26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í C-deild Alþingistíðinda. (1755)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Þar sem ég hef verið nokkuð riðinn við undirbúning þessa frv., tel ég rétt að fara um það nokkrum orðum þegar á þessu stigi málsins til viðbótar því, sem hæstv. forsrh. hefur þegar um það sagt. Hins vegar mun ég ekki á þessu stigi svara mikið því, sem fram kom hjá hv. 11. landsk. (LJós) sem gagnrýni á þetta frv., enda hygg ég, að mjög mikið af því, sem hann sagði í sinni ræðu, hafi verið á misskilningi byggt, misskilningi á því hlutverki, sem ætlað var þeim mönnum, er staðið hafa að undirbúningi þessa frv.

Eins og fram er tekið í grg. frv., eins og það var lagt fyrir hv. Ed. á þskj. 496, var tveim nafngreindum mönnum með bréfi ríkisstj., dags. 29. júní 1954, falið að vinna að undirbúningi og semja heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa vegna erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Ég vil skjóta því hér inn í, að það er náttúrlega ekki rétt, að að undirbúningi þessa frv. hafi verið starfað í þrjú ár, eins og sjá má á þeirri dagsetningu, sem ég nú hef lesið.

Nokkur hluti þess verkefnis, sem um getur í erindisbréfinu, hefur þegar verið leystur af hendi. Það hefur verið unnið að undirbúningi áætlunar þeirrar, sem þar er nefnd, með söfnun margs konar gagna, sem nauðsynleg eru til þess að gera slíka áætlun, og þannig má telja. að lagður hafi verið nokkur grundvöllur að gerð áætlunarinnar.

Við söfnun og athugun þessara gagna hafa þeir. sem að því unnu, hins vegar komizt að þeirri niðurstöðu. að gerð sjálfrar heildaráætlunarinnar sé verk, sem vinna verði smátt og smátt á alllöngum tíma. Að þessu er nánar vikið í grg. frv., sem ég vænti að hv. dm. hafi lesið eða muni kynna sér á meðan málið er til meðferðar. Gerð slíkrar áætlunar sem fjallað var um í þál. frá því í febrúarmánuði 1953 er meira og vandasamara verk en ýmsir kunna að hyggja í fljótu bragði, enda hefur sambærilegt starf aldrei áður verið unnið hér á landi. Það verður ekki unnið sem ígripastarf af tveim mönnum, sem mörgu öðru hafa að sinna.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir nú á þskj. 564, eru gerðar till. um, á hvern hátt vinna skuli þetta verk, sbr. I. kafla frv. Þar verða m.a. sérfróðir menn að leggja hönd að verki, og það hlýtur að hafa mikinn kostnað í för með sér. Segja má, að þeir, sem að þessum undirbúningi hafa unnið, hefðu getað farið fram á það við ríkisstj. að leggja fram fé í þessu skyni, stofna til skrifstofu og mannahalds og rannsóknarferða um landið undir stjórn þessara tveggja manna. Þetta hefur raunar ekki verið gert, það var talið réttara að þreifa sig áfram og gera sér fulla grein fyrir verkefninu, hafa bréfasambönd við sveitarstjórnir o.s.frv., áður en stofnað væri til mikilla útgjalda í þessu skyni.

Hitt voru þeir, sem að þessu unnu, jafnframt sammála um, að þótt gerð formlegrar heildaráætlunar samkvæmt þál. frá 4. febr. 1953 verði að bíða enn um sinn, þá sé samt aðkallandi að hefja skipulagða starfsemi í því skyni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og sjá fyrir einhverju fastákveðnu fjármagni í því skyni. Þess vegna var það lagt til við ríkisstj. með bréfi, dags. 3. jan. s.l., að þá þegar yrði lagt fram nokkurt fé til stofnunar framkvæmdasjóðs í þessu skyni, og síðan heimilaði Alþ. ríkisstj. að verja 5 millj. kr. af greiðsluafgangi ríkissjóðs 1955 til stofnunar sjóðsins, svo sem hv. þm. er kunnugt. Það var eftir till. þeirra manna, sem unnið hafa að undirbúningi þessa frv., sem hér liggur fyrir.

Að þessu lúta ákvæði II. kafla frv. um jafnvægissjóð og starfsemi hans, sem ætla má að geti hafizt innan skamms tíma. Í frv. er gert ráð fyrir, að jafnvægisnefnd, kosin af Alþ., sem vinnur að gerð heildaráætlunarinnar á nokkrum árum, verði jafnframt stjórn jafnvægissjóðsins og veiti úr honum lán til framkvæmda, þar sem þeirra er brýnust þörf til að koma í veg fyrir fólksfækkun í einstökum hreppum eða byggðarlögum.

Ég viðurkenni fúslega, að frv. það, sem hér liggur fyrir, er fljótt á litið ekki stórt í sniðum og að með því er hvorki gefin ávísun á mikið fjármagn né stórkostlegar framkvæmdir á skömmum tíma. Jafnvægissjóður sá, sem hér er lagt til að stofnaður verði, verður þess naumast megnugur að greiða í stórum stíl fyrir t.d. framkvæmd 10 ára áætlunarinnar um rafvæðingu dreifbýlisins, enda hefur þegar verið sett um hana sérstök löggjöf, sem þarf að endurskoða út af fyrir sig með tilliti til fjárframlaga, en í sambandi við undirbúning þessa frv. hefur einnig verið aflað nokkurra gagna um það mál, sem fyrir hendi eru nú.

Eigi mun jafnvægissjóður heldur, sá sem stofnaður er samkvæmt þessu frv., verða þess megnugur að veita fjármagn til stórfelldrar endurnýjunar eða aukningar togaraflotans, eins og hér var verið að ræða um áðan, enda hefur Alþ. haft það mál sérstaklega til meðferðar og mun áreiðanlega hafa á næstunni, þótt eigi komi þar til beinlínis aðgerðir jafnvægisnefndar.

Það eru hin mörgu og margvíslegu og aðkallandi, í sumra augum smáu, en þó nauðsynjamál fjölmargra einstakra byggðarlaga, sem ætlazt er til að jafnvægisnefndin sinni, eftir því sem hún hefur tök á. Frv. er byggt á þeirri skoðun, að mikilsvert sé, hvað sem öðru líður, að til sé sá aðili á vegum ríkisvaldsins, sem alveg sérstaklega hafi á hendi það afmarkaða hlutverk að vinna að jafnvægi í byggð landsins og gera sér grein fyrir þeim úrræðum, stærri og smærri, sem tiltækileg eru eða kunna að vera á hverjum tíma og á hverjum stað, og að standa í stöðugu sambandi við þá, sem heima eiga i þeim byggðarlögum, sem í hlut eiga, eða fyrirsvarsmenn þeirra.

Það er skoðun þeirra, sem að þessu frv. unnu, að mestu máli skipti í þessu sambandi að koma á slíkri skipulagðri starfsemi og sjá henni fyrir einhverjum möguleikum til að bera árangur þegar í byrjun. Þótt ekki sé hratt af stað farið, getur það og verður vonandi upphaf að öðru meira.

Það væri freistandi í þessu sambandi að skýra hér í hv. d. frá ýmsu því, er komið hefur í ljós af þeim gögnum, er aflað hefur verið, og vikið er að í grg. frv. á þskj. 496, bls. 4–5 í þskj. Það mun ég þó ekki gera nema að litlu leyti, enda hafa þeir, sem að þessu hafa unnið, ekki tekið ákvörðun enn um birtingu þeirra gagna, sem hér er um að ræða, að öðru leyti en fram kemur í grg.

Ég vil þó leyfa mér að fara nokkrum orðum um hina merkilegu skýrslu, sem hv. 11. landsk. virtist nú að vísu ekki telja sérlega merkilega, en ég vil telja það, um fólksfjölgun og fólksfækkun í einstökum byggðarlögum, en þessi skýrsla er birt í grg. á þskj. 496, bls. 10–15, eða raunar 10–17. Þetta er eiginlega skýrsla um fólksflutningana í landinu á síðustu 4–5 áratugum, og mér vitanlega hefur slík skýrsla ekki áður legið fyrir hv. Alþ., og ég hygg, að hún hafi ekki áður verið gerð. Ég vil, um leið og ég minnist á þessa skýrslu um fólksflutningana, leyfa mér að leiðrétta tvær prentvillur, sem hafa komizt inn í grg., á bls. 13, þar sem reiknuð er út fækkun eða fjölgun fólks í kaupstöðum og hreppum og sýslum á tímabilinu 1910–1953. Í þessum dálki stendur víða mínus fyrir framan hundraðshlutatöluna, sem þýðir það, að fólkinu hafi fækkað. Á tveim stöðum á þessari bls. stendur mínus, þar sem hann ekki á að vera, það er í fyrsta lagi við Hofsós, þar sem má skilja svo, að fólki hafi fækkað um 106.2%, það er ekki rétt, heldur er það fjölgun. Sama er að segja um Dalvíkurhrepp, litlu neðar á síðunni, þar á ekki að vera mínus framan við töluna í síðasta dálki.

Eins og menn sjá, er skýrslan byggð á manntölum 1910, 1920, 1930, 1940 og 1953, og útreikningarnir eru gerðir af hagstofunni, eftir beiðni þeirra, sem að þessu frv. hafa unnið, og þeirra fyrirsögn.

Árið 1910 var íbúatala landsins rúmlega 85 þús. Árið 1953, þ.e.a.s. 43 árum síðar, var íbúatalan rúmlega 152 þús. Íbúum landsins fjölgaði á þessum 43 árum um nálega 79%. Það er meðalfjölgun í landinu á þessum tíma.

Árið 1910 voru íbúar Reykjavíkurkaupstaðar 11600. Samkvæmt meðalfjölguninni hefðu þeir þá átt að vera 20–21 þús. árið 1953, en voru þá nálega 60 þús., enda er fjölgunin 416%.

Tökum svo t.d. Rangárvallasýslu, sem þó er í sjálfum Sunnlendingafjórðungi. Þar var fólksfjöldinn 4024 árið 1910. Samkvæmt meðalfjölguninni hefði hann átt að vera 7200 árið 1953, en var rétt um 3000, fækkunin var 25.4% í stað 79% fjölgunar. — Eða Skagafjarðarsýslu, þar var fólksfjöldinn 3863 árið 1910. Samkvæmt meðalfjölguninni hefði hann átt að vera um 6900 árið 1953, en var 2751. Fækkunin var 28.8% í stað 79% fjölgunar. — Eða Dalasýslu, þar var fólksfjöldinn 2021 árið 1910. Samkvæmt meðalfjölguninni hefði hann átt að vera um 3600 árið 1953, en var 1176. Fækkunin var þar 41.8% í stað 79% fjölgunar. — Eða að lokum Norður-Ísafjarðarsýslu. Þar var fólksfjöldinn 3962 árið 1910. Samkvæmt meðalfjölguninni hefði hann átt að vera um 7000 árið 1953, en var 1882. Fækkunin var á þessum 43 árum 52.5% í stað 79% fjölgunar, sem var meðalfjölgunin í landinu.

Skýrslan á bls. 10–15 í grg. á þskj. 496, sem ég hef áður vikið að, segir víða svipaða sögu. Samkv. henni nemur fólksfækkunin í 28 hreppum í ýmsum landshlutum meira en 50% af fólkstölunni, þegar hún var hæst á tímabilinu, sem skýrslurnar taka til. Ég get ekki stillt mig um að lofa hv. þd. að heyra, hver fækkunin er í þessum 28 hreppum og hverjir þeir eru.

Það er í fyrsta lagi Fróðárhreppur á Snæfellsnesi, fólksfækkun 68.3%, Helgafellssveit í sömu sýslu 55.1%, Skógarstrandarhreppur í sömu sýslu 52%, Hörðudalshreppur í Dalasýslu 50.3%, Haukadalshreppur í sömu sýslu 51.2%, Skarðshreppur í sömu sýslu 59.6%, Flateyjarhreppur í Barðastrandarsýslu 55.2%, Rauðasandshreppur í sömu sýslu 59.6%, Ketildalahreppur í sömu sýslu 61%, Auðkúluhreppur í Vestur-Ísafjarðarsýslu 72.8%, og þessu næst koma svo nokkrir hreppar í Norður-Ísafjarðarsýslu, Ögurhreppur 63.7%, Reykjarfjarðarhreppur 55.6%, Nauteyrarhreppur 61.5%, Snæfjallahreppur 77.6%, Grunnavíkurhreppur 72.6%. Sléttuhreppur er í eyði, fullkomin 100%. Þá er það Hrófbergshreppur í Strandasýslu, fækkunin er 59.4%, Engihlíðarhreppur í Austur-Húnavatnssýslu 59.2%, Vindhælishreppur í sömu sýslu 53.8%, Skefilsstaðahreppur í Skagafjarðarsýslu 57.9%, Fjallahreppur í Norður-Þingeyjarsýslu 53.1%, Sauðaneshreppur í sömu sýslu 60.6%, Loðmundarfjarðarhreppur í Norður-Múlasýslu 79.2%, Mjóafjarðarhreppur í Suður-Múlasýslu 51.9%, Helgustaðahreppur í sömu sýslu 55.9%, Bæjarhreppur í Austur-Skaftafellssýslu 55.3%, Mýrahreppur í sömu sýslu 51.6% og Grafningshreppur í Árnessýslu 50.5%.

Þetta er fólksfækkunin á 43 árum. Það skal fram tekið, eins og ég gerði áðan, að þarna er þó ekki alls staðar miðað við töluna 1910, því að í einstaka hreppi fjölgaði enn eftir það, en þar sem um fækkun er að ræða, er miðað við hæstu íbúatölu, sem áður var á tímabilinu 1910–1953.

Það eru til ýmsar fleiri skýrslur, sem gerðar hafa verið að tilhlutun þeirra, sem unnið hafa að undirbúningi þessa frv. Þessi skýrsla var prentuð í grg. frv. sér í lagi vegna þess, að hún er auðlesin og auðskilin, en i skjölum þeim, sem á bak við þetta mál standa, eru ýmsar aðrar skýrslur, sem eru e.t.v. í sjálfu sér ekki ómerkari en þessi.

En niðurstaðan af því, sem ég hef verið að lesa, er í meginatriðum þessi: Í 11 kaupstöðum og í 19 hreppum er fólksfjölgunin meiri en sem nemur meðalfjölguninni, þ.e.a.s. meiri en 79% á þessum 43 árum. Í örfáum sveitarfélögum hefur orðið minni fjölgun, þ.e.a.s. minni en 79%. Í öllum hinum, þ.e.a.s. í 184 sveitarfélögum, eða því sem næst, hefur fækkað í stað þess að fjölga. Á sama tíma sem þjóðinni fjölgaði um 79%, hefur í öllum þessum sveitarfélögum fólkinu farið fækkandi. Og í 28 hreppum er fækkunin, eins og ég sagði áðan, yfir 50% í stað þess að þar fjölgaði um 79%, eins og þjóðinni í heild hefur fjölgað á sama tíma.

Það getur verið, að þessar tölur, sem ég hef lesið, séu ekki alveg nákvæmar, sumar þeirra eru í flýti reiknaðar, en það munar ekki neinu, sem máli skiptir.

Þetta er svipmynd, dregin í fáum nokkuð skýrum dráttum, af fólksflutningunum í landinu síðustu 40–50 árin. Þær breytingar, sem orðið hafa á árunum 1954–1956, þ.e. síðan skýrslan var gerð, eru hér ekki með, en munu hafa orðið nokkuð til sömu áttar.

Þessi mynd sýnir þá þróun til ójafnvægis, sem orðið hefur í byggð landsins, og hún var líka fyrsta skýrslan, sem þeir menn létu gera, sem unnið hafa að þessu máli.

Í þessari stuttu ræðu ætla ég ekki að tala um orsakir fólksflutninganna. Um þær hefur mikið verið rætt, og um þær er líka margs konar fróðleikur í gögnum þeim, er aflað hefur verið, gögnum, sem jafnvægisnefndin, sem frv. gerir ráð fyrir, fær væntanlega í sínar hendur, þegar hún tekur til starfa.

Ég ætla ekki að halda því fram, að allar þær breytingar, sem orðið hafa á búsetu þjóðarinnar og koma fram í þessari skýrslu, séu henni til óþurftar eða einstaklingum til tjóns. Það dettur sjálfsagt engum í hug að halda því fram, að skipulag byggðar á Íslandi hefði um aldur og ævi átt að vera eins og það var í lok landnámsaldar eða eins og það var t.d. um það leyti, sem Alþingi var endurreist. En ég vil um þetta efni aðeins segja þetta: Sú þjóð, sem á land, verður að byggja það, annars er hætt við, að illa fari. Til þess liggja ýmsar ástæður.

Í árslok 1952 voru eyðijarðir hér á landi samkvæmt skýrslum landnámsstjóra nálega 1000 að tölu, byggðar jarðir nálega 5600, búendur í sveitum nálega þúsundi fleiri, eða rúmlega 6600. Samkvæmt þessum skýrslum, sem ég nú nefndi, virðist búendatalan vera mjög svipuð nú og hún hefur verið að jafnaði síðustu 250 árin, og frá 1932–1952 hefur búendum fjölgað um 300. Síðan nýbýlalöggjöfin var sett fyrir 20 árum, hafa verið reist um 900 nýbýli víðs vegar um landið, eða fast að því eins mörg og eyðijarðirnar nú eru. Hins vegar eru nokkur þeirra reist á eyðijörðum.

En heimilin í sveitunum eru miklu fólksfærri nú en þau áður voru, og má segja, að það sé ekki óeðlilegt á þeim jörðum, þar sem komnar eru til sögunnar vélar og vinnusparandi verkfæri, sem ekki voru áður til.

Það verður því að gera sér fulla grein fyrir því, að ef fólki á að fjölga í sveitunum, ef sú íbúatala, sem þar er nú, ætti t.d. að hækka hlutfallslega við íbúatölu landsins á næstu áratugum, þá verður heimilunum í sveitunum að fjölga mjög mikið. En hvernig? Það er umhugsunarefni, sem engin sveitarstjórn getur komizt hjá að velta fyrir sér um þessar mundir og hver sá maður verður að reyna að kryfja til mergjar, sem vill vinna að vexti og viðgangi sveitabyggðar hér á landi.

En þegar rætt er um fólksflutningana, þá er alveg jafnhliða full ástæða til að gefa sérstakan gaum að þeirri byggð, sem myndazt hefur og um skeið hefur farið heldur vaxandi í kauptúnum eða þorpum víðs vegar um landið. Kauptúnin eða þorpin, flest við sjóinn, flest að íbúatölu milli 300 og 700 eða þar um bil, eru nú um 50 talsins. Ég vil benda á, að þorþin eru á ýmsan hátt til þess fallin, hvert í sínu byggðarlagi, að hefta að einhverju leyti fólksstrauminn úr byggðarlögunum. Þessu hefur of litill gaumur verið gefinn hingað til og kauptúna- eða þorpabyggðinni e.t.v. varla verið sinnt svo sem skyldi í sambandi við varðveizlu byggðarinnar.

Þeir, sem virða fyrir sér landsbyggðina, — og þegar ég tala um landsbyggðina, á ég við allt landið, allt, sem byggt er af landinu,—virðast oft ekki sjá nema tvenns konar byggð í landinu: annars vegar sveitirnar, hins vegar stóru kaupstaðina með þeirra malbikuðu götum og alþjóðlega sniði. En til er hin þriðja tegund byggðar á Íslandi, kauptúnin, fiskiþorpin 50, þau telja nú samtals nálægt 20 þús. íbúa, sem að vísu er ekki nema 12–13% af þjóðinni, en þessa byggð þarf áreiðanlega mjög að efla, um leið og unnið er að eflingu sveitanna, ef stuðla skal að jafnvægi á komandi árum. Það er kunnugra manna mál, að þessi byggð, þ.e. þorpin, sjávarþorpin, leggi um þessar mundir til kjarnann að uppvaxandi sjómannastétt í landinu.

Ýmsir kunna að segja, að tilhlýðilegt væri við umr. um þetta frv. að rekja nokkuð efni þeirra 106 bréfa, sem borizt hafa frá sveitarstjórnum sem svör við bréfi því, er 184 sveitarstjórnum var ritað hinn 15. júní s.l. og prentað er á bls. 56 í grg. frv. á þskj. 496. Það mun þó ekki gert að þessu sinni og þá m.a. af ástæðum, sem ég hef fyrr nefnt í þessari ræðu. Auk þess eru enn eftir um 80 sveitarstjórnir, sem ekki hafa svarað bréfinu eða svör a.m.k. ekki borizt á ákvörðunarstað enn þá. Má og vera, að einhver bréf til sveitarstjórna eða frá þeim hafi misfarizt. Ætla má, að enn eigi mörg svör eftir að berast, og því varla tímabært að vinna úr svörunum allsherjar niðurstöður til birtingar að svo stöddu, en það verður að sjálfsögðu eitt af verkum væntanlegrar jafnvægisnefndar samkvæmt þessu frv. að vinna úr þeim svörum.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð öllu fleiri. Ég vildi mega vænta þess, af því að þetta mál er nú fyrir skömmu fram lagt á þingi og hefur því ekki verið hér lengi til athugunar, að hv. þm. gerðu sér sérstakt far um að kynna sér málið, þó að tími þeirra sé að sjálfsögðu mjög takmarkaður, hvers eðlis það er og þær till., sem lagðar hafa verið fram í þessu frv., sem hér liggur fyrir, og að menn reyndu þá jafnframt, eftir því sem þeir hafa tíma og tækifæri til á þessum stutta tíma, að gera sér grein fyrir, hvers eðlis það undirbúningsverk muni vera, sem unnið hefur verið og nokkuð er reynt að lýsa, eftir því sem gert verður í stuttu máli, í sjálfri grg. á bls. 4–5. Vera má, að ef hv. þm. hefðu tíma til þess að kynna sér þetta mál á þennan hátt, sem ég hef nefnt, yrðu ekki aftur fluttar um þetta frv. slíkar ræður sem hv. 11. landsk. flutti hér áðan í deildinni.