16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki fara mikið út í það, sem ég talaði um í dag.

Frsm. n. sagði, að það væru nú teknir inn á launalög þeir menn, sem hefðu laun beint úr ríkissjóði, eftir að ég lét í ljós þá skoðun mína, að ég hefði óskað eftir, að það hefði verið víðtækara og teknar inn í launalögin hálfopinberar stofnanir, sem beint eru kostaðar úr ríkissjóði. Ég vissi ekki, hvort hann var með því eða ekki, en þessi skilgreining hans nægir náttúrlega ekki. Það er ekki borgað beint úr ríkissjóði símafólkinu, því er borgað af tekjum símans, og það er sérstök stofnun innan ríkisins, alveg eins og ýmsar aðrar stofnanir. Ég fell ekki frá því, að það hefði verið miklu æskilegra, að það hefði verið tekið meira inn og gætt meira samræmis en nú er, þegar utan við launalögin standa stofnanir, sem borga hærra fyrir sambærileg störf en gert er í launalögunum.

Ég fékk ekkert svar viðvíkjandi því, hvort ætlazt væri til þess, að þau fríðindi, sem sumir hafa og sumir ekki, ættu að haldast eða ekki. Ég fékk ekkert svar við því, hvort t. d. annar menntaskólarektorinn, sem hefur ókeypis íbúð, húsnæði og fæði, en er með sömu laun og hinn, á að halda því áfram og vera þar með hærri en hinn. Annar menntaskólarektorinn er nú víst kallaður skólameistari, en hinn rektor, en báðir eru forstöðumenn menntaskóla. (Gripið fram í.) Nei, húsnæði, ljós og hita á annar þeirra að hafa ókeypis, en hinn ekki. Svona eru til fjöldamörg dæmi, sem hefði þurft að taka tillit til við samningu launalaganna, og ég óskaði að fá upplýsingar um, hvort það væri meiningin, að þetta héldist eða ekki, hvort það væri meiningin, að forstjóri hérna í Reykjavík, sem hefur bíl, sem ríkið kostar að öllu leyti, og ekki er vitað til að þurfi að fara út fyrir bæinn í neinum sérstökum embættiserindum, eigi að halda honum, en annar forstjóri með sömu aðstöðu, sömu laun og í svipuðu starfi eigi ekki að hafa bíl og þó að öðru leyti sömu laun. Ég spurði um þetta.

Svo var ég að tala um Keldur, og ég skal geyma það þangað til seinna, en áður ætla ég að benda á eitt atriði, sem ég held að hafi af vangá fallið niður eða a. m. k. eigi þá eftir að ákveða, hvernig það eigi að verða í framtíðinni. 34. gr. gömlu launalaganna hljóðar svo:

„Þegar einhver hluti launa er greiddur í fríðu, svo sem jarðarafnotum, húsnæði, ljósi, hita, fæði og öðru, skulu þessi hlunnindi metin árlega af yfirskattanefnd í því umdæmi, sem launþegi er búsettur í, og matsverðið dregið frá heildarlaununum.

Ákvörðun yfirskattanefndar má skjóta til ríkisskattanefndar, sem fellir fullnaðarúrskurð um málið.“

Þessi grein er núna felld niður. Síðan launalögin voru samþykkt, hef ég átt sæti í ríkisskattanefnd og þurft að fjalla um þessa samræmingu á hverju ári. Og ég get sagt það hérna, að það er algengt, að sams konar húsnæði í þorpum úti á landi eða hjá barnakennurum úti á landi í sveitum hefur komið til okkar frá yfirskattanefndunum með miklu meira en helmingsmun á mati. Nú er þessi grein felld niður, og þá er fyrsta spurningin: Á að hætta að meta þetta? Á að hætta að meta það til tekna? Á að hætta að draga það frá laununum við útborgun? Eiga þeir að hafa þetta sem aukafríðindi? Það er ekki stafur um það í launalögunum, eins og þau liggja núna fyrir. Það er búið að fella það niður. Mér þykir ákaflega skemmtilegt fyrir sjálfan mig að vera laus við það. Það hefur verið leiðinlegt og óþakklátt verk, sem maður hefur alltaf fengið skammir fyrir, að vera of lágur hjá öðrum og of hár hjá hinum, svo að ég er þakklátur fyrir mitt leyti, að það sé fallið burt úr lögunum. En hvernig á þá að koma þessu fyrir? Hver á þá að meta það? Eða á ekki að draga það frá laununum framvegis? Þarf ekki að taka greinina upp aftur í einhverri mynd? Ef það verður ekki gert, þá sé ég ekki annað en það verði á þinginu eftir áramótin að setja ný lög um það, hvernig eigi að meta hlunnindi, sem embættismenn hafa. Eða á bara ráðh. að meta það hjá einhverjum einstökum manni og gefa fyrirskipun um það frá sér? Þetta vildi ég benda á. Mér er ekki ljóst, hvernig ætlað er að fara með það. Ég hef ekki heyrt neinar nýjar ráðstafanir um, að það eigi að framkvæma það á annan veg, en úr lögunum er það dottið ef frv. verður samþykkt eins og það er núna. Ég skal viðurkenna, að ég hefði verið búinn að benda á þetta fyrir löngu, hefði ég tekið eftir því fyrr, en þegar hv. þm. Barð var að tala, þá hlustaði ég á með öðru eyranu eða kannske báðum, en las frv. með augunum, og það er í fyrsta skipti, sem ég hef lesið það allt saman yfir, síðan það kom, því að ég hef haft svo mikið að gera, að ég hef ekki gert það fyrr. Og þá tók ég eftir þessu. Hvort það er eitthvað fleira, sem þarf að laga, skal ég ekki segja um, en ég tók eftir þessu þá, og mér finnst, að þetta geti ekki gengið eins og það er, nema þá því aðeins að ríkisstj. ætli sér að taka upp nýtt fyrirkomulag á því, og því hef ég sannarlega ekkert á móti, síður en svo, eða setja um það sérstök lög eftir áramótin. Það er vel hugsanlegt, að hún hafi hugsað sér það, og við því hef ég ekkert að segja. Það má sjálfsagt koma því fyrir á margan veg heppilegri en þennan, sem nú er, en það þarf einhvern veginn að koma því fyrir, nema það sé meiningin, að það verði ekki reiknað þeim til frádráttar frá tekjum, heldur bara af undirskattanefndum í hverjum hreppi metið þeim sem fríðindi, sem þeir eigi að borga skatt af sem viðbót við sín laun. Það er líka hægt að fara inn á þá stefnu. Það verða undirskattanefndirnar auðvitað að gera, ef það verður ekki dregið frá laununum.

Svo skal ég að síðustu snúa mér að Keldum, sem ég minntist á áður, og ekki segja annað um það en ég var búinn að segja áður, og það er það, að ég vil reyna að tryggja, að þau laun, sem eru borguð þar, séu það há, að þau séu hvoru tveggja, sambærileg við laun svipaðra manna og jafnframt reynt að tryggja það, að menn fáist að stofnuninni. Ég legg þess vegna fram skriflega brtt. um, að dýralæknirinn hækki úr V. fl. í IV. og efnafræðingurinn sömuleiðis. Ég skal ekki fara neitt mikið út í að rökræða þetta. Ég skal bara benda á það, að maðurinn, sem ætlað er að ganga úr skugga um, hvort það sé mæðiveiki eða ekki mæðiveiki eða garnaveiki eða ekki garnaveiki, sem kindur drepast úr hér og þar, er hafður í miklu hærri flokki en dýralæknirinn, sem ætlað er að ganga úr skugga um sjúkdóma í öllum öðrum skepnum, sem skrokkar eða sýnishorn af eru send að Keldum til úrskurðar og ákvörðunar, um hvaða sjúkdóm sé að ræða og hvað við á að gera, og hefur verið tveimur árum lengur að búa sig undir sitt starf, sá sem núna er í því, heldur en hinn, sem er við hinar rannsóknirnar og þó er ætlað sem sagt að vera tveimur flokkum hærri.

Ég skal svo ekki fara meira út í það. Ég leyfi mér að leggja þessa till. fyrir forseta. Ég tel ákaflega mikils virði, að hún sé samþykkt. Ég sé ekki annað en það þurfi að breyta lögunum í þessari deild, og ég sé ekki, að Nd. geti ekki komið saman á morgun til að athuga þær breytingar. Ég sé ekki nein vandkvæði á því. Annars er það ósiður náttúrlega að láta frv. koma í seinni deildina svona seint og helzt ekki vilja láta menn ræða þau eða neitt um þau tala, af því að það sé ekki tími til að breyta þeim, það sé ekki tími til að koma þeim til hinnar deildarinnar. Þetta er atriði, sem frsm. n., sem var með þetta núna, hefur oft vítt hér í deildinni áður, þegar mál hefur þannig borið að, og ég er honum sammála í því, að seinni deildin á ekki að láta það aftra sér frá að gera nauðsynlegar breytingar.