16.12.1955
Efri deild: 31. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

86. mál, laun starfsmanna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég er að byrja að verða syfjaður og líka farið að langa í kaffi, sem hæstv. forseti hefur heitið deildarmönnum, og mun ég því mjög stytta mál mitt.

Hv. þm. Barð. minntist í ræðu sinni á matið á húsnæði og öðrum hlunnindum, sem sumir starfsmenn ríkisins hefðu, en aðrir ekki, og spurði í því sambandi, hvort ég teldi sanngjarnt, að gott húsnæði með ljósi og hita væri metið á 150 kr. á mánuði. Ég tel það hreina fjarstæðu, ef svo er gert. Ég skal alveg viðurkenna það. Í lögunum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, sem ég áðan vitnaði í, stendur, að þess konar fríðindi eigi að meta af yfirskattanefndum hvers héraðs. Og ef yfirskattanefndir í raun og veru meta húsnæði svo, þá gera þær ekki sína skyldu. Ég sé ekki, að það eigi að taka tillit til þess í þessum lögum, þótt svo kunni að vera, að einstaka yfirskattanefndir hlífi mönnum meira en rétt er. Það á þess í stað að áminna skattanefndirnar um að meta þetta rétt og í samræmi við það, hver húsaleiga er almennt á þeim stað, þar sem um slíkt er að ræða.

Hv. þm. Barð. tók það réttilega fram, að starfsmenn margir eru ákaflega óánægðir út af þessu frv. En hvernig getur staðið á þeirri óánægju? Enginn er lækkaður. Allir fá hækkun. Jafnvel þeir, sem eru í sama launaflokki og þeir áður voru, fá milli 9 og 10% hækkun. Það er enginn óánægður yfir því, að kjör hans hafi verið skert. Óánægjan er eingöngu út af því, ef einhver annar hefur fengið meira. Það sem sagt virðist vera sú gamla fylgikona mannanna, öfundin, sem hér kemur til greina.

Hv. þm. minntist líka á kennarana. Hann minnist nú stundum á þá og virðist ekki meta hátt þeirra vinnu, segir, að kennarar við menntaskóla vinni sem svari 121 degi á ári með 8 stunda vinnu. Ég veit það af fyrri viðræðum við þennan hv. þm., að starf kennara metur hann í kennslustundafjölda, en þegar um kennara er að ræða, er það algerlega rangt. Hver kennari, sem gerir skyldu sína og kennir vel, hlýtur að verja miklum tíma utan kennslustundanna til þess að búa sig undir kennslustundirnar. Og kennsla er í mörgum tilfellum erfitt verk, þó að hver maður sé ódrepinn af því að vinna t. d. útivinnu í 8 stundir. Ég vandist því frá unglingsárum og hátt á fimmtugsaldur að vinna á sumrin í 12 stundir við heyskap, og mér fannst það ekkert gera mér til, en ég var líka kennari um tíma, og ég var oft orðinn þreyttur eftir 6 stunda kennslu, engu síður þreyttur en eftir 12 tíma vinnu við heyskap.

Að meta ýmiss konar aukafríðindi, sem starfsmenn hafi, á 15% almennt af launum starfsmanna ríkisins, hugsa ég að sé alger fjarstæða, því að vitanlega er fjöldi starfsmanna hjá ríkinu, sem engin slík fríðindi hefur.

Ég kannaðist við það, að kannske hefði verið heppilegra, að í launanefndinni, sem undirbjó málið, hefðu verið fulltrúar einnig frá atvinnuvegunum, en benti á það hins vegar, að ekki hefðu launin lækkað við það, að fulltrúar atvinnuveganna, alþingismenn, við, sem vorum í fjhn., og hv. þm. neðri deildar, hefðu fjallað um málið. Í meðförum þingsins hækkuðu launin, eins og menn vita. Það hafa orðið miklar tilfærslur á milli flokka, þó að flokkarnir væru ekki hækkaðir.

Hv. þm. sagði í sambandi við þetta, að ekkert hefði verið hægt að gera í n., því að allt hefði verið bundið fyrir fram. Ég kannast ekki við þetta. A. m. k. leyfði hv. þm. A-Húnv. (JPálm) sér að bera fram brtt. í Nd. um að lækka allan launastigann. Það hefði hver okkar getað gert. (Gripið fram í.) Hún var felld, án efa vegna þess, að þm. hafa haft þá skoðun, að sú fiil. ætti ekki rétt á sér.

Hv. þm. sagði, að ég hefði haldið fram röngum tölum. Þetta er ekki rétt. Ég hélt engum tölum fram. Ég einfaldlega sagði, að mþn. í launamálum hefði áætlað kostnaðinn af þessari lagabreytingu, sagði rétt frá því, og ég bætti því við, að ég tryði þessum mönnum betur en hv. þm. Barð. í þessu efni, ekki sökum þess, að ég sé að væna hv. þm. Barð. um vísvitandi ósannsögli, heldur vegna þess, að t. d. skrifstofustjórinn í fjmrn. og hinn skrifstofustjórinn einnig höfðu miklu betri aðstöðu til þess að gera áætlanir um þetta heldur en hann. Það kann að vera, að þeir hafi eitthvað áætlað þetta of lágt, en ég veit, að þeirra áætlun er nær sanni en áætlun hv. þm. Barð. Að vísu er það rétt, sem hann sagði, að ýmis önnur gjöld hækka auðvitað eitthvað, og má búast við því, að í sumum stofnunum, sem styrktar eru af ríkinu, hækki laun, þar sem þau verða lægri en sambærileg laun ríkisstarfsmanna. En það getur ekki oltið á öllum þeim milljónum, sem hv. þm. gerir ráð fyrir.

Hvað snertir kúgunina, sem hv. þm. talaði um og sagði, að Sjálfstfl. hefði ekki reynt að kúga sig í þessu máli, þá bar ég það aldrei á Sjálfstfl., að hann hefði reynt að kúga hann. Ég sagði bara, að ekki hefði Sjálfstfl. kúgað hann. Hann hefur sjálfsagt ekki reynt það, og ég veit, að það hefur komið fyrir, að hv. þm. Barð. hefur gengið á móti sínum flokki í ýmsum málum. Ég hef líka gengið á móti mínum flokki í sumum málum, og það hefur ekki verið reynt að beita mig nokkurri kúgun. Ég hygg, að það megi segja þetta um flesta þm., að það komi fyrir, að þeir geti orðið ósammála sínum flokki.

Hv. þm. segir, að sín rök hafi ekki á nokkurn hátt verið hrakin með öðru en fullyrðingum frá þeim, sem gagnrýnt hafa ræður hans. Ja, með hverju hefur hv. þm. hrakið rök okkar hinna? Ég hygg, að það sé ekki með öðru en fullyrðingum.