28.10.1955
Neðri deild: 12. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í C-deild Alþingistíðinda. (1884)

47. mál, þjóðhátíðardagur Íslendinga

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. samhljóða þessu var flutt á Alþingi 1953, en hlaut ekki fullnaðarafgreiðslu þá. Það er vissulega dálitið einkennilegt og gegnir jafnvel furðu, að þjóð, sem er jafnspör á alls konar frídaga og tyllidaga eins og við Íslendingar vissulega erum, skuli ekki hafa gert þjóðhátíðardag sinn, 17. júní, að löghelguðum frídegi.

Menn kunna ef til vill að segja sem svo, að það beri ekki brýna nauðsyn til að lögfesta ákvæði um þjóðhátíðarhald 17. júní, þar sem sá dagur, afmælisdagur Jóns Sigurðssonar og stofndagur lýðveldisins, sé þegar orðinn í framkvæmd slíkur þjóðhátíðar- og þjóðminningardagur án allra lagafyrirmæla. Þetta er að vísu rétt að nokkru leyti, og vantar þó enn allmikið á, að 17. júní sé hátíðlegur haldinn með viðeigandi svip um gervallt land.

Ég hygg, að þess hafi gætt mjög undanfarin ár, að hátíðahöld á þjóðhátíðardaginn séu bundin við kaupstaðina að langmestu leyti, en héraðshátíðir hinna dreifðu byggða séu næsta fátíðar.

Það form hátíðahalda á þjóðhátíðardegi að binda þau nær eingöngu við Reykjavík og aðra kaupstaði tel ég engan veginn heppilegt. Satt að segja er það miður viðkunnanlegt, að hópur ungs fólks, t.d. á Suðurlandi, skuli flykkjast til Reykjavíkur í því skyni að halda þar hátíðlegan þjóðhátíðardaginn, en mér er tjáð, að allvíða sé mjög fátt fólk eftir í sveitum og lítið til hátíðabrigða þennan dag. Að sjálfsögðu er það á allan hátt mennilegra, að þjóðhátíðardagurinn sé haldinn með samkomum sem víðast í héruðum, þar sem sveitarfélög, fleiri eða færri eftir atvikum, gætu sameinazt um að minnast á viðeigandi hátt íslenzkrar frelsisbaráttu og þeirra frumherja hennar, sem við eigum mest að þakka. Færi vel á því, að t.d. forsætisráðuneytið hefði nokkurt frumkvæði um að koma á þessari skipan, hvetti sveitarfélögin til að gangast fyrir hátíðahöldum, virðulegum, en þó hófsamlegum og með þjóðlegum svip.

Þess hefur gætt í vaxandi mæli 17. júní, a.m.k. hér í Reykjavik, að alls konar prang og sölumennska hefur sett leiðinlegan svip á daginn. Slíkt er ótækt, og ber að kveða þann ósið niður. Áð sjálfsögðu verður að krefjast þess, að hátíðahöld öll á þjóðhátíðardaginn beri virðulegan og viðeigandi svip. Slíkt verður að vísu seint fulltryggt með löggjöf, ef einstaklingarnir sjá ekki til fulls og skilja, hvað sæmir á slíkum degi, en þó virðist sjálfsagt, m.a. vegna fenginnar reynslu, að hafa um þetta efni ótvíræð ákvæði í lögum.

Um leið og frv. þetta kveður svo á, að 17. júní skuli vera löghelgaður þjóðhátíðardagur Íslendinga og öll vinna bönnuð þann dag, önnur en algerlega óhjákvæmileg störf, þá er bæjar-og sveitarstjórnum gert skylt að hafa forgöngu um hátíðahöld, sem tvær, þrjár eða fleiri sveitir geta að sjálfsögðu sameinazt um, og er sveitarstjórnunum jafnframt lögð sú skylda á herðar að sjá svo um eftir föngum, að dagurinn sé hátíðlegur haldinn á virðulegan hátt.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta mál fleiri orð. Ég legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.