27.10.1955
Neðri deild: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

35. mál, fiskveiðalandhelgi Íslands

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur áður verið flutt tvisvar sinnum á Álþingi og hefur þá verið skýrt í framsögu og með allýtarlegri grg., en sú grg., lítið sem ekki breytt, fylgir frv. einnig nú.

Efni frv. er í fyrsta lagi það, að landgrunni kringum Ísland skuli teljast ná 50 sjómílur út fyrir yztu nes, eyjar og sker í kringum landið, en þar sem 200 metra dýptarlína landgrunnsins nál út fyrir 50 sjómílna línuna, skuli landgrunnið takmarkast af þeirri línu. Ætlunin er, að með þessari grein frv. verði fiskveiðalandhelgi Íslands lögfest og landgrunnið allt látið vera innan fiskveiðalandhelginnar.

Þó að undarlegt kunni að virðast, þá er það þó svo, að nú eru engin lagaákvæði til um fiskveiðalandhelgi Íslands. Ef einhverjir halda, að friðunarákvæðin, sem sett voru með reglugerðinni 19. marz 1952, byggð á lögunum frá 1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, séu lagaákvæði um fiskveiðalandhelgi Íslands, þá er það auðvitað misskilningur. Mér virðist, að það sé ekki við það hlítandi, að ekki séu til í lögum skýr og ákveðin lagafyrirmæli um það, hvernig skuli skilgreina hina íslenzku fiskveiðalandhelgi.

Í 2. gr. frv. eru aftur ákvæði um það, á hvern hátt skuli framkvæma löggæzlu innan fiskveiðalandhelginnar, og þar er sett það lágmarksákvæði, að undir öllum kringumstæðum skuli ekki minna en 12 sjómílna belti utan við núverandi friðunarlinu vera ávallt varið af fiskveiðalandhelginni, þ.e.a.s. 16 sjómílna belti utan við yztu eyjar og sker landsins, og á því svæði sé a.m.k. öllum erlendum fiskiskipum bannað að stunda hvers konar veiðar. Hins vegar er það þó gefið á vald ríkisstj. á hverjum tíma að ákveða frekari aðgerðir um gæzlu fiskveiðalandhelginnar en ákveðið er með þessu lágmarksákvæði. — Þetta er í sem skemmstu máli efni frv.

Það kunna að vera til þeir menn, sem telja, að það sé nokkuð djúpt í ár tekið, að Ísland helgi sér landgrunnið allt sem fiskveiðalandhelgi. En þá er því til að svara, að þetta er nokkurn veginn nákvæmlega sama svæði sem Kristján IV. Danakonungur ákvað að lýsa yfir gagnvart öðrum ríkjum sem fiskveiðalandhelgi Íslands á sínum tíma. Síðan fóru Danakonungar smátt og smátt að láta undan ágengni erlendra þjóða að því er snertir fiskveiðalandhelgi Íslands og komust þá lengst, þegar þeir gerðu samninginn við Breta 1901, en honum höfðum við þó manndóm til þess að segja upp og höfum síðar aðeins gert fyrstu byrjunarráðstöfun til þess að kalla eftir okkar fornhelga og sögulega rétti, sem byggist þó fyrst og fremst á lífsnauðsyn þjóðarinnar, og erum komnir það langt að hafa helgað okkur aftur af 48 mílna svæðinu, sem Kristján Danakonungur IV. taldi Íslendingum vera nauðsyn, fjögurra mílna svæði í kringum landið.

Það er álit íslenzkra vísindamanna, íslenzkra fiskifræðinga, að það séu allar líkur til þess, að með vaxandi fiskveiðatækni veiti Íslendingum ekkert af að helga sér landgrunnið allt til eigin nýtingar, því að það megi búast við því innan stundar, að Íslendingar séu með vaxandi fiskveiðatækni færir um það einir að notfæra sér fiskveiðaauðæfin á þessu svæði, ef ekki eigi að vera ofboðið fiskstofninum með ofveiði. Sérstaklega hefur dr.

Hermann Einarsson haldið þessari kenningu fram, og enginn fiskifræðingur hefur gerzt til þess að vefengja þá skoðun hans.

Það má spyrja að því, hvers vegna Íslendingar hafi ekki löngu fyrr tekið upp þessa kröfu um að helga sér landgrunnið allt sem fiskveiðalandhelgi, og er þá því til að svara, að sú kenning er tiltölulega ný, mun vera fyrst sett fram í kringum síðustu aldamót, og á þeim grundvelli var því eðlilegt, að Íslendingar gerðu miklu fyrr kröfu um landgrunnið allt undir íslenzka löggæzlu og vildu láta lögfesta það sem fiskveiðalandhelgi Íslands. Hins vegar stöndum við svo einstaklega vel að vígi að standa á sögulegum grundveili og sögulegum rétti, sem þessi kynslóð má alls ekki láta henda sig að láta sér úr greipum ganga. Á þeim helga sögulega rétti eigum við að standa, einkanlega eftir að fiskveiðatæknin gerir það að opinberri nauðsyn íslenzku þjóðinni að helga sér þetta svæði og öll þau verðmæti, sem á því og í því er að hafa, og helga þau íslenzkri þjóð.

Við megum búast við því, að eins og það leiðir af sjálfu sér, að það er þörf frekari verndunarákvæða gegn ofveiði, eftir að botnvarpan er komin til sögunnar, heldur en áður var, meðan smátækari veiðitæki voru kunn, eins er þörf enn frekari ráðstafana, vegna þess að nú vita menn, að botnvarpan verður kannske innan stundar, þótt hún sé mikilvirkt veiðitæki, úrelt veiðitæki og miklu stórfelldari tæki tekin til notkunar, sérstaklega í sambandi við notkun rafmagns sem hluta af veiðitækni framtíðarinnar. Og þá má búast við, að Íslendingum veiti sízt af að hafa helgað sér landgrunnið allt og skapað sér þannig lagalegan rétt til þess að bægja ásælni annarra þjóða frá auðlindum Íslands á landgrunni þess.

Ég vil vona, að þetta mál hljóti hvorki þau örlög að vera þagað í hel, — það á það ekki skilið af Íslendingum, — og ég vil vænta þess líka, að það verði ekki örlög þess, að það verði deilumál, og til þess tel ég engin rök hníga. Ég mundi því telja einsætt, að Alþingi Íslendinga færi að dæmi þeirra þjóða, sem þegar hafa gert miklar kröfur til landhelgi meðfram ströndum sínum, og þar er af nógum dæmum að taka, svo að Ísland væri svo sem ekki að troða neinar áður ótroðnar brautir, þó að það gerði kröfu til þess að helga sér 50 sjómílna belti í kringum landið. Aðrar þjóðir hafa tekið þar miklu dýpra i ár nú hin síðari árin. Mundi ég því vilja vænta þess, að sú nefnd, sem tekur við málinu, tæki nú rögg á sig og afgreiddi það með tillögu til samþykktar. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. sjútvn. Ég tel rétt að líta á þetta fyrst og fremst sem eitt stærsta grundvallaratriði okkar höfuðatvinnuvegar, sjávarútvegsins, og vil vona, að málið fái þar skjóta og röggsamlega afgreiðslu.