyrfti að fjalla um slíkt atriði, hvort ætti að gefa eftir skuldir jafnvægissjóðs, að hve miklu leyti ríkissjóður vildi bæta sjóðnum það tap og á hvern hátt, svo að það þótti ekki rétt að láta standa á samkomulagi um þetta atriði.

Síðasta og sjöunda brtt. er við 14. gr. Á eftir orðinu „kaupstað“ í upphafi gr. komi: eða kauptúni. — Það er um, eins og 14. gr. segir, að „nú er langvarandi atvinnuleysi í kaupstað“ og á þá að bæta inn í „eða kauptúni“ og „er þá heimilt að veita úr jafnvægissjóði“ o.s.frv. Um þetta varð enginn ágreiningur, enda engin efnisbreyting í þessari breytingu.

Ég hef þá lýst hér brtt., og er fjhn. einróma sammála um að leggja til, að þær verði samþ. allar, eins og ég hef lýst þeim, og að frv. verði þannig samþ. við þessa umr.

Eins og ég gat um í upphafi, sé ég ekki ástæðu til þess að ræða frekar athugasemdir hv. þm. S-Þ. um málið. Þær voru allar teknar til athugunar og umr. á fundinum með þeim afleiðingum eða árangri, sem ég þegar hef lýst.

Ég vil þá aðeins segja hér nokkur orð í sambandi við ummæli hv. 2. landsk. (BrB) um þetta mál. Hv. 2. landsk. sagði, að hann teldi ekki þess vert að ræða þetta frv., þetta væri eitthvert mesta örverpi, sem sézt hefði, það sé aðalverkefni n. að safna skýrslum, og hann tók þessu máli raunverulega mjög þunglega, lét þó þau orð falla í ræðu sinni síðast, að frv. væri meinlaust, en leysti engan vanda, eins og hann komst að orði. Hann benti enn fremur á, að fyrir lægi í hv. Nd. frv. á þskj. 136, sem mundi miklu frekar leysa þann vanda, sem hér liggur fyrir. Hér væri farið svo smátt af stað, og hann lét orð liggja að því, að bæði það verk, sem hefði verið unnið hér af hendi þeirra manna, sem falið var að gera þetta, og árangurinn af þessu væri sáralítils virði.

Í þessu sambandi þykir mér rétt að benda á, hve stórt spor var stigið í fyrstu, þegar Landsbanki Íslands var stofnaður, en hann var aðeins stofnaður með 10 þús. kr. framlagi úr ríkissjóði, — og hver mundi svo vilja halda því fram, að Landsbankinn hefði enga þýðingu haft í landinu, eftir að hann hefur starfað hér í rúm 70 ár, þó að hann færi smátt af stað? Ég held, að það væri ákaflega erfitt að halda slíku fram. Sama má segja um Fiskveiðasjóð Íslands, fiskimálasjóð, Búnaðarbankann, Útvegsbankann, Iðnaðarbankann og allar þessar stofnanir, sem hafa orðið að byrja smátt, alveg í samræmi við fjárhagslega möguleika þjóðarinnar á þeim tíma, sem þessar stofnanir voru settar upp, en hafa vaxið með verkefnunum á hverju árí og orðið ómetanleg stoð og stytta öllu athafnalífi í þjóðfélaginu. Og ég vildi einnig vænta þess, að jafnvægissjóðurinn, sem þó er ætlað að byrja með 5 millj. kr. öruggu stofnfé, auk þess með nokkru öðru stofnfé, sem vel getur orðið töluvert mikils virði, og auk þess með allmiklu fjárframlagi árlega, geti engu síður orðið þjóðinni til gagns í atvinnumálunum og blessunar og leyst mikinn vanda, þegar árin líða, eins og raun hefur verið á um allar þær stofnanir aðrar, sem ég hef minnzt á. Og það mætti segja mér, að eftir að græn torfa er komin yfir bæði mig sjálfan og hv. 2. landsk. og alla þá þm., sem sitja hér inni, þá geti þjóðin blessað þá menn, sem hafa verið með að stofna þann sjóð, sem hér er verið að ræða um, og þau verkefni, sem hann á að leysa á hverjum tíma.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál nánar. Ég hef enga löngun til þess að fara í persónulegar deilur við hv. 2. landsk. út af þessu máli, en vildi aðeins láta þessi orð falla út af því, sem hann sagði um málið í heild.

Fjhn. leggur til, eða ég fyrir hennar hönd, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem fram koma á þskj. 541 og ég hef þegar lýst.