26.03.1956
Neðri deild: 95. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (1758)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 1. þm. Árn. (JörB) ræddi nokkuð um 9. gr. frv. á þskj. 564, gat þess að vísu, að hann mundi ekki við þessa umr. fara að ræða einstakar greinar, en hér er um nokkuð stórt atriði að ræða í málinu, og mér finnst eðlilegt, að á það sé minnzt.

Ég vil aðeins leyfa mér að skýra það í sambandi við þessa gr., að það, sem fyrir þeim mönnum vakti, sem undirbjuggu þetta frv., var einfaldlega aðeins það, að það, sem kynni að vera innheimtanlegt af þessum atvinnuaukningarlánum, sem þarna er um að ræða og ýmis a.m.k. eru fyllilega tryggð, og ástæða þætti til að innheimta, rynni í jafnvægissjóðinn, í stað þess að það mundi ella verða innheimt af ríkissjóði og renna til ríkissjóðs. Það er það, sem í þessu felst, og skýrir það nokkuð gr. Hins vegar má vel vera, að ástæða væri til þess að orða gr. eitthvað öðruvísi en þarna er gert. Ég tók eftir því, að hv. Ed. breytti orðalaginu frá því, sem það var í frv. upphaflega, og ég hef satt að segja ekki borið nákvæmlega saman orðalag þessarar gr. á þskj. 564 og þskj. 496, en það er vel, að sú hv. n., sem fær málið til meðferðar, athugi þetta, sem hv. 1. þm. Árn. hér hefur drepið á. En ég vildi aðeins á þessu stigi málsins skýra þann tilgang, sem liggur á bak við ákvæði gr. Hann var aðeins sá, að það, sem kynni að verða innheimt af þessum lánum, gengi til jafnvægissjóðsins og til stuðnings starfsemi hans í stað þess að ganga til ríkissjóðs.

Mér virtist ræða hv. 9. landsk. þm. (KGuðj), sem hér var flutt áðan, mjög glögg bending í þá átt, að ástæða hafi verið fyrir mig að beina þeim tilmælum til hv. þm. að kynna sér vel málið eins og það liggur fyrir á þskj. 496 og grg. þess, því að ég heyrði það glögglega á ræðu

hans, alveg eins og ég heyrði á ræðu hv. 11. landsk. þm. (LJós), að þeir hafa ekki sett sig inn í málið. Þeir eru að tala um hluti, sem að vísu má gjarnan tala um á Alþingi og hefur oft verið talað um, en þeir eru eiginlega ekki að tala um það, sem liggur fyrir á dagskránni núna í sambandi við þetta sérstaka mál, ekki nema að litlu leyti. Og þess vegna er ekki heldur ástæða til þess að svara því mikið. Ég er ekkert að lá honum þetta, því að hann hefur haft mjög skamman tíma til þess að athuga málið, mjög skamman tíma, og honum er vorkunn og öðrum hv. þm., þó að þeir hafi ekki sett sig nákvæmlega inn í það.

Eitt af því, sem hann var að tala um og fannst eitthvað hlálegt, var það, að leitað hefði verið eftir umsögnum hjá Búnaðarfélagi Íslands, Fiskifélagi Íslands og Landssambandi iðnaðarmanna um þetta mál i heild. Það var nú beinlínis fyrir lagt, að svo skyldi gert, á hv. Alþingi, en sérstaklega fannst honum það eitthvað undarlegt, að leitað hefði verið álits þeirra um nánari skilgreiningu á landshlutum samkvæmt þál. 4. febr. 1953. Ég skal játa það, að þetta er mjög stuttlega orðað í grg. og ekki nákvæmlega útskýrt, hvað við sé átt með þessu, enda hefur hv. þm. enn þá ekki tekizt að átta sig á því, en tekst það væntanlega, ef hann fær til þess tíma. En í þál. frá 4. febr. 1953, sem starfað hefur verið eftir, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, að ríkisstj. sé falið að vinna að undirbúningi og semja heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum. Það, sem gera skyldi samkvæmt fyrirmælum Alþingis, var að semja heildaráætlun um framkvæmdir. Hvar? Í þeim landshlutum, sem við erfiðasta aðstöðu búa sökum erfiðra samgangna og skorts á raforku og atvinnutækjum.

Nú virtist okkur, að það kynni að vera, að ekki væri talið alveg liggja í augum uppi, hverjir þessir landshlutar væru, sem erfiðasta aðstöðuna hefðu, og þess vegna var leitað álits þessara aðila um það, eða þeir beðnir að láta uppi álit sitt á því, hvaða landshlutar það væru, sem við erfiðasta aðstöðu byggju. Og það sýndi sig, að þetta var ekki alveg einfalt mál, því að enginn þessara aðila svaraði þessari spurningu. Enginn þessara aðila var við því búinn á þeim tíma að segja til um, hvaða skilning hann vildi láta leggja í þessi orð ályktunar Alþingis, hvaða landshlutar ættu við erfiðasta aðstöðu að búa. (Gripið fram í.) Mér vitanlega hefur þetta ekki enn verið upplýst, og ég væri mjög þakklátur fyrir mitt leyti, ef hv. 9. landsk. þm. vildi upplýsa mig um það hér og hv. deild, hvaða landshlutar þetta eru að hans dómi. Hann gerir það væntanlega og þá svo glöggt, að menn þurfi ekki að vera í neinum vafa um það lengur, ef menn hafa verið það. Þá nefnir hann þessa landshluta, þegar hann hefur þá á reiðum höndum, sem við erfiðasta aðstöðu búa og af þeim orsökum, sem tilgreint er í þál.

Þetta er skýringin á þessu atriði, sem hv. þm. hafði ekki áttað sig á enn þá, hvernig stæði á í grg.

Ég vil svo aðeins minna á það, sem auðvitað skiptir ekki neinu höfuðmáli í þessu sambandi, en af því að það hefur verið rætt um það hér, vil ég aðeins minna á það og vekja athygli á því, að þeim, sem unnið hafa að undirbúningi þessa frv., var aldrei falið að gera till. um fjáröflun til einhverra ákveðinna framkvæmda. Þeim var aldrei falið það. Þetta þarf að sjálfsögðu að gera. Ef ráðizt er í framkvæmdir, þarf að gera till. og ákvarðanir um fjáröflunarleiðir, en út af fyrir sig var þeim ekki falið að gera það. Það, sem þeim var falið að gera, var að undirbúa áætlun um framkvæmdir í þessum margnefndu landshlutum, sem hv. 9. landsk. þm. á svo erfitt með að átta sig á, og þetta hefur þegar verið gert að nokkru leyti, eins og ég sagði í öndverðu. Það hefur verið látin fara fram allmikill undirbúningur, sem því miður er ekki hægt að skýra frá hér öllu nákvæmar en gert er þarna í grg., og í raun og veru er skýrslan, sem gerð hefur verið á bls. 10–15, að nokkru svar við þeirri spurningu, sem ég var að tala hér um áðan um landshlutana, þó ekki að öllu leyti, ef til vill vegna þeirrar nánari skilgreiningar, sem sett var i ályktun Alþingis á sínum tíma. En það varð niðurstaðan, að slík heildaráætlun, svo að að verulegu gagni yrði, um framkvæmdir í þessum landshlutum, og þá að sjálfsögðu einnig um kostnað við þessar framkvæmdir, þótt ekki væri um fjáröflunarleiðir að ræða, yrði ekki gerð nema á mörgum árum og að sjálfsögðu með aðstoð sérfræðinga og töluverðum vinnukrafti, sem þá hins vegar hlyti að hafa í för með sér mikinn kostnað fyrir ríkissjóð. Hv. þm. vita skil á því, hvað það kostar að láta gera hluti, sem eru eitthvað í ætt við það að semja heildaráætlun um framkvæmdir í þeim landshlutum, þar sem fólksfækkun hefur orðið. Hv. þm. kannast við það, hvað það er að gera eitthvað í þá átt, þó að, eins og ég sagði áðan, slík vinna hafi í raun og veru aldrei verið framkvæmd hér á landi. Slík áætlun hefur aldrei verið gerð. En það hafa verið gerðar minni áætlanir, og það hefur verið framkvæmd ýmis vinna í nefndum, sem er mjög svipuð þessu, og hv. þm. vita það vel, að til þess að gera það þarf mikla starfskrafta, og það kostar mikið fé.

Það var af þeim, sem að þessu máli standa, talið réttara að athuga þetta mál betur, hvernig að því skyldi vinna, og gera ekki till. um neinn verulegan kostnað í því sambandi, fyrr en það lægi fyrir. En hitt er jafnvægisnefnd ætlað, þeirri, sem væntanlega verður stofnuð samkvæmt þessu frv., að framkvæma þetta verk til fullnustu, byggt á því verki, sem þegar hefur verið unnið, og áframhaldandi starfi, sem hún væntanlega vinnur við önnur og betri starfsskilyrði og þá auðvitað með miklu meiri kostnaði en þessir tveir menn hafa lagt í þann tíma, sem málið hefur verið í þeirra höndum.

Hér er af hv. þm. verið að ræða um verk, sem þessum mönnum, sem að þessu frv. hafa unnið, hefur aldrei, hvorki af Alþingi né af ríkisstj., verið falið að vinna, þ.e. að afla fjár. Segja má, að þeir hafi í raun og veru farið út fyrir verksvið sitt með því að gera till. um jafnvægissjóð og fjárframlög til hans, en það stendur í beinu sambandi við þá aðalhugsun frv., að koma þurfi upp einhverri stofnun, sem stöðugt starfi að því verkefni að stuðla að jafnvægi í byggð landsins.

Hv. 9. landsk. þm. hafði líka misskilið dálítið ákvæðin um það fjármagn, sem sjóðnum er ætlað að fá til meðferðar. Það er eins og ég sagði: Hér er ekki um mikið fjármagn að ræða, en það er þó dálítið meira en hv. þm. virtist álíta. Í frv. er gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði, 5 millj. kr. Þetta er nýtt fé. Það er ekkert um það í frv„ að það atvinnuaukningarfé, sem hefur verið í fjárlögum, eigi að renna í þennan sjóð. Það er ekkert um það, að atvinnuaukningarfé skuli ekki tekið inn á fjárlög áfram, þó að þetta fé sé ætlað jafnvægissjóði. Þetta eru sérstakar tekjur, sem honum eru ætlaðar, og er náttúrlega það fé, sem starfsemin að þessu leyti fyrst og fremst byggist á. En stofnféð eru þessar 5 millj. kr., sem sjóðnum eru ætlaðar samkvæmt heimíld Alþingis á fjárlögum í vetur, og auk þess það, sem kann að hafast upp úr atvinnuaukningarlánum þeim, sem útistandandi eru, en enginn veit auðvitað, hvað verður, en gera má ráð fyrir að verði eitthvað, og sömuleiðis það, sem jafnvægissjóður kann að hafa upp úr því, að þeir, sem ekki hafa greitt af ríkisábyrgðarlánum vexti eða afborganir, geri það nú.

Ég held, að ég láti þetta nægja til frekari skýringar þessu máli og til þess að reyna að koma í veg fyrir þann misskilning um eðli þessa máls, sem mér virðist koma fram sérstaklega hjá hv. 9. landsk. þm. og reyndar áðan hjá 11. landsk. þm. og stafar auðvitað af því, eins og ég sagði áðan, að þeir hafa ekki haft nægilegt ráðrúm til þess að kynna sér málið.