06.03.1956
Neðri deild: 82. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í C-deild Alþingistíðinda. (1894)

63. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Í sambandi við þetta mál, sem hér liggur fyrir, frv. á þskj. 70 og nál. um það frv. á þskj. 434, þykir mér rétt að rifja upp í stuttu máli helztu lagasetningu Alþingis á undanförnum áratugum, sem að því miðar að greiða fyrir útvegun fjármagns til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum.

Rétt er þá að geta fyrst veðdeildar Landsbankans, sem stofnuð var með lögum árið 1900. Lög um nýja veðdeildarflokka hafa síðan verið sett oftsinnis. Veðdeildinni hefur að vísu verið ætlað að veita lán út á fasteignir almennt, en aðallega hefur hún þó lánað út á húseignir við sjávarsíðuna, einkum í Reykjavík. Það er jafnframt alkunna, að starfsemi veðdeildarinnar hefur lengi komið að fremur litlu gagni, þar sem erfitt hefur verið um sölu veðdeildarbréfa nú lengi, en sérstakar ráðstafanir hafa nýlega verið gerðar eða voru gerðar með lögum frá síðasta þingi til þess að efla starfsemi hennar, og kem ég að því síðar.

Nefna mætti i þessu sambandi lögin um ríkisveðbanka Íslands, sem sett voru árið 1931, en þau lög hafa aldrei komið til framkvæmda.

Lög um verkamannabústaði voru fyrst sett árið 1929 og með þeim stofnaður byggingarsjóður verkamanna með framlögum úr ríkissjóði og sveitarsjóðum. Um tíma rann líka hluti af tekjum tóbakseinkasölunnar í þennan byggingarsjóð. Vextir og afborganir af lánum úr byggingarsjóði skyldu samkvæmt lögunum vera samtals 6%, þ.e.a.s. ársgreiðslurnar af 42 ára láni. Með þessum lögum, þ.e.a.s. lögunum um verkamannabústaði, var að því hnigið að veita efnalitlum mönnum við sjávarsíðuna, í kaupstöðum og kauptúnum, lán með hagstæðari kjörum en áður höfðu þekkzt. Síðan hafa þessi lög verið endurskoðuð nokkrum sinnum.

Ég hef athugað það dálítið, hver árangur hefur orðið af lögunum um verkamannabústaði á þeim tíma, sem er nú orðinn hátt á þriðja áratug, sem þau hafa verið í gildi, og skal ég minnast á það síðar.

Lög um byggingarsamvinnufélög voru sett árið 1933. Með þeim var ríkisstj. heimilað að ábyrgjast byggingarlán slíkra félaga eftir nánar tilteknum reglum. Samkv. þessum lögum hefur verið byggt mikið af íbúðum, og í seinni tíð hafa einkum opinberir starfsmenn stofnað með sér byggingarsamvinnufélög og notað sér ríkisábyrgðina. Ábyrgðir ríkissjóðs vegna byggingarsamvinnufélaganna munu hafa numið samtals sem næst 114 millj. kr. árið 1954.

Árið 1946 voru sett lög um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Aðalstofn þessarar löggjafar frá 1946 var hin eldri lög um verkamannabústaði og byggingarsamvinnufélög, sem felld voru inn í hinn nýja lagabálk með ýmsum breytingum. Þar að auki var svo í lögunum frá 1946 sérstakur kafli um íbúðabyggingar sveitarfélaga og um sérstök vaxtalág eða vaxtalaus ríkislán í því sambandi. Enn fremur var svo bætt við kafla um innflutning og skiptingu byggingarefnis. Árið 1952 var svo þessum lögum frá 1946 breytt á þá leið, að bætt var í þau enn nýjum kafla um lánadeild smáíbúðarhúsa, er veita skyldi lán út á annan veðrétt. Þá var og breytt kjörum á ríkislánum til íbúðabygginga sveitarfélaga á því sama ári. Smáíbúðadeildin tók til starfa árið 1952, og voru veitt úr henni á árunum 1952, 1953 og 1954 og lítils háttar á árinu 1955, samtals, eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, 1856 lán að upphæð um 41 millj. kr.

Á öndverðu ári 1955, þ.e. á síðasta þingl. voru svo sett lögin um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Með þessum lögum frá síðasta Alþingi er komið á almennu veðlánakerfi, sem svo er nefnt í lögunum, í sambandi við veðdeild Landsbankans og byggist á samkomulagi við bankana. Það nýmæli er, sem kunnugt er, í þessum lögum, að aflað sé fjár til svonefndra Blána með sölu vísitölubréfa og B-lánin jafnframt veitt með skilyrðum varðandi vísitölubreytingu höfuðstólsins. Með þessum lögum var numinn úr gildi kaflinn um íbúðabyggingar sveitarfélaga í lögunum frá 1946, en í hans stað lögfestur II. kafli hinna nýju laga um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Í þessum kafla nýju laganna um útrýmingu heilsuspillandi íbúða er ákveðið, að ríkissjóður leggi fram allt að 3 millj. kr. ár hvert næstu fimm ár i óafturkræfum framlögum eða lánum til sveitarfélaga til útrýmingar heilsuspillandi íbúða. Ákvæðin frá 1952 um lánadeild smáíbúðarhúsa hafa ekki verið felld niður, en í 4. gr. laganna frá 1955 segir, að eignir smáibúðadeildarinnar skuli renna í varasjóð hins almenna veðlánakerfis.

Sú löggjöf, sem nú er í gildi varðandi þessi mál, er því í aðalatriðum þessi: Í fyrsta lagi ákvæði um verkamannabústaði og byggingarsjóð verkamanna, í öðru lagi ákvæði um byggingarsamvinnufélög og ríkisábyrgð í því sambandi, í þriðja lagi ákvæði um lánadeild smáíbúðarhúsa, sem þó er raunar hætt starfsemi sinni, a.m.k. nú um sinn, í fjórða lagi ákvæði laga frá síðasta þingi um hið almenna veðlánakerfi og starfsemi húsnæðismálastjórnar, í fimmta lagi ákvæði sömu laga um útrýmingu heilsuspillandi íbúða, en niður hafa í því sambandi verið felld ákvæðin frá 1946 um íbúðabyggingar sveitarfélaga, og svo í sjötta lagi ákvæði laganna frá 1946 um innflutning og skiptingu byggingarefnis o.fl.

Af því, sem ég nú hef sagt, má sjá, að byggingarlánalöggjöfin frá 1946, sem að allverulegu leyti var byggð á eldri löggjöf, þó með töluverðum breytingum, eins og ég gat um áður, er enn í gildi óbreytt með tveimur undantekningum. Önnur undantekningin er sú, að kaflinn um íbúðabyggingar sveitarfélaga hefur verið felldur niður, en í stað hans lögfestur II. kafli laganna frá 1955 um útrýmingu heilsuspillandi íbúða. Hin er sú, að vextir byggingarsjóðs verkamanna hafa verið hækkaðir úr 2% upp í 31/2 %, eins og í byggingarsjóði bænda, en þeir vextir, sem nú gilda hjá byggingarsjóði verkamanna, eru hins vegar, að mér skilst, nokkru lægri en ákveðið var með fyrstu verkamannabústaðalögunum 1929. En hækkun þessi á vöxtunum stendur að sjálfsögðu í sambandi við fjármagnsskortinn og hina almennu vaxtahækkun í landinu.

Þess er þá jafnframt að geta, að bætt hefur verið við löggjöfina frá 1946 ákvæðum um smáíbúðadeildina, sem nú er að vísu ekki starfandi, og ákvæðunum um hið almenna veðlánakerfi. sem tók til starfa á árinu sem leið.

Það má ljóst vera af því, sem nú hefur verið rakið, — og ég hef talið það til glöggvunar fyrir hv. deild, að þessi löggjöf væri rifjuð upp í meginatriðum, sem í gildi er, og þróun hennar, — en af því má sem sagt vera ljóst, að mikið er í gildi af lagaákvæðum um byggingarlán af ýmsu tagi svo og aðrar ráðstafanir, t.d. ríkisábyrgð til þess að greiða fyrir byggingu íbúða í kaupstöðum og kauptúnum.

Um árangur einstakra lagaákvæða og ráðstafanir í þessu sambandi mætti margt ræða, þó að fátt verði hér sagt að þessu sinni. Lögin um verkamannabústaði hafa borið allverulegan árangur, aðallega í kaupstöðum, en það þarf mikils við, til þess að byggingarsjóðurinn geti notið sín að fullu samkvæmt hinum rúmu heimildum laganna. Ég hef athugað það nokkuð, eins og ég sagði áðan, hver lán hafa verið veitt úr byggingarsjóðnum allan tímann, sem sá sjóður hefur verið starfandi, þ.e.a.s. á árunum 1931–55. og samkvæmt upplýsingum, sem ég hef fengið um það efni, nema lánin samtals á þessum 24 árum, sem sjóðurinn hefur starfað, 561/2 millj. kr., þar af hefur nálega helmingurinn verið lánaður út síðan árið 1950. En ef það er athugað, hvernig þessi starfsemi byggingarsjóðsins hefur komið að haldi í einstökum landshlutum eða á einstökum stöðum, kemur í ljós, að lánin hafa verið veitt til 25 staða samtals. Í þeirri tölu eru flestir kaupstaðirnir, nánar til tekið 12 kaupstaðir af 14, og 13 kauptún af 51 kauptúni, sem nú teljast vera í landinu. Það skortir því allmikið á, að starfsemi byggingarsjóðsins hafi verið almenn í þorpum landsins.

Öllu meiri árangur má ef til vill segja að orðið hafi af lögunum um byggingarsamvinnufélög samkv. því, sem fyrir liggur um ríkisábyrgðir, sem veittar hafa verið samkv. þeim lögum, en þau gefa nokkuð til kynna um það, hve mikið hefur verið byggt, og það virðist vera töluvert meira en byggt hefur verið eftir hinum lögunum. En einnig árangur af starfsemi byggingarsamvinnufélaganna hefur orðið á nokkuð takmörkuðu sviði.

Einna almennastur árangur um land allt mun hafa orðið af starfsemi smáibúðadeildarinnar þau þrjú ár, sem hún starfaði, 1952–54, svo og í Reykjavík af starfsemi veðdeildar Landsbankans á sínum tíma.

Um árangur af starfsemi hins almenna veðlánakerfis, sem lögfest var í fyrra, er lítið hægt að segja, þar sem það hefur enn ekki starfað nema nokkra mánuði, en samkv. upplýsingum, sem fyrir liggja um það mál, hafa úr hinu almenna veðlánakerfi verið veitt lán til 650 íbúða víðs vegar um land. Þessi tala mun ekki vera alveg ný, en lítið mun hafa verið veitt af lánum síðan hún var reiknuð út.

Það skiptir auðvitað mestu máli að sniða löggjöfina þannig, að af henni verði sem mestur árangur fyrir almenning, að sem mest verði byggt af hæfilega stórum íbúðum, sem fólki með venjulegar tekjur eða minni er mögulegt að standa straum af, og að einstakir landshlutar eða þorp dragist ekki aftur úr í byggingarstarfseminni, eins og oft hefur viljað við brenna. Lög, sem ekki er hægt að framkvæma, getur verið varhugavert að setja. Slík lög geta jafnvel orðið til þess að tefja framþróunina í byggingarmálunum, því að svo getur farið, að menn bindi vonir, sem ekki rætast, við bókstaf þeirra laga.

Um frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 70 frá hv. 2. þm. Reykv., og efni þess frv. vil ég vísa til nál. frá félmn. á þskj. 434. Félmn. hefur gert það að till. sinni, að þetta frv. verði að þessu sinni afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem prentuð er á sama þskj.

Eins og sagt er frá í nál., hefur n. sent tveim aðilum frv. til umsagnar, húsnæðismálastjórn, vegna þess að hún hefur með höndum ásamt Landsbankanum starfsemi hins nýja almenna veðlánakerfis og aðrar ráðstafanir varðandi byggingarmál samkv. lögum frá síðasta þingl. og Landsbankanum, m.a. vegna þess, að í V. kafla frv. eru ákvæði um, að seðlabankanum, sem er deild í Landsbankanum, skuli vera skylt að kaupa bankavaxtabréf veðdeildarinnar eða með öðrum orðum skylt að lána fé til íbúðabygginga.

Ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa kafla úr umsögnum þessara tveggja aðila um frv. Landsbankinn segir m.a.:

„Meginatriði hins nýja frv. er að skylda seðlabankann til að kaupa bankavaxtabréf veðdeildarinnar, svo að hægt sé að veita hverjum sem er stór lán til íbúðabygginga. Vér vonum, að fáir séu lengur þeirrar skoðunar, að unnt sé að leysa fjárhagsörðugleika þjóðarinnar með takmarkalausum lánveitingum úr seðlabankanum, sem í raun og veru mundi aðeins geta byggzt á aukinni seðlaveltu. Á slíkum tímum sem þessum, þegar bankarnir eru komnir í stórskuldir við útlönd og ofþensla er á öllum sviðum efnahagslífsins, mundu aukin útlán seðlabankans hafa hinar geigvænlegustu afleiðingar.“

Þetta er úr umsögn Landsbankans, og eins og hv. þm. heyra, þá lýtur þessi umsögn fyrst og fremst að V. kafla frv., um rétt einstaklinga til veðlána„ sem líka einkum snertir Landsbankann, en er jafnframt eitt af meginatriðum frv.

Húsnæðismálastjórn svaraði bréfi nefndarinnar 10. jan. s.l. á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Heilbrigðis- og félagsmálanefnd neðri deildar Alþingis hefur með bréfi, dags. 2. des. s.l., sent húsnæðismálastjórn til umsagnar frumvarp til laga um rétt manna til byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum og opinbera aðstoð í því skyni. Sem svar við þessum tilmælum vill húsnæðismálastjórn taka fram eftirfarandi:

Svo. sem kunnugt er, var með lögum nr. 55 1955, um húsnæðismálastjórn, veðlán til íbúðabygginga og útrýmingu heilsuspillandi íbúða, stefnt að því að auka fjármagn til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og leggja grundvöll að því að leysa þetta vandamál til frambúðar. Síðan lög þessi komu til framkvæmda, eru liðnir aðeins nokkrir mánuðir, svo að ekki er þess að vænta að reynsla sé fengin fyrir löggjöf þessari og gildi hennar. Þegar af þessari ástæðu telur húsnæðismálastjórn mjög óhyggilegt að samþykkja frv. það, sem hér er til umsagnar, en auk þess telur húsnæðismálastjórn, að frumvarp þetta hafi slíka galla efnislega, að ekki sé rétt að lögfesta það.“

Þetta er umsögn húsnæðismálastjórnar til félmn., dags. 10. jan. s.l.

Mér þykir rétt fyrir hönd n. að vekja athygli á því, að í I. kafla frv. eru ákvæði um að verja árlega til íbúða af núverandi tekjum ríkissjóðs upphæð, sem á fjárlögum fyrir árið 1956 er áætluð 24 1/2 millj. kr. Í IV. kafla er ákvæði um, að ríkissjóður leggi fram 30 millj. kr. sem stofnfé smáibúðadeildar, og sé ég ekki, að í þeim kafla sé gert ráð fyrir lántöku í þessu skyni. Þar sem gert er ráð fyrir, að lögin taki gildi þegar í stað, yrði að líkindum að leggja féð fram á þessu ári, bæði samkv. I. kafla og samkv. IV. kafla, en skylt er að geta þess í þessu sambandi. að frv. var lagt fram á Alþ., áður en fjárlög ársins voru afgreidd. En samkv. því, sem nú er sagt, lítur út fyrir, að Alþ. yrði að samþykkja nýja skatta að upphæð 541/2 millj. kr. nú, áður en þessu þingi lýkur, ef frv. næði samþykki. Vera má þó, að hv. fim. hafi hugsað sér, að 30 millj. kr. stofnfé til smáíbúðadeildar skiptist t.d. á tvö ár eða lengri tíma. og mundi það lækka upphæðina, en starfsemi smáíbúðadeildar mundi hins vegar eflaust kalla á meira stofnfé síðar, þar sem ekki virðist gert ráð fyrir lántökum af hennar hálfu, en gert er ráð fyrir í frv. sérstökum ríkislántökum vegna útrýmingar heilsuspillandi íbúða svo og fjárframlögum úr ríkissjóði til greiðslu vaxtamismunar.

Það varð, eins og ég hef áður sagt, niðurstaða heilbr.- og félmn. að leggja til, að frv. yrði afgreitt með rökstuddri dagskrá, sem er orðuð í samræmi við umsögn húsnæðismálastjórnar, þá er ég áður hef lesið. Þar með er vitanlega ekki sagt, að ekki kunni að vera þörf á umbótum á þeirri byggingarlöggjöf, sem nú gildir. Ég get í þessu sambandi minnt á það t.d.. að ég hef flutt ásamt fleiri þm. frv. um sérstakan byggingarsjóð fyrir hina fámennari staði, kauptúnin, og tel, að slíkum byggingarsjóði þurfi að koma upp fyrr eða síðar. Og fleira er það að sjálfsögðu, sem þyrfti að gera. En n. sýnist rétt að fresta lagabreytingum að þessu sinni og bíða þess, að frekari reynsla fáist af löggjöf þeirri, sem sett var á síðasta þingi. Með þetta í huga hefur n. gert till. sína um afgreiðslu frv., en auk þess er það svo, eins og í nál. segir, að hún telur ýmis ákvæði frv. nokkuð vafasöm. Ég hygg t.d., að Alþ. verði að leita til þrautar annarra úrræða, áður en það gefur seðlabankanum fyrirmæli um lánveitingar eins og þær, sem gert er ráð fyrir í V. kafla frv.