18.10.1955
Neðri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (1789)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. frsm. hefur rætt allmargt í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, og er það ekki nema eðlilegt, eins og málin horfa við. Það, sem hér liggur fyrir í sambandi við þetta frv. um breyt. á l. um verðlag, er raunverulega að fara að breyta þeirri stefnu, sem ríkt hefur undanfarinn hálfan áratug, og með þeim breytingum, sem hér er lagt til að gera þarna á, er raunverulega verið að byrja að snerta við heilu kerfi, sem var verið að reyna að skapa hér á þessum undanfarna rúmum hálfa áratug. Við skulum gera okkur ljóst, að þessar till. um verðlagsákvörðun eru raunverulega aðeins einn liður í því að kollvarpa því fjármálakerfi, sem hér hefur verið byggt upp undanfarið og hefur gengið undir dóm reynslunnar og ekki staðizt þann dóm.

Hv. flm. ræddi um allmarga þætti í verðmynduninni nú, sem hann réttilega sannaði að hefðu komið hart niður á almenningi og orðið til mikils ágóða fyrir auðmenn og braskara. Það mætti nefna fleiri dæmi, sem heyra undir þetta sama.

Húsaleigan og verðhækkun húsnæðis hér í Reykjavík og nágrenni er ef til vill eitt allra gleggsta dæmið um þetta. Eins og áður hefur verið sýnt fram á, hefur húsnæði hér í Reykjavík á þessum síðustu tíu árum og sérstaklega þó síðan húsaleigulögin voru afnumin 1950 víða tífaldazt, á sama tíma sem kaupgjald hefur aðeins tvöfaldazt.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að þegar við erum að ræða um þessi mál, þá erum við að ræða um, hvort öll sú stefna, sem rekin hefur verið undanfarin 5–8 ár, getur haldið áfram eða hvort eigi að gerbreyta þarna um. Og það er þannig, sem við verðum að leggja fram spurninguna í sambandi við þetta. Öll þessi kenning um frjálsa verðmyndun, sem komið var hér fram með, byrjaði raunverulega í sambandi við Marshallsamninginn, var undirgengizt þá af hálfu ríkisstjórnarinnar, þegar hún lofaði því að skrá krónuna með réttu gengi, og síðan sérstaklega framkvæmd 1950 og á næsta ári þar á eftir, þegar því var lýst yfir með nýju lögunum um fjárhagsráð, að stefna ætti að frjálsri verzlun, frjálsum innflutningi, frjálsri verðmyndun, frjálsum viðskiptum, — öll þessi stefna hefur beðið skipbrot. Það er það, sem við stöndum frammi fyrir í dag. Og hv. frsm., 1. landsk., nefndi hér mörg skýr og góð dæmi þess.

Sannleikurinn er, að öll þessi hagfræðikenning um frjálsa verðmyndun hefur aðeins að nokkru leyti verið framkvæmd hér. Og þar sem hún hefur verið framkvæmd, hefur það verið til bölvunar fyrir al:þýðuna, svo sem greinilegast hefur komið í ljós í sambandi við þá gífurlegu hækkun, sem orðið hefur á húsaleigunni. Þar sem hún hins vegar hefur ekki verið framkvæmd, hefur það verið vegna þess, að valdhafarnir í þjóðfélaginu, einokunarauðvaldið í þjóðfélaginu hefur álitið það óþægilegt fyrir sig að framkvæma frjálsa verðmyndun, og þess vegna hefur skapazt það ástand, að það er aðeins hagræðing á frjálsri verðmyndun, hagræðing í þágu einokunarauðvaldsins, sem við höfum lifað hér. Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, að að svo miklu leyti sem þetta hefur verið reynt, hefur það mistekizt, og að dómurinn yfir þessari stefnu er fallinn, þó að hún hafi aldrei verið nema ófullkomlega framkvæmd. Við þekkjum framkvæmdina. Við þekkjum hana á því, að hún hefur leitt til einhverrar mestu spillingar, sem nokkurn tíma hefur skapazt i okkar þjóðlífi, til helmingaskiptanna svokölluðu, til misnotaðra pólitískra sérréttinda, sem sköpuð hafa verið, til hlutdrægni í lánveitingum og hvers konar leyfum. Í staðinn fyrir að skapa eitthvert frelsi og einhvern heiðarleika á þessu sviði, hefur það leitt til ófrelsis og til spillingar og til einokunar. Þetta hefur orðið eins og dula yfir þetta allt saman.

Hins vegar vil ég segja það, að ég hef ekki trú á, meira að segja þó að þessi frjálsa verðmyndun hefði verið reynd hér á Íslandi án þessara miklu galla, sem verið hafa á hennar framkvæmd, og miklu takmarkana, að hún hefði tekizt. Þó að sú stefna hefði verið framkvæmd, sem hefði verið það rökrétta í þessu að öll gengisskráning hefði verið gefin frjáls, allur innflutningur og allur útflutningur hefði verið gefinn frjáls, m.ö.o. allt íslenzkt hagkerfi innlimað í hagkerfi Bandaríkjanna og Bretlands, þá held ég, að þetta hefði samt ekki flutt okkur neina blessun, heldur þvert á móti, og það af þeirri einföldu ástæðu, að þessar hagfræðikenningar um frjálsa verðmyndun, frjáls viðskipti, eiga alls ekki við íslenzkt þjóðskipulag og þess þarfir.

Það er hugsanlegt að láta þessar hagfræðikenningar um frjálsa verðmyndun haldast, þó með vissum takmörkunum, stórslysalaust í gömlum, stöðnuðum auðvaldsþjóðfélögum, eins og t.d. hagkerfi Bandaríkjanna. Í gömlum, stórum, ríkum, stöðnuðum auðvaldsþjóðfélögum er hugsanlegt — og er það þó gert með vissum takmörkunum af þeirra hálfu — að láta það haldast. En ef ætlað er að beita þessari frjálsu verðmyndun, ætlað að láta það vera komið undir því, hvað hver einstaklingur fyrir sitt leyti vill gera, í hverju hann vill festa sitt fé og annað slíkt, hvernig fer þá um land. sem verið er að byggja upp, um ungt þjóðfélag, sem er að skapa þessi verðmæti? Ég held, að ef það á að reyna frjálsa verðmyndunaraðferð í slíku þjóðfélagi, á því skeiði, sem okkar þjóðfélag er, þá hljóti það alltaf að mistakast. Íslenzkt þjóðfélag er svo ungt, það er svo mikið, sem okkar þjóð á ógert, að okkar þjóð sem heild hlýtur alltaf að vilja leggja í svo marga hluti, sem einstaklingurinn, þegar hann á að ráða, hver út af fyrir sig, mundi ekki leggja í og mundi ekki verða kleift. Við þurfum að byggja hér raforkuver, við þurfum að byggja hér og koma upp stórum togaraflota, við þurfum að byggja vélbáta, við þurfum að byggja fiskiðjuver, við þurfum að búa til fjöldann allan af slíkum fyrirtækjum, sem einstaklingum sem slíkum er ofvaxið. Það þýðir, að sparnaður eins einstaklings út af fyrir sig og aurarnir, sem hann hefur afgangs frá sínum daglegu þörfum, honum dettur út af fyrir sig varla í hug að setja það í þetta. Hann ætlast til þess, að þetta sjái þjóðarheildin um, þetta geri ríkið, þetta geri bæirnir, þetta geri það opinbera. Þess vegna verður það svo í þjóðfélagi eins og okkar, að það opinbera verður að gera þessa hluti, og þá þýðir það um leið, að þegar það opinbera ætlar að fullnægja því, sem fólkið gerir kröfu til i þessu efni og þjóðfélaginu vegna þess þróunar er lífsnauðsyn á, þá verður þjóðfélagið sjálft að taka í sínar hendur stjórnina á þessum fjármálum, þessum efnahagsmálum einstaklinganna sem heildarinnar. Það er óhjákvæmilegt. M.ö.o.: Það verður í þágu þjóðfélagsins sem heildar og þar með líka einstaklinganna að stjórna þróun þjóðfélagsins. Hún getur ekki og fær ekki að fara þær brautir, sem þjóðinni sem heild er þörf á, ef hver einstaklingur út af fyrir sig og hin svokallaða frjálsa verðmyndun, frjáls viðskipti og allt saman slíkt er látið ráða.

Af hverju er kannske hugsanlegt að gera þetta að nokkru leyti í gömlum, stöðnuðum þjóðfélögum, auðvaldsþjóðfélögum, við skulum segja t.d. Bandaríkjunum? Jú, þar er um að ræða ákaflega fámenna auðmannastétt, þannig að t.d. persónuleg eyðsla þeirrar auðmannastéttar er alltaf hverfandi lítill hluti af þeim gífurlega gróða, sem þessi auðmannastétt hefur, sem hún tekur af almenningi. Það er nú svo margt, sem vantar i okkar hagfræði, en mér þætti gaman að fá að vita það, hvað stór hluti af þeim gróða, sem kemur til íslenzkrar auðmannastéttar, fer í hennar persónulegu eyðslu og hvað mikið fer í nýja fjárfestingu í hennar fyrirtækjum, nýjum fyrirtækjum. Við höfum stóra, fjölmenna, ríka auðmannastétt, og ég gæti trúað, að hún væri hlutfallslega með eyðslusömustu yfirstéttum Evrópu og að hún hirti minna um að leggja i þau fyrirtæki, sem þjóðfélaginu er þörf á að lagt sé í, til þess að þjóðfélagið fái staðizt. Ég er hræddur um, að íslenzk auðmannastétt muni ekki sjálf þróa okkar atvinnulíf á þann hátt, sem því er þörf á, en hugsi því meir um sína persónulegu eyðslu og það, sem hún festir fé sitt í, sé til munaðar eða þæginda. Hins vegar byggir lögmálið um frjálsa verðmyndun í auðvaldsþjóðfélagi á því, að raunverulega sjái auðmannastéttin um að festa fé í nýjum fyrirtækjum og sjái þannig um að þróa auðvaldsskipulagið áfram og efla þess framfarir.

Hver hefur líka orðið afleiðingin af þessari svokölluðu frjálsu verðmyndun og þar með á vissan hátt frjálsu fjárfestingu auðmannastéttarinnar hvað snertir okkar undirstöðuatvinnuvegi á þessum árum? Það hefur verið fest fé í miklu hér á Íslandi á þessum undanförnu árum. En hvar er fjárfestingin síðustu 7 ár í því, sem raunverulega allar þjóðartekjur Íslendinga fyrst og fremst byggjast á, í togurunum? Hvar er fjárfesting íslenzkrar auðmannastéttar og fjárfesting þeirra, sem hafa fengið að ráða þessi ár, í því, sem er undirstaðan undir öllum þeim afköstum, sem íslenzkur þjóðarbúskapur hefur? Það hefur ekki verið keyptur einn einasti nýr togari í 7 ár, og þó hlýtur mönnum að vera ljóst, að þegar við tölum um íslenzka þjóðarframleiðslu, íslenzkan þjóðarauð og íslenzkar þjóðartekjur og þar með möguleika á innflutningi og öðru slíku. þá eru það þó fyrst og fremst togararnir, sem skapa þær. Og þegar fjmrh. var hér t.d. í gær að tala um þá tiltölulega góðu afkomu, sem almennt væri fyrir íslenzka þjóð, þá hugsaði hann ekki út í, á hverju það byggist. Það byggist á því, að þau framleiðslutæki, sem við höfum, og þá fyrst og fremst togararnir, til þess að nota við okkar ríku fiskimið, eru svo afkastarík, að þar afkastar hver sjómaður, sem á þeim vinnur, sjö sinnum meira en sá sjómaður þeirrar þjóðar, sem næst kemst okkur í heiminum um afköst. Og hvernig hefur svo sú frjálsa fjárfesting reynzt þjóðinni i því að tryggja, að féð væri fest einmitt i þessum fyrirtækjum, sem þjóðarbúinu var nauðsynlegast? Allan þennan tíma hefur ekki aðeins verið ekki hirt um að kaupa togara, lengi var staðið á móti því að byggja eða kaupa nýja vélbáta, þó að nú hafi verið látið undan á því sviði, og alltaf tregðazt við að koma upp þeim hraðfrystihúsum, sem brýn nauðsyn var á.

M.ö.o.: Það, sem gerzt hefur hér á þessum undanförnum árum, er, að það hefur verið gerð misheppnuð tilraun til þess að yfirfæra á okkar þjóðarbúskap erlendar hagfræðikenningar, sem ekki áttu við hér, og jafnvel þó að þær hefðu verið framkvæmdar, hefðu aldrei getað orðíð okkur til blessunar, en eins framkvæmdar og þær hafa verið og eins hagræddar valdhöfunum i hag hafa orðið okkur til stórbölvunar og hafa staðið í vegi fyrir þróuninni i okkar þjóðarbúskap.

Það er ekki hægt í ungu þjóðfélagi eins og því íslenzka að gera það tvennt í senn: að ætla að byggja upp atvinnulífið með fjölskrúðugum og góðum og stórvirkum atvinnutækjum, byggja hús yfir fólkið í landinu, skapa þannig varanleg verðmæti og að leyfa hverjum einasta manni að eyða eins og hann vill. Það er ekki hægt að gera þetta tvennt í senn. En þetta er það, sem auðmannastéttin í Reykjavík heimtaði af sínum flokkum og sinni stjórn, að það væri leyft að flytja inn allt, sem hugurinn girntist, það væri selt hér á frjálsum markaði, menn gætu valið hér úr því, menn mættu festa fé sitt í hvers konar eyðslu og óhófi sem vera skyldi, þetta skyldi allt vera frjálst, verzlunin frjáls, fjárfestingin frjáls, og þetta hefur svo gengið út yfir sjálfa þróun atvinnulífsins.

Ég held, að við verðum að gera okkur ljóst, að þessi stefna, öll þessi frjálsa verðmyndunarstefna og frjálsa viðskiptastefna, hefur beðið skipbrot, og það er það, sem við stöndum frammi fyrir. Þarna verður algerlega að breyta til, og þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, ætti raunverulega aðeins að vera byrjunin á þeirri stefnubreytingu, sem miðaði að því að tryggja, að þjóðin hagnýtti sér sinn auð, sitt vinnuafl og sitt fjármagn til þess skipulagt og vitandi vits að efla sitt atvinnulíf og auka það og auka þannig líka fyrir framtíðina möguleikann til meiri neyzlu og til betri lífskjara.

Frelsið, viðskiptafrelsið, verðmyndunarfrelsið. sem boðað var fyrir okkur, sérstaklega eftir kosningarnar 1949, hefur á þeim sviðum, þar sem það hefur verið notað, aðeins orðið frelsi fyrir auðinn, frelsi fyrir sérréttindafólkið, frelsi fyrir braskið, en á þeim sviðum, þar sem stjórnarherrarnir hafa haft hag af einokuninni, hefur þeirri einokun verið haldið áfram. Frelsinu hefur verið hagrætt í þágu einokunarherranna. Að svo miklu leyti sem það hefur verið til, þá hefur það verið frelsi fyrir peningana og eigendur þeirra, enda er það e.t.v. eitt greinilegasta dæmið um þróunina í þeim málum, að fyrir 10 árum voru peningar ódýrir hér í Reykjavík, þá var frekar auðvelt að fá peninga að láni til þess að byggja hús, leggja í fyrirtæki og annað slíkt, það var auðvelt, það voru lágir vextir, en nú eru peningar dýrir, jafnvel vextir bankanna hafa verið hækkaðir þannig, að það hefur orðið að breyta lögunum um okur, svo að bankarnir yrðu ekki sekir um okur, og þó hefur mikið af verzlunarviðskiptunum um peningana farið fram utan bankanna, þannig, að um beint okur hefur verið að ræða. M.ö.o.: Peningarnir hafa orðið dýrari á þessum árum, þeir hafa hækkað í verði. Peningavaldið og vald þeirra, sem peningana hafa, hefur farið vaxandi.

Það, sem verður að gerast í þessum efnum, er, að hér verður algerlega að breyta um stefnu. Þetta fyrirkomulag, sem reynt hefur verið að koma á á undanförnum 5–8 árum, verður að hverfa. Það verður hvað snertir þetta, sem hér liggur fyrir, viðvíkjandi verðlaginu, að taka upp skipulagða baráttu fyrir réttu verðlagi, og hér í þessu frv. er auðsjáanlega meiningin að heimíla þeirri n., sem um það ætti að fjalla, allviðtæk afskipti af farmgjöldum með skipum, og það vita allir, sem þekkja til með verzlun, að það er ekkert smáræði, sem grætt hefur verið á því sviði á undanförnum árum; afskipti af bankavöxtunum og allri bankaálagningunni, og það er vitanlegt, að það er heldur ekkert smáræði, sem bankarnir hafa tekið til sín af verzlunarálagningunni á almenning; afskipti af heildsalaálagningunni, sem er í þessu tilfelli ein sú þyngsta. En það er engum efa bundið, að það þarf líka að halda áfram þeirri stefnu, sem hér er lagt til, á öðrum sviðum, á sviðum eins og með húsaleigu, þar sem verðhækkanir hafa verið hvað ægilegastar og eru svo ægilegar þann dag í dag, að ég veit persónulega um dæmi aðeins hér í sumar í Reykjavík, að þriggja herbergja íbúðir, sem síðasta vetur voru leigðar á 1500 kr. og það í húsum frá því fyrir stríð, húsum, þar sem þriggja herbergja íbúðir kostuðu 150 kr. árið 1945, hafa verið hækkaðar upp í 2000 kr. Það er þess vegna engum efa bundið, að það verður alvarlega á öllum sviðum verðmyndunarinnar að skerast í leikinn, og samþykkt frv. eins og þessa ætti aðeins að vera upphafið að slíku.

Nú þætti mér ákaflega fróðlegt, sérstaklega ef hæstv. fjmrh. væri hér, að heyra hans skoðun á þessu frv. Hæstv. fjmrh. hefur þann hátt á stundum, þegar hann talar í útvarp, að tala allrösklega, eins og hans er vandi, og ekki hvað sízt um verðmyndunar- og verðbólgumál. Það væri nú mjög æskilegt að fá alveg sérstaklega að vita afstöðu Framsfl. til þessa frv., sem hér liggur fyrir, og hvort Framsfl. fyrir sitt leyti vill vinna að því að hverfa burt frá þessu gjaldþrotaskipulagi hinnar svokölluðu frjálsu verðmyndunar og taka upp með einum eða öðrum hætti það fyrirkomulag, að almenningur geti haft úrslitaáhrif á verðlagsmyndunina í landinu með beinum afskiptum af hálfu þess opinbera.

Hæstv. fjmrh. hefur hvað eftir annað sagt, að hann vilji vinna að því að lækka verðlagið, og hann hefur talað mjög borginmannlega í garð verkalýðssamtakanna í sambandi við það. Nú þætti mér gaman að heyra, hvort hæstv. fjmrh. vill samþ. þetta frv., hvort Framsfl. vill samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir, hvort hann vill máske líka vinna að því að lækka verðlagið á þeim sviðum, þar sem það hefur orðið hvað tilfinnanlegast. Kannske hann vildi meira að segja lækka húsaleiguna niður í það, sem hún er í vísitölunni? Húsaleigan er í vísitölunni sem stendur 400 kr. á mánuði og þá gengið út frá 4–5 manna fjölskyldu, fjölskyldu, sem þarf a.m.k. alltaf sín þrjú herbergi. Í vísitölunni er reiknað með, að það eigi að kosta 400 kr. á mánuði. Máske hæstv. fjmrh. vildi gera einhverjar tillögur til þess að geta lækkað húsaleiguna hér? Það er ekki farið að gefa okkur neina skýrslu enn þá um hina miklu húsnæðislöggjöf ríkisstj., sem á síðasta Alþ. var tilkynnt að ætti að marka tímamót í þeim efnum, né um hennar framkvæmd. Það er hins vegar frekar lítið farið að bóla á þeim tímamótum og þeirri breytingu, sem þá var lofað. Ég er hræddur um, að frjálsa verðmyndunin, frjálsu viðskiptin og allt frelsi ætli að reynast heldur lélega á þeim sviðum.

Hæstv. fjmrh. sagði hér í umr. um fjárl. í gær, að nú væri búið að taka af verkamönnum alla þá kauphækkun, sem þeir hefðu fengið í vor, það væri búið að taka hana alla saman af þeim. Ég er nú ekki sammála hæstv. fjmrh. um þetta. Þó að ég vilji ekki gera lítið úr þeim hækkunum, sem orðið hafa á verðlagi, hafa þær ekki megnað enn sem komið er að ræna verkamenn öllu því, sem þeir áunnu sér í vor.

Við skulum nú hins vegar segja, að fjmrh. segði satt, við skulum hins vegar setja dæmið þannig upp, að hæstv. fjmrh. segði satt, að það væri búið að taka af verkamönnum allt, sem þeir höfðu áunnið sér í vor. Hvað leiðir þar af? Það leiðir eðlilega þar af, að það er komið sama ástand í hugum verkamanna og var fyrir verkfallið, og hv. þm. vita ósköp vel, hvaða ástand það var. Þá var það ástand i þeirra hugum, að það yrði að hækka kaupið, en það voru vissir menn, sem sögðu, að það væri miklu betra að lækka verðlagið. M.ö.o.: Ef hæstv. fjmrh. hefur haft rétt að mæla, að það væri búið að taka af verkamönnum allt, sem þeir höfðu áunnið sér í vor, þá væri nú komið aftur að því ástandi, að annaðhvort yrðu verkamenn aftur að hækka kaupið og leggja þá út í stórkostlega deilu eða þeir, sem hafa vald yfir verðlaginu i landinu, yrðu að gera svo vel að sýna, að þeir lækkuðu verðlagið. Ég vil minna menn á, svo að ég fari nú að áminna menn um að halda sér við lög, að verkamönnum er í vinnulöggjöfinni bannað að gera verkföll til annars en að hækka kaup. Ég vil mínna hv. þm. á það og hæstv. ríkisstj.

Það má vel vera, að fyrir áeggjanir ríkisstj. og meiri hluta þings fari verkamenn að fara út í það að gera verkföll til þess að fyrirskipa, hvernig lög skuli vera eða kannske hvers konar ríkisstj. skuli vera og hvernig skuli fara með framkvæmdavaldið, en það er bannað í vinnulöggjöfinni og tekið greinilega fram, að þetta megi ekki. Það að ætla að knýja Alþingi til þess að setja löggjöf um að lækka verðlag, ef Alþingi fyrir fram væri ekki á þeirri skoðun, varðar við lög eftir vinnulöggjöfinni.

Það, sem var gert 1952, var raunverulega allt saman lögbrot út frá vinnulöggjöfinni; það vita menn ósköp vel. Hins vegar er það alveg rétt, að þegar farið er að gera það hvað eftir annað, þegar verkamenn hafa knúið fram kauphækkanir eftir þessum einu leiðum, sem þeim er leyfilegt samkvæmt vinnulöggjöfinni, og þeir sjá þetta tekið af sér, þá er eðlilegt, ekki sízt ef ríkisstj. og meiri hluti Alþingis hvað eftir annað eggjar þá til þess, að þeir fari að taka upp á því að fara að setja lög með verkföllum. En það er engan veginn heppilegt. Hæstv. fjmrh. sagði hér í umr. í gær t.d., að atvinnuleysistryggingar væru alveg ágætt fyrirkomulag. Þetta er fyrsta orðið, sem hæstv. fjmrh. segir um atvinnuleysistryggingar hér á þinginu. Þær hafa legið fyrir til umræðu í áratug, og hann hefur aldrei tekið til máls um þær. Nú þegar búið er að standa verkfall í sex vikur, sem endar m.a. með því, að atvinnuleysistryggingar eru settar í gegn, þá er þetta orðið ágætt. Það var bara hægt að gera þetta áður en verkfallið varð.

Ef hæstv. fjmrh. hefði haft rétt að mæla um það, að fyrir tilstilli ríkisstj. og hennar bandamanna í þjóðfélaginu væri búið að taka af verkamönnum allt, sem þeir áunnu sér í vor, lægi nú fyrir eitt af tvennu, annaðhvort, að verkamenn hefji nýja kauphækkunarbaráttu eða að Alþingi sýni sig í því að lækka verðlagið. Nú hefur Framsóknarflokkurinn sitt tækifæri, ef hann meinar eitthvað með þessu, og nú gætir hæstv. fjmrh. þess mjög vei að vera hvergi nærri, þegar þetta frv. er rætt, og trúað gæti ég, ef að vanda lætur, að þetta frv. færi til fjhn., ég veit ekki, hvort er búið að kjósa formann í fjhn., en ef hann verður eitthvað svipað og undanfarin ár, gæti ég trúað, að fjhn. lægi nokkuð fast á og sæi um, að engu yrði ungað út, og svo yrði líklega skammazt á eftir, ef það yrðu ný verkföll, og sagt, að það sé ósköp ljótt að vilja ekki fara verðlækkunarleiðina, sem sé, það kemur að því, að menn fari að þreytast á svona skollaleik.

Hins vegar vil ég taka fram út af ummælum, sem hvað eftir annað hafa komið fram viðvíkjandi kauphækkunum og að þær leiði til verðlagshækkana, að það út af fyrir sig er bábilja. Það er hægt að framkvæma kauphækkanir án þess, að það leiði til verðlagshækkana. Það er hægt, svo framarlega sem kauphækkanir eru látnar ganga út yfir þann gróða, sem auðmannastéttin sem heild hefur af vinnuaflinu. Sá gróði skiptist í marga staði. Hluti af honum fer til atvinnurekendanna, hluti af honum fer til bankanna, hluti til skipafélaganna, hluti til ýmissa slíkra aðila, sem skipta á milli sín þeim gróða, sem skapast í þjóðfélaginu.

Það er engin almenn ástæða til þess, þó að verkamenn hækki kaup sitt í þjóðfélagi, þar sem gróðamyndun á annað borð á sér stað, að það leiði til verðlagshækkana. En það þýðir, ef kauphækkun fer fram, án þess að það leiði til verðlagshækkunar, að þá minnkar það gróða auðmannastéttarinnar, og gerir hún það upp sín á milli innbyrðis, hvernig sú gróðaminnkun skiptist, hvort t.d. vextirnir að einhverju leyti eru lækkaðir, hvort skipafarmgjöld að einhverju leyti eru lækkuð eða hvort beinlínis gróðamyndun sjálfrar atvinnurekendastéttarinnar verði minni. Út af fyrir sig er ekki nein bein ástæða til þess í þjóðfélagi, þar sem gróðamyndun á sér stað, að kauphækkun verkamanna leiði til verðlagslækkana. Hins vegar ef þeir menn hafa völdin í þjóðfélaginu, sem hafa hag af því að hækka verðlagið, skilur maður þetta. Og það, sem hér hefur gerzt undanfarið, er einfaldlega það, að sú auðmannaklíka, sem ræður þjóðfélaginu, hefur haft þann hátt á í fyrsta lagi að einoka að miklu leyti til sín lánin út úr bönkunum, síðan að festa það fé, sem þeir fá að láni hjá bönkunum, í fyrirtækjum, sem að hennar áliti gefa góðan arð, síðan, jafnóðum og verkamenn að einhverju leyti bæta sinn hag, á að nota það m.a. sem átyllu til þess að hækka allt verðlag, og jafnvel þótt engar kauphækkanir fari fram, á að hækka verðlagið samt, fella þannig raunverulegt gildi peninganna í landinu, láta lánin, sem þeir hafa fengið hjá bönkunum, rýrna að verðgildi, en láta eignirnar, sem þeir hafa sett peningana í, vaxa að verðgildi, féfletta þannig smátt og smátt þjóðfélagið meira og meira. Þetta er sá skollaleikur, sem auðmannastéttin hefur verið að leika hér á undanförnum árum. Þess vegna hefur hagur þessara sérréttindastétta verið sá að láta verðlag alltaf hækka. Og það heldur auðsjáanlega áfram.

Það er engum efa bundið, að það, sem gerðist í sumar með þessar almennu verðhækkanir þá, sem olíuhringarnir, eins og hv. 1. landsk. gat um, byrjuðu á, var beinlínis eins og það væri komið beint úr herbúðum ríkisstj. skipun um það: Hækkið nú verðlagið, til þess að það sjáist, að verkamenn græða ekki á því að hækka kaup. — Og nú þegar er svo farið að tala um og boðað í aðalblaði ríkisstj., Morgunblaðinu, hvað eftir annað, að að öllum líkindum verði gengið að falla á eftir, og við vitum, hverjir hafa hagsmuni af því. M.ö.o.: Sú auðmannastétt, sem valdið hefur í þjóðfélaginu, notar sér sína aðstöðu til þess að græða á því að minnka í sífellu verðgildi krónunnar, sú sama auðmannastétt, sem hefur getað sölsað undir sig fyrst og fremst lánin úr bönkunum. Ég held þess vegna, að spurningin um, hvað gera skuli í þessum málum, verði spurningin um þau pólitísku völd í landinu. Það verður spurningin um það, hvort þessi auðmannastétt á að halda þessum tökum áfram á ríkisvaldinu og geta notað það á þennan hátt. Við skulum alveg einfaldlega haga spurningunni þannig. Þetta einokunarvald, sem hefur frelsi á þeim sviðum, þar sem það er samfara þess hagsmunum, og einokun á þeim sviðum, þar sem það er samfara þess hagsmunum, verður að tapa ríkisvaldinu út úr sínum höndum.

Hv. 1. landsk. sagði hér um þetta mál, að það væri prófsteinn á það, hvort meiri hluti Alþ. vildi nú standa á móti verðlagsbröskurunum m.a. Ég held, að afstaðan til þessa frv. og þar með afstaðan til þeirrar stefnu, sem ríkt hefur í þessum málum undanfarin ár, verði fyrst og fremst prófsteinn á Framsfl. Það er vitað, að innsti hringur Sjálfstfl. vill þá stefnu, sem ég var að lýsa hér áðan og hv. 1. landsk. var að lýsa líka. Spurningin, sem liggur fyrir, er þess vegna um það, hvort Framsfl. vill samstarf um mál eins og þetta, um stefnu eins og felst í þessu máli, eða hvort hann vill það ekki, hvort Framsfl. og fyrst og fremst hæstv. fjmrh. er reiðubúinn til þess að hætta við að reyna þessa undarlegu og gölluðu framkvæmd á kenningunum um frjálsa verðmyndun, þessa afskræmdu framkvæmd, sem reynd hefur verið í íslenzku þjóðfélagi sérstaklega síðustu fimm árin.

Ég held, að afstaðan til þessa frv. sé líka prófsteinn á það samstarf og þá samstarfsmöguleika, sem hér komu til umræðu í gær í sambandi við umr. um fjárlögin, um samstarf milli Framsfl. og Alþfl. Framsfl. fær tilefnið til þess að sýna það í sambandi við þetta frv., hvað hann vill í þessum efnum. Sósfl. er fyrir sitt leyti reiðubúinn til þess að fylgja þessu frv. Ég sé á frv. eða brtt., sem Þjóðvfl. hefur lagt fyrir í sambandi við annað mál, að hann er þar með till., sem ganga raunverulega enn lengra en þessar viðvíkjandi verðlagsákvörðunum, þannig að ég efast ekki um, að hann sé reiðubúinn til samstarfs um þessi mál. Það liggur þess vegna fyrir sem staðreynd, að milli Alþfl., Sósfl. og Þjóðvfl. er möguleiki til samstarfs um að breyta frá þeirri stefnu, sem ríkt hefur undanfarið, og taka upp þá stefnu, sem þetta frv. er auðsjáanlega einn liður í. Og það hefur komið fram frá Framsfl. till., sem bendir til þess, að hann, Framsfl., eða a.m.k. ákveðnir menn i honum séu reiðubúnir til samstarfs um róttækar till. í verðlagsmálunum.

Á þinginu 1948–49 flutti Hermann Jónasson o.fl. frv. til laga um verðlagseftirlit og verðlagsdóm, mjög róttækt og harðvítugt frv. í garð allra þeirra, sem hv. 1. landsk. mundi kalla verðlagsbraskara. Þar lagði sjálfur formaður Framsfl. til, að verðlagsnefndin, sem um leið réði verðlagsstjóra, væri skipuð þannig, að bæði Alþýðusamband Íslands, Stéttarsamband bænda, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Kvenfélagasamband Íslands ættu þar hvert sinn fulltrúa. Og það voru einnig mjög ströng fyrirmæli viðvíkjandi verðlagsdómi. Þetta frv. komst þá nokkuð áleiðis. Þetta var rétt fyrir kosningar. Eftir kosningar voru nokkur atriði úr þessu frv. tekin upp, en þó allmiklu mildara allt í garð verðlagsbraskara eftir kosningar, og nokkru síðar var svo að miklu leyti afnumið eða úr lagi fært það, sem eftir var af því. Hins vegar var greinilegt hjá formanni Framsfl., að hugur fylgdi máli í þessum efnum. M.ö.o.: Vinstri hlutinn í Framsókn virtist ákveðinn í að vilja samvinnu um þessi mál. Ég býst við, að hægri höndin hafi vitað, hvað sú vinstri gerði fyrir kosningar, þó að sú hægri hafi ráðið gerðunum eftir kosningarnar. En ég gæti trúað, að eftir reynsluna af hægri stefnunni þessi síðustu fimm ár ættu vinstri framsóknarmenn að vera reiðubúnir til þess að taka upp samstarf um þessi mál. Það er þess vegna mjög leitt, að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera við þessar umr. og geta nú sagt sína skoðun á þessu og rætt hér við okkur þm. um reynsluna af þeirri pólitík, sem hann alveg sérstaklega stendur ábyrgur fyrir.

Höfuðatriðið i sambandi við öll þessi mál verður sjálft valdaspursmálið, það verður það, hvernig ríkisstj. er skipuð og hvaða pólitík hún framkvæmir. Það, sem hefur ráðið því, hvernig farið hefur undanfarin ár, er það, að það er einokunarvald auðmannastéttarinnar, sem hefur mótað verðmyndunarpólitíkina, látið það vera eða kallað það frjálst, sem samræmist hennar hagsmunum að hafa að einhverju leyti frjálst, látið það vera einokað, sem samsvaraði hagsmunum einokunarstéttarinnar að hafa einokað. Gegn þessu valdi verður alþýðan og þeir, sem telja sig fulltrúa hennar, að taka höndum saman. Það er ekki hægt öðruvísi að breyta um þetta. Um leið er ekki heldur hægt án þess að breyta þannig um að fara að þróa aftur undirstöðuatvinnuvegina íslenzku, að það verði fé til þess að efla þá atvinnuvegi, sem okkar útflutningsframleiðsla, okkar heildarframleiðslulíf byggist á, en þróun þeirra atvinnuvega hefur svo að segja verið stöðvuð að meira eða minna leyti undanfarin 7 ár. Þetta tvennt kemur til með að fara saman, að alþýðustéttirnar skapi samtök með sér til að breyta um stjórnarstefnu, tryggja áhrif almennings á verðmyndunina í landinu og tryggja um leið, að fjármagnið, sem í landinu skapast eða ríkið og þjóðin vill taka að láni, sé fyrst og fremst hagnýtt til þess að efla stórum okkar atvinnuvegi, byggja þannig upp undirstöðuna að öllum þjóðarbúskapnum og skapa þannig á grundvelli slíkrar aukinnar framleiðslu batnandi lífsmöguleika fyrir fólkið.