28.03.1956
Neðri deild: 99. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (1771)

191. mál, jafnvægi í byggð landsins

Frsm. 3. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur verið frá skýrt, var fundur í fjhn. nú í morgun til að athuga þetta frv. Að vísu gátu aðeins þrír nm. mætt á fundinum. Einn nm., hv. þm. A-Húnv. (JPálm), er utanbæjar, og annar nm., hv. 1. landsk. þm. (GÞG), hafði forföll. En það kom fram í n., að sjónarmiðin voru nokkuð mismunandi, og koma þrjú nál., sem eru í prentun og væntanleg innan skamms.

Afstaða mín í n. var sú, að ég vil mæla með, að frv. verði samþ., en áskildi mér rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt. við frv.

Það er merkilegt mál, sem er hreyft í þessu frv., og er leitt, að tími þingsins hefur verið takmarkaður til að athuga þetta mál, vegna þess, hve skammt er liðið síðan frv. var lagt fyrir þingið, málið vel þess vert, að það hefði verið betur athugað en hægt hefur verið að gera á þessum stutta tíma.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), sem talaði hér síðast, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt, og ræddi hann um það, að vafasamt væri, að frv. næði fram að ganga, ef gerðar yrðu á því breytingar. En ég lít svo á, að það sé ekki hægt fyrir þessa hv. d. að afsala sér rétti til að gera einhverjar breyt. á frv., ef menn telja það heppilegt, þrátt fyrir það að frv. sé seint fram komið. Nokkrar breyt. voru gerðar á því í hv. Ed., og getur verið þrátt fyrir það ástæða til að gera einhverjar breyt. á frv. hér.

Það eru ýmsar merkilegar upplýsingar, sem fylgja þessu frv. í grg. frá höfundum þess. Þar eru t.d. skýrslur um fólksfjölda hér á landi frá 1910 til 1953, og er þar sundurliðuð fólkstala í kaupstöðum og öllum hreppum og reiknað út í hundraðstölum, hverjar breytingarnar hafa orðið. Þessi skýrsla sýnir það, sem reyndar var vitað áður og öllum kunnugt, að á undanförnum árum og áratugum hafa orðið geysilega miklir fólksflutningar í landinu. Yfirleitt hefur þetta orðið þannig, að fólkinu hefur fækkað mjög í sveitum landsins, en fjölgað í kaupstöðum og þó sérstaklega hér í Reykjavík og á svæðinu við Faxaflóa. Mér telst svo til, að í um það bil 30 hreppum hafi fólksfækkunin numið meira en 50%. En það er vitanlega fleira, sem gerzt hefur jafnhliða og hlaut að fylgja með eða í kjölfar þessara fólksflutninga, en um það eru ekki skýrslur í grg. frv., en það er eignatilfærslan, sem orðið hefur í landinu á þessum tíma. Það fólk, sem hefur flutt sig milli landshluta, hefur vitanlega farið með fjármuni sína með sér, og ef gerðar væru skýrslur um það, hvernig þessi fjármunaflutningur hefur verið í þjóðfélaginu, mundi koma í ljós, að það er gífurlega mikið fé, sem hefur verið flutt frá hinum dreifðu byggðum víðs vegar um landið til kaupstaðanna og þéttbýlisins, einkum hér á suðvesturhorni landsins. Við höfum fyrir augum dæmin úr sveitunum. Bændur selja fasteignir sínar og bú og flytja burt með andvirði þessara eigna sinna til þess að byggja sér hús eða kaupa hús á öðrum stöðum, þar sem þeir taka sér bólfestu, en viðtakendur, þeir sem kaupa jarðirnar og búin í sveitunum, þurfa síðan oft að bera þunga skuldabagga vegna þessara viðskipta, sem eru þeim oft fjötur um fót við búreksturinn. En þetta á sér stað viðar en í sveitunum. Einnig úr kauptúnunum víða um land hefur orðið slíkur tilflutningur á fólki og fjármunum, og í mörgum tilfellum hefur gróði af atvinnurekstri á þeim stöðum verið fluttur burt úr viðkomandi byggðarlagi.

Áður var það svo, meðan verzlunin var í höndum útlendinga, að þá fór verzlunarágóðinn héðan af landi burt, út til Kaupmannahafnar. En þó að verzlunin sé nú innlend orðin að mestu, hefur ekki með öllu tekið fyrir flutning verzlunargróða úr einstökum byggðarlögum til annarra hér innanlands. Það eru mörg dæmi þess, að menn, sem hafa haft ýmiss konar atvinnurekstur í kauptúnum víða um land, hafa tekið sig upp þaðan, selt eignir sínar og farið með þann hagnað, sem þeir hafa haft, bæði af verzlun og öðrum atvinnurekstri, hingað til Reykjavíkur og annarra staða, þar sem byggðin er nú þéttust. En þó að þess megi finna mörg dæmi um einstaka atvinnurekendur eða hlutafélög fárra manna, þá gegnir hér allt öðru máli um önnur fyrirtæki á þessum stöðum, þ.e. samvinnufélögin. Samvinnufélögin hafa nú víða um land mikinn meiri hluta af viðskiptunum í sínum höndum, og samkv. lögum er tryggt, að ágóðinn af þeim rekstri, sem myndast hjá þessum félögum, verður ekki burt fluttur úr viðkomandi héraði.

Í lögum um samvinnufélög frá 1937 er svo ákveðið, að við félagsslit skuli sameignarsjóðir samvinnufélags ávaxtaðir á félagssvæðinu, þar til nýtt félag eða félög með sama markmiði rísa þar upp aftur, og fá þau þá þetta fé til umráða. Félagsmenn í samvinnufélögum geta þannig ekki skipt á milli sín eignum félagsins, þó að félaginu sé slitíð, eins og tíðkast í öðrum félögum. Þeir geta aðeins tekið út úr félögunum sínar séreignir, sínar innstæður þar í stofnsjóðum eða viðskiptareikningum, en sameiginlegum eignum félagsins er ekki heimilt að skipta milli félagsmanna. Þetta hefur vitanlega geysilega mikla þýðingu fyrir þau héruð, þar sem samvinnufélögin hafa náð öruggastri fótfestu, og er því m.a. af þessari ástæðu mjög þýðingarmikið, að slíkur félagsskapur eflist sem víðast um landið. .

Í II. kafla þessa frv., sem hér liggur fyrir, eru ákvæði um jafnvægissjóð, ákvæði í 9. gr. um stofnfé hans og í 10. gr. um tekjur hans, og síðan í sama kafla um lán, sem heimilt er að veita úr þessum sjóði til ýmiss konar framkvæmda. Þar segir í 11. gr., að úr jafnvægissjóði megi veita lán til hvers konar framkvæmda, sem að dómi jafnvægisnefndar séu til þess fallnar að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, þ. á m. til kaupa á atvinnutækjum, svo sem skipum og vélum, enda sé það aðalreglan, að hlutaðeigandi sveitarstjórn hafi sótt um lánið eða mælt með því.

Ég tel, að rétt sé að gera nokkra breytingu á þessari grein. Ég tel, að það eigi að samþykkja viðbót við gr., sem feli það í sér, að það sé nokkurn veginn öruggt, að það fé, sem kann að verða lánað í því skyni að koma upp atvinnufyrirtækjum eða kaupa atvinnutæki á ýmsum stöðum, þar sem mikil þörf er fyrir slíkt, verði ekki flutt burt aftur úr þessum byggðarlögum. Ég hef því gert brtt., sem við flytjum þrír nm. úr fjhn., þ.e. þeir hv. 1. landsk. (GÞG) og hv. 9. landsk. þm. (KGuðj) ásamt mér, að það bætist ný mgr. við 11. gr., sem verði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú eru lán veitt úr sjóðnum til annarra aðila en sveitarstjórna, og skulu þá félög, er starfa eftir þeim reglum samkv. lögum eða samþykktum, að öruggt er, að þau flytji ekki eignir sínar burt úr byggðarlaginu við félagsslit, hafa forgangsrétt að slíkum lánum.“

Eins og hv. þdm. sjá af þessu, leggjum við ekki til, að slík félög hafi forgangsrétt fram yfir sveitarfélög, en að sveitarfélögunum slepptum hafi slík félög forgangsrétt að lánunum. Ég hef áður minnt á það, að slík ákvæði eru í lögum um samvinnufélög, en vel gæti það komið fyrir, að félög hefðu hliðstæð ákvæði örugglega í sínum samþykktum og störfuðu þannig, þó að þau væru ekki að öllu leyti byggð á grundvelli samvinnulaganna. Ég tel nauðsynlegt, að það sé tryggt þegar í upphafi, að þessari reglu verði fylgt við lánveitingarnar, og þess vegna leggjum við nú fram brtt. um þetta.

Það liggur í augum uppi, að það væri takmarkað gagn af því, þó að einstakir atvinnurekendur fengju aðstoð hjá jafnvægissjóði til að kaupa ný atvinnutæki eða koma upp atvinnufyrirtækjum á stöðum, þar sem vöntun er á slíku, ef það er ekki tryggt, að þessi aðstoð verði meira en stundarfyrirbrigði fyrir þá staði, sem þar er um að ræða. En eins og við vitum, er það algengt, að einstaklingar hætta við atvinnurekstur og selja eignir sínar og fara með þær til annarra staða, og er þeim þetta að sjálfsögðu frjálst, en þá getur það valdið vandræðum á þeim stöðum, þar sem þessi atvinnufyrirtæki voru áður, er eigendur þeirra hverfa burt með þær eignir, sem þar hafa myndazt vegna atvinnurekstrarins. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð, en það hefur ekki unnizt tími til að fá þessa brtt. prentaða, og verð ég því að afhenda hæstv. forseta hana skriflega og óska þess, að afbrigða verði leitað og till. síðan látin koma undir atkvæði deildarmanna.