27.03.1956
Neðri deild: 98. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leyfa mér að taka undir þá ósk form. fjhn. þessarar d., að málinu verði frestað, þar sem það hefur ekki enn þá verið tekið fyrir í fjhn. En þar sem forseti hefur ekki séð sér fært að verða við þeim tilmælum, þá verð ég þrátt fyrir alla þá annmarka, sem kunna að vera á tíma þessa þings, að leyfa mér að mæla fyrir þeim brtt., sem ég ásamt þrem öðrum þm. hef lagt hér fram varðandi þetta mál. (Forseti: Ég vil leyfa mér að benda hv. þm. á, að hv. d. hefur aðeins tíma til kl. hálf tíu, þannig að ég vil beina þeim tilmælum til hans að ljúka framsögu sinni fyrir þessum till., ef hann treystir sér til, að sjálfsögðu án þess að fresta ræðu sinni, en það þýðir auðvitað það, að málið verður ekki afgreitt í kvöld og ef til vill ekki á morgun.)

Í sambandi við þessa úrslitakosti forseta verð ég að lýsa því yfir, að mér nægja alls ekki þær mínútur, sem eftir eru til kl. hálf tíu, til mínnar framsöguræðu, og ítreka enn ósk mína um, að málinu verði frestað. — Þar sem svör fást ekki við því, leyfi ég mér að byrja ræðu mína, enda þótt það sé vonlaust, að henni geti verið lokið á þessum ákveðna tíma.

Málið, sem hér liggur fyrir, er um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Við 1. umr. þess var að því vikið, að málið er undirbúið af nefnd, sem setið hefur á rökstólum fram undir tvö ár, en ástæðan til þess, að sú nefnd varð til, var samþykkt á till., sem gerð var hér á þingi fyrir þremur árum.

Jafnvægisfrv. sem slíkt gerir ráð fyrir, að ríkisvaldið eigi að stuðla að því, að þeirri óheillavænlegu og öru þróun, sem átt hefur sér stað að undanförnu, þannig að fólk hefur flutzt mjög úr þremur landsfjórðungum yfir til Suðvesturlands, geti að einhverju leyti lokið eða a.m.k. dregið úr þeim öra fólksstraumi, sem í þessa átt hefur legið að undanförnu. Þær ráðstafanir, sem gera á samkvæmt frv., eru einkum þær að kjósa hér nefnd, jafnvægisnefnd fimm manna, sem á jafnframt að stjórna sjóði, jafnvægissjóði. Tekjur þess sjóðs eru ætlaðar vextir af skuldum, sem ríkið á útistandandi og út hafa verið lánaðar á undanförnum árum til atvinnubóta, en allir ræðumenn hafa yfirleitt reiknað með, að ekki væru innheimtanlegar nema þá að mjög óverulegu leyti og vextir ekki heldur af þeim. Skuldirnar sjálfar eiga einnig að verða tekjustofn í jafnvægissjóð, en á þessu ári á sjóðurinn eða sjóðsstjórnin ekki að hafa yfir öðrum tekjum til úthlutunar í þessu skyni að ráða. Þegar frv. var upphaflega lagt fram, var þó gert ráð fyrir, að væntanleg jafnvægisnefnd ráðstafaði og úthlutaði þeim 5 millj. kr., sem fjárlög yfirstandandi árs gera ráð fyrir að varið verði í þessu skyni. En við þá meðferð, sem málið hefur þegar fengið í Alþingi, er nú búið að draga undan þessa 5 millj. kr. greiðslu, og verða þá væntanlega ekki til ráðstöfunar neinir teljandi fjármunir í þessu skyni fyrr en á næsta ári, og er mér það þess vegna fullkomin ráðgáta, hvers vegna þeir, sem stjórna vinnubrögðum hér á hv. Alþ., leggja á það slíkt ofurkapp að fá frv. samþykkt einmitt nú, þar sem sýnilegt er, að sú jafnvægisnefnd, sem á að kjósa, mundi engan veginn geta sinnt því hlutverki, sem henni er samkvæmt l. ætlað, á þessu ári. Það er sannarlega engin ástæða til að brjóta allar þingvenjur til þess að koma slíku máli í gegn, sem í reyndinni yrði fullkomlega haldlaust og gagnslaust á þessu ári. Enn fremur er frv. þannig úr garði gert, að jafnvel þegar það gæti komið til fullra framkvæmda, einhvern tíma væntanlega á árinu 1957, vegna þess að þá hefðu fallið til í jafnvægissjóð þær tekjur, sem honum eru ætlaðar, eru þær ráðstafanir, sem gera á, allsendis ófullnægjandi til þess að sinna að nokkru því að skapa jafnvægi í byggð landsins. Ein helzta ráðstöfunin, sem gera á i þessu sambandi, er sú, að það á að veita jafnvægisnefndinni rétt til þess að greiða fargjöld fyrir það fólk, sem flytur burt úr þorpum eða kaupstöðum, þar sem lítið er um atvinnu. Ekki verður sú ráðstöfun neitt sérstaklega líkleg til þess að valda straumhvörfum í þessum málum. Það er hins vegar augsýnilegt, að til þess að eitthvert jafnvægi geti komizt á í byggð landsins, þarf fyrst og fremst ráðstafanir, sem tryggja fólki stöðuga atvinnu i sínu heimahéraði, og það þarf að tryggja landsmönnum yfirleitt, að þeir njóti eitthvað svipaðrar aðstöðu til þess að nota þegnréttindi þau, sem þjóðfélagsborgararnir eiga, en svo er alls ekki eins og nú háttar. Það, sem ég og hv. 11. landsk. þm., hv. 3. landsk. þm. og hv. 4. landsk. þm. leggjum til að gert verði til þess að koma á raunverulega einhverjum aðgerðum, sem verkað gætu í þá átt, sem annars er látið í veðri vaka að tilgangurinn sé með frv., er, að við leggjum til á þskj. 604, að gerðar verði breyt. á frv. í þá átt, að inn í það séu teknir tveir nýir kaflar, annar, sem fjallar sérstaklega um ráðstafanir til atvinnujöfnunar, og hinn, sem fjallar sérstaklega um ráðstafanir til aðstöðujöfnunar. [Frh.]