07.11.1955
Neðri deild: 15. fundur, 75. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (1934)

84. mál, orlof

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Með lögunum um orlof, sem samþ. voru á Alþ. 1943, var náð merkum áfanga í réttindabaráttu íslenzkrar alþýðu. Lögin voru þá nýmæli og í fyrsta sinn ákveðið með lögum, að verkafólk skyldi fá rétt til sumarleyfis líkt og aðrar stéttir þjóðfélagsins. En þó að lögin væru óneitanlega mikils virði á sínum tíma, eru þau engan veginn fullnægjandi lengur, og hafa þingmenn Alþfl. og Sósfl. hvorir í sínu lagi flutt frumvörp um endurbætur á orlofslöggjöfinni þing eftir þing, án þess að Alþ. hafi viljað fallast á þær endurbætur með því að staðfesta þessi frumvörp sem lög.

Nú hefur orðið samkomulag um það, að frv. verði flutt af þingmönnum Sósfl. og Alþfl. sameiginlega, og þykja það bæði skynsamlegri og eðlilegri vinnubrögð, einkum með tilliti til þess, að þær umbætur, sem hafa fengizt á orlofi verkafólks á undanförnum árum, hafa verið unnar í sameiginlegri baráttu í verkalýðshreyfingunni.

Í verkfallinu haustið 1952 náðist sú breyting fram um aukinn orlofsrétt, að orlofsfé skyldi hækka úr 4%, sem það er ákveðið í lögunum, í 5%, eða úr 12 virkum dögum í 15 virka daga. Og á s.l. vetri var orlofsféð hækkað með samningum milli atvinnurekenda og stéttarfélaga úr 5% í 6% og er nú þannig samkvæmt samningum atvinnurekenda og stéttarfélaganna 6% af launum eða 18 virkir dagar. En lögin sjálf um orlof standa óbreytt, og þar er orlofið miðað við 4% af launum, eða 12 virkir dagar, og er þannig gildandi lagaákvæði orðið algerlega í ósamræmi við þann orlofsrétt, sem félagsbundið verkafólk á Íslandi nýtur. Hins vegar hefur við þetta skapazt ósamræmi, þannig að ófélagsbundið verkafólk nýtur ekki annars orlofsréttar en þess, sem í lögunum er ákveðinn, og fær þannig aðeins 4% af launum sínum í orlof, þegar félagsbundinn maður, sem ef til vill vinnur sama starf, fær 2% meira eða þriðjungi hærra orlof.

Ég hygg líka, að þegar Ísland gefur skýrslu á alþjóðavettvangi um félagsleg réttindi, sem hér séu veitt að lögum, hljóti að vera tilgreint aðeins, að hér sé greitt 4% í orlof af launum verkafólks, en rangt er það þó engu að síður, þó að svo yrði að orða það í skýrslum út á við. Hróður landsins er þó meiri. Atvinnurekendur og verkamenn hafa sem sé komið þessum réttindum upp í 6%, sem nálgast mjög það, sem nágrannaþjóðir okkar hafa ákveðið með lögum hjá sér, og er Ísland, stéttarsamtökunum fyrir að þakka og atvinnurekendum, þannig ekki eins langt aftur úr og íslenzk löggjöf bendir til.

Ég skal nú aðeins drepa á þær fjórar breytingar, sem í þessu lagafrumvarpi felast frá gildandi lögum um orlof.

Fyrsta breytingin er sú, að lágmarkstími orlofs lengist úr 12 virkum dögum i 18 virka daga, eða sem svari 6% af kaupi í staðinn fyrir 4%. Þetta er mjög svo eðlilegt, þó að við miðum ekki við aðrar þjóðir, heldur tökum einungis tillit til þess, sem um er að ræða hjá okkur sjálfum. Aðrar stéttir þjóðfélagsins njóta mjög margar 18 daga orlofs og sumar lengra orlofs, en sjálfsagt er auðvitað, að verkalýðsstéttin fylgi með öðrum stéttum um þessi þjóðfélagsréttindi. Áður hef ég vikið að því, að orlofsréttur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð er heldur fyllri en hér er farið fram á í frv. og þegar hefur verið staðfest af atvinnurekendum.

Önnur breyting er sú, að orlofsrétturinn nái einnig óskertur til hlutarsjómanna, þ.e.a.s., að þeir fái undir öllum kringumstæðum 6% orlof eins og annað verkafólk. Orlofslögin, eins og þau eru nú, eru fremur óljós um orlofsrétt sjómanna, og hafa sumir litið þannig á, að hlutarsjómenn njóti ekki samkv. ákvæðum þeirra nema hálfs orlofsréttar, eigi ekki að fá nema 2% orlof, ef þeir séu hluttakendur í útgerðinni að einhverju leyti, þ.e.a.s. sem hlutarsjómenn. Flutningsmenn þessa frv. telja sjómenn rangindum beitta með þessari túlkun á gildandi orlofslögum og vilja hefja það yfir öll tvímæli, að þeir eigi að njóta sama orlofsréttar og annað verkafólk, þ.e.a.s. 6% af hlutartekjum þeirra eins og öðru kaupi.

Þriðja breytingin, sem frv. gerir ráð fyrir, er sú, að orlof er nú ekki greitt af eftirvinnu og nætur- og helgidagavinnu, nema af þeirri upphæð, sem nú kæmi af þess konar vinnu miðað við dagvinnukaup. Við teljum, að það sé réttlátt, að það sé borgað 6% orlofsfé af öllum vinnulaunum, hvort sem það er vegna dagvinnu, eftirvinnu eða næturvinnu, og skírskotum til þeirra raka, að því meir sem menn leggi á sig, því sjálfsagðara sé, að því fylgi aukinn orlofsréttur. Og skiljanlegt er, að óhæfilega langur vinnudagur þreytir fólk vitanlega meira, og þá er auðvitað eðlilegt, að umbun sé veitt fyrir slíka óvenjulega áreynslu við störf fyrir þjóðina, því sé umbunað með auknum orlofsrétti, því að slík vinna er þó ekki unnin nema því aðeins, að atvinnurekendur telji sér mikla þörf á.

Fjórða meginbreytingin í frv. frá gildandi lögum er um fyrningu á orlofsrétti. Nú er þannig ákveðið í orlofslögunum, að kröfur á hendur vinnuveitendum falli úr gildi vegna fyrningar, ef þær eru ekki viðurkenndar eða lögsókn hafin út af þeim fyrir lok næsta orlofsárs, eftir að kröfurnar stofnuðust. Vegna þessa ákvæðis hefur margur verkamaðurinn misst niður sinn orlofsrétt. Það má segja að vísu, að það sé fyrir sinnuleysi og að verkamaðurinn hafi ekki gert sér nógu ljóst, hversu fljótt þessi réttur hans fyrntist. En við teljum eðlilegt, að orlofsrétturinn fyrnist ekki á skemmri tíma en vinnulaun fyrnast, en vinnulaun fyrnast á fjórum árum, og teljum við það fráleitt, að orlofsrétturinn fyrnist og verði ókræfur á skemmri tíma. Það er því lagt til í frv., að orlofsrétturinn fyrnist á fjórum árum.

Eins og ég hef vikið að, hafa breytingarnar á orlofslögunum á undanförnum árum verið þáttur í átökum milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, og er ekki að efa, að það hefði ef til vill verið auðveldara að leysa þær deilur á skemmri tíma en þær hafa staðið, ef þessi mál hefðu ekki þurft að blandast inn í deilurnar, og þau hefðu ekki þurft að blandast inn í þessar dellur, ef hv. Alþ. hefði viljað á hverjum tíma staðfesta með lögum það, sem atvinnurekendur og verkalýðssamtök hafa komið sér saman um að því er þennan rétt snertir, og einkanlega ef Alþ. hefði viljað fylgjast með því, sem gerðist í nágrannalöndum okkar um aukinn orlofsrétt verkafólki til handa. Þá hefði verið hægt að leysa þessi mál friðsamlega og átakalaust. Og nú teljum við eins hóflega í sakir farið og unnt sé, þegar í frv. er einungis farið fram á, að Alþ. staðfesti með lögum það, sem atvinnurekendur og verkamenn hafa komið sér saman um. Það kostar engan aðila þjóðfélagsins nokkur útgjöld og er hins vegar að okkar áliti ósæmilegt af Alþingi að vera með lög, sem eru í ósamræmi við það, sem samizt hefur um á milli aðila. Hins vegar er að því aukin trygging fyrir hið vinnandi fólk, að þessi réttur fólksins sem annar sé bundinn í lögum.

Við flm. álítum, að það sé sjálfsagt, að þessu máli verði að umr. lokinni vísað til heilbr.- og félmn.