06.03.1956
Neðri deild: 82. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í C-deild Alþingistíðinda. (1896)

63. mál, byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. heilbr.- og félmn. fyrir að hafa afgreitt þetta frv. Það er gott að vita til þess, að það skuli nú aftur fara að tíðkast sá háttur að afgreiða mál úr nefndum, og ég vil um leið leyfa mér að þakka hv. minni hl. n., hv. 3. landsk., fyrir góðan stuðning við málið. Ég vil líka taka það fram, að hv. frsm. meiri hl. í þessu máli, hv. þm. N-Þ., hefur gert hér mjög góða grein fyrir sínum viðhorfum, sem er líka mjög ánægjulegt og æskilegt að menn geri, að menn venji sig á það, þegar menn eru á annarri skoðun, að færa rök fyrir sinni skoðun.

Hann byrjaði á því að geta þess, að verkamannabústaðalögin hefðu verið endurskoðuð á ýmsum tímum, og síðar gat hann hins sama um fleiri af slíkum lögum. Hann sleppti hins vegar að geta um, hvernig sú endurskoðun hefði verið, að sú endurskoðun hefði verið á þann hátt að gera réttinn, sem alþýða manna átti að hafa samkvæmt lögunum, í sífellu rýrari og að lokum vextina hærri.

Það, sem mitt frv. fer fram á, eins og ég hef áður sagt frá, er að breyta til um þessi efni, að endurskoða hin gömlu lög, sem i gildi eru, með það fyrir augum að endurbæta þau, að setja inn í gildandi lög aftur þær umbætur, þau réttindaákvæði, sem í þeim hafa verið á einum eða öðrum tíma frá upphafi vega, m.ö.o. endurskoða þau til þess að bæta þau, i staðinn fyrir að endurskoða þau til þess að rýra þau.

Hv. frsm. meiri hl. minntist ekki á 1. gr. í þessu frv., sem þó felast nokkrar réttarbætur í, réttur Íslendinga til þess að fá að byggja hús og ekki sízt til þess að fá úthlutað lóðum í okkar stóra landi, og það er þó eitt af þeim réttindum, sem a.m.k. í tíð danskra einvaldskonunga þóttu allsjálfsögð hér á Íslandi. Þá var hverjum manni boðið upp á það hér í Rvík að geta fengið útmælda lóð og það allríflega, ef þeir vildu byggja. Nú er það svo, að maður þarf að ganga undir manns hönd til þess að fá þann frumstæða rétt að fá lítinn hluta af sínu eigin ættlandi til þess að mega byggja á því hús yfir sig og sina, þannig að strax í 1. gr. eru vissar réttarbætur, sem hingað til hafa verið álitnar sjálfsagðar út frá réttarmeðvitund manna og voru í gildi, meðan danskt einveldi var á Íslandi. — Svo í köflunum, sem eðlilega eru aðalatriði hér, er það gegnumgangandi, að þar er ekki ein einasta till. flutt fram af minni hálfu, sem ekki hefur verið í lögum áður, þannig að það er eingöngu farið fram á, að alþýða manna nú á þessu herrans ári fái að njóta þeirra réttinda, sem menn hafa á s.l. 25–30 árum eða jafnvel 40 árum fengið að njóta á einum eða öðrum tíma.

Hvað verkamannabústaðina snertir gildir þetta sérstaklega um tekjuöflunina, helminginn af tekjum tóbakseinkasölunnar, sem var í lögum fyrir 24 árum, og vextina. Það eru höfuðbreytingarnar, sem þar eru, auk þess svo að gefa Byggingarfélagi alþýðu aftur rétt til þess að starfa, en með sérstökum lögum var því bannað það.

Hv. þm. N-Þ. minntist á það, að það væri nú ekki rétt gott með þessar tekjur, því að síðan þetta frv. hefði komið fram, hefðu fjárlögin verið afgreidd og þetta mundi víst kosta 24 millj., eins og áætlunin er nú, sem þyrfti þá að renna til verkamannabústaðanna. Ég held, að það yrði ekki skotaskuld úr að klípa 24 millj. út af öllum þeim álögum, sem hafa síðan verið lagðar á almenning, til þess að nota þær til verkamannabústaðanna, og mér þykir það undarleg ráðstöfun, ef það verður ekki slíkur tekjuafgangur bókstaflega á þessu ári, að við getum tekið þessar 24 millj. kr. til verkamannabústaðanna án þess að þurfa að spara á fjárlögunum að öðru leyti, þannig að ég held, að hv. þm. N-Þ. þurfi engar áhyggjur að hafa út af því.

Þá var komið að veðdeildinni og umsögn stjórnar Landsbanka Íslands viðvíkjandi því. Það var gengið svo út frá upphaflega, þegar veðdeildin var sett, í fyrsta lagi, að hún starfaði, í öðru lagi, að bankinn keypti bankavaxtabréfin, og svo var í upphafi, fyrir 30 árum. Það er bara, svo að maður noti gamalt orðtæki, á þessum síðustu og verstu tímum, sem það hefur viðgengizt, að veðdeildin hefur verið lokuð og að veðdeildin hefur ekki keypt bankavaxtabréf. Ég vil færa þetta hvort tveggja í lög aftur, að skylda seðlabankann í þessu efni til þess að vinna visst verk, sem Alþingi leggur honum á herðar. Það er sannarlega ekki ofætlun hans. Ég vil bara minna hv. þm. N-Þ. á það, að seðlabankinn fær að heita má að gjöf eða að láni frá ríkinu 300 millj. kr. sem veltufé, og af þessum 300 millj. kr. tekur ríkið ekki svo mikið sem vexti, og ég efast um, að það sé nokkurt ríki í Norðurálfu, sem lætur sína seðlabanka hafa seðlaútgáfuna án þess að taka vexti af fénu. Seðlabankinn tekur vexti upp í 4 og 5% af því fé, sem hann lánar, en ríkið fær ekkert af því, sem það lánar, þannig að það er sannarlega ekki of mikið, þó að seðlabankinn sé skyldaður til þess að kaupa þarna aftur tryggð verðbréf í húsum, sem byggð eru yfir menn, sem vantar þak yfir höfuðið á sér. Landsbankinn hefur áður verið skyldaður hér á Alþingi til þess að leggja fram og það hærri upphæð en þarna er um að ræða, leggja fram 100 millj. kr. til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, og það hefur gefizt vel, og það má sannarlega fara að stjórna með dálítið meiri skörungskap seðlaútgáfunni en gert hefur verið fram að þessu. Hvað veðdeildina snertir er því bara verið að kippa í lag því, sem var skylda Landsbankans, þegar hann var lítill og fátækur banki hér á árunum, og skylda, sem hann vann þá, að lána út á hús og að kaupa bankavaxtabréf, en hann hefur bara lagt niður á þessum síðustu tímum, þegar hann fór að lána gæðingum stjórnarflokkanna svo mikið, að hann átti ekkert eftir handa þeim almenna manni, sem sé eftir að helmingaskiptareglur og annað slíkt fór að verða aðalútlánastefnan og aðalreglan i sambandi við öll útlán.

Hins vegar minntist hv. þm. N-Þ. í sinni gagnrýni á eitt, sem er rétt hjá honum og er yfirsjón hjá mér, þ.e. í sambandi við IV. kaflann um lán til smáíbúða. Þar hefði ég að réttu lagi átt að taka fram, að núverandi eignir hins almenna veðlánakerfis eða húsnæðismálastjórnar ættu að renna til lánadeildar smáibúðarhúsa. Það hefði verið rétt að skjóta því inn, að núverandi eignir húsnæðismálastjórnar ættu að renna þangað. Eins og menn vita, var það svo, þegar smáíbúðadeildin var stofnuð, að þá fékk hún nokkurt fé úr ríkissjóði, það skipti meira en milljónatug, og þetta fé var með lögunum um húsnæðismálastjórn látið renna til hins almenna veðlánakerfis, og það ætti náttúrlega, þegar smáíbúðalánadeildin væri stofnuð aftur, að renna til þeirrar deildar, og því mundi ég nú leggja til að bæta þarna inn í, að það fé, sem hið almenna veðlánakerfi á núna, rynni til þessarar smáíbúðalánadeildar.

Hvað snertir framlag ríkisins fram yfir það, sem fengist þannig til smáíbúðadeildarinnar með þessu ákvæði, væri hægt með sérstökum lögum að heimila ríkisstj. að taka lán til slíks. Það er oft gert, þegar lög eru samþykkt, þarf ekki endilega að taka það í sama lagabálk, þó að það sé líka ágætt og þó að ég hafi gert það með aðra kafla. Og um þetta, sem þó er aðeins lítill hlutur í sambandi við þessi lög, mun ég nú sjálfur flytja brtt. við þessa umr., þannig að úr þessum litla efnislega galla í sambandi við IV. kaflann sé líka bætt.

Það, sem hins vegar er sú stóra spurning í sambandi við þetta mál, er, hvort menn vilja hafa þetta húsnæðismálakerfi okkar eins og ég legg til að það sé hér, í því lagi, sem það hefur bezt verið á undanförnum áratugum, taka upp í það þær endurbætur, sem þá hafa verið gerðar. Það er sem sé aðalatriðið í mínum brtt. og um það fer raunverulega atkvgr. um þetta frv. fram eða hvort menn vilja hins vegar halda áfram að rýra þann rétt, sem menn hafa aflað sér á einum eða öðrum tíma á undanförnum áratugum, til þess að þægilegra yrði fyrir þá að byggja hús yfir höfuðið á sér.

Þegar húsnæðismálalöggjöfin var samþykkt á síðasta þingi, var það stórkostlegt spor aftur á bak frá því, sem verið hafði, og það, sem var verst í því sambandi, var, hve háir vextirnir voru settir, vextir upp í 7% og þar yfir, og með slíkum vöxtum er ekki hægt af nokkru viti að leysa húsnæðisvandamálið á Íslandi, þannig að því fyrr sem stofnun, sem byggir á slíkum vöxtum, er lögð niður, því betra.

Það eru beinar ráðstafanir til þess að auka og viðhalda dýrtíðinni í landinu að setja löggjöf eins og þá, sem þá var sett um svo háa vexti til íbúðarhúsabygginga. Þess vegna er um að gera sem allra fyrst að stöðva þann hátt um lán til íbúðarhúsabygginga.

Meðan þjóðin var fátækari en hún er nú, þótti mönnum rétt handa verkamönnum og bændum að setja vexti, sem voru ekki nema 2 og 21/2 %. Nú er búið að koma vöxtunum upp í 7%, og þeir eru almennt frá 51/2 upp í 7%. Slík er afturförin hvað þetta snertir, slík er frekja fjármálavaldsins í landinu að hafa knúið þessa hluti fram. Því er það engin afsökun hjá húsnæðismálastjórn, að löggjöfin hafi ekki fengið að reyna sig. Löggjöfin er sjálf ill, hún er röng. Vextirnir eru reiknaðir allt of háir, lánstíminn allt of stuttur. Þess vegna verður að stöðva þá stefnu, sem farið var inn á á síðasta þingi, er sú löggjöf var samþykkt. Það verður að taka upp þá reglu að fá löng lán og lága vexti, og ég vil minna á, að t.d. i okkar nágrannalöndum eins og Danmörku eru lánin upp í 80–90 ár og vextirnir allt niður í 2%.

M.ö.o.: Það, sem húsnæðismálastjórn og landsbankastjórnin minnast á í sambandi við þessi mál, er gagnrýni, sem ekki hefur við rök að styðjast almennt séð. Þar eru bara þeir aðilar að reyna að halda áfram þeirri stefnu, sem orðið hefur drottnandi upp á síðkastíð, að hækka í sífellu vextina og rýra lánsmöguleikana, með þeim afleiðingum, að húsaleigan er orðin ægilegasti dýrtíðarvaldurinn í landinu og þyngsta vandamálið fyrir íslenzkan almenning að glíma við vegna rangrar stefnu í þessum málum.

Hins vegar skal ég með ánægju búa til brtt. um þann litla galla, sem ég þarna minntist á, að það vantaði eina litla lagagrein um að yfirtaka eignir hins almenna veðlánakerfis, ef þá mætti svo verða, að einhverjir af fylgjendum hv. stjórnarflokka mættu við það líta svo á, að efnislegir gallar væru þar með ekki meiri á frv. og þá væri aðeins um það að ræða, hvort menn vildu fylgja umbótum á húsnæðismálalöggjöf eða hvort menn væru fylgjandi því að rýra rétt íslenzkra manna til að byggja hús yfir höfuðið á sér og gera vald peningavaldsins í landinu enn sterkara en það nú er.

Ég mundi, af því að ég er ekki búinn að útbúa slíka brtt., biðja hæstv. forseta að gera nú hlé á þessari umr. og gefa mér þannig tíma til þess að leggja slíka brtt. fram, þegar umr. héldi áfram.