23.03.1956
Efri deild: 92. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (1746)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég er feginn öllum ábendingum, sem koma frá hv. þingmönnum í sambandi við þetta mál, því að hér er um svo merkilegt mál að ræða, að ég vil taka fegins hendi hverri þeirri leiðbeiningu, sem leitt getur að réttu takmarki. En ég held nú, með allri virðingu fyrir hv. 1. þm. N-M. (PZ), að ræða hans leiði ekki mikið að lausn þessa vandamáls, og einkum og sér í lagi vegna þess, að ég veit, að hann talar hér algerlega gegn skoðun sinni á málinu. Við höfum haft allmikla samvinnu við hann, á meðan verið var að leita þeirra upplýsinga, sem þurfti um þetta mál, og hann sem búnaðarmálastjóri gefið okkur mjög merkilegar upplýsingar, eins og hver sá forstjóri, sem við leituðum til, og hv. þm. veit það vel, að þær upplýsingar, sem þar liggja fyrir, eru miklu víðtækari en þær, sem birtar eru í þessari grg., því að það liggja fyrir upplýsingar í heilli bók, sem safnað hefur verið í þessu máli og ekki voru nein tiltök að fara að birta með þessu frv. og heldur engin ástæða til þess að birta með frv. og m.a. margt af því, sem hv. þm. var að tala um og einnig er fengið frá Búnaðarfélagi Íslands og hann hefur sjálfur persónulega unnið að. Þetta vissi hann og þurfti því ekki að belgja sig upp út af því. En frumskilyrði til þess að geta gert nokkuð til þess að halda við jafnvægi í byggð landsins er að sjálfsögðu að vita, hvernig fólksflutningarnir eru og hafa verið. Það er frumskilyrðið, og það er þess vegna, sem við völdum það að birta hér með fylgiskjal frá hagstofunni, sem birt er í þskj., til þess að sýna einmitt, að þetta frumatriði liggur fyrir.

Um hitt, hvaða ástæða liggur fyrir því, að fólksflutningarnir hafa verið, þá hefur verið safnað um það mjög ýtarlegum skýrslum. M.a. get ég upplýst það hér, að höfuðástæðan fyrir því, að fólkið hefur flúið úr sveitunum hér yfir í margbýlið, er í fyrsta lagi vegaleysið í landinu, því að það er alveg sýnilegt, að eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja frá bönkunum, hafa lánin, sem veitt eru til sveitanna, verið alveg í hlutfalli við samgöngurnar. Þegar vegir hafa komið í einhverja sveit, hafa fengizt þangað lánin, byggingarlán og lán til ræktunar. Fyrr hafa þau ekki fengizt, enda engin tiltök verið til þess að framkvæma þar neinar verklegar framkvæmdir, því að það er sýnilegt, að þær sveitirnar, sem hafa bezt vegakerfið, nafa fengið langmest af fénu, bæði sem lánsfé og styrki, bæði í jarðræktarstyrkjum og öðru, húsabyggingastyrkjum, og þar hefur líka margfaldazt framleiðslan á þann hátt, sem hv. þm. var að tala um. Ef við hefðum átt að birta allar þessar tölur, þá hefði að sjálfsögðu, eins og ég sagði, orðið að birta hér með stóra, þykka bók, og til þess var engin ástæða.

Hér er hins vegar mörkuð sú stefna, sem er alveg nauðsynleg, og það er að fá fé til þessara hluta og síðan að þessu sé stjórnað af mönnum, sem geta farið með umboð í nokkurn veginn sama hlutfalli og Alþ. sjálft, og ég held, að það sé ekki rétt að álasa þeim mönnum, sem unnu að þessu, þó að þeir vildu ekki setja meira fé til alls konar rannsókna og skýrslugerðar en gert hefur verið og tillagna og útreikninga og hafa ekki nokkurn fjárhagslegan grundvöll til þess að byggja á. Það hefði verið hægt að starfa að svona merku máli eins og hér er í næstu 10 ár og láta liggja fyrir alls konar skýrslur, sem sumar hverjar væru þá orðnar úreltar, aðrar ekki, og ég efa það mjög, að það hefði verið heppilegra fyrir málið, því að við þekkjum, sem í þessu vorum, þann þunga, sem liggur frá hinum einstöku sveitarfélögum um að fá þegar einhverjar jákvæðar framkvæmdir í þessu máli, ekki eingöngu skýrslugerðir, eins og hv. þm. talaði um, heldur alveg jákvæðar framkvæmdir. Þetta mál útheimtir það, að sjóðsstjórnin verður á hverjum tíma að safna þeim skýrslum, sem ég hef minnzt á og talað er um í frv., og eins og verkefni breytast frá ári til árs, þá hlýtur það að breytast einnig frá ári til árs, hverju þarf að snúa sér helzt að, það er alveg sýnilegt. En í þeim svörum, sem komu frá hinum ýmsu aðilum, sem spurðir voru, þá er þó tvennt, sem lögð er megináherzla á, það er annað að fá vegasambönd um hinar dreifðu byggðir landsins, því að það er orðið eitt aðalatriðið. Menn geta ekki lengur byggt framleiðslu sína á flutningum á hestum og verða að nota til þess önnur flutningatæki, en þau geta þeir ekki notað, hvorki bíla, jeppa né jarðvinnsluvélar, nema geta komið þeim í sveitina og úr, og sama er um alla flutninga. Þeir eru dæmdir úr leik, ef þeir geta ekki komið flutningunum með nokkurn veginn sama hraða og nokkurn veginn sama kostnaði og aðrir, og þess vegna er þetta ein af frumkröfunum. Hin frumkrafan, sem fólkið hefur krafizt að fá uppfyllta, er rafmagn. Að báðum þessum verkefnum er að vísu verið að vinna, en ekki á þeim grundvelli að halda við jafnvægi í byggð landsins eingöngu. Það er verið að vinna að þessu miklu frekar kannske, m.a. með rafmagnið, á þeim grundvelli að draga fólkið úr sveitunum í þéttbýli, þar sem verið er að koma rafmagnsveitunum upp, þó að hins vegar sé einnig unnið að því árlega að koma því út um allar byggðir landsins.

Ég tel, að sá kuldi, sem kom fram í ræðu hv. þm., sé engan veginn heppilegur fyrir þetta mál, leysi ekki þann vanda, sem hér er á höndum, og það sé miklu heppilegri sú leið, sem við höfum bent á og mikill meiri hl. Alþingis hefur tekið undir, að marka þessa stefnu með því frv., sem hér liggur fyrir, og halda svo áfram markvisst á þeirri leið, sem hér er byrjað á. Skal ég svo ekki ræða það frekar.