12.10.1955
Neðri deild: 3. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (18)

12. mál, verðlagsuppbót á laun opinberra starfsmanna

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af þessu frv. leyfa mér að beina þeirri fsp. til hæstv. fjmrh. eða hæstv. ríkisstjórnar, hvaða fréttir hann hafi að segja hv. Alþ. af setningu nýrra launalaga.

Hæstv. fjmrh. gaf þær yfirlýsingar oftar en einu sinni á síðasta Alþingi, að frv. að nýjum launalögum mundi verða lagt fyrir næsta Alþ., að því er manni skildist þegar í upphafi þess. Ég hef haft þær fregnir, að nefnd sú, sem starfað hafi að endurskoðun launalaganna, hafi þegar lokið störfum. Ýmsir þm. munu því hafa vænzt þess, að meðal hinna fyrstu stjfrv., sem lögð yrðu fyrir hið háa Alþingi, yrði einmitt frv. til nýrra launalaga. Það hefur ekki enn verið lagt fram. Ég vil því nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðh., hvað af þessu máli sé að frétta.