23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í C-deild Alþingistíðinda. (1745)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég held ég hafi ekki í annað skipti á ævi minni orðið fyrir meiri vonbrigðum en þegar ég sá þetta plagg hér. Tveir þm., annar þekktur fyrir mikinn dugnað í að drífa fram það, sem honum dettur í hug, hvernig sem það nú er, og hinn fyrir það að vera sérstaklega athugull og greindur, láta þetta plagg frá sér fara eftir þriggja ára starf, og það, sem í því er, er uppprentun úr manntalsskýrslum, sem hægt er að fá á einum eða tveimur dögum hjá hagstofunni, það er allt og sumt, í staðinn fyrir að hér hefði mátt safna alveg óhemju upplýsingum og gefa óhemju fróðleik um það, sem upplýsir málið og menn þurfa að fá að vita.

Ég skal ekki fara neitt út í sjávarútveginn, en ég skal benda á landbúnaðinn. Þeir hafa tekið hér upp tölu fólksins eftir Hagtíðindunum. Ef þeir hefðu sömu árin tekið upp tölu skepnanna í hverjum hreppi og sömu árin tekið upp afurðir skepnanna í hverjum hreppi og út frá því séð, að í sumum hreppum landsins hefur framleiðslan á þessum árum ekki nema tvöfaldazt, en öðrum þrítugfaldazt og allt upp í 50-faldazt, miðað við fólksfjölda, og síðan leitað að orsökunum fyrir því, að í sumum hreppum hefur hún tvöfaldazt, en í öðrum þrítugfaldazt, og byggt á því frv. til að bæta úr því, sem áfátt er, og toga í þá, sem ekki hafa gert meira en tvöfalda framleiðsluna á því árabili, sem hér um ræðir, sem eru liðug 30 ár, — hefðu þeir gert það og lagt það fyrir og svo á því byggt framkvæmdir, sem ætti að gera, þá hefði getað komið jákvætt út úr frv. En hér sjáum við ekki nokkurn hlut annan en það, að fólkinu hefur sums staðar fækkað og sums staðar fjölgað, punktum — basta. Við sjáum ekki það, að sums staðar, þótt fólkinu hafi fækkað um meira en helming frá því, sem það var áður, hefur framleiðslan orðið i þeim sömu hreppum miklu meiri en helmingi meiri en hún var áður, og ekki heldur af hverju það er. Það sjáum við ekki. Það er ekki leitað að því og því síður að orsökunum til þess.

Það, sem náttúrlega þurfti að gera, var að sjá fyrst og fremst, hvernig fólkinu fækkar, hvernig jarðir hefðu lagzt í eyði, — það er ekki hérna, — og svo hvaða ástæður eru til þess, að sums staðar í sveitum landsins stendur framleiðslan svo að segja á sama stigi og um aldamót, — það kemur ekki meira í hlut mannanna, sem framleiða núna, heldur en manna, sem framleiddu um aldamót, en á öðrum stöðum hefur það þrítugfaldazt og meira, og finna orsakirnar til þess, að þetta er svona, og þegar búið er að finna þær, þá að finna, hvað ætti að gera til að auka framleiðsluna og auka tekjur mannanna, sem eru þannig settir, að þeir standa enn þá nokkurn veginn í sömu sporum og þeir stóðu fyrir 30–40 árum. Nei, nei, nei, 3 ár er setið við það, og þetta er ekki gert, og þó er hægt að fá meginið af þessu á svipaðan hátt og þeir hafa fengið þessar tölur með því að spyrja ýmist skattstofu, hagstofu eða hreppstjórana um tölur, og svo kannske líka þarf að fara í aðra staði, en allar þessar upplýsingar var hægt að fá. Það mátti svo náttúrlega deila um á eftir, hvernig átti að draga ályktanir af því, hvaða orsakir voru til þess, að þarna hafði framleiðslan ekkert aukizt, en á hinum stöðunum svona mikið, um það mátti náttúrlega deila, en það var þeirra verk, eftir að þeir voru búnir að draga upplýsingarnar fram.

Ég var svo undrandi, þegar ég sá, hvernig höndunum var kastað til þess arna, að ég varð orðlaus af því. Ég varð orðlaus af því, að 2 menn í 3 ár skyldu sitja yfir þessu og koma aðeins þessu í verk, og mig hryggir það, að þetta skuli hafa tekizt svona. Ég hefði langhelzt óskað, að þessir menn hefðu nú sýnt rögg af sér og tekið við frv. aftur og unnið að því eins og menn og síðan reynt að leggja það fyrir Alþ. aftur og vitna þá í gögn, sem sýndu, hvernig þessi mismunur er og af hverju hann stafar. Þá var eftir að reyna að finna leiðir til að bæta úr.

Ég geri ráð fyrir, að það sé alveg sama í sjávarþorpunum. Ég þykist vita það, þó að ég hafi ekki rannsakað það að neinu leyti, ég hef rannsakað hitt dálítið, — en ég þykist vita það, að í sjávarþorpunum sé mismunurinn á framleiðsluaukningunni ósköp svipaður. Ég þykist vita það af þeirri vissu, að í sumum þeirra hafa afköst einstaklinganna, sem eftir eru í þeim, margfaldazt við það, sem áður var, meðan á öðrum stöðum standa þau hér um bil í stað.

Og hvaða ástæða liggur til þess? Þetta var líka hægt að upplýsa.

Þess vegna geri ég ekki neina till. um þetta hér í Alþ., sem forsetinn þarf að bera upp, en mér finnst nú, að nm. sóma síns vegna ættu að láta frv. daga uppi núna, taka á sig rögg og reyna að vinna að þeim upplýsingum, sem átti að safna, svo að menn geti áttað sig á, af hverju þessi mismunur stafar, sem er til staðar, og tekið málið föstum tökum á næsta þingi. En það er þeirra að gera það, en ég ætla ekki að gera till, um það til forseta, að það sé farið þannig með málið, Mér finnst, að þeir eigi sjálfir að gera það, þegar þeim er bent á, að þeir sjálfsagt geta það, báðir tveir, ef þeir nenna að leggja sig í það.