21.10.1955
Neðri deild: 8. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (1811)

22. mál, landkynning og ferðamál

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það eru bara örfá orð, sem ég vildi segja út af ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 3. þm. Reykv. (BÓ). Hann sagði í sinni ræðu, og það var raunar aðeins eitt, sem hann lagði mesta áherzlu á, það var það, hve leitt honum þætti, að hér væri ríkiseinokun, eins og hann kallaði það, á þessum störfum. Hann taldi það mikinn blett á okkar lýðfrjálsu þjóð, að þetta skyldi vera svona, og taldi, að Alþfl. mundi hreint ekkert setja niður við það, þó að þetta ástand yrði afnumið, þó að flokkurinn hefði átt í því mestan þátt í upphafi.

Ég man enn þær umr., sem fóru fram um þetta mál 1935, þegar verið var að gera þetta að lögum. Það voru fleiri en við Alþýðuflokksmenn, sem stóðu að því, þó að ég á engan hátt vilji skjóta mér eða mínum flokki undan þeirri ábyrgð, sem því kann að hafa fylgt að hafa verið með að setja þessi lög. Ég tel, að þau hafi komið að því gagni og verið það þörf fyrir okkur, að flokkurinn sé alls ekki ámælisverður fyrir að hafa að þeim málum staðið. En hvað viðvíkur leiðindum við það að hafa ríkiseinokun á þessu, þá sagði nú hv. ræðumaður, hv. 3. þm. Reykv., að erlendir aðilar hefðu að vísu í upphafi ekki verið ánægðir með þetta, en andúðin hefði með tímanum orðið minni og minni, og mér skildist, að hún væri nú orðin harla litil, eftir því sem hann sagði. En hvaða erlendir aðilar voru það, sem voru óánægðir, og hvaða innlendir aðilar eru það, sem hafa verið óánægðir með ferðaskrifstofuna? Það eru bæði utanlands og innan ferðamannaskrifstofur, það eru hinar erlendu ferðaskrifstofur og þeirra innlendu umboðsmenn. Það eru yfirleitt þeir, sem hafa misst spón úr sínum aski við það, að þessi lög voru á sínum tíma sett. Almenningurinn, bæði utanlands og innan, veit ég ekki til að nokkurn tíma hafi undan lögunum kvartað. Ég veit að minnsta kosti ekki til þess.

Hann sagði, hv. þm., að áður en lögin um ferðaskrifstofu hefðu komið í gildi, hefði landið verið auglýst erlendis og enn væru til pésar eða blöð með upplýsingum um landið, sem tækju því langt fram, sem nú hefði verið gert af ferðaskrifstofunni. Ég skal ekkert deila við hann um þetta, en ég veit bara það, að auglýsingar þær, sem ferðaskrifstofan hefur deilt út í tugum þúsunda eintaka, hafa komið. að ákaflega miklu gagni. Hins vegar er mér ókunnugt um, hvað áður hefur verið gert í því, ég skal játa það, og skal þess vegna engan samanburð á því gera, en ég tel ótrúlegt, að það hafi verið álíka mikið eða meira en ferðaskrifstofan hefur gert síðan hún tók til starfa.

Það mætti fara út í ýmislegt fleira. Ég minnist frá umr. 1935 ýmissa atriða, sem fram komu við þær umr., eins og t.d. þess, hvernig hinar erlendu ferðamannaskrifstofur þá tóku gjald af þeim fáu útlendingum, sem til landsins komu, hvað þær hópferðir kostuðu og hvað þær hefðu þurft að kosta, ef á þeim málum hefði verið tekið með meiri sanngirni en þá var gert að áliti þeirra manna, sem um þetta fjölluðu þá.

Ég tel sem sagt, að andúðin gegn ferðaskrifstofunni hafi fyrst og fremst komið frá erlendum ferðamannaskrifstofum og innanlands frá umboðsmönnum þeirra, en að allur almenningur, bæði innanlands og utan, hafi verið ánægður með þá fyrirgreiðslu, sem ferðaskrifstofa ríkisins hefur veitt.

Það er annað að hafa margar ferðaskrifstofur starfandi í stóru landi en hér hjá okkur. Starfsemin hér er ekki komin lengra en það, að ef hún verður bútuð í marga smáa parta, eins og ég sagði áðan, þá er ekki líklegt, að hver einstakur aðili, sem við þessi mál fæst, geti veitt þá fyrirgreiðslu og þá þjónustu, sem nauðsynlegt er að þeir gefi. Ef hér getur risið upp og á eftir að rísa upp fjöldi af ferðaskrifstofum, sem gera það að atvinnu sinni að veita erlendum mönnum fyrirgreiðslu, þá er ákaflega hætt við því, að eitt af tvennu verði að ske, annaðhvort að sú þjónusta, sem þær veita, verði minni og ófullkomnari en hún ætti að vera eða að þær þurfi að taka fyrir hana hærra gjald og því geri hana óvinsælli en vera þyrfti, ef starfsemin væri á einni eða fáum höndum.

Þetta finnst mér vera aðalatriðið í málinu, og þetta er það, sem úr sker, og þetta skilja nú þeir erlendu aðilar, sem viðskipti hafa við okkar skrifstofu.