27.10.1955
Neðri deild: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (1863)

37. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var fyrir stuttri stundu í þessari hv. d., sem annar þm. mælti fyrir frv. með svipuðu heiti, um olíueinkasölu ríkisins, og mjög svipuðu að efni einnig. Það er þó ekki sök mín eða okkar flm. þessa frv., að það mál hefur birzt í frumvarpsformi svo líkt þessu, því að þetta frv. var samið 1946 og flutt þá í Ed. og hefur síðan verið flutt hér í Nd. í nokkur skipti, ég held einum þrisvar sinnum, af öllum þm. Alþfl. í Nd., og þannig er það flutt óbreytt nú. Það, að einnig er komið fram frv. nú mjög svipað að heiti og efni og uppbyggingu, er einungis sökum þess, að málið hefur fengið einróma fylgi í öðrum stjórnmálaflokki og þeir talið sér nokkurs virði að búa það í sinn búning, sem þá auðvitað hlaut að vera svipaður búningi þeim, sem málinu hafði áður verið valinn.

Efni þessa frv. er í fáum orðum það, að ríkið skuli taka að sér einkasölu á öllum innfluttum olíum. Þá sé ríkinu enn fremur heimilt að leigja, kaupa eða láta byggja skip til að flytja olíur til landsins og til þess að dreifa olíunum um landsbyggðina. Í þriðja lagi er í þessu frv. eignarnáms- eða leigunámsheimild á þeim dreifingarkerfum, sem nú eru til hér á landi, og á öllum þeim mannvirkjum, sem notuð eru nú í þjónustu verzlunarrekstrar með benzín, ljósaolíu, hráolíu og brennsluolíu. Í frv. er heimilað að leggja á þessar olíuvörur, sem einkasalan hafi með höndum að verzla með, frá 10–40%, og þá er gert ráð fyrir að skapist ágóðahluti. Þennan ágóðahlut skal, þegar hann hefur orðið til, eftir að hæfilegur hluti af honum hefur verið lagður í veltufjár og varasjóði og fyrningar- og byggingarsjóði, geyma til næsta árs og nota það ár til lækkunar á verðlagi þeirra vara, sem olíueinkasalan verzlar með, að svo miklu leyti sem ekki er hægt að verja ágóðanum til verðuppbótar á því sama ári sem ágóðinn varð til. Þannig er ætlunin með þessu frv., að þeim ágóða, sem myndast innan ramma þess álagningarfrelsis, sem lögin heimila, verði skipt upp til þess að lækka verðlagið á olíu og skapa hið rétta verð á næsta ári á eftir.

Nú kunna menn að spyrja: Er nokkur þörf á því að vera að raska þeim háttum um verzlun með olíu, sem hafa ríkt hér á landi og eru nú ríkjandi? Er nokkur þörf á að vera að breyta til í þessum efnum?

Það er fyrsta atriðið í því svari, sem ég vil gefa við þessari spurningu, að olíufélögin þrjú, sem nú verzla með olíu hér, hafa upplýst á undanförnum árum hvert um sig, að það sé unnt hverju þeirra að skapa jafnvel milljónagróða á einum olíufarmi, og hafa þau skipzt á brigslyrðum út af þessum möguleikum hvers um sig og flett ofan af því, sem áður var ekki kunnugt, að það er um stórkostlegan gróða að ræða, jafnvel milljónagróða, sem menn getur varla órað fyrir, á einum einasta olíufarmi. Þetta sýnir okkur, að það er hægt að mata krókinn svo gífurlega á þessari verzlun, án þess að almenningur hafi hugmynd um það, að við slíkt er ekki unandi. Það er ómögulegt að vefengja þessar upplýsingar. Þær voru gefnar af hinum ýtrasta kunnugleika hvers félagsins um afkomu og gróða hins, svo að þar vitnaði kunnugur gegn kunnugum í þessu efni.

Auðvitað á að afnema það skipulag, sem heimilar slíka féflettingaraðstöðu og slíka óhóflega gróðasöfnun. Ég hygg, að það sé ekki hægt á annan hátt betur að fyrirbyggja þetta en með ríkiseinkasölu. Þar lægju öll plögg opinberlega fyrir frá ári til árs, og þetta gæti ekki átt sér stað.

Þá er það í annan stað óviðunandi við núverandi ástand, að þessi félög nota eingöngu erlend skip til þess að flytja olíuna hingað til landsins. Allir þeir, sem vilja, að öll íslenzk verzlun sé á höndum Íslendinga og íslenzkra aðila, hljóta að vilja taka upp eitthvert það skipulag, sem geri mögulegt að fá íslenzk tankskip til þess að flytja alla olíuna til okkar. Það hafa legið fyrir beiðnir frá olíufélögunum hér fyrir Alþingi um kaup á olíuskipum, en þar virðist öfundin út í hvert annað hafa verið svo mikil, að eitt olíufélagið hafi eyðilagt möguleikana fyrir hinum um að kaupa olíuflutningaskip til landsins. Slík hjaðningavíg á milli þeirra, sem bezt hafa matað krókinn á olíuverzluninni, ættu ekki að fá að halda áfram árum saman, og væri bezt, að ríkið skærist í leikinn og fyrirbyggði slíkan hernað á milli gróðafélaganna og keypti olíutankskipin í nafni ríkisins fyrir olíuverzlun sína.

Auk þess er það óviðunandi, að a.m.k. tvö af þessum félögum og sennilega að einhverju leyti öll eru erlend verzlunarfyrirtæki, og þeir, sem vilja, að verzlunin sé íslenzk, geta ekki heldur unað við það til lengdar. Það er enginn aðili til, sem getur tekið af skarið um þetta og gert verzlunina íslenzka nema íslenzka ríkið sjálft. Það hefur enginn mátt til þess að rísa upp gegn þessum hálfútlendu og alútlendu olíuauðhringafélögum nema íslenzka ríkið sjálft, sem getur markað þeim básinn með löggjöf og á að gera það.

Þá er það það fjórða, sem ég tel alveg óviðunandi við núverandi ástand olíuverzlunarmálanna, að það er búið að koma upp þreföldu dreifingarkerfi um allt landið.

Þetta dreifingarkerfi kostar marga tugi milljóna króna. Það bindur óþarfan mannafla við olíuafgreiðsluna, og það hlýtur að hækka verðlag á olíuvörunum stórkostlega umfram það, sem nokkur þörf er á. Þetta verður að rífa niður með því að heimila leigu- eða eignarnám á þessu þrefalda olíudreifingarkerfi og að upp verði byggt eitt fullkomið dreifingarkerfi, sem hlýtur að kosta miklu minna fé og vera ódýrara að öllum rekstri, bæði um mannafla og annað.

En höfuðnauðsynin til þess kannske að binda endi á það, að milljónatugum sé rakað saman í sambandi við olíuverzlunina á hverju ári, er sú höfuðnauðsyn sjávarútvegsins, sem hér kallar á. Það er ekkert vit í því að láta þrjú olíuauðfélög taka milljónatugi af þrautpíndum sjávarútveginum í of háu olíuverði á hverju ári og þykjast svo, eftir að þessar ræningjahendur eru búnar að fara um féhirzlu sjávarútvegsins, að vera að hjálpa sjávarútveginum aftur með smápeningi, sem fæst gegnum alóþjóðhollan bílainnflutning, sem komið er á rétt í bili, en verður, þegar sú lind þrýtur, að gerast með einhverjum öðrum hætti.

Það er eitt af því fyrsta, sem hægt er að hjálpa útgerðinni með til þess að standa á eigin fótum, að losna við arðrán af hendi erlendra og innlendra olíufélaga og útvega útgerðinni allar olíur, sem hún þarf til sinna nota, á réttu verði. Það er fyrsta og sjálfsagðasta hjálpin, sem íslenzka þjóðfélagið á að veita sínum höfuðatvinnuvegi. Þá gæti strax verulegur hluti af hinum svokölluðu ölmusum, sem sjávarútvegurinn er nú að nafninu til látinn fá, horfið burt. Ég er alveg sannfærður um það, að ef á sama hátt væri útvegað til sjávarútvegsins salt og veiðarfæri og aðrar höfuðnauðsynjar hans með réttu verði og allar þessar vörur teknar út úr hinni venjulegu verzlunarhringiðu, þá væri hægt að gera honum fært að standa á eigin fótum, allra helzt ef sú breyting væri jafnframt gerð á bankapólitíkinni að hafa öll lán í sambandi við rekstur útgerðarinnar og geymslu afurða á lágum vöxtum, eins og allar siðmenntaðar þjóðir gera. Það gera Norðmenn, okkar aðalkeppinautar, þeir hafa vexti af lánum til síns sjávarútvegs í algerum lágmarks- og sérflokki, allt niður í 11/2% lán. Og það ætti auðvitað íslenzkur sjávarútvegur að hafa líka, hvað sem liði vöxtum að öðru leyti til miður nauðsynlegra atvinnugreina.

Þetta vil ég segja í sambandi við þetta frv., því að ég tel, að það væri fyrst og fremst hugsað sem liður í aðgerðum til þess að hjálpa íslenzkum sjávarútvegi á hinn eðlilegasta hátt og losa við þá vansæmd, að sjávarútvegurinn sé talinn lifa á ölmusu og styrkjum, sem auðvitað allir milliliðir, ekki aðeins olíugróðafélögin, heldur allir milliliðir fá sína fjármuni og sinn gróða frá. Það er alveg snúið við öllum rökum, þegar verið er að halda því fram, að sjávarútvegurinn njóti styrks frá tóbaksreykingamönnum og frá ríkissjóði í einni og annarri mynd, gegnum bílainnflutninginn meðal annars, því að það er auðvitað sjávarútvegurinn, sem leggur þjóðfélaginu til allt þess rekstrarfé og gefur gróðaaðilunum í þjóðfélaginu alla möguleika til þess að mata krókinn vegna þess, hvernig að honum er búið af íslenzkri löggjöf.

Ég skal svo ljúka þessum orðum mínum með því að segja: Ég hef stundum heyrt það, að Alþýðuflokksmenn hafi kunnað því illa, þegar mál, sem þeir hafa flutt og þráflutt, hafa svo verið tekin upp af öðrum flokkum. En ég tel, að Alþfl. megi vel við það una, hann þurfi ekkert að kveinka sér undan því. Það sýnir, að hann flytur góð mál, sem aðrir flokkar ágirnast, og það er bara formsatriði, hvort þeir vilja tjá stuðning sinn við þessi góðu mál með því að rétta upp höndina með þeim á Alþingi eða með því að breyta eitthvað búnaði þeirra að eigin hætti og eigin geðþótta sínum, og skal það, þegar efni er ekki raskað, á engan hátt átalið af mér eða mínum meðflm. um þetta mál. Ég teldi meginsigur unninn í málinu, ef annaðhvort frv. okkar eða frv. þjóðvarnarmannanna yrði samþ., og vil vona, að svo verði, og tel einsætt, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn. Alþingis.