14.10.1955
Neðri deild: 5. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í C-deild Alþingistíðinda. (1829)

28. mál, tollskrá o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Þetta frv. fer fram á, að felldir séu niður innflutningstollar af hljóðfærum. Það hefur háð undanfarin ár töluvert tónlist og tónmenningu Íslendinga, hversu háir tollar eru af hljóðfærum, og er full þörf að gera þar endurbót á til þess að örva slíkan innflutning.

Það má benda á, að skólabækur og aðrar bækur, sem inn eru fluttar, eru tollfrjálsar. og í rauninni ætti það sama að gilda um hljóðfæri.

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, náði þá ekki afgreiðslu, en er nú flutt að nýju af fjórum þdm. Ég vænti þess, að frv. fái góðar undirtektir á Alþ. Hér er um mikilsvert menningarmál að ræða, frv., sem snertir tónmenningu þjóðarinnar, og vil ég leggja til, að því sé vísað til 2. umr. og menntmn.