16.12.1955
Neðri deild: 36. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

126. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði

Fjmrh. (Eysteinn Jónason):

Herra forseti. Það liggur nú fyrir, að hv. Alþ. muni ekki samþ. fjárlög fyrir árið 1956 fyrir næstu áramót. Er því óhjákvæmilegt, að ríkisstjórninni verði veitt heimild til þess að inna af höndum nauðsynlegustu greiðslur. Fjallar þetta frv. um að veita ríkisstj. slíka heimild.

Það hefur ekki náðst samkomulag um að afgreiða fjárlögin fyrir áramótin. Ég hef lagt ríka áherzlu á það nú sem fyrr, að fjárlögin yrðu sett, áður en nýtt fjárlagaár hefst. Að mínum dómi og Framsfl. hefði verið hægt að koma þessu í framkvæmd. Ég tel illa farið, að svo verður ekki gert, en í þess stað dregin afgreiðsla fjárlaganna, og örðugt að sjá, hvað af því kann að hljótast. Þrátt fyrir þessa afstöðu og þrátt fyrir það þótt ég hafi lagt svo ríka áherzlu á þetta, hef ég að vandlega athuguðu máli og í samráði við Framsfl. ákveðið að vinna áfram í ríkisstj. að endanlegri afgreiðslu fjárl. í trausti þess, að þau verði þrátt fyrir allt afgreidd á viðunandi hátt. Kemur hér og til, að ég hef ekki viljað verða til að stofna til stjórnarkreppu nú, þar sem fyrir dyrum stendur að leita leiða til þess að leysa vandamál útflutningsframleiðslunnar. Vil ég ekki skorast undan að eiga þátt í því í ríkisstj. að leita slíkra úrræða og koma þeim í framkvæmd, og sama er að segja um Framsfl. — Þessi orð vildi ég láta falla, um leið og ég mælti fyrir þessu máli og greindi frá þeim ágreiningi, sem upp hefur komið um afgreiðslu fjárlaganna.