27.10.1955
Neðri deild: 11. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í C-deild Alþingistíðinda. (1865)

37. mál, olíueinkasala

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Mér finnst, að hv. 8. landsk. hefði ekki þurft að kippast svona hastarlega við, þó að frá þeirri staðreynd væri skýrt, að hann og hv. 8. þm. Reykv. (GilsG) hafi flutt frv., sem sé að efni og búningi mjög svipað því frv., sem Alþýðuflokksmenn hafa flutt þing eftir þing allt frá því 1946. Ég lét í ljós einmitt, að mér stæði nokkurn veginn á sama, hvort þeirra frv. yrði samþ. eða mitt, af því að efni og innihald beggja frv. væri nákvæmlega það sama. Þar með lagði ég blessun mína yfir það, að frv. um olíueinkasölu ríkisins skuli nú ekki liggja fyrir Alþingi í einu eintaki, heldur í tveimur, frumriti og kopíu.

Athugasemdir gerði hann um það, að það bæri vott um, að okkar frv., Alþýðuflokksmannanna, væri illa samið, að það sé líkt gildandi lögum um tóbakseinkasölu ríkisins. Ég hygg einmitt, að það mætti frekar teljast með mjög eðlilegum hætti, að þegar væri samið frv. um olíueinkasölu ríkisins, þá væri einmitt nokkuð litið til þeirra einkasölufrumvarpa, sem áður hefðu verið flutt og Alþingi fallizt á og enn fremur væru búin að fá á sig góða reynslu í framkvæmdinni. Ég sé a.m.k. ekki nokkra ástæðu til og sá ekki, þegar ég samdi þetta frv. upphaflega, að forðast þetta, heldur einmitt að taka öll ákvæði tóbakseinkasölufrumvarpsins inn í frv. um olíueinkasölu ríkisins, af því að það frv. hafði staðizt dóm reynslunnar. Hv. 8. landsk. virðist aftur hafa haft þau vinnubrögð að forðast allt slíkt. Það er þess vegna engin opinberun, að ýmsar greinar um ríkisrekið fyrirtæki, sem á að verzla með olíu, séu ákaflega svipaðar ákvæðunum um ríkisrekið fyrirtæki, sem á að verzla með tóbaksvörur, að öðru leyti en því, að tóbakseinkasala ríkisins á að vera fjáröflunarlind fyrir ríkissjóðinn, en hér er aftur ákvæði um það, að allur sá arður, sem skapast við olíuverzlunina, skuli á næsta ári, að svo miklu leyti sem það er ekki hægt strax á sama ári og gróði skapast, fara til fyrirtækisins sjálfs.

Þá var það það, sem hv. þm. hnaut um, að það væri mótsetning í 10. og 12. gr. — 10. gr. er um það, hvernig eigi að verja ágóða, sem verði af rekstri olíueinkasölunnar, þ.e.a.s. við sölumeðferð þeirra olíuvara, sem fyrirtækið verzlar með, hann eigi að fara til fyrirtækisins sjálfs. Ef olíueinkasalan verður aftur fyrir einhverjum aukatekjum vegna brota á lögunum, þá er sagt, að það sektarfé skuli renna í ríkissjóð. Er nokkur mótsögn á milli þessara greina? Ekki fyrir öðrum en þeim, sem vilja hártoga og snúa út úr og hafa þó ekkert til þess að tylla fæti á. Önnur greinin er um ágóða, sem verði af rekstri fyrirtækisins, hitt er um það, hvert skuli renna þær upphæðir, sem verði til sem sektarfé vegna brota á lögunum.

Að síðustu vildi hv. þm. gera sér mat úr meintri prentvillu, og verði honum það að góðu. Það má vel vera, að það finnist ekki nein prentvilla í hans frv., og skal ég þó játa, að ég taldi það ekki neitt meginefni í sambandi við þetta stóra mál og hef þess vegna ekki farið í neina prentvillulúsaleit í frv. hans. En það, sem máli skiptir hér, er það, að Alþ. á þess enn kost að taka afstöðu til þess, hvort það vill viðhalda því ófremdarástandi, sem nú ríkir í olíuverzlun okkar. Hún er hálf erlend. Það eru þar möguleikar undir núverandi skipulagi til að skapa óstjórnlegan gróða á íslenzkan mælikvarða og draga hann frá íslenzkum grundvallaratvinnuvegi í hendur milliliða. Og þess er kostur núna að taka afstöðu til tveggja frv., sem í öllu meginefni eru um það sama, að ríkið skuli taka að sér einkasölu á öllum olíum, sem fluttar eru til landsins, að ríkið skuli mega taka á leigu eða byggja eða kaupa skip til olíuflutninganna til landsins og að ríkið megi taka eignar- eða leigunámi öll þau mannvirki, sem nú eru starfrækt í sambandi við olíuverzlunina. Það stendur, að það sé heimilt, í frv. okkar. Það stendur á engan hátt, að það sé skylt, og allur sá vefnaður, sem hv. þm. óf út af því, að það væri eins og ætlazt til þess, að öll mannvirki olíufyrirtækjanna skyldu vera tekin eignarnámi, er algerlega út f hött og þau orð eins og upp úr svefni töluð. Einnig það er þess vegna alveg að tilefnislausu.

Ég endurtek það, að ég sé þess engan mun, hvort þessara frv. verður samþykkt. Það yngra er eins og kopía af hinu eldra, og var ekki annars að vænta, þar sem greinilegt er, að hvorir tveggja flokkarnir, sem að þeim standa, vilja hið sama.