17.02.1956
Neðri deild: 72. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

24. mál, varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við þm. Sósfl. í þessari hv. d. flytjum þetta frv. um uppsögn hernámssamningsins enn einu sinni. Við höfum flutt það á hverju þingi síðan sá samningur var gerður og leggjum það nú enn einu sinni fram til þess að vita, hvort skoðanir þeirra þm., sem gerðu þennan samning i upphafi kunna nokkuð að hafa breytzt, því að nú er svo komið, að raunverulega eru allar þær forsendur, sem þeir hv. þm. byggðu á, sem þennan samning gerðu, og ekki voru sannar, þegar þær voru gerðar, algerlega farnar. Það er rétt fyrir okkur að rifja það upp, þegar við ræðum jafnt þetta mál, hernámssamninginn, eins og aðra þá samninga, sem á síðustu 10 árum hafa verið gerðir í svipaða átt og hafa verið spor af þessum samningi, að allir þessir samningar og öll þau lög, sem hafa verið samþykkt um þá, hafa verið gerðir og lögin samþykkt undir þeim áhrifum hér á Alþingi, að ýmist hefur verið beitt ósannindum til að blekkja þm. eða ofbeldi til þess að neyða þá.

Árið 1946, þegar Keflavíkursamningurinn var gerður, var því lýst yfir, að það væri ekki þarna um að ræða, að það væri byrjandi herstöð, heldur var því lýst yfir, að nú væri verið að reka ameríska herinn burt af Íslandi. Þessum ósannindum var beitt og um leið hinu, að Bandaríkjastjórn lýsti því yfir, að hún mundi ekki fara með sinn her af landi burt, nema því aðeins að þessi samningur væri gerður. 1949, þegar innganga Íslands í Atlantshafsbandalagið var samþykkt, var því lýst yfir af forsvarsmönnum þeirrar samþykktar, að aldrei mundu verða herstöðvar á Íslandi á friðartímum, og því til stuðnings lagðar fram yfirlýsingar frá hálfu utanríkisráðherra Bandaríkjanna sama efnis. En ekki var Atlantshafssamningurinn fyrr gerður en farið var fram á það, aðeins tveim árum síðar, að Íslendingar leyfðu Norður-Atlantshafsbandalaginu og þá sérstaklega her Bandaríkjastjórnar að setjast hér að og koma hér upp herstöðvum á friðartímum.

Það var alltaf sami skrípaleikurinn, sem leikinn var. Það var alltaf sagt ósatt, bæði við Alþingi og íslenzku þjóðina, þegar verið var að gera þessa hluti. Það, sem verið var að framkvæma, var hernaðaráætlun, sem Bandaríkjastjórn hafði gert gegn Íslandi um að ná herstöðvum á Íslandi til 99 ára. Upphaflega, fyrir 11 árum, fór Bandaríkjastjórn svo klaufalega að, að hún kom upp um þennan tilgang sinn. Þá fór hún fram á það 1. okt. 1945 að fá hér þrjár tilteknar herstöðvar á Íslandi, fá þær raunverulega afhentar sér sem amerískt land til sinna yfirráða í 99 ár. Þá var íslenzka þjóðin nýlega búin að stofna sitt lýðveldi, og þá neitaði hún þessu, Alþingi neitaði því einum rómi, og sú ríkisstj., sem þá sat, neitaði þessu einum rómi og hlaut fylgi allrar þjóðar fyrir. En Bandaríkjastjórn, Bandaríkjauðvaldið hélt áfram að vinna að þessu, og þess vegna tók það upp þá aðferð, sem síðan hefur verið beitt, að reyna að ná því í áföngum, sem því tókst ekki að ná í einu áhlaupi þá, og á þessu 101/2 ári, sem síðan er liðið, hefur því tekizt að komast þetta langt, fyrst að fá Keflavíkursamninginn samþykktan, síðan að véla og kúga Ísland inn í Atlantshafsbandalagið og svo að lokum að knýja fram herstöðvarnar hérna 1951.

Við verðum að muna það, að við Íslendingar eigum fyrst og fremst einn fjandmann og það eru Bandaríki Norður-Ameríku og þeirra auðvald, og þetta er það eina ríki, sem hefur sýnt sig í því gagnvart okkur nú á síðustu 10 árum að reyna að leggja okkar land undir sitt og situr nú með her í þessu landi, sem það hefur knúið hér inn undir fölskum forsendum og ætlar sér að reyna að láta sitja hér áfram. Þetta er þeim mönnum ljóst, sem muna enn þá 10 ár aftur í tímann og tillögur Bandaríkjastjórnar þá. Og nú vil ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til þeirra þm., ef einhverjir eru hér inni, sem samþykktu þennan samning 1951 undir þeim forsendum, sem þeir lýstu yfir þá, — nú vil ég leyfa mér að beina þeirri fsp. til þeirra: Ef þeir sjálfir hafa trúað einhverju af því, sem þeir sögðu þá, hvernig ætla þeir þá að standa við að láta þennan samning nú standa áfram? 1951 lýsti meiri hluti Alþingis, sem samþykkti þennan samning, því yfir, að það væri slík ófriðarhætta í heiminum, að þess vegna yrði Ísland að kalla Bandaríkjaher inn í landið og fela honum að verja landið. Nú vil ég spyrja þessa hv. þm.: Hvar er ófriður í heiminum nú sem stendur? Þeir vitnuðu þá í ófrið í Kóreu. Milli hvaða ríkja í veröldinni er ófriður sem stendur? Ég skora á þessa fulltrúa Norður-Atlantshafsbandalagsins hér að standa upp og nefna mér það. Og ég vil spyrja þá, ef þeir álíta, að það sé ekki það, sem kallast má friður, ríkjandi í heiminum núna, hvaða kringumstæður þurfi til þess, að þessum samningi sé sagt upp, ef þeir meintu það, sem þeir sögðu 1951, að honum væri komið á vegna þess, að það væri ófriður á milli vissra ríkja í heiminum.

Í hálfa aðra öld hefur gengið á sífelldum styrjöldum í heiminum. Það er óvenju friðsamlegt í veröldinni núna, að það skuli ekki vera stríð einhvers staðar úti í álfum á milli einhverra tveggja ríkja. Hvenær ætla þessir menn, sem samþykktu þennan samning, að kalla herinn burt af Íslandi, ef þeir treysta sér ekki til þess nú? Ég held, að það sé bezt fyrir þessa þm., sem standa á móti því að samþykkja þetta mál, að koma fram fyrir þjóðina með yfirlýsinguna um það, að þeir hafi verið með því 1945 að veita Bandaríkjunum herstöðvar til 99 ára og þeir séu með því enn. Ef þeir treysta sér ekki til þess að samþykkja þetta frv. nú, þá munu þeir ekki treysta sér til þess næstu öld, og ég skora á þá, ef þeir hafa einhverja manndáð í sér, að koma hér upp og verja sína afstöðu. Þeir sviku þennan samning yfir þjóðina utan þingsalanna. Þeir kúskuðu hann í gegn hér á Alþingi, eftir að þeir höfðu gert hann, án þess að þora að verja hann. Nú eiga þeir um tvo kosti að velja: annaðhvort að segja nú þessum samningi upp, vegna þess að friðsamlega horfi í veröldinni, eða þá að þeir lýsi því yfir, að þeir hafi alltaf ætlazt til þess, að Bandaríkjaher kæmi til þessa lands, yrði hér jafnt á friðartímum sem ófriðartímum og fengi hér sínar herstöðvar til 99 ára. Hitt skal ég viðurkenna, að það er barizt í heiminum með vopnum á nokkrum stöðum. En á hvaða stöðum er það? Það er barizt í Malajalöndum. Og hverjir eru það, sem berjast þar? Það er innfædd alþýða landsins, sem berst við her brezku nýlendukúgaranna, sömu mannanna sem eru að reyna að kúga Ísland og hafa áður tekið Ísland herskildi. Það er barizt í Kenya, þar sem svartir bændur, sem hafa verið rændir sínum jörðum, eru að berjast við her brezkra níðinga, sem hefur verið sendur inn á þá til þess að drepa niður þá bændur, sem eru að reyna að verja sínar jarðir, til þess að setja þjóðina hundruðum þúsunda saman í fangabúðir og meðhöndla hana svipað og Hitler gerði á sínum tíma með þjóðir Evrópu. Og það er barizt í Norður-Afríku í Marokkó og Algier, þar sem þær þjóðir, sem þau lönd eiga, berjast fyrir sínu frelsi á móti Frökkum, sem hafa rænt þeirra landi. M.ö.o.: Það er á þrem stöðum háð barátta. Og við hvaða ríki er sú barátta háð? Sú barátta er háð við ríkin England, Frakkland, m.ö.o. tvö ríki Atlantshafsbandalagsins. Á einu stöðunum, þar sem barizt er innan ríkja í heiminum núna, er barizt við heri Norður-Atlantshafsbandalagsins, heri Frakklands og Englands, sem eru að halda niðri þjóðum, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi, þjóðum, sem við Íslendingar höfum samúð með og við óskum að megi losa sig við þá ræningja, sem eru í þeirra löndum og hafa setið þar síðustu áratugina, eins og við höfum sjálfir losnað við þá ræningja, sem sátu hér öldum saman, og munum losna við þá ræningja, sem sitja hér nú.

Það er þess vegna vert fyrir okkur að muna það, að einu ríkin, sem beita þjóðir heimsins ofbeldi í dag, þannig að þær verða að verja sig með vopnum, eru bandamenn Íslands, Englendingar og Frakkar. Það eru herir Norður-Atlantshafsbandalagsins, sem þarna eru notaðir á móti þjóðum, sem eru að berjast fyrir sínu frelsi. Þess vegna held ég það sé nauðsynlegt, að þeir, sem gerðu þennan samning 1951, að óþörfu þá og undir ósönnum forsendum, segi til þess nú, hvort þeir hafi látið blekkjast til þess þá og verið í góðri trú eða hvort þeir hafi gert það vitandi vits að svíkja þennan samning yfir þjóðina og ætli sér að halda áfram að láta þennan samning vera í gildi, þó að allar forsendur, sem þeir sjálfir höfðu í sínum huga fyrir honum, séu fallnar.

Þetta er hvað snertir sjálf tildrög þessa samnings og hvernig honum var komið á. Um hitt ætla ég ekki að fjölyrða. Það höfum við tekið fyrir hér undir svo mörgum kringumstæðum, að ég ætla aðeins að minna á það. Áhrif herstöðvanna á Íslandi þessi tæp sex ár, sem herstöðvarnar hafa nú verið hér, hafa sýnt okkur til fullnustu, hvernig mundi verða umhorfs hér, ef þeir stjórnmálaflokkar, sem að þessum samningi standa, halda áfram að halda þessum samningi við næstu öld, eins og þeim virðist ríkast í huga. Við sjáum spillinguna, sem þessar herstöðvar valda íslenzku þjóðlífi, og það er bezt, að þeir menn, sem tala hér hæst annars um hættuna, sem okkar þjóðerni stafar af öllum mögulegum útlendum áhrifum, geri sér það ljóst, að mesta hættan stafar af þessum herstöðvum og öllu því, sem stendur í sambandi við þær. Við skulum í öðru lagi gera okkur ljóst og muna það, að sú efnahagslega ringulreið, sem á sér stað hér á landi núna og vissir stjórnmálaflokkar öðru hverju kvarta yfir, á ekki sízt rætur sínar að rekja til herstöðvanna og þeirra áhrifa, sem þær hafa út um allt.

Ég vil benda þeim mönnum á, sem tala um og hafa einhvern áhuga á því, að við þurfum að byggja upp okkar atvinnuvegi, hvernig horfi um slíkt, ef látið er haldast áfram eins og nú er, að íslenzkt vinnuafl sé meira og meira raunverulega togað inn í þessar herstöðvar. Ég veit, að það er hægt að lesa upp skýrslur, að það séu færri í ár en voru í fyrra. En hvað verður, þegar kosningar verða búnar, þegar Njarðvíkurhöfn og annað slíkt byrjar, þegar ný alda flæðir yfir landið af kröfum Bandaríkjanna um fleiri stöðvar?

Okkar þjóð var alin upp við heiðarlega og erfiða vinnu, og það hefur mótað alla hennar siðferðiskennd, alla hennar afstöðu og allt hennar mat. Það, sem er að gerast i sambandi við herstöðvarnar og áhrifin frá þeim, er, að siðferðisleg spilling, fyrst og fremst í sambandi við peningamálin, er að síast inn í þjóðfélagið. Öllu því, sem við höfum verið stoltastir af fram að þessu, öllu okkar mati á manngildinu er hætta búin. Ég hef áður og við sósíalistar minnt þá þm., sem að þessum samningi stóðu, á ábyrgðina, sem á þeim hvílir, og ég hef nú reynt að rifja nokkuð af því upp og sérstaklega með tilliti til alþjóðlega ástandsins lagt enn einu sinni þá spurningu fyrir þá, hvort þeir þori sjálfir að standa við það, sem þeir lýstu yfir 1951, að það væri aðeins meiningin, að þetta væri á ófriðartímum. Þeir standa frammi fyrir því, þeir flokkar, sem að þessu stóðu, að gera sig ómerka alls þess, sem þeir hafa sagt um þessi mál, ef þeir ekki samþykkja annaðhvort þetta frv. eða þær till., sem fara í sömu átt. Ég veit hins vegar, að það eru sterk öfl, sem halda í þessa menn og þessa flokka. Þeim er ekki sjálfrátt, þeim er stjórnað sem stendur frá Washington í krafti áhrifavalds, sem útlend stjórn hefur fengið á Íslandi, og í krafti valds, sem erlend auðmannastétt hefur náð hér vegna þeirra efnahagslegu tengsla, sem sköpuð hafa verið á undanförnum árum á milli Íslands og Bandaríkjanna. Hins vegar er gefið, að íslenzka þjóðin mun ekki hætta að berjast fyrir því að losa sig undan þessu fargi, og sú barátta á fyrir höndum að eflast. Þeir þm., sem stóðu að þessu máli upphaflega, hafa hins vegar nú tækfæri til þess að gera yfirbót, að sýna, að þeir hafi 1951 aðeins farið villir vegar og verið blekktir, en vilji nú standa við það, sem þeir álitu forsendur þá, standa við það að segja upp þessum hernámssamningi, þegar ekkert stríð er lengur á milli þjóða í heiminum, og það er sjaldgæft á þessari síðustu öld, að svo sé.

Hitt dettur engum manni í hug að taka trúanlegt, enda mundi þá líta nokkuð öðruvísi út um þessi mál, ef það ættu að vera herstöðvar á Íslandi, á meðan menn héldu áfram að vígbúast í heiminum. Vígbúnaður hefur átt sér stað nokkuð margar aldir, og ef á að vitna í, að það eigi sér stað enn þá vígbúnaður hjá ýmsum ríkjum í veröldinni og þess vegna verði að vera herstöðvar á Íslandi, þá játa þessir menn þar með, að þeir ætli sér að hafa herstöðvar á Íslandi að eilífu. Hitt er svo aftur rétt fyrir þá að athuga betur, hvort það sé ekki nær, ef Ísland vilji fara að ræða alþjóðamálin þannig, að taka þá til athugunar þær yfirlýsingar, sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur gefið út nýlega, og það var utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fullvíssaði Ísland um það 1949, að þess mundi ekki verða krafizt af Íslendingum, þegar þeir gengu í Atlantshafsbandalagið, að hér yrðu herstöðvar á friðartímum. Nú lýsir utanríkisráðherra Bandaríkjanna því yfir, að hann hafi þrisvar sinnum á einu ári hótað að beita kjarnorkusprengjum og hleypa þannig heiminum í bál. Og meðan slíkir vitlausir menn ráða ríkjum í því landi, sem stjórnar her hér á Íslandi, fer a.m.k. að vera vissara að hafa ekki neina menn hér á Íslandi, sem heyra undir þeirra lögsögn og hlýða þeirra skipunum, og vísa þeim brjálæðingum burt héðan. Það er bezt, að þeir menn, sem höfðu ábyrgðina á því að kalla bandaríska herinn inn hingað 1951 og ætla sér að halda honum hér áfram nú, geri sér fyllilega grein fyrir, hver þeirra ábyrgð er. Þess vegna höfum við nú gefið þeim kost á með flutningi þessa frv. að segja þessum samningi upp, að segja honum upp afdráttarlaust og ákveðið, og ég vil leyfa mér að vona, a.m.k. er það bezt fyrir þá sjálfa, að þeir átti sig á því í tíma, hvaða villur þeir hafa gert, og taki nú þátt i að leiðrétta þær.

Ég vil svo leyfa mér að óska þess að lokinni þessari umr., að þessu frv. sé vísað til hv. allshn. og 2. umr.

Umr. (atkvgr.) frestað.