18.10.1955
Neðri deild: 6. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (1790)

20. mál, verðlag, verðlagseftirlit og verðlagsdómur

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv., sem síðast talaði, notaði aðallega sinn tíma í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, til þess að hefja áróður fyrir vinstri samvinnu. Ég skal ekki við þessar umræður blanda mér í það mál og mun lofa kommúnistum í friði í gegnum Alþýðusambandið að reyna að mynda stjórn með hinum flokkunum, sem vafalaust fá mikla ánægju af slíkri samvinnu.

En áður en ég sný mér að nokkrum atriðum í ræðu hv. frsm., vildi ég gjarnan spyrja þá tvo hv. ræðumenn, sem hér hafa talað um verðlagsokur og okurbraskara: Hvar eru kaupfélögin, hvar koma kaupfélögin inn í þetta mál, meðan verðlagsbraskararnir, sem þeir tala mikið um, eru að sökkva þjóðinni í óbilgjörnum og ástæðulausum verðhækkunum? Hvar eru kaupfélögin til þess að halda verðlaginu í skefjum í landinu? Þessir hv. ræðumenn hafa þó jafnan viðurkennt, að kaupfélögin væru sá aðili í landinu, sem seldi sínar vörur með sanngjörnu verði. Og ég trúi því ekki, að þessir hv. þm. hafi nú allt í einu skipt um skoðun í þessu efni. Hér getur ekki verið nema um tvennt að ræða, annaðhvort hafa kaupfélögin brugðizt algerlega skyldu sinni í þessum efnum eða hitt, að þau sinni skyldu sinni og selji vörurnar með sanngjörnu verði, eins og þessir tveir hv. þm. hafa alltaf haldið fram að kaupfélögin gerðu. En ef kaupfélögin gera það, sem ég efast ekki um, þá gera kaupmannaverzlanirnar það líka, vegna þess að þær selja sínar vörur með sama verði og kaupfélögin yfirleitt, stundum lægra. Að vísu getur munað hjá báðum aðilum einhverju. En yfirleitt er enginn mismunur á verðlagi hjá þessum tveimur höfuðaðilum í verzluninni. Ef þetta er rétt, þá er talið um vöruokrið, sem þessir hv. þm. hafa haft í frammi, ekki annað en pólitískur áróður, sem styðst við lítil sannindi.

Hv. frsm. gat þess í upphafi ræðu sinnar, að ég hefði átt þátt í því að setja á fullkomið verðlagseftirlit í byrjun stríðsins, eða 1942. Það er rétt, að ég átti þátt í því að setja þá á verðlagseftirlit. Og ég tel, að verðlagseftirlit í ófriði sé nauðsynlegt og eðlilegt. Þess vegna var það verðlagseftirlit, sem var sett á þá, bæði nauðsynlegt og eðlilegt, en það sannar ekki, að verðlagseftirlit sé alltaf nauðsynlegt og eðlilegt, hvernig sem tímarnir breytast.

Ég átti einnig hlut að því, að þessu verðlagseftirliti var létt af, það var afnumið, þegar stríðinu var lokið og aðstæður voru svo breyttar, að verðlagseftirlit að mínu áliti átti ekki lengur heima. Sama skoðun hefur yfirleitt komið fram í flestum löndum, sem settu á hjá sér verðlagseftirlit í stríðinu og hafa numið það burt eftir stríðið, eftir að verzlunin fór að komast í frjálsara horf.

Hv. flm. þessa frv. segja, að þeir hafi oftar en einu sinni borið fram frv. um að hverfa frá stefnu álagningarfrelsisins. Það er alveg rétt, þeir hafa borið þetta fram hvað eftir annað, en það hefur engan hljómgrunn fengið hér í Alþ. Er því ástæða til að spyrja: Hver er þá aðalástæðan fyrir því, að slíkt frv. er borið fram nú eins og það, sem hér liggur fyrir?

Aðalatriðið, sem hér er um að ræða, er það, hvort framboð á vörum sé svo mikið og svo óbundið, að það fullnægi eftirspurninni, svo að frjáls verðlagsgrundvöllur geti myndazt. Þetta er í rauninni aðalatriði málsins. Í grg. taka hv. flm. fram, að það sé nauðsynlegt að setja þetta verðlagseftirlit á vegna þess, að svo margar vörur séu á bundnum lista, eða réttara sagt margar vörur, sem eru háðar innflutningsleyfum, af þeim vörum, sem eru fluttar til landsins. Og þeir vilja halda því fram, að þær vörur, sem eru háðar innflutningsleyfum, séu af svo skornum skammti, að nauðsynlegt hljóti að vera að hafa með þeim verðlagseftirlit. Nú hafa þessir hv. þm. sýnilega ekkert rannsakað þetta mál. Þeir hafa ekkert rannsakað, hversu mikið er til af þeim vörum, sem eru enn þá háðar innflutningsleyfum og þar af leiðandi eftir þeirra umsögn takmarkaðar.

Þeir segja, að 33% af þeim gjaldeyri, sem var seldur s.l. ár, hafi verið fyrir vörum, sem voru háðar leyfisveitingum. Þetta má rétt vera. Hv. frsm. las upp langan lista, sem sýndi, að mikill hluti af þessum vörum, sem enn þá eru háðar innflutningsleyfum, er einnig háður verðlagsákvæðum. Ég veit ekki, hvort hann hefur gert sér grein fyrir, hvað þetta nemur miklu. Einn stærsti vöruflokkurinn í innflutningnum eru byggingarvörur. Þessar vörur eru svo að segja allar háðar verðlagseftirliti. Skófatnaður, sem er stór liður, er líka háður verðlagseftirliti. Hjólbarðar og slöngur, rafmagnstæki, alls konar vélar er allt saman háð verðlagseftirliti. Ég gæti trúað því samkv. lauslegri áætlun, að hér sé um 150–200 millj. kr. innflutning að ræða, sem er háður verðlagseftirliti. Þessir hv. þm. koma þó hér fram með frv. og segja: Það er nauðsynlegt að setja á verðlagseftirlit vegna þeirra vara, sem eru háðar leyfum. Það þarf að hafa eftirlit með verði þeirra. — En það er og hefur verið gert. Þar að auki er verðlagseftirlit á lið eins og olíum og benzíni, eins og hv. frsm. tók fram. Sá liður er 1953 samkv. innflutningsskýrslum yfir 300 millj. kr.

Vörur, sem eru háðar leyfum, eru m.a. skip, flugvélar, bifreiðar og mótorvélar. Yfirleitt er óþarfi að beita verðlagsákvæðum við innflutning slíkra tækja. Leyfisveitingar 1954 á þessum liðum eru 80 millj. kr.

Þá kem ég að frílistavörunum og bátagjaldeyrisvörunum. Ég fullyrði, að af þeim vörum, sem eru á frílista, sé nú svo mikið úrval og svo miklar birgðir í landinu, að ekki sé um neina þurrð að ræða þar á neinu sviði, svo að fullkomin samkeppni getur komið þar til greina. Með bátalistana er það þannig, að sá markaður er nú svo „mettur“, eins og sakir standa, að ekkert er faríð að selja af þeim gjaldeyri fyrir árið 1955. Hann er allur óseldur, vegna þess að hann hefur ekki selzt örar en þetta. Getur þá hver maður sagt sér, að þær vörur, sem eru fluttar inn á þeim lista, þurfa ekki verðlagsákvæða við, vegna þess að þar er fullkomlega frjáls verðlagsmyndun.

Það er nú ekki nýtt, að hv. þingmenn Alþfl. vilji hafa innflutningshöft og verðlagseftirlit. Þeir hafa alltaf viljað hafa þetta. Það hefur alltaf verið þeirra stefna. En eins og við vitum, var svartamarkaðsbraskið í hámarki, þegar Alþfl. hafði þessi mál með höndum í ríkisstjórninni og hafði yfirstjórn þessara mála. Þá voru allar vörur háðar verðlagseftirliti. En verðlagseftirlitið var þá bara ekki raunhæft, vegna þess að vörurnar fóru á svarta markaðinn og voru seldar bak við borðið vegna vöruþurrðarinnar á miklu hærra verði. Þessu var ekki hægt að breyta með verðlagsákvæðum, enda sýndi það sig, að verðlagsákvæðin voru oft og tíðum svo bjálfalega ákveðin, að þau buðu svarta markaðnum heim. Ég fullyrði, að í fjöldamörgum greinum hafa neytendur í landinu aldrei þurft að þola eins óhagstæð viðskipti og þá. Slíkt fylgir þeim ráðstöfunum. Svartur markaður fylgir höftum og alls konar ófrelsi. Það er niðurlægjandi ástand, hvenær sem þetta gerir vart við síg. Það er einnig niðurlægjandi ástand, sem hv. frsm. gat líka um, en það er vörusmygl, sem nú á sér stað hér í landi. Það er alveg rétt fram tekið hjá honum, að enginn vafi er á því, að vörusmygl á sér stað í stórum stíl hér. Og það sem verra er, þessar vörur eru seldar í verzlunum um allt land, jafnvel þó að almenningur viti, að um smyglvörur er að ræða, sem hvorki hefur verið greiddur af tollur né bátagjaldeyrir.

Áð sjálfsögðu kemur engum til hugar nema hv. frsm., að verðlagseftirlit geti komið í veg fyrir smygl. Ég held, að engin þjóð í heiminum hafi látið sér koma til hugar, að hún gæti hindrað smygl með verðlagseftirliti. Smygl á sér stað viða í heiminum á ýmsum vörutegundum og hefur til þessa verið næsta óþekkt fyrirbrigði hér á landi. En nú síðustu tvö árin a.m.k. hefur borið svo mikið á því, að það hefur verið alveg óverjandi, hversu tollyfirvöldin hafa lokað augunum fyrir þessum ólöglega innflutningi.

Hv. frsm. gat um hækkunina, sem hefur orðið á verðlagi í landinu, og vildi halda því fram, að bæði í iðnaði og verzlun hafi verðhækkunin af völdum verzlunarstéttarinnar og iðnrekenda verið meiri en ástæða var til. Þegar rætt er um þetta mál og þessar stéttir ásakaðar fyrir að notfæra sér óeðlilega kauphækkunina síðustu, þá er venjulega ekki skýrt frá um leið, hver hin raunverulega kauphækkun hafi verið mikil, sem þessar stéttir hafa orðið að þola. Það er verið að tala um 12–13% hækkun, sem síðasta verkfall hafi valdið. En það er alls ekki aðalatriðið, sem hér er um að ræða.

Í iðnaðinum hafa tvær verðhækkanir átt sér stað á skömmum tíma. Það var umsamin verðhækkun á vinnulaunum fyrir áramótin síðustu, í nóvember, sem gekk í gildi 1. desember. Sú verðhækkun var um 10% á allri vinnu í iðnaðinum. Verkfallið í marz og apríl olli síðan vinnulaunahækkun í iðnaðinum, sem nam 10–11%. Á þessum skamma tíma hefur því iðnaðurinn orðið að taka kauphækkun í sínum rekstri.

En það er fróðlegt að athuga um leið, að frá því 1949 og þangað til í nóv. 1954 varð engin grunnkaupshækkun. En það eru ekki einungis kauphækkanirnar í iðnaðinum sjálfum, sem iðnaðurinn þarf að standa undir, hann þarf að standa undir alls konar hækkunum, sem fljóta í kjölfar almennrar kauphækkunar. Það er t.d. flutningur, viðgerðir og viðhald, sölukostnaður, skrifstofukostnaður og margt fleira. Þegar rætt er um, að það sé ekki sanngjarnt að leggja á verðlagið meira en þau 12–13%, sem verkfallið síðasta olli, þá er það algerlega rangt, það er blekking og annað ekki.

Ef við komum svo að verzluninni, þá gat hv. frsm. þess, að verzlunin hefði nú sagt upp því samkomulagi, sem gert var 1952 um álagningu á vissum vörutegundum, m.a. á matvörum, kaffi og nokkrum vefnaðarvörutegundum.

Þetta samkomulag var gert með því fororði, að engar kauphækkanir yrðu á því tímabili, sem álagning gilti, þessi álagning var frá 4 til 6% á matvörur, kaffi og sykur. Ég fullyrði, að hvergi nokkurs staðar í heiminum eru þessar vörur í heildsölu seldar með svo lágri álagningu. Á þær vefnaðarvörutegundir, sem um er að ræða, var álagningin 10%. Nú er spurningin: Hvað hefur kauphækkunin orðið í verzluninni? Síðasta kauphækkun, sem kom eftir verkfallið, er talin vera 10—15%, en sú kauphækkun, sem hefur orðið frá því að áðurnefndur samningur var gerður í verkfallinu 1952, eða frá 1952 til 1955, er talin 30%. Hún er talin 30%, kauphækkunin í verzluninni, svo að það er alls ekki rétt að vera að halda því fram, að verzlunin hafi orðið að þola aðeins 10–15% kauphækkun.

Hv. frsm. sagði, að sér hefði gengið illa að fá upplýsingar um, hver álagningin væri nú á kornvörum og kaffi, sem samningurinn gilti um. Ég held, að þetta sé ekkert leyndarmál. Eftir því sem ég veit bezt, var álagningin áður 4–6% eftir vörutegundum. Nú mun hún vera frá 5 til 7% á matvörunum. Á þeim vörum, sem álagningin var 10%, er hún nú 12–15%. En hvernig sem á þetta er litið, með samanburði á venjulegri álagningu í öðrum löndum, þá telst þetta mjög lág álagning.

Ég vil þá endurtaka það, að ég tel, að það sé enginn grundvöllur eins og sakir standa fyrir því að taka upp verðlagseftirlit, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það er sýnilegt, að þeir menn, sem standa að frv., byggja það á röngum forsendum. Ég efast ekki um, að þeir muni gera það óviljandi, en ekki af ráðnum hug. En það sýnir þá líka, að þeir hafa ekki athugað málið niður í kjölinn, því að ef þeir hefðu gert það, þá mundu þeir komast að því, að það er alls ekki rétt, sem hv. frsm. heldur fram, að frjáls verðlagsmyndun geti ekki þrifizt eins og nú er hér á landi.

Grundvöllurinn undir frjálsa verðlagsmyndun er, eins og ég tók fram í byrjun, framboðið á vörum. Hér eru miklar birgðir og mikið framboð á öllum þeim vörum, sem eru á frílista og á bátalista. Og um þær vörur, sem eru bundnar innflutningsleyfum, er það að segja, að mikill hluti þeirra er háður verðlagsákvæðum.

Hv. frsm. gat þess, að þeir, sem verzluðu heiðarlega og settu heilbrigt verð á vörur sínar, þyrftu ekki að óttast það, sem hann kallaði heilbrigt verðlagseftirlit. En mér er þá spurn: Hvað er heilbrigt verðlagseftirlit í augum hv. frsm.? Hann var einn af þeim, sem á stríðsárunum ákváðu álagninguna á vörunum, og þegar hann fór úr verðlagsráðinu, var svo komið, að hvorki kaupfélög né kaupmenn í landinu treystu sér til þess að halda áfram verzluninni á þeim grundvelli, sem þessi hv. þm. hafði þá lagt sem þátttakandi í verðlagsráðinu og hafði mikil áhrif á sem greindur og framgjarn maður. Ef það er svona verðlagseftirlit, sem hann hefur í huga, þá held ég, að margir muni taka undir þá gömlu setningu, að þeir séu hræddir við sporin, sem öll liggja inn á við.