25.10.1955
Neðri deild: 10. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (1841)

31. mál, jafnvægislánadeild við framkvæmdabanka Íslands

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég get tekið undir þau lokaorð hv. fyrra fim. þessa frv., að mjög æskilegt er og nauðsynlegt, að það Alþ., sem nú situr, samþykki einhverjar sérstakar ráðstafanir í þá átt, sem þetta frv. miðar að. Hitt er annað mál, að ég get ekki alls kostar verið sammála hv. þm. V-Ísf., að þetta frv. út af fyrir sig sé kannske það, sem endilega beri að samþykkja. Þessum málum hefur verið hreyft áður hér á hv. Alþ. Á síðasta þingi lágu fyrir nokkur frv., sem miðuðu í þessa sömu átt, m.a. frv., sem ég flutti hér i hv. Nd. ásamt nokkrum öðrum þm. um ráðstafanir til atvinnujöfnunar og í stórum dráttum var mjög hliðstætt þessu frv., sem hér liggur nú fyrir frá hv. þm. V-Ísf. og hv. þm. A-Sk., þó að þar sé á nokkur munur, sem ég mun lítillega víkja að.

Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þetta frv. er fram komið hér, vegna þess að ég geri ráð fyrir, að það tákni það, að bæði flm. þess og væntanlega einnig flokksmenn þeirra hér muni hafa áhuga á að afgreiða málið frá Alþ. nú, þótt ekki tækist á síðasta þingi að fá samkomulag um afgreiðslu þess frv., sem ég og nokkrir aðrir þm. fluttum og fjallaði um sama efni, eins og ég áðan gat um. En þar sem þetta frv. gengur svo mjög í sömu átt, ætti að mega vænta þess, að auðið yrði að ná samkomulagi um að afgreiða málið frá Alþ. í viðunandi formi.

Ég tel sérstaka ástæðu til þess að fagna því, að þetta frv. kemur nú fram frá þessum hv. þm. Framsfl., vegna þess að ég geri ráð fyrir, að það megi líta svo á, að hæstv. fjmrh. geti þá fyrir sitt leyti fallizt á, að varið sé úr ríkissjóði því fé, sem hér um ræðir. Það er sama upphæð og gert var ráð fyrir í frv. okkar í fyrra, þó að vísu nokkru lengra árabil en þar var talað um, en upphæðin var þar 10 millj. kr. á ári, sem að hálfu leyti væri óafturkræft framlag, en að hinu leytinu lán. Er það vissulega gleðiefni, ef það eru möguleikar til þess að fá nú samþykki fyrir því, að 10 millj. verði til ráðstöfunar árlega í þessu skyni, hvort sem það yrði í formi þessarar deildar eða þess atvinnujöfnunarsjóðs, sem var um rætt í okkar frv. Það skiptir út af fyrir sig ekki meginmáli.

En ég verð að segja það, að ég skil ekki almennilega, hvaða hugsun liggur að baki því að tengja þessa svokölluðu jafnvægislánadeild við Framkvæmdabanka Íslands, vegna þess að það er gert ráð fyrir að setja sérstaka stjórn yfir deildina og hún sé að engu leyti tengd Framkvæmdabankanum að öðru en því, að í 3. gr. er gert ráð fyrir, að Framkvæmdabankinn hafi ásamt ríkisstjórninni forgöngu um útvegun þess lánsfjár, sem þar um ræðir. Ég hygg a.m.k. nokkurn vafa á því, að Framkvæmdabankinn og bankastjórn hans vildi fara að taka á sig sérstaka ábyrgð og samþykki á reikningum þeirra deilda, sem bankinn hefur ekkert yfir að ráða, eins og gert er ráð fyrir í 8. gr. frv., þar sem sagt er, að bankastjóri og bankaráð Framkvæmdabankans eigi að undirrita reikninga þessarar deildar. En þeir hafa samkvæmt frv. ekki neitt með ráðstöfun á lánsfé deildarinnar að gera. Ég held því, að að mörgu leyti væri heppilegra að tengja þetta ekki við sérstaka bankastofnun, heldur hafa þetta sjálfstæðan sjóð, þar sem um er rætt í 4. gr., að lánsfé því, sem þar um ræðir, 100 millj. kr., skuli varið til þess að lána gegn 1. veðrétti í botnvörpuskipum og iðnaðarfyrirtækjum, sem ekki geta fengið lán úr Fiskveiðasjóði Íslands og Ræktunarsjóði Íslands. Það getur verið, að það sé misskilningur hjá mér, en mér skilst, að í þessu felist, að það sé gert ráð fyrir, að þeir aðilar, sem vegna fjárskorts þessara tilteknu sjóða geta ekki fengið þar lán, skuli geta leitað til þessarar jafnvægislánadeildar. Ég er ákaflega hræddur um, ef þetta er hugsunin í gr., að niðurstaðan yrði sú, að Framkvæmdabankinn og þessir sjóðir, sem veita nú lán til fiskiskipa og frystihúsa og annarra framkvæmda, mundu láta sitja á hakanum þessa staði, ef þeir sjá fram á, að þarna er deild, sem á að taka að sér að lána til framkvæmda á þessum tilteknu stöðum, ef fé sjóðanna hrekkur ekki þar til. Þannig verður ekki sýnt af þessu, hversu miklar hagsbætur sérstaklega þeir staðir, sem hafðir eru í huga með þessu frv., njóta af þessu ákvæði. Það er auðvitað alltaf vinningur að því að fá aukið fjármagn til útlána, það er gagn fyrir alla heildina, og við vitum, að það er auðvitað mjög tilfinnanlegur fjárskortur til kaupa á þeim tækjum, sem hér um ræðir, bæði til þeirra staða, þar sem atvinnuleysi er, og raunar um allt land, þannig að ef þessar 100 millj. fengjust, væri það vissulega vinningur að fá þær inn í þessa lánastarfsemi. En þetta er ég hræddur um að geti orðið nokkur fjötur um fót þeim hugmyndum, sem liggja að baki hjá hv. flm., ef það er um of ávísað á það, að þarna sé sjóður til staðar, ef hinir sjóðirnir leysa ekki sitt hlutverk af hendi. Mér finnst vera miklu nær lagi og í rauninni fullkomlega réttlátt að ætlast til þess, að blátt áfram séu þeir staðir látnir sitja fyrir með lánsfé úr fiskveiðasjóði og öðrum stofnlánasjóðum, þar sem skortur er atvinnutækja til þess að halda uppi fullri atvinnu. Það er ekki annað en réttlætiskrafa og skynsamleg krafa, ef ekki á allt að stefna í þá átt, að fólkið þyrpist saman á mjög takmarkað svæði á landinu, eins og hv. frsm. vék að.

Þá er enn fremur annað atriði í þessu, sem gerir að verkum, að það gæti orðið nokkuð erfitt um vik hvað kjör snertir fyrir þessa aðila að taka umrædd lán, því að það segir svo í næstsíðustu málsgrein, að vextir af Alánum skuli vera jafnir almennum útlánsvöxtum i bönkum á hverjum tíma. Lánsvextir fiskveiðasjóðs og enn fremur ræktunarsjóðs eru nú töluvert fyrir neðan hina almennu útlánsvexti banka, vegna þess að þegar talað er um almenna útlánsvexti í banka, er það almennt skilið svo, að þar sé átt við víxilvexti, og þeir eru auðvitað mun hærri en vextir af lánum úr fiskveiðasjóði og öðrum stofnlánasjóðum sjávarútvegs og landbúnaðar eru. Það væru þannig vissulega engin kostakjör að þurfa að taka lán með slíkum vöxtum. Það kann vel að vera, að hv. flm. eigi við einhver önnur vaxtakjör, en það er ekki ljóst af orðalagi greinarinnar annað en að merkingin hljóti að vera sú, að það eigi að vera almennir útlánsvextir, þ.e.a.s. víxilvextir.

Það má kannske segja, að þessar athugasemdir mínar séu ekki höfuðatriði málsins, enda játa ég fúslega, að svo er ekki, þó að það auðvitað skipti miklu máli, ef á að ná ákveðnum tilgangi með tiltekinni lagasetningu, að hún sé þannig úr garði gerð, að það séu líkur til, að þeim tilgangi verði náð. Það mun gefast hér síðar kostur á að ræða annað frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd. um sama efni og þetta og er nokkuð samhljóða því frv., sem ég vék hér að áðan að hefði verið flutt í fyrra, og ég álít fyrir mitt leyti, að bæði sé þar um víðtækari ráðstafanir að ræða, og auk þess er það mín skoðun, að það sé líklegra, að þær leiðir, sem þar er bent á, nái þeim tilgangi, sem bæði við flm. þess frv. og flm. þessa frv. stefna að, því að ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að tilgangur okkar sé nákvæmlega sá sami. En um það má auðvitað endalaust einnig deila, hvaða ráðstafanir séu skynsamlegastar í þessu sambandi. Höfuðatriðið er það, að menn reyni að koma sér niður á einhverja ákveðna lausn í sambandi við þetta mikla vandamál. Það er að vísu svo nú, að það má sennilega segja, að það sé almennt góð atvinna um land allt eða hafi verið a.m.k. á þessu sumri, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að þetta er vandamál, sem alltaf er við að glíma, vegna þess að möguleikarnir til fjáröflunar og til lífsafkomu eru miklu betri hér á Suðvesturlandi en á öðrum stöðum á landinu, þannig að það er vissulega þörf að gefa þessu máli gaum, þótt það sé kannske í bíll ekki svo mjög mikið atvinnuleysi og raunar víða skortur á verkafólki.

Það er nú starfandi nefnd, sem skipuð var eftir till., sem hér var samþykkt á Alþ. fyrir nokkru. Á nefnd þessi að gera áætlun eða tillögur um áætlun í þá átt að skapa og viðhalda jafnvægi í byggð landsins. Þær ráðstafanir hljóta auðvitað að verða miklu víðtækari en um er að ræða í þeim frv., sem hér hafa legið fyrir, enda er þetta, eins og hv. flm. þessa frv. gat um í ræðu sinni, auðvitað ekki nema einn þáttur í því stóra vandamáli. Mönnum kann nú kannske ýmsum að sýnast, að eðlilegt sé, að allt þetta bíði þess tíma, að það liggi ljóst fyrir, hvað út úr þeim athugunum kemur. En ég er flm. þessa frv. sammála um það, að ekki sé auðið að bíða þess tíma með ráðstafanir hliðstæðar þeim, sem þetta frv. og það frv., sem ég minntist á áðan, fjalla um. Það hefur verið viðurkennt af hv. Alþ. með því að verja á ári hverju i fjárlögum ákveðinni upphæð til atvinnuaukningar á ýmsum stöðum á landinu. Þetta fé hefur komið að góðum notum, en vegna þess að þetta er veitt frá ári til árs, en ekki fyrir fram neitt ákveðið skipulag á því, verður þetta alls ekki að því gagni sem skyldi, og ekki er hægt að taka þetta mál jafnkerfisbundið til athugunar og þörf væri á. Það þarf að vera til einhver ákveðin stofnun, sem kynnir sér þessi mál til hlítar, hvernig atvinnuástand er víðs vegar um land, og reynir síðan ekki aðeins að úthluta fé eftir umsóknum hverju sinni, heldur að mynda sér skoðun um það, hvaða ráðstafanir væru skynsamlegastar á hverjum stað til þess að bæta úr atvinnuástandinu þar og skapa varanlega atvinnu. Þetta er vandamál, sem ekki aðeins við Íslendingar höfum við að glíma, heldur margar aðrar þjóðir. Það er straumur af fólki úr sveitum og minni þorpum til kaupstaðanna, og það er atvinnuþróunin, sem að ýmsu leyti hefur valdið þessu og hefur gert eðlilegt, að þessi tilflutningur fólks væri nokkur. En það gefur auga leið, að það er mikil vá fyrir dyrum, ef þessir flutningar verða of miklir, þannig að allur þróttur er dreginn úr byggðarlögunum víðs vegar um land vegna þessara fólksflutninga. Það hefur líka lamandi áhrif á þá, sem eftir eru, þegar nágrannar þeirra flytjast á brott, og dregur úr trú þeirra á það, að þeir geti áfram bjargað sér á viðkomandi stað. Þetta vandamál er því þess eðlis, að þess er mikil þörf, að það verði tekið til vandlegrar íhugunar.

Ég fyrir mitt leyti tel það höfuðnauðsyn, að málið verði efnislega afgreitt héðan frá hinu háa Alþ., og ég legg því ekki út af fyrir sig kapp á það, hvort það verður breytingarlaust afgreitt eitthvert eitt eða annað frv. i því efni, heldur að þeim tilgangi verði náð, sem allir þeir stefna að, sem hafa hreyft þessu máli hér. Ég endurtek það, að ég fagna því, að þetta frv. er fram komið, því að það gefur auknar vonir um, að vaxandi áhugi og skilningur sé á þessum málum og að það megi þess vegna gera sér góðar vonir um, að það náist um það samkomulag hér að koma upp einhvers konar jafnvægislánadeild eða atvinnujöfnunarsjóði, í hvaða formi sem það verður, til þess að gegna því hlutverki, sem hér er gert ráð fyrir. Tel ég sérstaka ástæðu til að gleðjast yfir því, að flokksmenn hæstv. fjmrh. hafa talið, að það væri hægt að fá því til leiðar komið, að ríkissjóður legði nú fram 10 millj. kr. árlega í þessu skyni.